9. kafli – Útlán sparisjóðanna

9. Útlán sparisjóðanna

Útlán voru stærsta eign sparisjóðanna og afskriftir af þeim höfðu mest áhrif á rekstur og eiginfjárstöðu þeirra af öllum liðum í ársreikningi. Rannsóknarnefndin beindi sjónum sínum að því hvaða einkenni, ákvarðanir og reglur sem vörðuðu útlán sparisjóðanna höfðu áhrif á það hvort lán töpuðust eða ekki. Regluverk um lánveitingar, útlánaeftirlit og afskriftir útlána var skoðað. Í hverjum sparisjóði valdi rannsóknarnefndin úrtak útlána miðað við stærð þeirra og hlutfallslegt framlag í afskriftareikning. Með skoðun fundargerða, lánasamninga og annarra skjala að baki þeim lánum, er fjallað um þau atriði sem skýra tap af útlánum hvers sparisjóðs. Áhrifum útlána á rekstur sparisjóðanna 2008–2011 eru gerð skil með því að skoða útlánin, bæði almennt og með tilliti til úrtaks í hverjum sparisjóði fyrir sig, hvað varðar þá mynt sem útlánin voru veitt í, tilgang þeirra, fjárhæðir þeirra, staðbundna þekkingu lánveitanda, veð að baki lánunum, endurgreiðsluferil þeirra sem og aðra þætti sem varpað geta ljósi á útlánastefnu sparisjóðanna. Útlán stærri sparisjóðanna, Sparisjóðs Reykjavíkur og nágrennis, Byrs sparisjóðs, Sparisjóðsins í Keflavík, og Sparisjóðs Mýrasýslu, voru samtals tæplega 89% af heildarútlánum sparisjóðanna í lok árs 2007. Þó að útlán þeirra hafi vegið þyngst og þannig haft mest áhrif á heildarútkomuna þá greindi rannsóknarnefndin útlán minni sparisjóðanna með sama hætti og þeirra stærri til þess að varpa ljósi á mismunandi árangur í rekstri sparisjóðanna, en enginn stærri sparisjóðanna var enn starfandi í lok árs 2011.1

Í b-lið þingsályktunar Alþingis frá 10. júní 2011 um rannsókn á aðdraganda og orsökum erfiðleika og falls sparisjóðanna er rannsóknarnefndinni falið að meta starfshætti sparisjóðanna og varpa ljósi á hverjar séu helstu orsakir mismunandi árangurs í rekstri þeirra. Meðal þeirra atriða sem rannsóknarnefndinni var falið að skoða til að bregða birtu á starfsemi sparisjóðanna var útlánastefna þeirra. Þar sem yfirlýst útlánastefna lá jafnan ekki fyrir hjá sparisjóðunum, þurfti rannsóknarnefndin að kanna útlánasöfn þeirra til að bregða birtu á útlánastefnuna sem í reynd var unnið eftir, svo hægt væri að meta árangur sparisjóðanna í ljósi hennar. Aðferðir rannsóknarnefndarinnar við skoðun á útlánasöfnum sparisjóðanna og við val á úrtaki í hverjum sparisjóði, auk Sparisjóðabankans, eru útskýrðar nánar hér aftar í kaflanum.

Greiningu á útlánasafni sparisjóðanna, sem byggð er á könnun á útlánum hvers sparisjóðs fyrir sig, er að finna í köflum skýrslunnar um einstaka sparisjóði. Þannig næst fram samanburður á mismunandi áhrifum útlánasafna sparisjóðanna á rekstur hvers sparisjóðs fyrir sig. Í þessum kafla er hins vegar bent á ýmis megineinkenni sem rannsóknarnefndin fann við könnun á útlánasöfnum sparisjóðanna og dregnar saman helstu niðurstöður þeirrar könnunar. Í fyrstu er athyglinni beint að útlánum og afskriftum sparisjóðanna í heild, þá gerð grein fyrir aðferðarfræði rannsóknarnefndarinnar við þessa athugun og svo gerð stuttlega grein fyrir regluverki sparisjóðanna um útlán, heimildir og ákvarðanatöku um veitingu þeirra. Þá er dregin upp mynd af útlánasöfnum sparisjóðanna eftir því til hvaða verkefna var lánað, farið yfir tryggingaþekju þeirra sem og þær tryggingar og veð sem stóðu að baki lánum, til að meta gæði þeirra. Sérstaklega er hugað að markaðssvæðum sparisjóðanna, en þau geta verið áhrifavaldar um árangur starfsemi smærri fjármálafyrirtækja sem ætlað er að starfa á afmörkuðu markaðssvæði.

Þá er í kaflanum að finna umfjöllun um sölu stærstu sparisjóðanna á meirihlutaeign sinni í Icebank hf. til annarra sparisjóða, aðila utan sparisjóðakerfisins og félaga í eigu eða í tengslum við stjórnendur bankans. Að langmestu leyti voru hlutafjárkaupin fjármögnuð innan úr sparisjóðakerfinu sjálfu og kaupendurnir lögðu lítið eigið fé fram til kaupanna, ef nokkuð. Lánin sem veitt voru til kaupanna töpuðust öll og afskriftir vegna þeirra voru þær stærstu í úrtaki rannsóknarnefndarinnar af útlánasöfnum stærri sparisjóðanna. Þau höfðu mikil áhrif á rekstur þeirra sparisjóða sem komu að málinu.

9.1 Útlán og afskriftir útlána sparisjóðanna

Útlán sparisjóðanna voru tveir þriðju af heildareignum þeirra 2001–2011. Hér er fjallað bæði um útlán til viðskiptavina og heildarútlán, en heildarútlán eru útlán til viðskiptavina eins og þau birtast í ársreikningi, að viðbættri stöðu afskriftareiknings útlána í árslok.

Útlán sparisjóðanna til viðskiptavina námu rúmum 115 milljörðum króna í lok árs 2001 og jukust mikið fram til ársins 2008 þegar þau námu 515 milljörðum í árslok. Í lok árs 2011 námu þau síðan tæpum 37 milljörðum króna. Skuldabréf voru jafnan algengasta útlánaformið en þar á eftir komu yfirdráttarlán. Sem hlutfall af útlánum námu skuldabréf mest 84% útlána árið 2005 og yfirdráttarlán mest 30% árið 2001. Afurða-og rekstrarlán voru ekki veigamikil hjá sparisjóðunum í þessu samhengi, en hæst námu þau 4,8 milljörðum króna árið 2008. Í töflum í ársreikningum sparisjóðanna, sem svipar til þeirrar sem birt er hér sem tafla 1, voru lánasamningar ýmist flokkaðir sem „skuldabréf“ eða „annað“, þar sem enginn sérstakur flokkur var fyrir þá. Sparisjóðirnir nýttu lánasamninga í sífellt meira mæli í stað skuldabréfa, meðal annars til þess að veita lán í erlendri mynt.2 Önnur lán jukust mikið frá árinu 2005 og náðu hámarki 2008 þegar þau námu 42 milljörðum króna.

Stærstu lántakendur sparisjóðanna voru einstaklingar og fyrirtæki en útlán til hins opinbera, þ.e. ríkissjóðs, ríkisstofnana og sveitarfélaga, námu að meðaltali 2% af útlánum á árunum 2001–2011. Lán til einstaklinga voru að meðaltali 54,6% af útlánum til viðskiptavina 2001–2011. Úrtak rannsóknarnefndarinnar náði að meðaltali til 51% sérgreindra afskrifta og 44% allra afskrifta á árunum 2008–2011. Þar á meðal voru fáir einstaklingar. Lán til einstaklinga voru mörg og lítil, enda að mestu leyti lán til fasteignakaupa,3 en önnur lán til þeirra voru yfirdráttar- og greiðslukortalán. Einstaklingslánin voru ekki áberandi í stærstu afskriftum sparisjóðanna í úrtaki rannsóknarnefndarinnar, en afskriftir af þeim hafa verið þó nokkrar, meðal annars vegna gengislánadóma, „110% leiðarinnar“4 og fleiri úrræða. Stærstu útlánum til einstaklinga, sem rannsóknarnefndin taldi ástæðu til að gera sérstaklega grein fyrir, eru gerð skil í umfjöllun um útlán einstakra sparisjóða.

Í lánareglum stóru sparisjóðanna voru ákvæði um að skuldbindingar einnar atvinnugreinar skyldu ekki fara yfir ákveðin mörk. Í útlánareglum Sparisjóðs Reykjavíkur og nágrennis og Sparisjóðsins í Keflavík voru til að mynda ákvæði um að skuldbindingar einnar atvinnugreinar skyldu ekki fara yfir 30% af heildarkröfum. Ekki reyndi þó á þessar reglur þar sem hlutur einstaklinga í lánasafninu var nær undantekningarlaust stærri en hlutur lögaðila. Engin atvinnugrein var meira en fjórðungur af lánasafninu í heild, en fyrirtæki á sviði verslunar- og þjónustustarfsemi voru að meðaltali stærstu lántakendurnir meðal fyrirtækja. Sjávarútvegur var talsvert stærri atvinnugrein að meðaltali en landbúnaður hjá sparisjóðunum öllum en skipting milli þessara tveggja atvinnugreina var misjöfn eftir sparisjóðum. Í því sambandi skipti staðsetning og þjónustusvæði sparisjóðsins miklu. Sem dæmi má nefna að hjá Sparisjóði Reykjavíkur og nágrennis og Byr sparisjóði voru lántakar í landbúnaði og sjávarútvegi innan við 1%. Sjávarútvegur var aftur á móti langstærsta atvinnugreinin hjá Sparisjóði Strandamanna, Sparisjóði Þórshafnar og nágrennis og Sparisjóði Siglufjarðar (síðar Afli sparisjóði), og mjög stór atvinnugrein hjá Sparisjóðnum í Keflavík, Sparisjóði Norðfjarðar, Sparisjóði Svarfdæla, og Sparisjóði Ólafsfjarðar. Landbúnaður var langstærsta atvinnugreinin hjá Sparisjóði Mýrasýslu en fáir lántakendur sparisjóðsins störfuðu í sjávarútvegi.

Hjá stærri sparisjóðunum voru lán til eignarhaldsfélaga algengari og stærri en í minni sparisjóðunum.5 Oft var þar um að ræða einkahlutafélög með lítið eigið fé. Félögin fjárfestu gjarnan í verðbréfum og var misjafnt undir hvaða atvinnugrein þau féllu. Sé litið til lántakenda á sviði þjónustustarfsemi, hækkaði hlutdeild þeirra í lánasafni sparisjóðanna smám saman úr 30% í árslok 2001 í tæp 60% 2009. Ári síðar voru þau um 30% útlánasafnsins. Mörg eignarhaldsfélög féllu í þennan flokk, sem skýrir að hluta þennan vöxt fram til ársins 2009. Breytingar árið eftir eru einkum vegna þess að þá hættu tveir stærstu sparisjóðirnir starfsemi, en hjá þeim var hlutfall þjónustufyrirtækja hærra en hjá þeim minni. Auk þess afskrifuðu sparisjóðirnir sem áfram störfuðu mörg lán til eignarhaldsfélaga árið 2010.

Skipta má þróun vaxtar útlána sparisjóðanna í tvo hluta. Annars vegar frá árinu 1997 til 2003 þegar útlán jukust með nokkuð jöfnum hætti milli ára, og hins vegar frá árinu 2004 þegar vöxtur útlána var mun meiri en áður hafði sést. Á árinu 2004 hófu viðskiptabankarnir þrír sókn inn á íbúðalánamarkað og buðu hagstæðari kjör og veðhlutföll en áður hafði tíðkast. Við það jukust útlán til einstaklinga mikið og tóku sparisjóðirnir virkan þátt í aukinni samkeppni á fasteignalánamarkaði. Á svipuðum tíma jukust önnur útlán sparisjóðanna, í mismiklum mæli þó, til viðskiptavina sem fjárfestu meðal annars í hlutabréfum, eignarhaldsfélögum og almennt í atvinnustarfsemi. Má að miklu leyti rekja þessa aukningu til betra aðgengis að fjármagni en áður hafði verið, til að mynda með lánum í erlendri mynt með lægri vöxtum.6

Frá því snemma árs 2006 til 3. ársfjórðungs 2008 jukust útlán í íslenskum krónum lítið hjá sparisjóðunum öllum, en þau hækkuðu úr 229 milljörðum króna í 279 milljarða króna. Á sama tíma hækkuðu lán í erlendum myntum úr 31 milljarði króna í 261 milljarð króna. Hluta þeirrar aukningar má skýra með gengisfalli íslensku krónunnar síðla árs 2008 en útlánaaukning ársins 2007 var til að mynda nær eingöngu vegna lána í erlendum myntum. Ný útlán á árinu 2008 voru fá og flest til endurnýjunar eða myntbreytingar eldri lána. Bókfært virði útlána í krónum hækkaði árið 2008, nær eingöngu vegna gengisfalls íslensku krónunnar, en undir lok ársins hófu sumir sparisjóðir, aðallega þeir stærri, að myntbreyta lánum úr erlendum myntum í íslenskar krónur. Þessar myntbreytingar eru helsta ástæða þess að lán í íslenskum krónum jukust á síðasta ársfjórðungi ársins 2008. Bókfært virði útlána lækkaði eftir það, einkum vegna þess að fjórir stærstu sparisjóðirnir hættu starfsemi en jafnframt vegna mikilla afskrifta útlána.

Mikil virðisrýrnun varð á útlánasafni sparisjóðanna í erlendum myntum frá haustinu 2008 og liggja til þess margar ástæður. Til að mynda sýndi athugun rannsóknarnefndarinnar á lánasöfnum sparisjóðanna að stór hluti lána í erlendum myntum var til aðila sem ekki höfðu tekjur í sömu gjaldmiðlum, og jafnan voru þau tryggð með veði í eignum sem ekki tóku breytingum í takt við gengisbreytingar krónunnar. Eftir áföllin sem dundu yfir á íslenskum fjármálamarkaði haustið 2008, og með gengisfalli íslensku krónunnar, urðu margir þessara lántaka ekki borgunarmenn fyrir skuldunum, til að mynda var nokkuð um einkahlutafélög með lágmarks eigið fé sem urðu gjaldþrota á árunum 2009–2011.7 Þetta er þó ekki algilt, því sparisjóðir í sjávarplássum lánuðu erlend lán til útgerða sem voru með tekjur í erlendum gjaldmiðlum, og eru margir þeirra sem fengu lán í erlendum myntum enn að greiða af þeim. Dómar um gildi lána í íslenskum krónum sem bundin voru gengi erlenda gjaldmiðla höfðu þó töluverð áhrif á lánasöfn sparisjóðanna þar sem lán hafa verið lækkuð með tilliti til dómanna og vegna annarra úrræða sem buðust þeim sem voru í greiðsluvanda, svo sem „110% leiðin“ og „beina brautin“.

Í lok febrúar 2012 fór Fjármálaeftirlitið fram á að lánastofnanir mætu áhrif dóms Hæstaréttar frá 15. febrúar sama ár á bókfært virði útlánasafna þeirra. Fjármálaeftirlitið hafði sent sambærilega beiðni í júní 2010 eftir dóm Hæstaréttar 16. júní 2010. Gefið var upp flokkunarkerfi útlána sem byggt var á þeirri mynt sem höfuðstóll, útborgun og afborganir lánasamnings voru í. Flokkarnir voru merktir með bókstöfum og var flokkur F fyrir útlán þar sem annaðhvort var viðurkennt að þau fælu í sér ólögmæta gengistryggingu eða verulegar líkur taldar á að þau yrðu talin fela í sér ólögmæta gengistryggingu. Höfuðstóll, útborgun og afborgun lána sem féllu í flokk F þurftu öll að hafa verið í íslenskum krónum í samningi sem fylgdi gengi erlendra mynta. Mat sparisjóðanna var að tap vegna flokks F væri tæplega 1,1 milljarður króna en tap vegna allra annarra flokka sem óljóst var hvort yrðu dæmdir ólöglegir gæti orðið 2,8 milljarðar króna. Í ársreikningum 2011 höfðu sparisjóðirnir þegar fært rúmlega 1,1 milljarð króna í afskriftareikning vegna dóma Hæstaréttar og höfðu því þegar tekið tillit til áhrifa vegna lána í flokki F.8

Afskriftareikningur útlána er nokkurs konar mótreikningur við útlánin og á hann skal færa framlög til að mæta tapi vegna skuldbindinga þeirra lánþega sem metnir eru í sérstakri tapshættu.9 Ákvæði um afskriftareikning útlána eru í 57. og 58. gr. reglna nr. 834/2003 um reikningsskil lánastofnana og í viðauka I með reglunum. Framlag á afskriftareikninginn er bæði sérstakt og almennt. Sérstakt (eða sérgreint) framlag er vegna tiltekinna skuldara en almennt framlag er varúðarfærsla sem gerð er yfir allt lánasafnið í ljósi almennra aðstæðna á fjármálamarkaði hverju sinni. Stundum er afskriftaframlagið nefnt „niðurfærsla“ vegna þess að staðan á afskriftareikningnum er dregin frá heildartölu útlána til viðskiptavina áður en hún er sýnd í ársreikningi. Þar er því sýnd nettóstaða útlánanna. Brúttóstaðan sést með því að leggja stöðu afskriftareikningsins við nettóstöðuna. Með niðurfærsluhlutfalli útlána er átt við stöðu afskriftareiknings í árslok deilt með brúttóstöðu útlána til viðskiptamanna, líka í árslok. Ekki má rugla framlaginu (niðurfærslunni, varúðarfærslunni) saman við afskrift útlána. Þar er um að ræða útlánakröfur sem strikaðar eru út úr bókum sparisjóðs á grundvelli gjaldþrots, fjárnáms, nauðasamninga eða samkomulags skuldara við sparisjóðinn. Slík (endanleg) afskrift er færð til frádráttar á stöðu afskriftareikningsins og til lækkunar á útlánum en ekki í gegnum rekstrarreikning.

Stjórnum sparisjóðanna bar að færa framlög í afskriftareikning útlána í tengslum við ársuppgjör og árshlutauppgjör. Þá bar stjórnum að staðfesta endanlegar afskriftir sem og heildartölur afskrifta. Stjórn og sparisjóðsstjórar sparisjóðanna leituðu oft ráða hjá ytri endurskoðanda við mat á sérgreindum framlögum í afskriftareikning útlána. Rannsóknarnefndin fékk afhent gögn frá öllum sparisjóðum um afskriftareikning útlána, starfsreglur um framlag í afskriftareikning og rökstuðning eða greinargerðir fyrir sérgreindum afskriftarframlögum þar sem slíkt lá fyrir. Á grundvelli þessara gagna voru stærstu framlög í afskriftareikning útlána hjá viðkomandi sparisjóði greind og ástæðurnar sem að baki þeim lágu.

Framlög í afskriftareikning geta verið háð aðstæðum á markaði en hjá sparisjóðunum voru helstu ástæður framlaganna of há veðhlutföll, bæði vegna tryggingarýrnunar og mikilla hækkana á lánum, og gengisáhætta eða gengistap gengisbundinna lána.

