Samantekt um efni laganna

Þann 9. júní 2011 voru samþykkt ný lög um rannsóknarnefndir sem Alþingi skipar.

Lögin fela í sér umgjörð um skipan og störf rannsóknarnefnda sem Alþingi hefur ákveðið að koma á fót til þess að rannsaka mikilsverð mál er almenning varða. Er lögunum ætlað að styrkja enn frekar eftirlitshlutverk Alþingis með framkvæmdarvaldinu. Við setningu þeirra var byggt á vinnu nefndar sem Alþingi skipað í júní 2008 til þess að fjalla um eftirlit Alþingis með framkvæmdarvaldinu, skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis og skýrslu þingmannanefndar um viðbrögð Alþingis við skýrslu rannsóknarnefndarinnar. Auk þess sem horft var til sambærilegrar löggjafar í Danmörku og Noregi.

Rannsóknarnefnd er komið á fót með sérstakri ályktun Alþingis að undangenginni umfjöllun stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar þingsins, sem nú er mælt fyrir um í breyttum þingsköpum Alþingis. Þegar Alþingi hefur samþykkt ályktunina skipar forseti Alþingis nefndina. Auk þess að velja formann nefndarinnar afmarkar forseti Alþingis nánar umboð nefndarinnar hvort tveggja í samráði við forsætisnefnd og að fengnum tillögum stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar. Rannsóknarnefnd er sjálfstæð í störfum sínum og er því óháð fyrirmælum frá öðrum, þar með talið Alþingi.

Meginhlutverk rannsóknarnefndar er að afla upplýsinga og gera grein fyrir málsatvikum í tilteknu máli. Nefndin getur einnig gert tillögu um breytingu á lögum, reglugerðum eða stjórnsýsluframkvæmd eftir því sem rannsókn hennar gefur tilefni til. Rannsóknarnefnd má einnig fela að meta lögfræðileg atriði til að varpa ljósi á það hvort grundvöllur sé fyrir því að einstaklingar eða lögaðilar skulu sæta ábyrgð. Vakni grunur um refisverða háttsemi skal rannsóknarnefnd tilkynna slíkt til ríkissaksóknara, sem tekur þá ákvörðun um meðferð málsins. Telji nefndin að opinber starfsmaður hafi gerst brotlegur við starfsskyldur sínar skal nefndin tilkynna það til hlutaðeigandi ráðuneytis eða forstöðumanns ríkisstofnunar. Loks má fela rannsóknarnefnd að meta lögfræðileg atriði til að varpa ljósi á hvort grundvöllur sé fyrir því að ráðherra sæti ábyrgð. Slíkt er þó einungis heimilt að Alþingi hafi ákveðið það sérstaklega í ályktun sinni.

Rannsóknarnefnd skal almennt skipuð þremur nefndarmönnum. Skal formaður hennar vera lögfræðingur og uppfylla starfsgengisskilyrði héraðsdómara að undanskyldu skilyrði um hámarksaldur. Forseti Alþingis skal tryggja rannsóknarnefnd þann mannafla, sérfræðiaðstoð og aðbúnað sem nauðsynlegur er við rannsóknina.

Rannsóknarnefnd eru fengnar ítarlegar heimildir til þess að afla upplýsinga, þ. á m. að taka við upplýsingum sem þagnarskylda er um og hvernig skuli haga meðferð þeirra og varðveislu. Sérstaklega er fjallað um réttarvernd uppljóstrara og um skilyrði þess að einstaklingur geti notið hennar. Þá eru ítarleg ákvæði um réttarstöðu þeirra sem koma fyrir rannsóknarnefnd, þ. á m. um rétt til þess að hafa með sér aðstoðarmann og um greiðslu kostnaðar af störfum hans.

Loks er í lögunum fjallað um upplýsingagjöf rannsóknarnefndar á starfstíma hennar og hvernig Alþingi skuli fjalla um og afgreiða skýrslu rannsóknarnefndar. Gert er ráð fyrir því að stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd þingsins fái skýrsluna strax til meðferðar og að eftir að Alþingi hefur fjallað um hana gefur nefndin álit sitt á henni og leggur fram tillögur um úrvinnslu og meðferð niðurstaðna hennar.