Á fyrstu árum þessarar aldar var vöxtur útlána nokkuð hóflegur miðað við það sem síðar varð. Á árinu 2002 jukust útlán um tæp 9% frá fyrra ári og árið eftir um rúm 2%. Þá jukust framlög í afskriftareikning um rúm 11% árið 2002, en stóðu í stað árið eftir. Frá árinu 2003 jukust útlán sparisjóðanna hratt, meðal annars vegna betra aðgengis þeirra að fjármagni til að auka starfsemi sína, lægri fjármögnunarkostnaðar og aukinnar eftirspurnar eftir lánum. Frá 2004 til 2007, meðan útlán jukust að meðaltali um rúm 34% árlega, hækkaði framlag í afskriftareikning að meðaltali um tæp 8%. Þannig fór niðurfærsluhlutfall útlána úr 3,8% í árslok 2001 í 1,6% í árslok 2007%. Framlög í afskriftareikning héldust því ekki í hendur við útlánavöxtinn. Fram til ársins 2008 var algengt að í endurskoðunarskýrslum sparisjóðanna kæmu fram athugasemdir um að afskriftaframlag ætti ekki að fara fram yfir 1% af útlánum á hverju ári. Sparisjóðir þar sem hlutfallið var 2–3% voru hvattir til þess að lækka framlagið. Þetta var talið mikilvægt til þess að tryggja arðsemi sem stofnfjáreigendur teldu ásættanlega.10

Þessi þróun var ekki ósvipuð þeirri sem átti sér stað á sama tíma hjá öðrum lánastofnunum á Íslandi, og víðar. Í skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis um aðdraganda og orsakir falls íslensku bankanna 2008 og tengda atburði er bent á að niðurstöður nokkurra rannsókna sýna að hraður útlánavöxtur leiðir til aukinna afskrifta síðar meir. Þannig er líklegra að lán sem veitt er í uppsveiflu lendi í vanskilum en önnur. Hinir nýju lánþegar eru oftar en ekki hrakval og þegar vöxtur er hraður benda líkur til þess að bankar hafi hvorki nægjanlega þekkingu né reynslu til að meta gæði þessara nýju viðskiptavina á viðhlítandi hátt. Auk þess líður jafnan nokkur tími frá því að áhættan vegna hinna auknu útlána myndast og þar til vanskil verða, og því er ekki óalgengt að sjá lækkandi vanskilahlutföll hjá bönkum með hraðan útlánavöxt, vegna þess að þá er stærri hluti útlánanna nýr. Rannsóknir á því hvort vöxtur fjármálastofnana gæti sagt fyrir um breytingar á hag þeirra hafa sýnt fram á að auknar líkur á gjaldþroti fjármálastofnunar megi ótvírætt tengja við hraðan vöxt útlána og aukningu á óhefðbundnum fjármögnunarleiðum (e. non-core funding).11

Árin 2008 og 2009 voru framlög á afskriftareikning útlána meiri en nokkurn tíma hafði áður sést hjá sparisjóðunum. Framlag ársins 2008 var til að mynda rúmir 85 milljarðar króna en heildarútlán höfðu numið 413 milljörðum króna árið áður. Árið eftir var framlagið um 60 milljarðar króna en það ár voru endanlegar afskriftir útlána miklu meiri en áður. Árið 2009 námu endanlegar afskriftir 24 milljörðum króna og ári síðar 21 milljarði króna. Útlánatöp sem komu fram á árunum 2008 og 2009 höfðu mikil áhrif á rekstur sparisjóðanna, en útlán voru sá liður á efnahagsreikningi sparisjóðanna sem mest tap varð af. Svo sem fyrr segir koma töp í kjölfar útlánaaukningar ekki strax fram. Aukningin var mest árið 2005 þegar útlán jukust um 43% en töpin komu ekki fram fyrr en þremur til fjórum árum síðar. Kom það meðal annars til vegna þess að stærstu lánin voru eingreiðslulán og geta lántakenda til að greiða þau kom því ekki fyllilega í ljós fyrr en á gjalddaga, sem gjarnan var 3–5 árum eftir útgáfudag lánanna. Reglur IFRS um virðisrýrnun útlána í staðli IAS 39 gera þær kröfur til útlánamats að það sé ekki huglægt, heldur skuli núvirða áætlað sjóðsflæði af lánunum. Virðisrýrnun lánanna varð að byggjast á stöðunni á reikningsskiladegi og liðnum sannanlegum atburðum. Þegar leið á árið 2008 varð ljóst að gríðarlegt tap hafði orðið á lánasafni sparisjóðanna og tóku þeir því að færa útlán sín verulega niður.

Niðurfærsluhlutfallið hjá minni sparisjóðunum var frábrugðið niðurfærsluhlutfallinu hjá þeim stærri. Frá 2001 til 2007 var það að meðaltali 5% hjá minni sparisjóðunum en 2,1% hjá þeim stærri. Hjá minni sparisjóðum hafði orðið töluvert útlánatap í upphafi aldarinnar, sem varð til þess að sumir þeirra færðu há framlög í afskriftareikning. Niðurfærsluhlutfall þeirra lækkaði þó þegar frá leið, úr 6,4% árið 2001 í 4,2% árið 2007. Hér skal ósagt látið hvort minni sparisjóðir hafi almennt verið varfærnari en þeir stærri, en dæmi eru um það að í endurskoðunarskýrslum minni sparisjóðanna hafi endurskoðandi beint því til stjórnar að framlag í afskriftareikning þyrfti að lækka. Niðurfærsluhlutfall stærri sparisjóðanna varð fyrst hærra en hjá þeim minni í árslok 2008, en þá náði það 15% hjá þeim stærri en stóð í 8,1% hjá þeim minni. Þessi munur jókst svo enn frekar árið 2009. Í árslok 2010 höfðu allir stóru sjóðirnir hætt starfsemi en niðurfærsluhlutfall minni sjóðanna var þá komið í 21,7%. Það lækkaði um tæp 8 prósent árið eftir, meðal annars vegna endanlegra afskrifta útlána.

Niðurfærsla útlána sparisjóðanna nam 180,8 milljörðum króna á árunum 2008–2011 en á sama tíma var tap sparisjóðsins af fjáreignum 88,8 milljarðar króna. Tap sparisjóðanna fyrir skatta á þessum sama tíma var 241,5 milljarðar króna. Í árslok 2007 námu útlán sparisjóðanna 566,2 milljörðum króna og því töpuðust um 32% þeirra frá 2008 til 2011.12

9.2 Aðferðafræði rannsóknarnefndar

Hvað varðar almenna athugun á útlánum sparisjóðanna studdist rannsóknarnefndin við ársreikninga þeirra, skýrslur innri og ytri endurskoðenda, reglur sparisjóðanna um útlán, skýrslur úr vettvangsathugunum Fjármálaeftirlitsins, stjórnarfundargerðir o.fl. Vegna rekstrarlegs mikilvægis útlána valdi rannsóknarnefndin úrtak lántakenda hjá öllum sparisjóðum sem byggði á umfangi þeirra og þeim sérgreindu afskriftum sem færa þurfti vegna þeirra.13 Þannig var leitast við að varpa ljósi á raunverulega útlánastefnu sparisjóðanna og vinnubrögð þeirra í stærstu útlánamálum. Kannað var hvort útlánastarfsemi hefði verið í samræmi við markmið þeirra, lánareglur, sem og gildandi lög og reglur á fjármálamarkaði. Þá var kannað hvernig skýrsluskilum til opinberra eftirlitsaðila var háttað og hvort tekið hefði verið tillit til athugasemda þeirra.

Úrtak rannsóknarnefndarinnar á lántakendum byggðist á hæstu útlánum og hæstu sérgreindu framlögum í afskriftareikning sparisjóðanna. Stærstu lántakendurnir voru valdir út frá ársfjórðungsskýrslum sparisjóðanna til Fjármálaeftirlitsins á árunum 2008 til 2011, sbr. reglur nr. 216/2007 um stórar áhættuskuldbindingar, og úr þeirri greiningu var valið úrtak lántakenda sem voru með stærstu heildarskuldbindingarnar á þessum árum. Horft er á skuldbindingar lánahópa, þ.e. hóps tengdra aðila, þar sem um það er að ræða og er þá horft á hópinn eins og sparisjóðurinn sjálfur skilgreindi hann. Í töflum um úrtakið er það borið saman við stöðu í árslok 2007 þar sem gengisfall krónunnar og hækkandi verðbólga árið 2008 leiddi til hækkana skuldbindinga á árinu.

Auk þess að líta til stórra áhættuskuldbindinga fór rannsóknarnefndin yfir þau lánamál sem höfðu orðið tilefni hárra framlaga í sérgreindan afskriftareikning á árunum 2008–2011. Frá og með árinu 2008 jukust framlög í afskriftareikning verulega hjá öllum sparisjóðunum. Vegna þess hve sérgreindar niðurfærslur sparisjóðanna voru óverulegar á árunum 2001–2007 var ekki talin ástæða til þess að kanna forsendur þeirra niðurfærslna sérstaklega. Töflur um afskriftir hjá einstökum sparisjóðum sýna þó stöðu afskrifta árið 2007 til samanburðar.

Hér skal þess þó getið að sérgreint framlag sýnir ekki endanlega töpuð útlán. Framlagið er fært vegna þess að líkur eru á að lánið tapist, en tapist það ekki, eða að minna leyti en gert var ráð fyrir, er hægt að færa framlagið til baka. Mikilvægt er að hafa í huga að sérgreind framlög, sem rætt er um í þessum kafla og öðrum köflum skýrslunnar, um útlán einstaka sparisjóða, endurspegla ekki endanlegt eða raunverulegt tap af útlánum heldur áætlun um tap af þeim. Sérgreind afskriftaframlög eru hins vegar færð á rekstrarreikning og hafa þar af leiðandi áhrif á rekstrarniðurstöðu og eiginfjárstöðu sparisjóða.

Miðað við þessar forsendur var valið úrtak sem samanstóð af stærstu áhættuskuldbindingum einstakra sparisjóða og lántakendum sem færa þurfti sérgreint framlag í afskriftareikning hjá frá árslokum 2008–2011. Í umfjöllun um útlán í köflum um einstaka sparisjóði er fjallað um úrtakið, lántakana og fjárhagslega tengda aðila innan þess lánahóps, eins og viðkomandi sparisjóður mat tengsl þeirra og skilgreindi sem sameiginlega áhættuskuldbindingu á skýrslum til Fjármálaeftirlitsins um stórar áhættuskuldbindingar. Rannsóknarnefndin kannaði lánveitingar til aðila í úrtakinu, meðal annars lánaskjöl, tryggingarskjöl og fundargerðir stjórnar og lánanefnda. Enda þótt úrtakið hafi verið valið út frá stærð skuldbindingar og afskriftaframlagi frá árinu 2008, náði athugunin aftur til þess tíma sem skuldbindingin varð til, þ.e. þess tíma þegar lánin voru veitt eða endurnýjuð. Kannað var hvort lánin voru veitt í samræmi við reglur sparisjóðsins og hvort eftirlit með skuldbindingunni var eins og til var ætlast í reglum um áhættustýringu, ef þær voru til staðar. Þá voru framlög í sérgreindan afskriftareikning skoðuð og greind, og dregið fram hverjar ástæður þeirra voru. Umfjöllun um úrtakið er ekki tæmandi og er hvorki hægt að draga afgerandi ályktanir um öll útlán sparisjóðs út frá þeim stærstu, né þeim sem færa þurfti mestu afskriftirnar hjá. Hún gefur þó mynd af þeim lánum sem höfðu hlutfallslega mest áhrif á reksturinn.

Í köflum um útlán hvers sparisjóðs eru töflur um stærð úrtaksins og framlag í afskriftareikning lánanna sem voru í úrtakinu. Í töflunum eru þessar tölur settar í samhengi við heildarútlán og afskriftareikninginn og birtar sem hlutfall af þeim. Það var ekki markmið rannsóknarnefndarinnar að úrtakið væri ákveðið hlutfall heildartalna, þó lögð væri áhersla á að ná til eins stórs hluta og mögulegt væri en úrtakinu væri þó haldið í hæfilegri stærð miðað við umfang og efni skýrslunnar. Hlutföllin eru birt til upplýsingar svo sjá megi hve stór hluti afskrifta og útlána var undir í athugun rannsóknarnefndarinnar. Í sumum sparisjóðum var úrtak rannsóknarnefndarinnar af stórum áhættuskuldbindingum mjög lágt hlutfall af heildarútlánasafni viðkomandi sparisjóðs. Í þeim tilvikum var lítið um stór lán sem vógu þungt í lánasafninu og það samanstóð frekar af fjöldamörgum lánum til einstaklinga, svo sem íbúðalánum. Ekki var talin ástæða til að fjalla sérstaklega um slík útlán heldur var einblínt á að skoða stærstu áhættuskuldbindingar eða stærstu framlög í afskriftareikning viðkomandi sparisjóðs hverju sinni.

Til að greina nánar og leggja mat á útlánastefnuna var ferill útlánaákvarðana í úrtakinu skoðaður í hverjum sparisjóði fyrir sig. Sú athugun fól í sér yfirferð á lánasamningum viðkomandi lántaka á tímabilinu sem var til skoðunar þar sem farið var yfir fjárhæðir, kjör, greiðslutíma, tryggingar og önnur mikilvæg atriði í tengslum við skuldbindinguna. Kannað var hvort viðkomandi lánaákvörðun hefði verið tekin í samræmi við útlánareglur sjóðsins. Sérstaklega var skoðað hver eða hverjir hefðu tekið ákvörðun um lánveitinguna og hvaða upplýsingar hefðu legið til grundvallar henni.

Upplýsingar um heildarútlán, framlög í afskriftareikning og stöðu á sérgreindum afskriftareikningi eru úr ársreikningum sparisjóðanna. Töflur um heildarumsvif hvers sparisjóðs, þ.e. þær sem ekki sýna úrtakið heldur heildina, ná frá 2005 til 2011 nema sparisjóður hafi hætt starfsemi fyrr á tímabilinu. Síðustu ársreikningarnir sem stuðst er við fyrir Sparisjóð Reykjavíkur og nágrennis og Sparisjóð Mýrasýslu eru fyrir árið 2008 en fyrir Byr sparisjóð og Sparisjóðinn í Keflavík eru síðustu ársreikningar fyrir rekstrarárið 2009.

Við könnun á einstökum aðilum í úrtakinu var stuðst við ársfjórðungsskýrslur til Fjármálaeftirlitsins um stórar áhættuskuldbindingar, skýrslur um innri og ytri endurskoðun sparisjóðanna og sundurliðanir á framlagi í afskriftareikning sem rannsóknarnefndin óskaði eftir frá sparisjóðunum sjálfum eða þeim sem fara með gögn sparisjóða sem ekki eru starfræktir lengur. Eftir að valið hafði verið úrtak lántakenda í hverjum sparisjóði var óskað eftir gögnum vegna lána og annarra skuldbindinga viðkomandi lántaka hjá sparisjóðnum. Í gagnabeiðnum fór nefndin fram á að með lánasamningi fylgdu öll gögn lánsins, þar með talin tryggingarskjöl, ákvörðunarblöð, eða önnur fylgiskjöl sem tengdust láninu. Úrtakið var valið miðað við stærð skuldbindinga og afskrifta frá og með árinu 2008 en gögn um lánveitingarnar voru yfirleitt mun eldri. Ef lántaki hafði greitt upp lán og fengið frumrit skuldabréfs eða lánaskjals afhent, kom fyrir að viðkomandi sparisjóður ætti ekki afrit af lánasamningi og fylgigögnum. Þá var byggt á skoðun á öðrum fyrirliggjandi gögnum eða viðtölum við fyrirsvarsmenn viðkomandi sparisjóðs. Við skoðun á lánaferli útlána í úrtakinu var farið yfir fundargerðir stjórnar og lánanefndar viðkomandi sparisjóðs og áhættunefndar þar sem það átti við. Þá skoðaði rannsóknarnefndin skráningar um útlánin í afgreiðslukerfi sparisjóðanna, Spak. Rökstuðningur lánaákvarðana sparisjóðsstjóra var hins vegar sjaldnast færður til bókar nema á fundum lánanefnda, þar sem þær störfuðu og gegndu hlutverki við ákvarðanir í útlánamálum.

Nefndin kallaði eftir öllum reglum er giltu um útlán sparisjóðanna, svo sem reglum um framkvæmd starfa sparisjóðsstjórnar og sparisjóðsstjóra, reglum um lánveitingar og ábyrgðir, reglum um framlag í afskriftareikning og endanlegar afskriftir, reglum um útlánaheimildir starfsmanna, reglum um framkvæmd áhættustýringar, auk samþykkta sjóðanna. Nokkuð var um að undirrituð eintök reglna fyndust ekki hjá sparisjóðunum og fékk rannsóknarnefndin stundum nokkrar mismunandi útgáfur af sömu reglum frá sama sparisjóði, eins og um drög væri að ræða. Þá voru dæmi þess hjá sparisjóðunum að ekki lægi fyrir hvaða útgáfa reglnanna gilti á hverjum tíma.

Rannsóknarnefndin óskaði eftir grunngögnum úr tölvukerfum frá Teris, tölvumiðstöð sparisjóðanna, sem lét rannsóknarnefndinni í té gagnagrunnstöflur úr útlánakerfum sparisjóðanna sem vistuð voru hjá félaginu og síðar Reiknistofu bankanna eftir samruna þeirra. Þá fékk rannsóknarnefndin sambærileg gögn um Sparisjóð Reykjavíkur og nágrennis frá Dróma hf. Í þessum töflum voru upplýsingar um útlánastöður og stöður skuldbindinga sem hafa útlánaígildi ásamt upplýsingum um veð í lok hvers mánaðar frá upphafi árs 2005 þar til síðla árs 2011. Töflurnar voru úr kerfunum Libra Loan, Flexcube og úr kerfi Reiknistofu bankanna.

Þá var farið yfir reglubundin skýrsluskil sparisjóðanna til Fjármálaeftirlitsins þar sem meðal annars komu fram upplýsingar um útlán og vanskil, stórar áhættuskuldbindingar, afskriftir, yfirlit yfir útlán með veði í íbúðarhúsnæði, hlutabréfum og öðrum verðbréfum, fyrirgreiðslur til venslaðra aðila o.fl. Í einhverjum tilvikum voru skýrslur sparisjóðanna til Fjármálaeftirlitsins ekki efnislega sambærilegar að öllu leyti en þrátt fyrir vandkvæði við samræmingu milli sparisjóða, meðal annars vegna misræmis í lánagagnagrunni, voru þær taldar besti samnefnarinn milli sparisjóðanna. Fjármálaeftirlitið gerði vettvangsathuganir hjá flestum sparisjóðunum á árunum 2005–2008 þar sem meðal annars var lagt mat á gæði útlána. Athugasemdir sem fram komu í skýrslunum og vörðuðu útlán eru teknar saman og birtar í sérstökum undirköflum um athugasemdir eftirlitsaðila í köflum um hvern sparisjóð og farið yfir svör sparisjóðanna við skýrslunum.14

Útlán sparisjóðanna reyndust mikill áhrifavaldur á rekstur þeirra og í úrtaki rannsóknarnefndar voru helstu útlánin sem mest áhrif höfðu á reksturinn. Þótt rannsóknarnefndin hafi kannað þau lánamál sem hér er getið um, er ekki fjallað um þau öll í skýrslunni, enda gáfu mörg þeirra ekki tilefni til sérstakrar umfjöllunar. Í 2. mgr. 11. gr. laga nr. 68/2011 um rannsóknarnefndir segir að sú þagnarskylda sem hvílir á rannsóknarnefnd og starfsmönnum hennar um upplýsingar sem hún aflar við rannsóknina, sbr. 1. gr. 11. gr., skuli ekki standa því í vegi að rannsóknarnefnd birti upplýsingar sem annars væru háðar þagnarskyldu, ef nefndin telur slíkt nauðsynlegt til að rökstyðja niðurstöður sínar. Nefndin skuli þó því aðeins birta upplýsingar um persónuleg málefni einstaklinga, þar með talin fjármál þeirra, að almannahagsmunir af því að birta upplýsingarnar vegi þyngra en hagsmunir þess einstaklings sem í hlut á. Þá gætti rannsóknarnefndin að því að ganga ekki of nærri lögaðilum í umfjöllun sinni, einkum þeim sem enn eru í rekstri, ef ekki var sérstakt tilefni til umfjöllunar um lánamál þeirra og hagsmunir þeirra vógu þyngra en hagsmunirnir af því að birta viðkvæmar upplýsingar um fjárhagsmálefni þeirra. Þar koma til álita bæði samkeppnissjónarmið, vegna sparisjóðanna, svo og fyrirtækja sem enn starfa, og sú helgi sem ríkja skal um trúnaðarsamband milli þeirra. Því eru upplýsingar um fjölmarga aðila í skýrslunni samandregnar eða nafnlausar. Í ákveðnum tilvikum gat slík viðleitni þó ekki þjónað tilgangi skýrslunnar, en það á nærri eingöngu við um lögaðila.15

9.3 Regluverk og ákvarðanataka

Innra eftirlit hefur ekki verið skilgreint í íslenskri löggjöf, en í 17. gr. laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki er gerð krafa um að fjármálafyrirtæki skuli á hverjum tíma hafa yfir að ráða tryggu eftirlitskerfi með áhættu í tengslum við alla starfsemi sína. Fjármálaeftirlitið hefur gefið út leiðbeinandi tilmæli um innra eftirlit og áhættustýringu nr. 1/2002 en um regluverkið og eftirlitsumhverfi er annars fjallað í 6. kafla og vísast til hans. Hér verður þó vikið að ákveðnum þáttum þess, svo sem útlánareglna. Fjármálaeftirlitið hefur jafnframt eftirlit með útlánaáhættu fjármálafyrirtækja og á því tímabili sem hér er til skoðunar studdist Fjármálaeftirlitið helst við reglulegar skýrslur um þætti í starfsemi fjármálafyrirtækja og eigin vettvangsathuganir.

Í lögum um fjármálafyrirtæki er áhætta skilgreind sem lánveiting, verðbréfaeign, eignarhlutir og veittar ábyrgðir fjármálafyrirtækis vegna einstakra viðskiptamanna eða fjárhagslega tengdra aðila, svo og annarra skuldbindinga sömu aðila gagnvart fjármálafyrirtækinu. Stór áhætta er hver sú áhætta sem nemur 10% eða meira af eiginfjárgrunni fjármálafyrirtækis og má mest vera 25%. Hámark samtölu stórra áhættuskuldbindinga var 800% af eiginfjárgrunni þar til því var breytt með lögum nr. 119/2011 og varð 400%. Við útreikning áhættuskuldbindingar geta nokkrir liðir komið til frádráttar heildarskuldbindingum viðskiptamanns eða hóps viðskiptamanna. Til að mynda má draga frá það sem fært hefur verið í afskriftareikning vegna skuldbindingarinnar eða þann hluta skuldbindingarinnar sem aðrir hafa gengist í ábyrgð fyrir.16

Í úrtaki rannsóknarnefndarinnar voru fjöldamörg dæmi um að sparisjóðirnir gengjust í ábyrgð hver fyrir annars lánum eða færðu sérgreind framlög í afskriftareikning vegna lána sem ekki uppfylltu skilyrði til afskrifta, til þess að lækka áhættuskuldbindingu á skýrslum til Fjármálaeftirlitsins og halda henni innan marka. Má í þessu sambandi nefna ábyrgðir frá Sparisjóði Mýrasýslu til dótturfélags síns, Afls sparisjóðs, vegna tveggja útgerðarfélaga, og í Sparisjóði Suður-Þingeyinga var fært hærra framlag í sérgreindan afskriftareikning en rekstur lántaka gaf tilefni til, í því skyni að lækka áhættuskuldbindinguna.

Sparisjóðirnir settu sér reglur um útlánastarfsemi en misjafnt var eftir stærð þeirra hversu ítarlegar reglurnar voru og til hve margra þátta þær náðu. Allir sparisjóðirnir settu reglur um störf stjórnar og sparisjóðsstjóra sem fjölluðu um verkaskiptingu milli þessara aðila og jafnframt settu þeir allir útlánareglur. Í flestum sparisjóðanna voru settar reglur um framlag í afskriftareikning og endanlegar afskriftir. Í stærri sparisjóðum voru útbúnar sérstakar áhættuhandbækur eða áhættureglur sem náðu meðal annars til áhættu vegna útlána og þar var skilgreint hvernig staðið skyldi að eftirliti með henni.

Flestir sparisjóðirnir settu nýjar lánareglur í árslok 2003. Sjá má af samantektinni í töflu 6 að sumir þeirra uppfærðu reglurnar síðar, en hjá öðrum voru þær óbreyttar frá því síðla árs 2003 eða snemma árs 2004 og allt fram til 2013. Útlánareglur minni sparisjóðanna voru mjög áþekkar milli sjóða og byggðar á svipuðum fyrirmyndum. Þær höfðu yfirleitt ekki að geyma ítarleg ákvæði um útlánastefnu eða skilyrði þess að lán væru veitt. Í reglunum sagði að þær skyldu þjóna þeim meginmarkmiðum að eðlilegur tekjuafgangur yrði af rekstri viðkomandi sparisjóðs og að viðhaldið yrði traustri eiginfjárstöðu og lausafjárstöðu. Jafnframt skyldi leitast við að veita þeim sem óskuðu eftir fyrirgreiðslu sem besta þjónustu á hverjum tíma. Samkvæmt útlánareglunum bar að jafnaði að taka fullnægjandi tryggingar fyrir útlánum en ekki kom fram hvaða skilyrði tryggingar þyrftu að uppfylla til að teljast fullnægjandi. Þær kváðu almennt ekki á um lágmarkstryggingaþekju mismunandi veðandlaga eða við hvaða veðsetningarhlutfall bæri að miða þegar tekið væri veð í fasteignum, skipum, vörubirgðum, verðbréfum eða öðrum tegundum trygginga. Undantekningar frá þessu voru reglur Sparisjóðs Reykjavíkur og nágrennis og dótturfélaga hans og Byrs sparisjóðs þar sem ákvæðin voru ítarleg og reglurnar skýrar hvað varðaði heimildir, stefnu og tryggingatöku.

Stærstu sparisjóðirnir fjórir, Sparisjóður Reykjavíkur og nágrennis, Byr sparisjóður, Sparisjóðurinn í Keflavík og Sparisjóður Mýrasýslu, starfræktu lánanefndir. Lánanefnd þess síðastnefnda var ekki stofnuð fyrr en í október 2008 og starfaði því í skamman tíma. Lánanefndir höfðu ekki eiginlegar útlánaheimildir nema í Byr sparisjóði, þar sem hún var sú sama og heimild sparisjóðsstjóra og skyldi lánanefnd vísa málum til afgreiðslu lánastjóra. Til lánanefnda var almennt vísað málum sem kröfðust undanþága eða voru umfram heimildir starfsmanna, annarra en sparisjóðsstjóra. Í lánanefndum sátu stjórnendur sparisjóðsins sem höfðu með lánamál að gera, svo sem forstöðumenn áhættustýringardeilda og reikningshalds. Í Sparisjóðnum í Keflavík var gert ráð fyrir starfandi lánanefnd í útlánareglum, en samkvæmt upplýsingum sparisjóðsstjóra hafði hún ráðgefandi hlutverki gagnvart sparisjóðsstjóra og hafði ekkert ákvörðunarvald.17

Misjafnt var milli sparisjóða hve háa heimild sparisjóðsstjórar höfðu til lánveitinga, og námu hámarksheimildir þeirra til að veita viðskiptamanni og fjárhagslega tengdum aðilum lán allt frá 1,5% til 25% af eiginfjárgrunni. Þá hafði stjórn oftast heimild til að samþykkja hærri fyrirgreiðslur en sparisjóðsstjóri, allt að lögmæltu hámarki.

Þess ber að geta að ósamræmi var í notkun hugtaksins „eigið fé“ en útlánaheimildir miðuðust í flestum tilfellum við ákveðið hlutfall af því. Við skilgreiningu á eigin fé í útlánareglunum var gjarnan vísað til 84. gr. laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki. Þar var „eigið fé“ fjármálafyrirtækis skilgreint, en það var frábrugðið því sem kallað er „bókfært eigið fé“ í ársreikningum fyrirtækis. Eigið fé samkvæmt lögum um fjármálafyrirtæki er samsett úr þremur eiginfjárþáttum: A, B og C. Eiginfjárþætti A svipar til bókfærðs eigin fjár en til eiginfjárþátta B og C teljast víkjandi lán samkvæmt ákvæðum þar um.18 Til frádráttar þessum þremur eiginfjárþáttum koma síðan ákveðnir eignaliðir. Nánari umfjöllun um eigið fé í skilningi laga um fjármálafyrirtæki er að finna í 6. kafla þessarar skýrslu. Hugtakinu „eigið fé“ í lögum nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki var breytt í „eiginfjárgrunn“ með lögum nr. 170/2006.

Af þessum sökum gætti misræmis í útlánareglum ýmissa sparisjóðanna þar sem útlánaheimildir miðuðust ýmist við hlutfall af eigin fé eða bókfærðu eigin fé. Nefna má að í útlánareglum Sparisjóðs Ólafsfjarðar, Sparisjóðs Bolungarvíkur, Sparisjóðs Svarfdæla, Sparisjóðs Þórshafnar og nágrennis, Sparisjóðs Suður-Þingeyinga, Sparisjóðs Strandamanna og Sparisjóðs Vestmannaeyja var að finna ákvæði um útlánaheimildir sparisjóðsstjóra sem miðuðust við ákveðið hlutfall af eigin fé eins og það var skilgreint í lögum um fjármálafyrirtæki (þ.e. af eiginfjárgrunni eftir breytingu laga í desember 2006). Í útlánareglum þessara sjóða kom einnig fram að útlán umfram ákveðið hlutfall, yfirleitt það sama og útlánaheimildir sparisjóðsstjóra, þyrftu að fara fyrir stjórn sjóðsins. Þau mörk voru hins vegar miðuð við hlutfall af bókfærðu eigin fé viðkomandi sparisjóðs. Þó nokkur munur getur verið þarna á milli. Í útlánareglum Sparisjóðs Vestmannaeyja frá 2004 var heimild sparisjóðsstjóra til útlána til að mynda 3% af eigin fé eins og það var skilgreint í 84. gr. og 85. gr. laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki. Stjórnin þurfti hins vegar að samþykkja öll lán sem voru meira en 3% af „bókfærðu eigin fé sjóðsins“.19 Í ársreikningi Sparisjóðs Vestmannaeyja 2004 var bókfært eigið fé sjóðsins um 755 milljónir króna í árslok en eiginfjárgrunnurinn 495 milljónir króna á sama tíma. Útlánaheimild sparisjóðsstjóra í lok árs 2004 hefur því verið um 14,8 milljónir króna en stjórn þurft að samþykkja útlán umfram 22,6 milljónir króna. Samkvæmt reglunum var því óljóst hver gat tekið ákvarðanir um útlán sem voru umfram 14,8 milljónir króna en innan við 22,6 milljónir króna. Í febrúar 2006 voru útlánareglur Sparisjóðs Vestmannaeyja uppfærðar og ákvæðin samræmd þannig að sparisjóðsstjóri hafði heimild upp að 3% af eiginfjárgrunni en stjórn þurfti að samþykkja öll útlán umfram það. Útlánareglur Sparisjóðs Bolungarvíkur, Sparisjóðs Svarfdæla og Sparisjóðs Suður-Þingeyinga höfðu hins vegar ekki verið uppfærðar með sama hætti í lok árs 2011 og fólu því í sér misræmi milli útlánaheimilda sparisjóðsstjóra og útlánaheimilda stjórnar.

Í vettvangsathugunum sínum tók Fjármálaeftirlitið meðal annars útlánamál sparisjóðanna til skoðunar.20 Í þeim athugunum var farið yfir útlánareglur þeirra. Í skýrslum Fjármálaeftirlitsins um vettvangsathuganir í litlum sparisjóðum voru almennt ekki gerðar athugasemdir við útlánareglur, en slíkar athugasemdir voru mun algengari í skýrslum um stærri sparisjóðina. Vera má að það tengist tímasetningum athugananna, en Fjármálaeftirlitið heimsótti flesta minni sparisjóðina frá 2005 og fram á fyrri hluta ársins 2007, en stærri sparisjóðina eftir það og fram á árið 2008. Áherslur athugananna kunna að hafa breyst, því í skýrslu um vettvangsathugun hjá Sparisjóði Mýrasýslu frá júlí 2008 voru til að mynda gerðar athugasemdir við útlánareglur sparisjóðsins sem ekki höfðu verið gerðar í vettvangsathugunum hjá öðrum minni sparisjóðum sem voru þó með sambærilegar reglur. Þó skal bent á að ekki er skýr lagaskylda til að setja lánareglur í sparisjóðum21 og lutu athugasemdir Fjármálaeftirlitsins aðallega að fylgni sparisjóðs við reglurnar sem fyrir hendi voru, en ekki innihaldi þeirra. Einu efnislegu athugasemdirnar við tiltekin ákvæði í lánareglum sparisjóða var að finna í skýrslu um Sparisjóðinn í Keflavík.

Ekki er kveðið á um það í íslenskum lögum eða reglum hvert inntak útlánareglna fjármálafyrirtækja eigi að vera. Lánareglur minni sparisjóðanna voru almennt orðaðar og því óhægt um vik að fullyrða að lánveitingar eða tryggingataka hafi brotið í bága við reglurnar í tilvikum þar sem rannsóknarnefndinni þótti álitamál hvort eðlilega hefði verið staðið að lánveitingum. Því kemur til álita hvort gera hefði mátt meiri kröfur til lánareglna þeirra til þess að umfang og eftirlit með áhættu gæti verið skýrara.

9.4 Útlánastefna

Í sparisjóðunum lágu ekki fyrir skjalfestar útlánastefnur. Aðspurðir um útlánastefnu sparisjóða vísuðu sumir forsvarsmenn þeirra í útlánareglur eða aðrar reglur.22 Aðrir staðfestu að formleg útlánastefna hefði ekki legið fyrir.23 Formleg útlánastefna setur meðal annars markmið um hvaða viðskiptavini sparisjóðurinn vill laða til sín, hvernig lán hann vill veita þeim, hvaða ávöxtun hann stefnir að því að ná, hver tímalengd lánasafnsins á að vera og hversu miklu af lánunum hann er tilbúinn að tapa. Útlánareglur eru settar til að ná þessum markmiðum, t.d. hvernig standa þurfi að veðtöku til þess að tap verði ekki meira en sparisjóðurinn sættir sig við. Útlánastefna og útlánareglur eru ekki sami hluturinn þó ýmsir þættir þeirra geti verið sameiginlegir.

Eins og framar greinir var rannsóknarnefndinni gert að skoða útlánastefnu sparisjóðanna, sbr. b-lið 2. mgr. þingsályktunar Alþingis frá 10. júní 2011. Þar sem slík stefna lá ekki fyrir voru lán sem veitt voru skoðuð með tilliti til þess hvað þau gætu sagt um útlánasafnið sem slíkt og þá stefnu sem í reynd var fylgt innan sparisjóðanna um lánveitingar. Sérstök áhersla var lögð á að skoða stærstu lánin og þau sem höfðu mest áhrif á fall og erfiðleika sparisjóðanna og finna sameiginleg einkenni þeirra.

9.4.1 Lán til fasteignakaupa

Í ágúst 2004 breyttist íbúðalánamarkaðurinn á Íslandi með tilkynningu Kaupþings Búnaðarbanka hf. um íbúðaveðlán með lægri vöxtum og hærra veðsetningarhlutfalli en áður hafði tíðkast á Íslandi. Ekkert hámark var á lánsfjárhæð, ólíkt því sem gilti hjá Íbúðalánasjóði, og bankinn gerði ekki kröfu um að lánið yrði notað til íbúðakaupa. Hinir viðskiptabankarnir tveir fylgdu strax í kjölfarið með sams konar tilboð. Þá kusu margir fasteignaeigendur að endurfjármagna húsnæði sitt og greiddu upp lán hjá Íbúðalánasjóði, en þau þóttu vera með lakari kjörum en bankarnir buðu. Íbúðalánasjóður sat því uppi með mikið laust fé í kjölfarið.24 Viðskiptavinir sparisjóðanna sóttust eftir að fá sambærileg lán og bankarnir buðu og sparisjóðirnir töldu sig þurfa að svara samkeppninni, ella gætu þeir misst stóran hluta viðskiptamannahóps síns.25

Áhrif þessara breytinga koma skýrt fram í útlánum sparisjóðanna á árunum 2004–2005. Árið 2003 jukust útlán til að mynda um rúm 2% en árið eftir um 28% og árið 2005 jukust útlánin um 42%. Fasteignalán í erlendum myntum urðu einnig mjög vinsæl. Eins og fyrr segir birtist aukin samkeppni á húsnæðislánamarkaði meðal annars í því að veðhlutföll hækkuðu frá því að vera um og innan við 70% í allt að 90–100%. Hærra veðhlutfall felur í sér meiri áhættu, því ef eftirspurn eftir fasteignum minnkar eða markaðsvirði þeirra lækkar af öðrum orsökum, geta áhvílandi skuldir orðið hærri en virði veðsins þó svo hafi ekki verið þegar lánið var veitt. Lántakar geta þá setið uppi með yfirveðsettar, óseljanlegar eignir sem lánveitendur yfirtaka svo til fullnustu krafna sinna, sem afskrifa þarf að hluta. Til þess að taka þátt í samkeppninni buðu sparisjóðirnir lægri vexti en áður hafði tíðkast og hafði það áhrif á afkomu þeirra:

Mér fannst alltaf verða ákveðinn vendipunktur í starfsemi sparisjóðanna árið 2004 […] þegar við ákváðum að fara í íbúðalánin. Við sáum það strax að við það að fara inn í þann pakka þá fór vaxtamunur sparisjóðanna niður. Ég held að það hafi verið röng stefna hjá sparisjóðunum að fara í þessi íbúðalán. Strax árið 2005 var þetta farið að hafa áhrif á vaxtamuninn. Auk minnkandi vaxtamunar urðu svokölluð hattalán mörgum sjóðum dýrkeypt.26

Auk lána til einstaklinga til íbúðakaupa lánuðu stærri sparisjóðirnir til fasteigna- eða byggingafélaga. Sparisjóður Reykjavíkur og nágrennis lánaði til fasteignaverkefna að mestu leyti í gegnum dótturfélag sitt Frjálsa fjárfestingarbankann hf. Auk þess átti bankinn oft aðkomu að sömu verkefnum með eiginfjárframlagi eða umbreytingu skulda í eiginfjárframlag. Stærsta verkefnið var í Brautarholti í Reykjavík og flest stærri lánin voru til fasteignakaupa eða byggingaframkvæmda á Stór-Reykjarvíkursvæðinu. Þá fjármagnaði skrifstofa sparisjóðsins í Berlín byggingaverkefni þar í borg. Sparisjóður Mýrasýslu lánaði til verkefna á Íslandi, meðal annars í Hafnarfirði og Vogum á Vatnsleysuströnd. Sparisjóðurinn í Keflavík lánaði til fasteignaverkefna, meðal annars á Miðnesheiði í Reykjanesbæ og við Flugstöð Leifs Eiríkssonar. Byr sparisjóður lánaði til kaupa á fasteignum til útleigu í Reykjavík og til byggingaverkefna á Granda og í Bryggjuhverfi í Reykjavík, og í Hveragerði. Þá lánaði sparisjóðurinn einnig til fasteignaverkefna í nokkrum löndum Evrópu.

Hjá sumum sparisjóðum var hlutur íbúðalána og lána til fasteigna- og byggingaverkefna það mikill að það gat leitt til samþjöppunaráhættu. Til að mynda gerði Fjármálaeftirlitið athugasemd í skýrslu sinni um vettvangsathugun í Sparisjóði Hafnafjarðar frá október 2006 þar sem fram kom að 16 af 24 stærstu lánþegum sparisjóðsins tengdust byggingaverktökum eða aðilum sem væru með útleigu eða aðra umsýslu atvinnuhúsnæðis. Í lok september 2006 fjármagnaði sparisjóðurinn verkefni þar sem samtals 420 íbúðir voru í byggingu og af þeim voru 229 óseldar eða 54,5%. Í skýrslunni sagði:

Fjármálaeftirlitið vill brýna fyrir stjórnendum sparisjóðsins að vera á varðbergi hvað varðar útlán til umræddra aðila. Miðað við núgildandi stöðu verður ekki séð að sparisjóðurinn sé í tapsáhættu vegna lána til þeirra, en breyttar markaðsaðstæður kunna að vera handan við hornið. Vísbendingar eru um það að eftirspurn eftir íbúðar- og atvinnuhúsnæði fari minnkandi á næstunni, sem leitt gæti til þess að byggingaverktakar sætu uppi með óseldar íbúðir sem sparisjóðurinn á veð í. Þetta gæti aftur leitt til þess að sjóðurinn yrði í auknum mæli að yfirtaka eignir til lúkningar krafna. Gerist það eykst tapsáhætta sparisjóðsins verulega vegna þessara útlána.

Þá gerði Fjármálaeftirlitið athugasemd við samþjöppunaráhættu vegna sams konar lána í Sparisjóði Reykjavíkur og nágrennis í skýrslu vegna vettvangsathugunar frá haustinu 2007. Í skýrslunni sagði að þegar búið væri að taka saman lán til byggingarverktaka, sem námu 10% af heildarútlánum,27 og íbúðarlán, sem námu 47% af heildarútlánum, hafi lán til fasteignakaupa verið orðin 57% af heildarútlánum samstæðunnar sem fæli í sér töluverða samþjöppunaráhættu.28

Í skýrslu Fjármálaeftirlitsins um vettvangsathugun í Sparisjóðnum í Keflavík frá september 2008 kom fram að lán til fasteigna- og byggingastarfsemi hafi verið um 29% af útlánum til atvinnugreina, eða 13% af heildarútlánum, og íbúðalán 20%. Miðað við stöðu íbúðalána í lok apríl 2008 voru veðsetningarhlutföll vegna íbúðalána undir 70% hjá 46% lántakenda, rúm 40% lána voru með 70–90% veðsetningu og rúm 6% með 90–100% veðsetningu. Hlutfall þeirra sem voru með yfir 100% veðhlutfall hafði hækkað úr 6,8% í lok árs 2007 í 9,1% í lok apríl 2008.29

Samkvæmt skýrslu Fjármálaeftirlitsins um Byr sparisjóð frá því í október 2007 skiptust heildarútlán sjóðsins jafnt á milli heimila og fyrirtækja. Lán til byggingaframkvæmda námu tæpum 2% af útlánasafninu og var ekki gerð athugasemd við utanumhald þeirra. Af lánum til heimila voru 74% vegna íbúðalána og voru þau því stærsti útlánaflokkur sparisjóðsins. Fram kom að mikilvægt væri að sjóðurinn greindi þá áhættu sem í þessum flokki fælist. Samkvæmt skýrslunni voru veðsetningarhlutföll vegna íbúðalána undir 70% hjá 41% lántakenda, 32% lána voru með 70–90% veðsetningarhlutfall og 6% með 90–100%. Þá voru 21% lántakenda með yfir 100% veðhlutfall.30

Í skýrslu Fjármálaeftirlitsins um Sparisjóð Mýrasýslu í júlí 2008 kom fram að tæpur helmingur íbúðalána væri með innan við 70% veðhlutfall, en 90% lánanna sem eftir stóðu voru með veðsetningarhlutfall á bilinu 70–90%. Fjármálaeftirlitið taldi dreifinguna ekki óhagstæða ef litið væri á íbúðamarkaðinn á allra síðustu árum, en taldi þó nauðsynlegt að leggja mat á þróun og áhættu þessara lána.

Í athugunum Fjármálaeftirlitsins á nokkrum minni sparisjóðanna, Sparisjóði Húnaþings og Stranda, Sparisjóði Norðfjarðar, Sparisjóði Norðlendinga og Sparisjóði Skagafjarðar var tekið fram að fastvaxtaáhætta31 þeirra vegna íbúðalána væri ekki ásættanleg. Við skoðun hjá Sparisjóði Ólafsfjarðar í febrúar 2006 taldist fastvaxtaáhættan hins vegar innan hóflegra marka.

Í byrjun árs 2008 hægði á íslenska fasteignamarkaðinum. Samhliða dró úr lánum til fasteignakaupa og eftirspurn eftir fasteignum minnkaði talsvert. Í kjölfar falls bankanna haustið 2008 stöðvuðust lán til fasteignakaupa nánast algjörlega, eftirspurn hrundi og byggingaverktakar sátu uppi með verðlitlar lóðir, ókláraðar framkvæmdir og auðar fasteignir. Fasteignaverð lækkaði hratt og samhliða hækkuðu lán vegna verðbólguáhrifa og falls krónunnar. Margar fasteignir urðu því skuldsettar umfram markaðsvirði þeirra á sama tíma og sífellt fleiri lántakendur gátu ekki staðið í skilum. Í sparisjóðum þar sem íbúðalán og lán til byggingaframkvæmda höfðu verið stór hluti lánasafnsins var ljóst í lok árs 2008 að afskriftir yrðu töluverðar.

Lán til kaupa á fasteignum voru jafnan tryggð með veði í fasteignunum sjálfum, og reyndust það traustari tryggingar en fyrir mörgum öðrum lánum sparisjóðanna, til að mynda lána til kaupa á hlutabréfum eða í tilefni af öfugum samruna félaga.32 Í Sparisjóði Reykjavíkur og nágrennis, Byr sparisjóði og Sparisjóði Mýrasýslu giltu reglur um hámarksveðsetningu fasteigna.33 Hámarkið í þessum reglum var á bilinu 55–100% eftir tegund fasteignar og staðsetningu. Í öðrum sparisjóðum voru reglurnar ekki eins nákvæmar og hjá sumum voru engar reglur til um veðsetningu. Þótt oftast væri fylgt ákveðnu verklagi um veðsetningu, voru reglurnar ekki alltaf skráðar.

Veðhlutfall lána sem veitt voru til kaupa á fasteignum hækkaði töluvert á árunum 2006–2008 og þess voru mörg dæmi að sparisjóðir lánuðu fasteignafélögum að fullu fyrir kaupum á fasteign gegn veði í eigninni sjálfri. Eitthvað var um slík lán til einstaklinga en þó virðast hafa verið gerðar strangari kröfur til greiðslumats einstaklinga en fasteignafélaga á þessum tíma. Veðhlutföll voru oft komin upp fyrir 100% áður en komið var fram á árið 2008, eins og fram kom í fyrrnefndum skýrslum Fjármálaeftirlitsins. Haustið 2008 hækkuðu þau enn frekar þegar höfuðstóll lána hækkaði og virði veðanna minnkaði. Fasteignalán til einstaklinga eru meðal þeirra eigna sem hafa staðist þessi áföll best, þó hluti þeirra hafi verið afskrifaður, meðal annars vegna ólögmætis gengistryggingar lána og fyrir tilstilli „110% leiðarinnar“. Fasteignalán til einstaklinga voru algeng hjá öllum sparisjóðunum, en það voru nær eingöngu stærri sjóðirnir sem veittu hin áhættusamari lán til fasteigna- og byggingaverkefna, sem töpuðust svo að miklum hluta. Eftir fall bankanna voru endurheimtur minni sparisjóða af fasteignalánum almennt góðar: „Mjög lítið er um það að útlán til íbúðakaupa á okkar svæði tapist og þurfi að afskrifa. Það er helst að slíkt hafi átt sér stað nú í seinni tíð í gegnum skuldaaðlögun hjá Umboðsmanni skuldara og önnur úrræði. Þannig að lítil áhætta hefur verið af lánveitingum til íbúðakaupa á starfssvæðinu.“34 Þess utan bar Íbúðalánasjóður tapsáhættu af stórum hluta íbúðalána sparisjóðanna vegna samninga sem gerðir voru 2004 og 2005 og leysti hann til sín lánin sem samningarnir náðu til í lok árs 2008 og byrjun árs 2009.35

Starfsemi sparisjóða utan höfuðborgarsvæðisins snerist að stórum hluta um þjónustu við einstaklinga, ekki síst lánveitingar til fasteignakaupa og -bygginga. Byggingarkostnaður er svipaður um land allt en virði fasteigna hins vegar mjög ólíkt, og sparisjóður sem lánaði til ný- eða endurbyggingar húsnæðis á landsbyggðinni með veði í fasteigninni gat endað með mun verðminna veð en sparisjóður sem lánaði til sams konar verkefnis á höfuðborgarsvæðinu. Um þetta sagði sparisjóðsstjóri Sparisjóðs Vestmannaeyja í skýrslu hjá rannsóknarnefndinni:

Byggingakostnaður á þessum stöðum er mjög svipaður um land allt […] og við vorum að fjármagna mikið til íbúðarhúsnæði, endurkaup á gömlu húsnæði og svo nýbyggingar. Eins og ég segi, þá er ég ekki með tölfræðina alveg á hreinu í höfðinu, en man það þó að einnar milljónar krónu íbúðalán til 40 ára sem tekið er á miðju ári 2005, og búið væri að borga af í 7 ár, stæði í dag í 1.530–50 þúsundum. Það sem ég er að segja er að ef við lánuðum 80–90% af matsverði, kaupverði eignar á Selfossi að þó að lánið hefði verið í skilum allar götur þá stæði það í 120% af láninu í dag.36

Vegna lágs virðis íbúðarhúsnæðis á landsbyggðinni var ekki fýsilegt fyrir sparisjóði utan höfuðborgarsvæðisins að leysa til sín veðsettar eignir til greiðslu skulda, nema útséð væri um að skuldari stæði ekki undir skuldunum, enda var ljóst að endurheimtur yrðu þá minni en vænt greiðslufæði af láninu til frambúðar.

Sparisjóðirnir hafa almennt leyst til sín veðsettar fasteignir eða félög utan um fasteigna- og byggingaverkefni ef skuldarar hafa lent í alvarlegum vandræðum með endurgreiðslu. Mun erfiðara er að verðmeta byggingaverkefni en fullbyggðar fasteignir sem einstaklingar keyptu, þar koma til margir óvissuþættir og framtíðarspár. Félög sem stofnuð voru utan um byggingaverkefni áttu iðulega litlar eignir aðrar en þær sem lánað var til kaupa á, og þegar sparisjóðirnir leystu þær eignir til sín urðu endurheimtur mun lægri en virði lánanna, einkum vegna þess að forsendur fyrir tekjum og verðmæti eignanna brustu með miklum samdrætti á fasteignamarkaði. Sumar þessara eigna voru seldar strax, og þá yfirleitt með tapi, en sparisjóðirnir halda enn sumum fasteignafélögum37 og fasteignum í þeirri von að geta selt síðar á hagstæðara verði. Þess eru einnig dæmi að sparisjóðirnir hafi verið aftarlega í veðröð vegna lána til fasteignakaupa og hafi ekkert fengið upp í kröfur sínar. Þó utanaðkomandi aðstæður hafi haft sitt að segja um tap sparisjóðanna vegna lána með veði í fasteignum, er ljóst að minni kröfur til veðhlutfalls og vinnubrögð almennt innan sparisjóðanna við lánveitingar og tryggingartöku skiptu miklu um endurheimtur lánanna. Mikil áhætta var tekin í erlendum fasteignaverkefnum, meðal annars hjá Byr sparisjóði, en takmörkuð þekking lántaka og lánveitanda á umhverfinu þar sem fjárfest var, varð ekki bætt upp með vönduðum undirbúningi; heldur var treyst á upplýsingar frá aðilum sem unnu ekki fyrir lánveitanda. Áhætta Sparisjóðs Reykjavíkur og nágrennis í fasteignaverkefnum var enn meiri en ella þar sem sparisjóðurinn eða dótturfélög hans tóku þátt í sumum þeirra með eiginfjárframlagi.

9.4.2 Lán til hlutabréfakaupa

Frá ársbyrjun 2004 varð mikil hækkun á íslenskum hlutabréfamarkaði sem aðallega má rekja til hækkunar á verði hlutabréfa í stóru viðskiptabönkunum þremur, Kaupþingi banka hf., Glitni banka hf. og Landsbanka Íslands hf. Gengi hlutabréfa náði hámarki um mitt ár 2007 en ári síðar höfðu íslensk hlutabréf fallið mikið í verði. Eftir fall viðskiptabankanna þriggja haustið 2008 varð algert hrun á hlutabréfamarkaði sem hafði keðjuverkandi áhrif inn í sparisjóðakerfið. Stóru sparisjóðirnir lánuðu talsvert til hlutabréfakaupa en margir þeirra minni lánuðu nánast ekkert til slíkra hluta. Lán sem veitt eru með veði í skráðum hlutabréfum geta verið afar áhættusöm þar sem gengi hlutabréfanna getur breyst mikið með litlum fyrirvara. Áhættan er enn meiri ef lánin eru veitt einkahlutafélögum með lágmarks eigið fé, en talsvert var um slík lán í úrtakinu sem rannsóknarnefndin skoðaði, sérstaklega hjá stærri sparisjóðum. Það var þó ekki algilt að lán til hlutabréfakaupa væru eingöngu tryggð með veði í hlutabréfunum sjálfum, heldur komu þar einnig til fasteignaveð eða handveð í innistæðum á bankareikningi. Þess voru einnig dæmi að hlutabréf væru tekin að veði fyrir lánum sem voru veitt til annars en hlutabréfakaupa. Einnig tíðkaðist hjá sparisjóðunum að taka veð í hlutum í óskráðum félögum en virði þeirra var matskennt og veðhlutföllin ónákvæm.

Það sama gilti um lán gegn veði í hlutabréfum og um fasteignalánin, að misjafn var milli sparisjóða hvort reglur væru settar um lágmarksveðhlutfall lánanna. Í Byr sparisjóði var hámarksveðsetningarhlutfall í skráðum bréfum 60%, en almenna reglan var sú að lána ekki gegn handveði í óskráðum hlutabréfum. Slík lán þurfti lánanefnd eða sparisjóðsstjóri að samþykkja og var miðað við að veðsetningarhlutfall þeirra væri 30% af matsverði. Sömu ákvæði var að finna í útlánareglum Sparisjóðs Reykjavíkur og nágrennis frá árinu 2004 en að auki var þar kveðið á um að seljanleg hlutabréf í óskráðum en traustum innlendum fyrirtækjum mætti veðsetja allt að 50% af matsverði. Í reglum sama sparisjóðs frá ágúst 2007 mátti hámarksveðsetning skráðra bréfa vera 80% og óskráðra en seljanlegra bréfa 60%. Lánanefnd hafði þó heimild til að samþykkja önnur veðhlutföll.

Í reglum Sparisjóðsins í Keflavík um útlánaheimildir sagði að almennt skyldi taka tryggingar í auðseljanlegum verðmætum og að útlán til lengri tíma en fimm ára skyldu að jafnaði vera með tryggingum sem væru verðmeiri en skuldin sjálf.38 Í útlánareglum Sparisjóðs Mýrasýslu frá 2005 sagði að að jafnaði skyldu teknar tryggingar fyrir lánveitingum í auðseljanlegum eignum en engin sérstök ákvæði voru um veð í hlutabréfum. Í nýjum útlánareglum Sparisjóðs Mýrasýslu frá október 2008 var ekki getið um veðhlutfall lána með veði í hlutabréfum en tiltekið að lánanefnd þyrfti að samþykkja önnur veð en þau sem fjallað var um í reglunum. Í útlánareglum minni sparisjóða voru ekki sérstök ákvæði um veðhlutföll lána með veði í hlutabréfum, en þar var kveðið á um að taka skyldi fullnægjandi tryggingar í auðseljanlegum eignum.

Lánastofnunum ber að senda Fjármálaeftirlitinu ársfjórðungslega yfirlit yfir útlán með veði í hlutabréfum og öðrum verðbréfum á grundvelli almennra ákvæða um skyldur og heimildir Fjármálaeftirlitsins í lögum nr. 87/1998 um opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi og lögum nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki. Í töflu 8 er samantekt á útlánum sparisjóðanna með veði í hlutabréfum, byggð á skýrslum þeirra til Fjármálaeftirlitsins. Hjá hverjum sparisjóði er tilfærð heildarfjárhæð útlána með veði í hlutabréfum og hlutfall þeirra af heildarútlánum sparisjóðsins í árslok 2005 til ársloka 2008. Margir minni sparisjóðanna lánuðu ekkert gegn veði í hlutabréfum en hlutfall slíkra lána var hæst hjá Sparisjóði Strandamanna, eða 4–5% á árunum 2005–2007 en 25% árið 2008.39 Í stærri sparisjóðunum var mun meira um að lánað væri gegn veði í hlutabréfum og var hlutfall slíkra lána hjá stærri sjóðunum hæst hjá Sparisjóði Mýrasýslu. Stærstu sparisjóðirnir fjórir lánuðu til kaupa á hlutabréfum í Icebank hf. síðla árs 2007 og varð það til þess að hækka hlutfall lána með veði í hlutabréfum hjá þeim öllum nema Sparisjóði Reykjavíkur og nágrennis.

Í greiningu rannsóknarnefndarinnar á úrtaki stærstu útlána Sparisjóðs Reykjavíkur og nágrennis, Sparisjóðsins í Keflavík, Byrs sparisjóðs og Sparisjóðs Mýrasýslu fundust dæmi þess að lánað væri til kaupa á hlutabréfum, oft til félaga með takmarkaða ábyrgð, með 100% veðsetningarhlutfalli í hinum keyptu bréfum. Hlutabréfin voru allt frá því að vera skráð hlutabréf í viðskiptabönkunum til hlutabréfa í óskráðum félögum með enga rekstrarsögu, oft einkahlutafélögum með aðeins 500 þúsund króna lágmarks hlutafé. Í flestum tilvikum urðu hlutabréfin verðlaus haustið 2008 og töpuðu sparisjóðirnir miklu fé vegna þessara lána.

Í eftirlitsskýrslum Fjármálaeftirlitsins var farið sérstaklega yfir útlán með veði í verðbréfum hjá samstæðu Sparisjóðs Reykjavíkur og nágrennis og þar var gerð alvarleg athugasemd við mikla útlánaáhættu vegna slíkra lána. Bent var á að jafnframt því sem slíkum lánum fjölgaði, færi tryggingaþekja vegna þeirra almennt lækkandi, sem væri ekki æskilegt. Fjármálaeftirlitið lagði áherslu á að líta bæri þröngt á undanþágur frá þeirri reglu lánareglnanna að almennt ætti ekki að veita lán með handveði í óskráðum hlutabréfum.40 Sambærilegar athugasemdir komu fram í eftirlitsskýrslu um Sparisjóð Mýrasýslu og benti Fjármálaeftirlitið sérstaklega á að tryggingaþekja lána með veði í hlutabréfum hefði lækkað talsvert á milli ára. Það hefði slæm áhrif á gæði útlána og væri ljóst að áhætta í þessum lánaflokki hefði aukist með auknum óstöðugleika á hlutabréfamörkuðum. Í sömu skýrslu kom fram að 98% þeirra lána, sem tryggð voru með veði í hlutabréfum, voru lán þar sem veðandlagið voru óskráð bréf.41

Fjármálaeftirlitið skoðaði ítarlega lán með veði í hlutabréfum hjá Sparisjóðnum í Keflavík á árinu 2008.42 Útlán til viðskiptavina með veði í skráðum og óskráðum hlutabréfum námu 5.532 milljónum króna 31. maí 2008, sem jafngilti um 8% af heildarútlánum samstæðunnar. Þar af voru lán með veði í skráðum hlutabréfum 8% en 92% með veði í óskráðum bréfum. Fjármálaeftirlitið taldi þetta vera fullhátt hlutfall, sérstaklega í ljósi mikillar óvissu um verðmat og seljanleika óskráðra bréfa. Eins taldi Fjármálaeftirlitið að tryggingaþekjan væri óviðunandi, enda mætti hún almennt ekki vera lægri en 125% fyrir skráð bréf.43

Í athugasemdum Fjármálaeftirlitsins sagði:

Fram kemur í gögnum frá SpKef að virði trygginga m.v. 31. maí 2008 sé samtals 6.330 m.kr. vegna útlána að fjárhæð 5.532 m.kr. m.v. sömu dagsetningu. Skráð virði trygginga í óskráðum hlutabréfum er um 5.807 m.kr. Þegar rýnt er í hvað stendur að baki sem trygging kemur í ljós að lán með veði í Icebank er einskis virði og hlutabréf í sparisjóðnum sjálfum eru of hátt metin. Tryggingastaða SpKef vegna lána með veði í hlutabréfum er því í raun ofmetin og ljóst að einhver útlánatöp kunna að verða hjá sparisjóðnum.

Sé litið til stóru sparisjóðanna er ljóst að fjárhagur þeirra beið verulega hnekki vegna lána með veði í hlutabréfum. Lánunum má gróflega skipta í þrennt: lán til kaupa á bréfum í skráðum félögum, lán til kaupa á stofnfjárbréfum eða hlutabréfum í Icebank hf. og lán til kaupa á rekstri eða einkahlutafélögum með veði í hlutum í félögunum. Það heyrði til undantekninga að slík lán væru veitt einstaklingum eða væru í íslenskum krónum, og því var áhættan af þeim ekki eingöngu markaðsáhætta vegna verðbreytinga á hlutabréfamörkuðum, heldur einnig gengisáhætta og mikil mótaðilaáhætta. Mat á virði skráðra bréfa er einfaldara en á óskráðum bréfum og veðtakan sömuleiðis. Skráð bréf eru veðsett með rafrænum hætti og utanumhald mun einfaldara en um óskráð bréf. Mat á óskráðum bréfum byggir á væntingum um rekstur viðkomandi félags, og þótt sama gildi um skráð bréf, er verðmyndun þeirra byggð á væntingum mun fleiri aðila og því gagnsærri og betri. Óskráð bréf eru metin af mun færri aðilum, yfirleitt bara einum, og eins víst að aðrir matsaðilar kæmust að ólíkri niðurstöðu.

9.4.3 Lán til kaupa á stofnfjárbréfum

Samkvæmt 3. mgr. 13. gr. 87/1985 var sparisjóðum óheimilt að taka eigin stofnfjárbréf að veði til tryggingar skuldbindingum gagnvart sparisjóðnum. Ákvæðið var í rauninni óþarft, en eflaust sett til áréttingar á ákvæði 2. mgr. 9. gr. laganna, þar sem sagði að veðsetning stofnfjárhlutar í sparisjóði væri óheimil. Með 18. gr. laga nr. 43/1993 var áréttað að veðsetning stofnfjárbréfa sparisjóða væri áfram óheimil. Í 5. mgr. 46. gr. laganna sagði svo að ef sparisjóður veitti lán til kaupa á eigin stofnfjárhlutum fyrir hærri fjárhæð en 5% af heildarfjárhæð stofnfjár í hlutaðeigandi stofnun, skyldu settar óumdeildar tryggingar fyrir lánum sem væru umfram það hlutfall. Þar sem óheimilt var að veðsetja stofnfjárbréfin sjálf verður ekki fullyrt um hvort þau hefðu getað talist til óumdeildra trygginga. Þá var ekkert sagt um það hvort leggja yrði fram tryggingar fyrir lánum sem voru undir fyrrnefndum 5% mörkum.

Lögin frá 1993 voru endurútgefin sem lög nr. 113/1996, sbr. lög nr. 39/1996.44 Með þeim lögum voru ekki gerðar breytingar sem vörðuðu veðsetningu hlutafjár eða stofnfjár. Samkvæmt 1. mgr. 29. gr. laga nr. 161/2002 máttu fjármálafyrirtæki ekki eiga eða taka að veði, nema með samþykki Fjármálaeftirlitsins, eigin hlutabréf sem næmi hærri fjárhæð að nafnverði en 10% af nafnverði innborgaðs hlutafjár fyrirtækisins. Í þessu ákvæði var hvergi minnst á stofnfé og í athugasemdum með frumvarpi til laganna var aðeins á það minnst um 1. mgr. 29. gr. að ákvæðið væri hliðstætt 13. gr. eldri laga, nr. 113/1996, en þar voru ákvæði um að viðskiptabönkum væri óheimilt að eiga sjálfir eða taka að veði meira en 10% af eigin hlutafé.45 Í 2. mgr. 29. gr. sagði síðan að ef fjármálafyrirtæki veitti lán í tengslum við hlutafjárútboð til kaupa á eigin hlutabréfum eða stofnfjárhlutum fyrir hærri fjárhæð en 5% af nafnverði heildarhlutafjár eða stofnfjár hlutaðeigandi fyrirtækis, skyldu settar traustar tryggingar fyrir lánum sem væru umfram það hlutfall. Enda þótt ákvæðið byggði á 5. mgr. 46. gr. eldri laga, þá var með nýju lögunum bætt inn orðalaginu „í tengslum við hlutafjárútboð“ sem þótti „eðlilegra með hliðsjón af upphaflegum tilgangi ákvæðisins“ eins og sagði í athugasemdum með frumvarpinu um ákvæðið.46 Það liggur í hlutarins eðli að hlutafjárútboð getur ekki átt við stofnfé.

Í skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis um aðdraganda og orsakir falls íslensku bankanna 2008 er að finna umfjöllun um lán gegn veði í eigin hlutabréfum og því álitaefni velt upp hvort fjármálafyrirtækjum hafi borið að draga slík lán frá eigin fé sínu. Taldi rannsóknarnefndin veigamikil rök hníga að því að svo hefði átt að gera samkvæmt reglu 5. mgr. 84. gr. laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki.47 Með lögum nr. 75/2010, um breytingu á lögum nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki, var lagt fortakslaust bann við lánveitingum gegn veði í eigin hlutabréfum eða stofnfjárbréfum.

Áhættan sem getur skapast ef sparisjóður lánar gegn handveði í eigin stofnfjárbréfum er meiri en af öðrum óskráðum bréfum, því greiðslugeta lántakanda verður háð verðmæti lánveitanda. Greiðslugeta og virði undirliggjandi tryggingar voru því mjög háð gengi og afkomu sparisjóðanna. Meðal annars vegna þessa var lengi bannað með lögum að sparisjóður tæki veð í eigin stofnfjárbréfum. Þá má einnig álykta að lánveitandi gangi síður að veðinu þegar um er að ræða bréf í honum sjálfum.

Nokkuð var um að sparisjóðirnir lánuðu til kaupa á stofnfjárbréfum, einkum á árunum 2006 og 2007, og var það gjarnan þáttur í aðgerðum til að auka vægi stofnfjár, meðal annars í kringum stofnfjáraukningar með stofnfjárútboði. Algengt var að sparisjóðirnir lánuðu til kaupa á stofnfjárbréfum gegn veði í bréfunum sjálfum og var bæði lánað til kaupa á eigin bréfum og til kaupa á stofnfjárbréfum í öðrum sparisjóðum. Í mörgum tilvikum voru einnig settar aðrar tryggingar en stofnfjárbréfin sjálf.

Lán vegna kaupa á stofnfjárbréfum voru umfangsmeiri hjá stærri sparisjóðunum, en nokkrir minni sparisjóðir á landsbyggðinni lánuðu einnig til stofnfjárkaupa. Rannsóknarnefndin kallaði eftir sundurliðun á útlánum til kaupa á stofnfjárbréfum eða með veði í stofnfjárbréfum frá öllum sparisjóðunum á árunum 2005–2010. Nokkrir sparisjóðir lánuðu þó ekkert til kaupa á stofnfjárbréfum og tóku ekki stofnfé að veði. Það voru Afl sparisjóður, Sparisjóður Höfðhverfinga, Sparisjóður Þórshafnar, Sparisjóður Svarfdæla, Sparisjóður Suður-Þingeyinga, Sparisjóður Mýrasýslu og Sparisjóður Ólafsfjarðar. Sparisjóður Norðfjarðar veitti eitt lán upp á 3,8 milljónir króna til stofnfjárkaupa vegna stofnfjáraukningar í sparisjóðnum í lok árs 2007. Sparisjóður Strandamanna lánaði tæpar 16 milljónir króna í desember 2007 til stofnfjárkaupa vegna stofnfjáraukningar hjá sparisjóðnum og voru lánin að hluta til tryggð með veði í stofnfjárbréfunum sjálfum. Sparisjóður Vestmannaeyja bauð ekki upp á sérstök lán vegna stofnfjáraukningar í desember 2007, en stofnfjáreigendur gátu fengið lán hjá sjóðnum, hver á sínum forsendum. Þannig voru veitt lán að fjárhæð 95,6 milljónir króna þar sem óskað var eftir að handveð í stofnfjárbréfum í sparisjóðnum væru sett til viðbótar venjulegum greiðslutryggingum lántaka.48 Við stofnfjáraukningu í Sparisjóði Bolungarvíkur í desember 2007 lánaði sparisjóðurinn 97 aðilum samtals 209 milljónir króna til þriggja ára með veði í stofnfjáreign viðkomandi. Sparisjóður Vestfirðinga lánaði 150 milljónir króna til kaupa á stofnfé í stofnfjáraukningu sparisjóðsins á árinu 2007.49

Þátttakendur í stofnfjárútboði Sparisjóðs Reykjavíkur og nágrennis í desember 2006 voru 1.191, bæði einstaklingar og lögaðilar. Af þeim fjármögnuðu 238 aðilar kaup sín með lánum frá sparisjóðunum. Bókfærð staða lánanna nam samtals rúmum 2.324 milljónum króna 31. desember 2006.50 Í langflestum tilvikum voru hin keyptu stofnfjárbréf sett til tryggingar lánunum. Af þeim 23 aðilum í þessum hóp sem fengu lán yfir 20 milljónir króna á sama tíma og þeir keyptu stofnfjárbréf í sparisjóðnum, lögðu 20 hin keyptu bréf að veði til tryggingar láninu frá sparisjóðnum. Þar af voru sjö aðilar með aðrar tryggingar auk stofnfjárbréfanna. Aðeins tveir aðilar voru einungis með aðrar tryggingar en stofnfjárbréfin fyrir lánunum, en nb.is-sparisjóður hf. var ekki með neinar tryggingar fyrir sínu láni.

Í september 2007 hafði Sparisjóður Reykjavíkur og nágrennis tekið að handveði eigin stofnfjárbréf fyrir um 14% af framreiknuðu heildarnafnverði stofnfjárbréfa í sparisjóðnum. Fjármálaeftirlitið framkvæmdi vettvangsathugun á útlánaáhættu sparisjóðsins haustið 2007 og benti á í skýrslu sinni að það teldi sparisjóðinn ekki fara að lögum með þessu og að grípa þyrfti til viðeigandi aðgerða, með hliðsjón af 10. gr. laga um opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi nr. 87/1998 og 29. gr. laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki. Samkvæmt skýrslunni hafði sparisjóðurinn einnig veitt lán til kaupa á eigin stofnfjárbréfum sem námu rúmum 6% af framreiknuðu heildarnafnverði stofnfjárbréfa í sparisjóðnum, en samkvæmt 2. mgr. 29. gr. laga um fjármálafyrirtæki bar fjármálafyrirtæki að taka traustar tryggingar fyrir lánum til kaupa á eigin hlutabréfum ef umrædd lán færu umfram 5% af nafnverði heildarhlutafjár eða stofnfjár viðkomandi fyrirtækis. Þá taldi Fjármálaeftirlitið að áðurnefnd veð í stofnfjárbréfum færu ekki saman við þágildandi lánareglur Sparisjóðs Reykjavíkur og nágrennis en samkvæmt þeim var almenna reglan sú að veita ekki lán með handveði í stofnfjárbréfum sparisjóða. Fjármálaeftirlitið taldi mikilvægt að Sparisjóður Reykjavíkur og nágrennis myndi „íhuga gaumgæfilega“ þá auknu áhættu sem fælist í því að lána gegn handveði í eigin stofnfjárbréfum þar sem greiðslugeta lántakenda yrði háð verðmæti lánveitanda.51 Sambærilegar athugasemdir komu fram í skýrslu Fjármálaeftirlitsins um útlánaáhættu hjá Sparisjóðnum í Keflavík, en eftirlitið taldi að lánaáhætta sparisjóðsins tengd eigin stofnfjárbréfum væri veruleg sem hlutfall af eiginfjárgrunni sparisjóðsins.52

Í skýrslu Fjármálaeftirlitsins um útlánaáhættu hjá Byr sparisjóði, sem gefin var út í október 2007, sagði að sparisjóðurinn hefði tjáð Fjármálaeftirlitinu að ekki hefði verið lánað til kaupa á stofnfjárbréfum, hvorki með né án veða. Fjármálaeftirlitið bað því sparisjóðinn ekki um nein yfirlit varðandi slík útlán. Hins vegar kom í ljós við yfirferð eftirlitsins á lánasamningi við Hraunbjarg ehf. að um væri að ræða fyrirgreiðslu til kaupa á stofnfjárbréfum í Sparisjóði vélstjóra, sem hafði síðar sameinast Byr sparisjóði. Í athugasemdum sparisjóðsins við drög að skýrslu Fjármálaeftirlitsins kom fram að starfsmaður sparisjóðsins hefði misskilið fyrirspurn Fjármálaeftirlitsins.53 Rannsóknarnefndin fann einnig nokkur dæmi um lán til kaupa á stofnfjárbréfum í Byr sparisjóði eftir útgáfu skýrslu Fjármálaeftirlitsins. Hinn 20. september 2007 óskaði eignarhaldsfélag eftir 100% láni til kaupa á stofnfjárbréfum í Byr sparisjóði, að fjárhæð 70,6 milljónir króna til fimm ára með afborgun „einu sinni á ári, kringum arðgreiðslu“.54 Lánabeiðnin var samþykkt gegn veði í stofnfjárbréfum, þótt fyrir lægju vanskil vegna annarra lána eignarhaldsfélagsins. Í september 2007 óskaði eigandi félagsins eftir framlengingu á tveimur gjaldföllnum lánum um eitt ár. Þessi lánsbeiðni var samþykkt gegn veði í stofnfjárbréfum. Lánað var með 100% veðsetningu stofnfjárbréfa en samhliða lánveitingunni lagði félagið fram veð í 37,2 milljónum nafnverðseininga í stofnfjárbréfum í Byr sparisjóði. Framangreind lán voru endurfjármögnuð með einu láni 30. október 2007, en þá voru tvö af þremur lánum eignarhaldsfélagsins komin í vanskil og einu nýlega skilmálabreytt. Nýja lánið var upp á 600 milljónir króna og veitt til eins árs. Exeter Holdings ehf. fékk lán hjá Byr sparisjóði haustið 2008 upp á rúman milljarð króna gegn veði í stofnfjárbréfum í Byr sparisjóði með 100% veðsetningu. Lánið var veitt til kaupa á stofnfjárbréfum af starfsmönnum sparisjóðsins, en þeir höfðu fjármagnað kaup sín með lánum frá MP Fjárfestingarbanka hf.55

Samkvæmt upplýsingum frá Landsbankanum hf. um lán Sparisjóðsins í Keflavík gegn veði í stofnfjárbréfum námu slík lán sem veitt voru frá og með árinu 2006 samtals 2,3 milljörðum króna.56 Hér er um að ræða höfuðstól veittra lána en ekki stöðu þeirra á ákveðnum tímapunkti. Í skýrslu Fjármálaeftirlitsins um vettvangsathugun hjá Sparisjóðnum í Keflavík frá árinu 2008 var gerð úttekt á lánum til kaupa á stofnfjárbréfum.57 Var almennt gagnrýnt að Sparisjóðurinn í Keflavík lánaði fé til stofnfjárkaupa gegn veði í bréfunum sjálfum:

Lán með veði í óskráðum hlutabréfum nema um 5.807 m.kr. Um 2.200 m.kr. eða 38% af þeim lánum er með veði í sparisjóðnum sjálfum. Mikilvægt er fyrir SpKef að íhuga gaumgæfilega þá auknu áhættu sem felst í því að lána gegn handveði til kaupa á eigin stofnfjárbréfum þar sem greiðslugeta lántakenda er háð verðmæti lánveitanda. Lánaáhætta sparisjóðsins tengd eigin stofnfjárbréfum telst veruleg í hlutfalli af eiginfjárgrunni sparisjóðsins.58

Sparisjóðurinn í Keflavík gerði athugasemd við þessa ályktun Fjármálaeftirlitsins 19. ágúst 2008 og sagði að þær 2.200 milljónir króna sem vísað væri til í þessu sambandi endurspegluðu ekki nafnverð stofnfjár. Fjármálaeftirlitið ítrekaði þá að athugasemdin sneri að því að hlutfall lána með veði í eigin stofnfjárbréfum væri of hátt. Fjármálaeftirlitið gerði einnig úttekt á lánum til ýmissa aðila gegn veði í stofnfjárbréfum í Sparisjóðnum í Keflavík og gerði athugasemd við að tryggingastaða væri ónóg og að of hátt verð væri notað við útreikninga á virði tryggingarandlaga. Enn fremur taldi Fjármálaeftirlitið að tryggingastaða Sparisjóðsins í Keflavík vegna lána með veði í stofnfjárbréfum Byrs sparisjóðs og Sparisjóðs Reykjavíkur og nágrennis væri ónóg.59 Meðal stærstu lána Sparisjóðsins í Keflavík til kaupa á stofnfé var lán til Miðvarðar ehf., eignarhaldsfélags í eigu starfsmanna sparisjóðsins sjálfs. Félagið fékk einnig fimm lán í erlendum myntum hjá Byr sparisjóði, að fjárhæð rúmar 250 milljónir króna, á árunum 2006 og 2007 til að fjármagna kaup á stofnfjárbréfum í Sparisjóðnum í Keflavík, en til tryggingar lánunum voru veð í keyptum bréfum.

Ljóst er að töluvert var um að sparisjóðir lánuðu til kaupa á stofnfjárbréfum gegn veði í bréfunum sjálfum. Þegar verðmæti sparisjóðs lækkaði varð veðstaðan verri og erfitt fyrir sparisjóðinn að ganga að hlutum í sjálfum sér, einkum þar sem slíkar aðgerðir hefðu getað leitt til enn frekari lækkunar á verðmæti sparisjóðsins.

9.4.4 Markaðssvæði sparisjóðanna

Í stofnsamþykktum margra sparisjóða voru ákvæði um að þeir skyldu stuðla að vexti og viðgangi nærumhverfisins. Í stofnsamþykktum Sparisjóðs Ólafsfjarðar kom til að mynda fram að hann væri stofnaður til að geyma og ávaxta peninga og væri ætlað að greiða fyrir viðskiptum, sérstaklega fyrir íbúa Ólafsfjarðar.60 Sams konar ákvæði var í stofnsamþykktum Sparisjóðs Norðfjarðar þar sem sagði að sparisjóðurinn hefði verið stofnaður til að geyma og ávaxta fyrir íbúa Norðfjarðar peninga, þó hann tæki einnig geymslufé frá utansveitarmönnum.61 Frá árinu 2000 var töluvert um það rætt meðal forsvarsmanna sparisjóðanna hvort landið allt væri eitt markaðssvæði fyrir sparisjóðina eða hvort hægt væri að afmarka markaðssvæðin eitthvað frekar.62 Nokkrir sparisjóðir leituðu einnig út fyrir íslenska markaðinn með þátttöku í erlendum verkefnum, auk þess sem Sparisjóður Reykjavíkur og nágrennis opnaði skrifstofu í Berlín. Í samþykktum sparisjóðanna frá árinu 2000 var yfirleitt ekki að finna nein ákvæði um markaðssvæði eða stuðning við nærumhverfi, en með lögum nr. 76/2009 var sparisjóðum gert skylt að skilgreina samfélagslegt hlutverk sitt í samþykktum. Í útlánareglum sparisjóðanna var fátítt að kveðið væri á um að lána til nærsamfélagsins. Þó má finna vísi til þess, til dæmis hjá Sparisjóðnum í Keflavík þar sem sagði í 2. gr. útlánareglna frá árinu 2005: „Leiðarljós sparisjóðsins er að á Suðurnesjum sé gott mannlíf, almenn velmegun og blómstrandi atvinnulíf.“

Í skýrslum sínum fyrir rannsóknarnefndinni lögðu sparisjóðsstjórar í sparisjóðum á landsbyggðinni mikla áherslu á staðbundna þekkingu sparisjóðsins á fyrirtækjum:

Þessi staðbundna þekking á fyrirtækjum, ég get nefnt dæmi um bátasmíði á Siglufirði sem hefur verið að smíða plastbáta fyrir Noreg og hafa verið að byggja báta líka hérna innanlands. Í hruninu eru þeir með samning við Norðmenn og reglan er sú að þeir þurfa að borga 10 prósent inn á bátinn og Norðmennirnir hringdu og sögðu: „Við treystum því ekki að þið getið klárað þennan bát og við erum ekki að fara að millifæra þessi 10 prósent.“ Ég fór í þetta mál og talaði við Norðmennina og fullvissaði þá um það að sparisjóðurinn myndi standa á bak við og styðja þá í því að byggja þennan bát. Þetta samtal varð þá til þess að þeir komu til Íslands og niðurstaðan varð sú að þetta hélt áfram og smíðin kláraðist og allt í góðu með það. Ef þetta hefði verið banki í Reykjavík í Borgartúninu, hann hefði aldrei nokkurn tímann gert eitthvað svona. Þetta eru kannski margir litlir þættir og í dag er þetta bara blómlegt fyrirtæki og gengur vel.63
Málið var að við vorum á þessum tíma [2007] lítið sveitafyrirtæki á takmörkuðu markaðssvæði með efnahagsreikning upp á 1,6 milljarða króna. Sparisjóðurinn var á sínum tíma stofnaður til að þjóna nærsamfélaginu.64
Sparisjóðurinn hafði ekki skráðar reglur um útlánahlutföll atvinnugreina á þessum tíma og mótuðust þessi útlánahlutföll því meira af eftirspurn. Erfitt er á litlu markaðssvæði að ná fram fyrirfram mótuðum hlutföllum hvað þetta varðar.65

Hjá nokkrum forsvarsmönnum sparisjóðanna kom einnig fram að hlutverk sparisjóðanna væri að lána til fyrirtækja í heimabyggð til þess að skapa þar atvinnu og viðskipti og efla þannig samfélagið.66 Í flestum minni sparisjóðanna voru lán í úrtaki rannsóknarnefndarinnar veitt til starfsemi og uppbyggingar á svæðinu, þ.e. stærstu lánin og þau með mestu afskriftirnar. Þótt þekking sparisjóðanna á nærumhverfi sínu hafi ef til vill nýst við mat á greiðslugetu lántaka í upphafi, gat hún ekki tryggt að lán töpuðust ekki. Gert er ráð fyrir hóflegu útlánatapi í bankarekstri, rétt eins og reiknað er með afföllum vegna vöruskemmda í verslanarekstri. Minni sparisjóðirnir skiptust nokkurn veginn í tvo hópa í þessu tilliti: þá sem töpuðu nær eingöngu vegna lánveitinga til einstaklinga og fyrirtækja á starfssvæði sínu og þá sem töpuðu meira á lánum sem veitt voru fyrir tilstilli Sp-ráðgjafar ehf. en lánum í heimabyggð.

Í Sparisjóði Ólafsfjarðar, Afli sparisjóði, Sparisjóði Svarfdæla, Sparisjóði Höfðhverfinga, Sparisjóð Suður-Þingeyinga, Sparisjóði Norðfjarðar og Sparisjóði Vestmannaeyja voru stærstu útlánatöp vegna lána til fyrirtækja á svæðinu. Í Sparisjóði Ólafsfjarðar voru þau vegna útgerðarfélaga í nágrenni sparisjóðsins og í Afli varð mest tap af lánum til tveggja útgerðarfyrirtækja á starfssvæðinu og einu láni til fasteignafélags utan starfssvæðis sparisjóðsins. Sparisjóður Svarfdæla tapaði um 80 milljónum króna vegna ábyrgðar sem veitt var vegna lána Kistu – fjárfestingarfélags ehf. en þrjú stærstu útlánatöp til viðbótar voru vegna lánveitinga til tveggja útgerðarfélaga á svæðinu og eins fyrirtækis til kaupa á óskráðum hlutabréfum. Helstu töp Sparisjóðs Höfðhverfinga voru vegna afsláttakortafyrirtækis á Akureyri og vegna skulda fimm einstaklinga67 sem tengdir voru fjölskylduböndum og höfðu tengsl við starfssvæði sparisjóðsins en bjuggu utan þess. Þau lán sem Sparisjóður Suður-Þingeyinga tapaði mest á voru veitt til ferðaþjónustu á starfssvæði sparisjóðsins og til uppbyggingar veitingasölu og ferðaþjónustu á Egilsstöðum. Helstu útlánatöp Sparisjóðs Norðfjarðar voru vegna útgerðarfélags, vélaverkstæðis og pípulagningafyrirtækis á starfssvæði sparisjóðsins. Sparisjóður Vestmannaeyja tapaði mest á tveimur útgerðarfélögum í Eyjum og lánum til Eden í Hveragerði.

Sparisjóður Strandamanna, Sparisjóður Bolungarvíkur og Sparisjóður Þórshafnar og nágrennis töpuðu hins vegar einkum á útlánum sem veitt voru fyrir tilstilli Sp-ráðgjafar ehf. Önnur útlánatöp Sparisjóðs Bolungarvíkur voru vegna útgerðarfélags og ferðaþjónustufyrirtækis á svæðinu, auk félags sem fékk lán til að kaupa óskráð bréf af sparisjóðnum sjálfum. Þá tapaði Sparisjóður Strandamanna mest á lánum til tveggja útgerðarfélaga og félagasamtaka í landbúnaði á starfssvæði sparisjóðsins, að undanskildum lánum sem veitt voru fyrir milligöngu Sp-ráðgjafar.

Við yfirferð rannsóknarnefndarinnar á útlánasöfnum sparisjóðanna kom berlega í ljós að lán sem veitt voru fyrir tilstilli Sp-ráðgjafar ehf. voru einna verst. Í úrtaki rannsóknar-nefndarinnar námu lán sem veitt voru fyrir milligöngu Sp-ráðgjafar ehf. samtals 1,4 milljörðum króna68 og töpuðust um 80–90% af þeim.69 Sp-ráðgjöf ehf. var stofnuð 2007 af Sparisjóði Húnaþings og Stranda (25%), Sparisjóði Vestfirðinga (25%), Sparisjóði Bolungarvíkur (25%), Sparisjóði Þórshafnar og nágrennis (15%) og Sparisjóði Strandamanna (10%).70 Sp-ráðgjöf ehf. var til húsa að Engjateigi 17 í Reykjavík en starfsemi félagsins fólst í þjónustu við viðskiptavini eigenda sinna á höfuðborgarsvæðinu. Félagið sérhæfði sig í fjármögnun fyrirtækja og kom á viðskiptum milli sparisjóðanna og lántakenda í Reykjavík.71 Sp-ráðgjöf ehf. veitti engin lán en sparisjóðirnir sem áttu félagið veittu lánin í sameiningu, sem nokkurs konar sambankalán. Framkvæmdastjóri Sp-ráðgjafar ehf. var Kristján Valtýr K. Hjelm, fyrrverandi sparisjóðsstjóri Sparisjóðs Hólahrepps. Þeir sparisjóðsstjórar sem rannsóknarnefndin tók skýrslu af og tóku þátt í samstarfinu um Sp-ráðgjöf ehf. útskýrðu fyrir nefndinni hvers vegna þeir hefðu ákveðið að vera hluti af verkefninu. Hjá þeim kom meðal annars fram að Fjármáleftirlitið hefði gert athugasemd við samþjöppun útlána sparisjóða í einni atvinnugrein. Þar sem fá tækifæri hefðu gefist í heimabyggð til þess að ráðast í verkefni í öðrum atvinnugreinum, hafi orðið úr að veita lán fyrir tilstilli Sp-ráðgjafar ehf.:

Það var ekki vel séð að ég mundi auka mikið í sjávarútveginum hjá Fjármálaeftirlitinu. […] Og ég fékk tiltal, munnlegt, þegar ég var kominn einu sinni upp í 50% af heildarútlánum í sjávarútvegi.72

Möguleikar sparisjóðanna til lánveitinga takmarkast af eiginfjárgrunni þeirra. Samkvæmt reglum um stórar áhættuskuldbindingar er stökum útlánum og heildarútlánasafninu settar ákveðnar skorður um hlutfall af eiginfjárgrunni. Sparisjóðir sem áttu mikið laust fé gátu því ekki alltaf lánað það út, bæði vegna þessara takmarkana og vegna lítilla tækifæra til útlána heima fyrir.73 Þá höfðu litlir sparisjóðir ekki fjárhagslega burði til að taka þátt í stærri lánum.

Það voru sveitabæir sem voru ekki í viðskiptum þegar ég kom inn af því að þeir voru orðnir of stórir. Sjóðurinn hafði ekki afl í að lána þeim, mönnum sem voru í of stórum fjárfestingum, til dæmis að kaupa róbóta.74

Í skýrslu fyrrverandi framkvæmdastjóra Sp-ráðgjafar ehf. fyrir rannsóknarnefndinni kom fram að sparisjóðirnir hafi með þátttöku í lánum fyrir tilstilli félagsins getað fengið hlutdeild í stærri lánum en þeir gátu veitt hver fyrir sig.75 Nálægð við viðskiptavini í Reykjavík hafði einnig sitt að segja:

Við komum kannski á öðrum forsendum heldur en hinir – öðruvísi nálgun sem við vildum hafa á því. Við tókum þátt en auðvitað hefðum við átt að vera stærstir í því, við vorum stærsti sjóðurinn, en við reyndum að takmarka mjög þátttöku okkar í því af því að við vildum ekki vera að þenja okkur mikið út. Það var stefnan, að vera ekkert með mikla útlánaþenslu á hverju ári. Við vorum í byrjun árs 2006 með 1.426 virka viðskiptamenn á höfuðborgarsvæðinu. Við vorum alltaf að spá í það hvernig við gætum nálgast þennan hóp betur, […] þó það hafi ekki verið meiningin með afgreiðslunni í Sp-ráðgjöf að menn kæmu inn af götunni, þá vildum við nálgast þennan hóp svolítið. Auðvitað vorum við líka að horfa til þess hvernig við gætum aukið innlán sjóðsins. Það var kannski meira hugsunin hjá okkur með Sp-ráðgjöf.76

Viðskiptavinir leituðu til Sp-ráðgjafar ehf. með beiðni um lán og félagið útbjó tilboð um fjármögnun. Sparisjóðirnir sem áttu félagið fengu kynningu á lánsbeiðninni og þeir sem höfðu áhuga á að lána tilkynntu um það. Lánsbeiðandi var svo boðaður á fund hjá Sp-ráðgjöf og farið yfir hvort tilskilin gögn væru til staðar. Þegar sparisjóðirnir samþykktu að lána fyrir verkefnum var einn sparisjóður í fyrirsvari fyrir láninu en hinir tóku þátt með ákveðnu hlutfalli af fjármögnuninni. Lántaki undirritaði því einn lánasamning við sparisjóðinn sem leiddi verkefnið, en samhliða gerðu hinir sparisjóðirnir aðildarsamninga við forystusparisjóðinn um fjármögnun þeirra á verkefninu. Sparisjóðirnir greiddu hlutdeild sína í fjármögnuninni inn á reikning sparisjóðsins sem var í fyrirsvari. Hann annaðist vörslu lánsins og innheimtu og greiddi hinum sjóðunum þeirra hlut af hverri greiðslu lántaka. Flestir sparisjóðanna samþykktu lánin eða aðildarsamningana á stjórnarfundum og gerðu grein fyrir lántakendum í ársfjórðungsskýrslum til Fjármálaeftirlitsins um stórar áhættuskuldbindingar ef svo bar undir. Sp-ráðgjöf ehf. hafði yfirleitt ekki frekari afskipti af lánunum eftir að þau voru veitt. Hver sparisjóður fékk rétt til trygginga og annarra réttinda samkvæmt lánasamningnum í samræmi við hlutdeild í heildarláninu.77 Sparisjóðirnir treystu á mat Sp-ráðgjafar ehf. á greiðslugetu lántaka, gæðum trygginga og hversu fýsilegt verkefnið væri:

Björn Torfason: Starfsmaður Sp-ráðgjafar [mat tryggingarnar] og við kannski treystum of mikið á hans ráðgjöf, svona eftir á að hyggja.
Spyrjandi: Svona í þessu ljósi, myndirðu telja að matið hefði að meira leyti farið fram hjá Sp-ráðgjöf frekar en hjá stjórnum og stjórnirnar hafi frekar afgreitt þau lán sem komu til þeirra frá Sp-ráðgjöf?
Björn Torfason: Já, það er alveg augljóslega þannig, allavega í okkar tilfelli.
Spyrjandi: Þannig að það hefur ekki verið lagt fram sjálfstætt mat á lánsbeiðendum eða hverju máli um sig, heldur bara frekar afgreitt? Ertu að segja það?
Björn Torfason: Ja, ég er svona að segja það.78

Aðrir vildu meina að jafnvel hefði verið betur staðið að lánveitingum fyrir tilstilli Sp-ráðgjafar ehf. en sparisjóðirnir hefðu sjálfir getað gert:

Gagnaöflunin var öll [í Sp-ráðgjöf] en endanleg ákvörðun um lánveitingu er náttúrulega sparisjóðsins og getur svo sem aldrei verið annað. Svo geta menn velt því fyrir sér hvort við hefðum átt að skoða þetta betur og hvort við hefðum komið auga á eitthvað sem þau komu ekki auga á. Ég dreg það í efa að svo hafi verið, mér dettur ekkert annað í hug en að þetta hafi verið vandlega unnið og það hafi verið þeirra mat því ég vissi að einhverjum verkefnum var hafnað. […] Ég held að [engin lán] hafi fengið jafn mikla og faglega umfjöllun því að nálægt þessu kom fjöldi fagfólks. Auðvitað er ekki hægt að víkja sér undan ábyrgð og við gerum það ekki en við getum ekki annað en borið traust til fagfólksins […] en ábyrgðin er náttúrulega okkar.79

Flest lánanna sem Sp-ráðgjöf ehf. hafði milligöngu um voru veitt á árinu 2007, en mörg þessara verkefna komu til Sp-ráðgjafar ehf. fyrir milligöngu Kontakt ehf. fyrirtækjaráðgjafar.80 Nær einungis var lánað í erlendri mynt og aðeins til fyrirtækja en ekki einstaklinga. Flest þessara lána sem voru í úrtaki rannsóknarnefndarinnar voru veitt til nýstofnaðra einkahlutafélaga til kaupa á rekstri í öðru félagi, og um var að ræða nánast 100% fjármögnun með 100% veðsetningarhlutfalli. Hin nýstofnuðu einkahlutafélög sameinuðust yfirtekna félaginu með öfugum samruna í kjölfar skuldsettrar yfirtöku. Eignir yfirtekna félagsins gátu rýrnað verulega sökum skuldsetningarinnar frá móðurfélaginu og varð hætta á að sjóðstreymi sameinaða félagsins nægði ekki til að greiða skuldirnar. Um þessar lánveitingar sagði fyrrverandi framkvæmdastjóri Sp-ráðgjafar ehf. í skýrslu hjá rannsóknarnefndinni:

Svona eftir á að hyggja þá voru þetta alverstu verkefnin. Þetta snerist um það að menn voru að kaupa fyrirtæki sem var búið að gíra upp í verði. Útreikningarnir frá þeim og ráðgjafafyrirtækjum og frá okkur snerust um það að sjóðsstreymið myndi standa undir öllum framtíðarkostnaði, vöxtur út í endalaust, með einhverjum lágmarks tvö, þrjú, fjögur, fimm prósent vöxtum á ári eða eitthvað slíkt í einhvern óákveðinn tíma, myndi standa undir öllum kostnaði. Eitthvað var nú um fasteignir í þessum pökkum, lager, en stór hluti var bara „goodwill“ vegna þess að fyrirtækið átti einhverja sögu, rekstrarsögu, en svo þegar á reyndi þá var þetta ekki neitt.81

Það mátti merkja talsverðan mun á þeim lánum sem sparisjóðirnir veittu fyrir tilstilli Sp-ráðgjafar ehf. og öðrum lánum þeirra. Afar sjaldgæft var að minni sparisjóðirnir veittu lán til sambærilegra verkefna og tækju jafn mikla áhættu í útlánum og í þessum lánum. Til dæmis voru þessi lán yfirleitt með hærra veðsetningarhlutfalli en annars tíðkaðist. Hjá þátttökusparisjóðunum sjálfum var nánast óþekkt í öðrum útlánum að veðsetningarhlutfall væri 100% við lánveitingu. Þeir sparisjóðir sem ekki tóku þátt í samstarfinu um Sp-ráðgjöf ehf. stóðu betur eftir fall bankanna, enda var tryggingastaða þar almennt betri vegna lána sem töpuðust. Starfsmaður Fjármálaeftirlitsins sem hafði með höndum eftirlit með minni sparisjóðunum sagði í skýrslu sinni fyrir rannsóknarnefndinni:

[S]umir voru varkárir og lánuðu innan sveitar en svo voru aðrir sem að voru að teygja sig, lánuðu til Reykjavíkur. Enda sögðum við við þá: „Af hverju heldurðu að þessir menn séu að koma úr Reykjavík? Af því að þeir fá ekki lán […]. Númer 1, 2 og 3, ekki lána út fyrir svæðið!“82

Hvað varðar stærri sparisjóðina fjóra, voru markaðsaðstæður Sparisjóðs Reykjavíkur og nágrennis og Byrs sparisjóðs ólíkar aðstæðum Sparisjóðs Mýrasýslu og Sparisjóðs Keflavíkur. Þótt sparisjóðir hafi lengi keppt við banka um viðskiptavini, þá var samkeppnin harðari á höfuðborgarsvæðinu. Í minni samfélögum er þekking á samborgurum meiri og áhersla sparisjóðanna á nálægð við kúnnann fær ef til vill betri hljómgrunn. Á höfuðborgarsvæðinu og í nágrenni við það var fjölbreyttara vöruúrval í bankaviðskiptum og eftir fleiri og fjölbreyttari viðskiptavinum að slægjast. Stjórnarformönnum og sparisjóðsstjórum minni sparisjóðanna varð tíðrætt um það í skýrslum fyrir rannsóknarnefndinni að heimabyggðin byði upp á einsleitt lánaumhverfi. Samkeppnin við bankana breyttist við einkavæðingu þeirra og sparisjóðirnir gáfu í til þess að halda í við þá:

Það verður nokkuð mikil breyting á viðskiptaumhverfinu þegar liggur ljóst fyrir að það eigi að einkavæða bankana og í kjölfar einkavæðingarinnar verður algjör umbylting á fjármálamarkaðnum. Bankarnir juku mikið styrk sinn á markaðnum samkeppnislega séð, þ.e.a.s. með auglýsingum um nýjar afurðir og nýja stefnu í verðlagningu og það verður til þess að enn einn stefnumótunarhópurinn er stofnaður til að reyna að bregðast við þessari auknu samkeppni. Bankarnir fóru að bjóða innlánsvexti sem við gátum ekki keppt við, þeir buðu útlánsvexti sem okkur leist ekkert á og gátum illa keppt við, þeir buðu erlend lán sem við höfðum aldrei boðið, og svo árið 2004 fóru þeir að bjóða íbúðalán á kjörum sem við sáum fram á að geta ekki keppt við.83

Eftir því sem leið á fyrsta áratug aldarinnar minnkaði vaxtamunurinn og sparisjóðirnir leituðu leiða til þess að auka tekjurnar. Stærri sparisjóðirnir sóttu fjármögnun milliliðalaust til banka erlendis, en höfðu áður stuðst við milligöngu Sparisjóðabankans í þeim efnum. Þannig nálguðust þeir ódýrara fjármagn og gátu boðið betri kjör á útlánum til viðskiptavina. Þeir tóku einnig þátt í lánaverkefnum sem skiluðu hærri vaxtatekjum en fólu að sama skapi í sér meiri áhættu. Þá var treyst á gengishagnað af fjáreignum til að styrkja afkomu margra sparisjóðanna. Fyrrverandi bankastjóri Sparisjóðabanka Íslands hf. lýsti því hvernig samkeppni og þrýstingur til að skila góðri afkomu hefði leitt til þess að bankinn hefði tekið meiri áhættu í útlánum en ella:

Kannski verður þetta alltaf þannig að þrýstingurinn á að skila góðri afkomu leiði til þess að það sé tekin meiri áhætta en ella. Ég held að það sé alveg ljóst þegar farið er yfir lánastarfsemi Sparisjóðabankans að hún var áhættusamari en lánastarfsemi flestra sparisjóðanna; flestra, en þó ekki allra, vegna þess að stóru sparisjóðirnir, SPRON og Byr, voru líka komnir í áhættusamari verkefni eins og til dæmis fasteignaverkefni innanlands og utan til þess einmitt að reyna að finna einhver útlánaverkefni sem gæfu þokkalega af sér.84

Markaðssvæði Sparisjóðs Reykjavíkur og nágrennis og Byrs sparisjóðs var fyrst og fremst höfuðborgarsvæðið, þótt Byr sparisjóður hafi sameinast Sparisjóði Norðlendinga 2008. Sparisjóður Reykjavíkur og nágrennis lánaði til fasteignakaupa og byggingaframkvæmda, bæði beint og í gegnum dótturfélag sitt, Frjálsa fjárfestingarbankann hf. Sparisjóðsstjóri sagði sjóðinn aðallega hafa lánað á höfuðborgarsvæðinu og reynt að lána lítið út á land. Þá hefði hann lítið vilja lána til sjávarútvegs eða landbúnaðar. Aðalstarfsumhverfi sparisjóðsins hafi verið verslun og viðskipti á höfuðborgarsvæðinu, auk þess að lána til byggingaverktaka og húsnæðismála. Í sumum lánum til byggingaverktaka þótti sparisjóðnum vaxtatekjur ekki nægja sem greiðsla fyrir þá áhættu sem í verkefninu fólst og lagði fram hlutafjárframlag að auki.85 Flest útlán Sparisjóðs Reykjavíkur og nágrennis í úrtaki rannsóknarnefndarinnar voru fasteignalán, lán til fasteignaverkefna eða byggingaframkvæmda. Þrátt fyrir þrýsting, meðal annars frá erlendum lánveitendum, til að bæta dreifingu útlánasafnsins með því að lána til verkefna erlendis86 sagði sparisjóðsstjóri það hafa legið skýrt fyrir að sparisjóðurinn myndi ekki leita mikið út fyrir starfssvæði sitt og ekki lána beint til verkefna erlendis. Til þess var stofnað dótturfélagið Steinsnes ehf. sem lánaði til slíkra verkefna, auk þess sem það lagði fram eigið fé í sömu verkefni.87

Byr sparisjóður lagði einnig áherslu á að lána til aðila á höfuðborgarsvæðinu og mest til einstaklinga, í þjónustustarfsemi og iðnað. Fyrrverandi sparisjóðsstjóri sagði í skýrslu fyrir rannsóknarnefndinni að hjá Sparisjóði Hafnarfjarðar hefði verið lögð áhersla á að lána til verktaka í byggingu atvinnu- og íbúðarhúsnæðis og hafi það orðið hluti af starfsemi sameinaðs sparisjóðs. Í Sparisjóði vélstjóra hafi verið horft til þess að 60% lánasafns ætti að vera til einstaklinga og 40% til fyrirtækja en engin sérstök áhersla hafi verið lögð á ákveðnar áhættugreinar. Lögð var áhersla á að lána til atvinnugreina á starfssvæði Byrs sparisjóðs, en lítið sem ekkert var lánað til landbúnaðar þar til Sparisjóður Norðlendinga sameinaðist Byr árið 2008. Þá sagði fyrrverandi sparisjóðsstjóri það hafa verið yfirlýsta stefnu stjórnar Byrs að stækka, bæði með tilliti til útlána og innlána, og áhersla hafi verið lögð á aukna arðsemi sem hægt væri að „færa rök fyrir að [gæti] þýtt auka áhættu“.88 Framboð á lánsfé var gott og forsvarsmönnum sparisjóðsins fundust tækifæri til útlána innanlands að einhverju leyti takmörkuð:

Við höfðum ekki áhyggjur af því að fara inn á fasteignamarkaðinn á Englandi því það er gert með einstaklingi með mikla reynslu af þeim markaði og auk þess virtist fasteignamarkaðurinn í Bretlandi mjög traustur á þessum tíma. Við hefðum ekki gert þetta sjálfir án þess að hafa reynda menn með okkur á þeirri vegferð. Horft var til þess að íslensku viðskiptabankarnir voru allir með mikla starfsemi erlendis og ekki síst á fasteignamarkaðnum á Englandi en við höfðum ekki tekið þátt. Þeim gekk vel á þessum markaði og það skapaði þeim umtalsverðar tekjur en innanlands var offramboð á fjármagni og eftirtekjan stöðugt lækkandi og því leit þetta út fyrir að auka vaxtamun sjóðsins. Þetta lagðist vel í stjórnina af þessum orsökum.89

Þau útlán Byrs sparisjóðs sem voru í úrtaki rannsóknarnefndarinnar voru flest vegna fasteigna- og byggingarverkefna. Lán til fjárfestinga í skráðum og óskráðum bréfum voru þó einnig algeng. Byr sparisjóður var sá sparisjóður sem lánaði hvað mest til verkefna á erlendri grundu. Fyrir rannsóknarnefndinni kom fram að þekkingu á þessum verkefnum og eftirliti með þeim hafi verið ábótavant.90 Mikið tap varð hjá sparisjóðnum af þessum verkefnum.

Sparisjóðurinn í Keflavík lagði áherslu á að þjónusta aðila á Suðurnesjum. Á bilinu 37–64% af lánasafni sparisjóðsins á árunum 2005–2009 voru lán til einstaklinga en útlánadreifing milli atvinnuvega var nokkuð jöfn, þótt þjónustustarfsemi hafi vegið þyngst. Lán til sjávarútvegsfyrirtækja voru hlutfallslega mun stærri hluti útlánasafnsins en hjá öðrum stærri sparisjóðum. Áhersla Sparisjóðsins í Keflavík á nærsamfélag sitt var svipuð og í minni sparisjóðunum en atvinnugreinar fjölbreyttari og dreifing útlánasafnsins meiri. Efnahagslíf á starfssvæði sparisjóðsins hafði auk þess nokkuð um afkomu hans að segja:

Menn eru að tala um að allt hafi farið fjandans til þarna suður frá þegar herinn fer og það er náttúrulega alrangt, því að þegar nýsköpunin verður í sjávarútvegi 1982 eða eitthvað svoleiðis og Byggðasjóður er settur á fót, þá er Keflavík ekki inni í því. Við erum sett með Reykjavík og höfum ekki aðgang að Byggðasjóði og þ.a.l. var okkur sagt að fara bara upp á völl, það yrði engin nýsköpun í sjávarútvegi á þessu svæði. Það leggst gjörsamlega af og allir fara upp á völl. Þetta er fyrsta áfallið sem við verðum fyrir og vegur að mínu mati þyngst í því sem gerðist þarna suður frá. Síðan þegar var búið að hysja upp um allt saman fer herinn og þá finnur kannski enginn fyrir því fyrst því það er svo mikil þensla alls staðar þar til kreppan kemur og þá finna menn fyrir því að það er engin atvinna og ekkert að gerast þarna.91

Með slæmum atvinnuhorfum lækkaði virði fasteigna og greiðslugeta einstaklinga minnkaði að sama skapi, sem hafði áhrif á lán til einstaklinga með veði í fasteignum. Stærstu útlánatöp Sparisjóðsins í Keflavík voru vegna fiskvinnslufyrirtækis á svæðinu, ferðamannaþjónustu á svæðinu, fasteignafélaga og eignarhaldsfélaga en töluvert var um lán til kaupa á skráðum og óskráðum bréfum.

Í skýrslu fyrir rannsóknarnefndinni sagði fyrrverandi stjórnarformaður Sparisjóðs Mýrasýslu að lengi vel hafi sjóðurinn verið íhaldssamur og ekki lánað mikið út fyrir Borgarfjarðarsvæðið og nærumhverfi. Samfélagið í Borgarfirði sé frábrugðið öðrum samfélögum á Vesturlandi, þar sé enginn sjávarútvegur, stærstu fyrirtækin séu þjónustufyrirtæki og byggingafyrirtæki. Þá leiki landbúnaður stórt hlutverk. Lítill snúningur hafi verið á hagkerfinu þar, áður hafi það verið íhaldssamt landbúnaðarsamfélag. Síðar hafi hins vegar verið krafa í samfélaginu í Borgarfirði um að þar yrði svipaður uppgangur og annars staðar á landinu á sama tíma. Það hefði verið nokkurs konar kreppuástand í Borgarfirði á níunda og tíunda áratugnum og vilji til að taka þátt í uppsveiflunni í hagkerfinu. Sparisjóðurinn hafi verið stærsta fjármálastofnun á svæðinu og krafa gerð til hans um að leiða sveitarfélagið inn á þessar brautir. Mikið hafi verið treyst á sparisjóðinn til að hjálpa fyrirtækjum á starfssvæðinu í Borgarbyggð.92

Innan við 50% af lánasafni Sparisjóðs Mýrasýslu 2005–2008 voru lán til einstaklinga og sparisjóðurinn lánaði hlutfallslega meira til landbúnaðar en hinir stóru sparisjóðirnir. Þjónustustarfsemi var þó sú atvinnugrein sem var veigamest í útlánasafni sparisjóðsins. Fyrrverandi sparisjóðsstjóri lýsti því í skýrslu sinni fyrir rannsóknarnefndinni að upp úr árinu 2000 hafi orðið stefnubreyting í sparisjóðnum um að stækka sjóðinn. Markaðurinn í Borgarfirði hafi ekki boðið upp á mörg tækifæri til stækkunar, en sparisjóðurinn hafi verið með mikla markaðshlutdeild og því hafi verið sett upp útibú í Reykjavík. Þá hafi það verið þáttur í stækkun sparisjóðsins að kaupa sparisjóðina á Ólafsfirði og Siglufirði.93 Mestu afskriftir útlána sparisjóðsins voru til fyrirtækja á Borgarfjarðarsvæðinu, svo sem svínabús, framleiðslufyrirtækis og kjötmjölsverksmiðju. Önnur stór útlánatöp voru helst vegna fasteignafélags sem hugði á framkvæmdir í héraðinu og byggingafélags sem keypti jarðir í nágrenni Hafnarfjarðar og í Vogum á Vatnsleysuströnd. Sparisjóðurinn var fjárhagslegur bakhjarl fyrirtækja á svæðinu sem sköpuðu atvinnu fyrir íbúa svæðisins, en sjóðurinn var að fullu í eigu sveitarfélagsins. Þegar leysa átti úr erfiðum lánamálum tókust á sjónarmið um markmið með rekstri fjármálastofnunar og vilja sveitarfélagsins til að styðja við íbúa sína:

Innviðir samfélagsins komu auðvitað líka þarna inn í, til dæmis Kaupfélagið og Háskólinn á Bifröst. Innviðirnir voru innviklaðir í sparisjóðinn á annan hátt en tíðkaðist í bönkunum en þar var það meira gert með styrkjum eða öðru í þeim dúr. Þar voru menn til dæmis að styrkja landsliðið en þetta var einhvern veginn innviklað [hjá okkur]. Við vorum hornsteinn í héraði [og það gat gert starfsemina] töluvert flókna, sérstaklega ef menn ætluðu að vera áfram á svæðinu. Það er til dæmis ekki hægt að loka skólanum ef þú ætlar að selja veðið af honum, það gengur ekki upp.94

Athugun rannsóknarnefndarinnar á úrtaki lána leiddi ekki í ljós ýkja mikinn mun milli sparisjóða sem héldu sig innan afmarkaðs starfssvæðis og þeirra sem leituðu út fyrir heimasvæðið. Hjá sparisjóðum sem héldu sig við afmörkuð starfssvæði höfðu sveiflur í hagkerfum svæðanna mikil áhrif á afkomuna. Þótt þekking þeirra á nærumhverfinu kunni að hafa nýst til þess að greina vænlega lántaka frá þeim sem ólíklegri voru til að standa undir skuldum, veittist þeim nánast ómögulegt að verjast áhrifum af hagsveiflum svæðanna. Lán sem sparisjóðir veittu til aðila utan starfssvæðis síns og tap varð á, voru í fasteignaverkefnum erlendis hjá Byr sparisjóði, fasteigna- og byggingaverkefnum Sparisjóðs Mýrasýslu í grennd við höfuðborgarsvæðið og hjá þeim þremur sparisjóðum á landsbyggðinni sem lánuðu til kaupa á fyrirtækjarekstri á höfuðborgarsvæðinu fyrir milligöngu Sp-ráðgjafar ehf. Ekki er hægt að segja að tap á þessum lánum hafi verið minna eða annars eðlis en tap Sparisjóðs Reykjavíkur og nágrennis á lánum til fasteignaverkefna á höfuðborgarsvæðinu, tap Sparisjóðsins í Keflavík á lánum til atvinnustarfsemi á Suðurnesjum eða sparisjóða í sjávarplássum á lánum til útgerðarfélaga. Í kjölfar falls bankanna féllu flestar eignir í virði, höfuðstólar erlendra og verðtryggra lána hækkuðu og greiðslugeta lántaka minnkaði. Enginn sparisjóður fór varhluta af þessu.

9.4.5 Sérstakar athuganir

Rannsóknarnefndin athugaði sérstaklega lán til starfsmanna sparisjóðanna og aðila sem venslaðir voru sparisjóðunum. Kannað var hvort tengsl þeirra við sparisjóðina kunni að hafa haft áhrif á lánakjör, tryggingatöku, eða önnur atriði í viðskiptum þeirra við sparisjóðina, svo og fylgni þeirra viðskipta við reglur.

Samkvæmt 57. gr. laga nr. 161/2002 er samningur fjármálafyrirtækis um lán, ábyrgðir, kauprétt eða sambærileg viðskipti við framkvæmdastjóra háður samþykki stjórnar fyrirtækisins. Ákvörðun um slíka samninga skal bókuð og kynnt Fjármálaeftirlitinu. Ákvæði greinarinnar giltu einnig um maka framkvæmdastjóra fjármálafyrirtækis þar til með lögum nr. 75/2010, þegar ákvæðið var látið ná til þeirra sem voru í „nánum tengslum“ við framkvæmdastjóra fyrirtækisins.

Um viðskipti fjármálafyrirtækis og starfsmanna þess fór að öðru leyti eftir reglum sem stjórn fyrirtækisins skyldi setja. Í starfsreglum sparisjóðanna eða reglum um framkvæmd starfa sparisjóðsstjórnar og sparisjóðsstjóra voru ákvæði um að sparisjóðsstjórn skyldi, að fengnum tillögum sparisjóðsstjóra, setja reglur um viðskipti starfsmanna við viðkomandi sjóð. Algengt var að útlánareglurnar innihéldu þessi ákvæði. Þar var skilgreind heimild sparisjóðsstjóra til að veita starfsmönnum sparisjóðsins lán, enda væri slík fyrirgreiðsla á engan hátt frábrugðin sambærilegri fyrirgreiðslu til annarra viðskiptamanna. Sparisjóðsstjóra bar þá að færa fyrirgreiðsluna í sérstaka gerðarbók og gera stjórn sparisjóðsins grein fyrir lánveitingunni. Sums staðar var þetta bundið við að heildarskuldbinding starfsmanns færi yfir tiltekna fjárhæð. Þá þurfti stjórn einnig að samþykkja allar lánveitingar til sparisjóðsstjóra á sömu forsendum og giltu um lán til starfsmanna. Sama regla gilti um maka og yfirleitt um aðra nákomna aðila.

Algengt var að starfsmenn væru í viðskiptum við sparisjóðinn sem þeir störfuðu hjá og tækju þar lán. Rannsóknarnefndin gerði greiningu á lánum til starfsmanna sparisjóðanna og almennt voru slíkar skuldbindingar án nokkurra athugasemda. Sjaldgæft var að almennir starfsmenn væru með háar skuldbindingar og við rannsóknina kom ekkert fram sem benti til þess að þeir hefðu notið stöðu sinnar við lánveitingar umfram aðra viðskiptamenn sparisjóðanna. Nokkrar undantekningar voru þó frá þessu. Er í því efni sérstaklega vísað til umfjöllunar um lán til starfsmanna Sparisjóðsins í Keflavík og lán til starfsmanna Sparisjóðs Reykjavíkur og nágrennis.

Hugtakið „venslaðir aðilar“ er ekki skilgreint í lögum nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki en það er notað í leiðbeinandi tilmælum Fjármálaeftirlitsins nr. 4/2006 um efni reglna samkvæmt 2. mgr. 54. gr. laga nr. 161/2002, um fjármálafyrirtæki, þar sem kveðið er á um framkvæmd starfa stjórna fjármálafyrirtækja.95 Í tilmælunum voru venslaðir aðilar skilgreindir sem aðal- og varamenn í stjórn, stjórnendur, lykilstarfsmenn og nánir fjölskyldumeðlimir þessara aðila. Sama gilti um aðila í dótturfélögum og tengdum félögum. Fyrirtæki sem framangreindir aðilar áttu meira en 10% hlut í, störfuðu hjá eða gegndu stjórnarstörfum fyrir, og stofnfjáreigendur eða hluthafar sem með beinum eða óbeinum hætti áttu 5% eignarhlut eða stærri eða gegndu stjórnarstöðum fyrir. Hugtakið „venslaðir aðilar“ nær því yfir hluta þeirra aðila sem teljast til starfsmanna, því lykilstarfsmenn eru meðal þeirra.

Lánastofnunum bar að skila reglubundnum skýrslum til Fjármálaeftirlitsins með upplýsingum um fyrirgreiðslu við venslaða aðila.96 Mjög misjafnt var eftir sparisjóðum hvort réttilega var gerð grein fyrir fyrirgreiðslum til venslaðra aðila í samræmi við reglur Fjármálaeftirlitsins og viðkomandi sparisjóðs. Til dæmis var ekki gerð grein fyrir skuldbindingum fjölskyldumeðlima sparisjóðsstjóra hjá Sparisjóðnum í Keflavík, þrátt fyrir að reglur sjóðsins gerðu ráð fyrir slíku. Fjármálaeftirlitið gerði athugasemd við eftirlit Byrs sparisjóðs með vensluðum aðilum, einkum það að aðila vantaði inn á yfirlit yfir venslaða aðila sem Byr sparisjóður sendi Fjármálaeftirlitinu.97

Samkvæmt lögum um fjármálafyrirtæki skal stjórn fjármálafyrirtækis ekki taka þátt í ákvörðunum um einstök viðskipti nema umfang þeirra sé verulegt miðað við stærð fyrirtækisins. Stjórnarmenn skulu heldur ekki hafa afskipti af ákvörðunum um einstök viðskipti. Þá skulu þeir ekki taka þátt í meðferð máls ef það varðar viðskipti þeirra sjálfra eða fyrirtækja sem þeir sitja í stjórn hjá, eru fyrirsvarsmenn fyrir eða eiga að öðru leyti verulegra hagsmuna að gæta í, eða viðskipti samkeppnisaðila. Hið sama gildir um viðskipti aðila sem eru tengdir stjórnarmönnum persónulega eða fjárhagslega. Viðskiptaerindi stjórnarmanna, sem og fyrirtækja sem þeir eru í fyrirsvari fyrir, skulu lögð fyrir stjórn til samþykktar eða synjunar.98 Dæmi voru um það í Sparisjóðnum í Keflavík að lánveitingar til stjórnarmanna og fyrirtækja sem þeir voru í fyrirsvari fyrir væru ekki tekin fyrir í stjórn.

Rannsóknarnefndin tók saman lista yfir stjórnarmenn, maka þeirra og félög í tengslum við þau eða í minnst 20% eigu stjórnarmanna eða maka. Farið var yfir útlán til þessara aðila í öllum sparisjóðum, þ.e. bæði var athugað hver viðskipti þeirra voru við sparisjóðinn sem þeir tengdust og við aðra sparisjóði. Við könnunina kom ekkert fram umfram það sem gerð hefur verið grein fyrir hér og taldi rannsóknarnefndin ekki ástæðu til að fjalla frekar um það en gert er hér og í köflum um einstaka sparisjóði.

9.5 Tryggingar útlána

Tryggingar fyrir útlánum sparisjóðanna voru af ýmsum toga og réðust meðal annars af verkefnunum sem lánað var til. Helstu tryggingar útlána eru annars vegar veð í eignum og hins vegar ábyrgðir. Hér framar var vikið að veðum vegna lána til fasteignakaupa og lána til hlutabréfakaupa og skilyrðum sem sett voru fyrir veðtöku vegna slíkra lána. Yfirlit yfir útlánareglur sparisjóðanna er að finna í töflu 6.

Í minni sparisjóðum voru ákvæði um tryggingartöku frekar almenn, iðulega á þá leið að fullnægjandi tryggingar skyldu jafnan teknar vegna skuldbindinga sem stofnað væri til gagnvart sparisjóðnum, án þess að skilgreint væri hvað teldist fullnægjandi trygging. Í tilvikum þar sem engar tryggingar voru teknar fyrir útlánum eða veð voru lægri en lánsfjárhæð við veitingu lánsins, verður því ekki fullyrt hvort þau hafi verið í samræmi við lánareglur. Auk þess var yfirleitt heimilt að veita undanþágur frá reglunum. Skýrslur forsvarsmanna sparisjóðanna fyrir rannsóknarnefndinni leiddu í ljós að þótt ekki hafi legið fyrir nein skrifleg viðmið um veðhlutföll, hafi ákveðnu vinnulagi eða óskrifuðum reglum verið fylgt.99

Í útlánareglunum var þess oft getið að heimilt væri að veita lán án trygginga, væri fylgst með afkomu og fjárhag viðskiptaaðilans meðan skuldbinding varði. Samkvæmt reglunum skyldi afla ársreikninga, rekstrar- og greiðsluáætlana og annarra fjárhagslegra upplýsinga frá viðskiptavinum við lánveitingar til atvinnufyrirtækja. Lán til einstaklinga skyldu taka mið af viðskiptum þeirra við sparisjóðinn og greiðslugetu. Við lánveitingar eða ábyrgðaveitingar skyldi fara fram raunmat á tryggingarandlagi og gögn því til staðfestingar geymd með öðrum skjölum málsins. Fyrirspurnir rannsóknarnefndarinnar til minni sparisjóðanna sýndu að oft var misbrestur á utanumhaldi gagna um mat trygginga við lánveitingu.

Í Sparisjóði Reykjavíkur og nágrennis og Byr sparisjóði voru nákvæmar reglur um tryggingatöku og leyfileg veðhlutföll miðað við lengd og tegund útláns, í útlánareglum frá árinu 2007. Hjá Sparisjóði Reykjavíkur og nágrennis voru ákvæði um tryggingar í útlánareglum frá árinu 2004 hins vegar nokkuð almenn. Þar sagði til að mynda að kröfur um tryggingar ættu að taka mið af fjárhagslegum styrk viðskiptamanns og tímalengd lánveitingar. Að jafnaði skyldu teknar tryggingar fyrir lánveitingum í auðseljanlegum eignum. Lánveitingar sem ekki væru tryggðar með veði skyldu almennt ekki vera til lengri tíma en fimm ára. Veðsettar eignir ætti að meta sem næst markaðsvirði og reikna upp áhvílandi skuldir. Sérstaklega skyldi gæta að tryggingum þegar um væri að ræða stöðutöku, til dæmis í hlutabréfum, nema í hlut ætti fjárhagslega mjög sterkt fyrirtæki.

Sparisjóður Mýrasýslu setti sér nýjar útlánareglur í október 2008, mun nákvæmari en þær sem fyrir voru en þær höfðu verið áþekkar reglum minni sparisjóðanna. Eldri reglurnar kváðu á um að krafa til trygginga skyldi taka mið af styrk viðskiptamanns og tímalengd lánveitingar. Að jafnaði skyldu teknar tryggingar fyrir lánveitingum í auðseljanlegum eignum. Við ákvörðun um lánveitingar til lengri tíma en eins árs bar að horfa til viðskiptasögu við ákvörðun um frekari tryggingar. Lánveitingar sem ekki væru tryggðar með veði skyldu almennt ekki vera til lengri tíma en átta ára og veðsettar eignir sem næst markaðsvirði ásamt uppreikningi á áhvílandi veðskuldum. Ávallt skyldi gætt að því að lán væri ekki afgreitt fyrr en umsamdar tryggingar hefðu verið lagðar fram og formsskilyrðum fullnægt.

Í lánareglum Sparisjóðsins í Keflavík sagði að til grundvallar lánaákvörðunum skyldu jafnan liggja viðskiptalegar ástæður og gæta skyldi vel að gagnaöflun og gerð greiðslumats fyrir hvern skuldara. Þar sem veðtrygginga væri krafist, áttu þær jafnan að vera í auðseljanlegum verðmætum og metnar sem næst markaðsverði. Útlán sem veitt væru til lengri tíma en fimm ára skyldu að jafnaði vera með tryggingum sem væru verðmeiri en skuldin sjálf. Reglulega skyldi fylgst með verðmæti trygginga og við mat á ábyrgðarmönnum skyldi gæta að greiðslugetu þeirra og vanskilasögu. Þá var tiltekið að gögn sem ákvarðanir grundvölluðust á skyldu varðveitt á aðgengilegan hátt svo hægt væri að rekja ákvarðanir starfsmanna. Að öðru leyti var ekkert minnst á veðsetningarhlutföll, hvorki í útlánareglum né í reglum um lánveitingar og ábyrgðir. Þá sagði að gæta skyldi vel að gagnaöflun og gerð greiðslumats fyrir hvern skuldara án þess að skilgreint væri nánar hvaða gagna skyldi aflað og hvernig greiðslumatið skyldi nýtast. Engin skýr viðmiðunarmörk voru því sett um veðsetningarhlutföll, hvorki hjá einstaklingum né fyrirtækjum.100

Í lánareglum Sparisjóðs Reykjavíkur og nágrennis frá 2007 var sérstakur kafli um lán í erlendri mynt og skilið á milli lána til íbúðakaupa og til kaupa á atvinnuhúsnæði.101 Reglurnar gerðu ekki ráð fyrir að lán í erlendri mynt væru veitt til annarra kaupa.102 Miðað var við að tryggingarbréf fyrir slíkum lánum skyldi vera 20% hærra en lánsfjárhæð. Lánað var fyrir 70–80% af markaðsvirði íbúðarhúss á höfuðborgarsvæðinu og 60–70% af markaðsvirði atvinnuhúsnæðis. Í útlánareglum annarra sparisjóða var ekki sérstaklega fjallað um útlán í erlendri mynt.

Stærstur hluti útlánasafns sparisjóðanna voru lán til kaupa á fasteignum og voru veð fyrir þeim jafnan tekin í fasteignunum sjálfum. Um fasteignalán og veðtöku vegna þeirra var fjallað hér framar. Lánað var til kaupa á íbúðahúsnæði, atvinnuhúsnæði og til fasteigna- og byggingaverkefna. Þau síðastnefndu fólu í sér mun meiri áhættu, þar sem þau voru byggð á væntingum um útleigu eða byggingu fasteigna sem rættust ekki alltaf. Erfitt reyndist að selja ókláraðar byggingar sem sparisjóðirnir leystu til sín vegna þess að skuldari var kominn í greiðsluvandræði eftir fall bankanna haustið 2008.

Lán með veði í verðbréfum voru ekki stór hluti heildarútlánasafns sparisjóðanna þó þau hafi aukist töluvert á árinu 2007. Í upphafi árs voru þau 6,4% af útlánasafni sparisjóðanna en 15,3% ári síðar. Þar af voru óskráð bréf 8,5% og skráð bréf 6,8%. Í lok árs 2008 voru útlán með veði í verðbréfum 8,6%.103 Skoðun á úrtaki rannsóknarnefndarinnar leiddi í ljós fjölda tilvika þar sem veðsetning bréfa var 100%, ýmist skráð eða óskráð bréf. Þá voru lán eignalítilla einkahlutafélaga til kaupa á verðbréfum alloft með veði í hlutum þess sama félags. Eignarhaldsfélög, sem einnig voru oft eignalítil einkahlutafélög, fengu há lán til hlutabréfakaupa án annarra veða en í keyptum bréfum, skráðum eða óskráðum. Á árunum 2007 og 2008 gerði Fjármálaeftirlitið athugasemdir við tryggingar af þessu tagi í skýrslum vegna athugana á Byr sparisjóði, Sparisjóðnum í Keflavík, Sparisjóði Reykjavíkur og nágrennis og Sparisjóði Mýrasýslu eins og rakið er í köflum um þessa sparisjóði.

Nokkur dæmi voru um að til tryggingar útlánum væru tekin handveð í innistæðu á bankareikningum. Algengast var að slíkar tryggingar kæmu til viðbótar öðrum tryggingum sem teknar voru fyrir útlánum. Þegar tekið er handveð í innistæðu á bankareikningum ætti með réttu að tilgreina ákveðna innistæðu og læsa henni, að minnsta kosti einhverja lágmarksinnistæðu. Á lána- og tryggingaskjölum sem vörðuðu handveð á innistæðureikningi hjá sparisjóðunum var hins vegar algengt orðalag að taka ætti handveð í innistæðu bankareiknings í eigu lántaka „eins og hún var á hverjum tíma“. Þessir „handveðsettu“ bankareikningar virðast því hafa verið opnir skuldurum til úttektar og engin trygging fyrir því að lágmarksinnistæða væri á reikningnum þegar ganga átti að tryggingum. Handveð í innistæðum voru ekki svo algeng eða af þeirri stærðargráðu að það hefði þýðingu fyrir rekstur og efnahag sparisjóðanna. Þetta gefur hins vegar til kynna að ekki hafi verið hugað nægilega vel að hagsmunum sparisjóðsins eða gætt réttra vinnubragða við tryggingartökuna, enda fellur það í hlut sparisjóðsins sem handveðhafa að svipta veðsalann umráðum og nýtingarrétti yfir hinu veðsetta. Sé það ekki gert, er handveðsetning haldlaus.

Fjölmörg dæmi voru í úrtaki rannsóknarnefndarinnar þar sem ekki var staðið að tryggingu útlána með fullnægjandi hætti. Verðmat eigna sem lögð voru til tryggingar útlánum var með ýmsu móti. Verðmat fiskveiðikvóta, skráningarskylds lausafjár og skráðra verðbréfa var ef til vill tiltölulega einfalt, en oft skorti upp á að virði þeirra væri uppfært á lánstímanum. Upplýsingar um tryggingaþekju voru yfirleitt eingöngu skráðar við lánveitingu og var hún almennt fullnægjandi þá. Þó fundust fjölmörg dæmi um að tryggingar væru lægri en lánsfjárhæð eða jafnvel að engar tryggingar væru settar fyrir lánum sem voru hærri en viðmiðunarfjárhæðir lána án trygginga í lánahandbókum og tryggingareglum. Í lánareglum kom gjarnan fram að slíkt væri leyfilegt með samþykki stjórnar eða lánanefndar en rannsóknarnefndinni tókst ekki að hafa uppi á slíkum samþykktum í öllum tilvikum.

Sparisjóðirnir fengu oft fasteignasala til að meta fyrir sig fasteignir sem taka átti veð í eða vegna byggingarverkefna. Markaðir virðast hafa verið mjög breytilegir, því skömmu eftir fyrra mat var oft lagt fram nýtt mat, ýmist frá öðrum fasteignasala eða jafnvel þeim sama, sem var mjög frábrugðið hinu fyrra. Mat á virði óskráðra bréfa eða fyrirtækja sem keypt voru með öfugum samruna gat verið enn hverfulla. Þá treystu sparisjóðirnir sem tóku þátt í samstarfinu um Sp-ráðgjöf ehf. nær eingöngu á upplýsingar sem þeir fengu frá Sp-ráðgjöf ehf. Tryggingaþekja lána sem veitt voru með veði í slíkum bréfum gat því breyst snögglega. Þar sem flest lánin voru veitt á miklum uppgangstímum var tryggingaþekjan sjaldan jafn góð á líftíma lánsins og við útgreiðslu þess.

Þar sem upplýsingar um tryggingaþekju lána voru sjaldan uppfærðar eftir að lánið var veitt, brugðust sparisjóðirnir sjaldnast tímanlega við versnandi tryggingastöðu viðskiptavinar. Iðulega var ekki gripið til aðgerða fyrr en lántaki var kominn í vanskil. Það var oft ekki fyrr en þá sem sjóðirnir urðu meðvitaðir um slæma stöðu lánsins. Þó skal á það bent að ákvæði lánasamninga gátu komið í veg fyrir að gengið yrði eftir frekari tryggingum fyrr en lántaki var kominn í vanskil. Þegar efnahagslífið á Íslandi tók miklum breytingum eftir því sem líða tók á árið 2008 urðu mörg af þeim veðum sem lögð höfðu verið til tryggingar verðlaus. Þó varnaðarmerkin hafi komið í ljós fyrir fall bankanna, lágu nokkrar ástæður að baki því að ekki var gripið til aðgerða fyrr. Til að mynda þótti mikilvægt að varðveita sambönd við viðskiptavini og ganga ekki of hart að þeim, því vonir voru bundnar við að ástandið myndi lagast og þá væri mikilvægt að hafa ekki misst frá sér viðskiptavini. Þá voru dæmi um að lántakendur væru krafðir um frekari tryggingar, sem þeir gátu ekki lagt fram.

Það sem hafði hvað mest áhrif á veðstöðu útlána sparisjóðanna var gengisfall krónunnar og verðbólguskot, sem hvort tveggja hækkaði höfuðstól lánanna, og virðisrýrnun eigna sem lögð voru að veði. Þótt einungis hafi verið veitt örfá ný útlán á árinu 2008, hækkaði bókfært virði útlána sparisjóðanna um 46% á árinu.104 Í desember 2008 hafði íslenska úrvalsvísitalan lækkað um 94% frá áramótum og hægst hafði á fasteignamarkaði, þá sérstaklega í nýbyggingum. Eftir fall bankanna gengu sparisjóðirnir í einhverjum tilvikum að veði í rekstrareiningum til fullnustu krafna sinna og ljóst er að í allmörgum tilvikum töpuðu sjóðirnir á sölu slíkra eigna þar sem verðmæti þeirra var minna en fjárhæð útlánanna.

9.6 Icebank hluthafalán

Í október 2007 urðu talsverðar breytingar á eigendahópi Sparisjóðabanka Íslands hf. þar sem fimm sparisjóðir seldu meirihluta hlutafjár síns í bankanum, eða sem nam 52,7% af hlutafé bankans, en kaupendur voru nítján talsins. Kaupendur voru fimm sparisjóðir og fjórtán einkahlutafélög, þar af sex félög í eigu stjórnenda bankans.105

Í 31. kafla um Sparisjóðabanka Íslands hf. er fjallað um stefnumótun sem átti sér stað innan bankans og nýja framtíðarsýn hans sem fólst meðal annars í breyttu eignarhaldi á bankanum. Bankinn var eingöngu í eigu sparisjóða fram til ársins 2007 en síðla það ár bættust nýir eigendur við. Seljendur hlutafjárins voru Byr sparisjóður, Sparisjóður Reykjavíkur og nágrennis og sparisjóðir tengdir þeim, þ.e. nb.is-sparisjóður hf., Sparisjóður Norðlendinga og Sparisjóður Kópavogs. Seldur var 52,7% eignarhlutur í Icebank hf. en Sparisjóður Reykjavíkur og nágrennis og Byr sparisjóður héldu eftir rúmlega 5% hlut í bankanum hvor.

Sparisjóðabankinn hugði að útrás í samræmi við stefnumótun sína og hafði fundið ráðgjafarfyrirtæki til að kaupa í þeim tilgangi, Behrens Fyrirtækjaráðgjöf ehf. Behrens var með starfsemi í löndum þar sem Sparisjóðabankanum hugnaðist að ráðast í fleiri verkefni og höfðu stærstu hluthafar í Behrens hug á að eignast hlut í Sparisjóðabankanum. Þeir settu því saman hóp af áhugasömum kaupendum sem meðal annarra bauð í eignarhluta í bankanum.

Sparisjóður Reykjavíkur og nágrennis, Byr sparisjóður, Sparisjóðurinn í Keflavík, Sparisjóður Mýrasýslu og Sparisjóðabankinn lánuðu kaupendum fyrir hlutunum. Veð fyrir lánunum voru nær eingöngu í bréfum í Icebank hf., hlutabréfum í einkahlutafélögunum sem fengu lán til kaupanna og reikningum þar sem greiðslur af hlutabréfunum áttu að leggjast inn. Þessi lán töpuðust öll en upphafleg lánsfjárhæð þeirra var 8,4 milljarðar króna.

9.6.1 Tilboð í hluti í Icebank hf.

Eftir undirritun Sparisjóðs Reykjavíkur og nágrennis, Byr sparisjóðs og Sparisjóðsins í Keflavík á yfirlýsingu um að SPRON-Verðbréfum hf. yrði falið að annast sölu á hlut þeirra í Icebank hf., fengu átta fjárfestar kynningu og skiluðu þrír þeirra inn óskuldbindandi tilboðum í hlutina 31. ágúst 2007. Gengið var að hæsta tilboði, en það var frá fjárfestahópi á vegum Behrens Fyrirtækjaráðgjafar ehf. í 53% hlut sem þessir aðilar voru tilbúnir að greiða 16,9 milljarða króna fyrir.106 Í tilboðinu kom ekki fram hverjir væru í þessum fjárfestahópi. Hópurinn sem Behrens Fyrirtækjaráðgjöf ehf. fór fyrir hafði einnig áhuga á að ræða fjármögnun kaupanna við Sparisjóð Reykjavíkur og nágrennis og Byr sparisjóð.107

Drög að kaupsamningi lágu fyrir í byrjun september 2007 og var þá hafist handa við að útbúa almennan lánapakka fyrir kaupendahópinn, þar sem gert var ráð fyrir lánum að hluta ásamt eiginfjárframlagi. Finnur Sveinbjörnsson, þáverandi bankastjóri Sparisjóðabankans og einn væntanlegra kaupenda, vann að samsetningu lánatilboðs til stjórnenda bankans sem hugðust kaupa hlut, þar sem gert var ráð fyrir fullri fjármögnun og engu eiginfjárframlagi.

Tilboð hópsins í hlutabréf Icebank hf. var lagt fram 8. október 2007 og var gengi bréfanna í tilboðinu 28,055 krónur fyrir hverja krónu nafnverðs. Samkvæmt tilboðinu skyldi kaupverðið greitt tíu virkum dögum eftir að allir aðilar að tilboðinu hefðu samþykkt það og fyrirvarar í tilboðinu yrðu niður fallnir, hvort sem síðar yrði. Tilboðið var undirritað af öllum 12. október 2007.108

Eftir undirritun kauptilboða í hlutafé í Icebank hf. urðu breytingar á hópi kaupenda. Einn kaupandinn vildi minnka hlut sinn og inn komu þrír nýir. Þá juku tveir aðilar hlut sinn. Sigurður Smári Gylfason, eigandi og starfsmaður Behrens Fyrirtækjaráðgjafar ehf., sendi tölvupóst til SPRON-Verðbréfa hf., ásamt afriti á Aðalstein Jóhannsson, eiganda og starfsmann Behrens Fyrirtækjaráðgjafar ehf., þar sem fram kom listi sem hann leit á sem lokaútgáfu kaupendahópsins.109

Gert var ráð fyrir að kaupendur, aðrir en starfsmenn Icebank hf., legðu fram eiginfjárframlag fyrir 31,61% kaupverðsins en 68,39% yrðu fjármögnuð með lánum. Um var að ræða félögin Breiðutanga ehf., HDH Invest ehf., G-tvo ehf., Lagos ehf., Saltsöluna ehf., Óseka ehf., Bergið ehf., Obduro ehf., Fjárfestingafélagið Sprota ehf., Infestus Holding ehf., Sparta Holding ehf. og SM 1 ehf. Lánveitendur voru Sparisjóður Reykjavíkur og nágrennis, Byr sparisjóður, Sparisjóðurinn í Keflavík, Sparisjóður Mýrasýslu og Icebank hf. Sparisjóður Reykjavíkur og nágrennis, Byr sparisjóður og Icebank hf. lánuðu fjórðung lánsfjárhæðarinnar hver og Sparisjóðurinn í Keflavík og Sparisjóður Mýrasýslu 12,5% hluta hver. Allir lánasamningarnir voru að hálfu í japönskum jenum og að hálfu í svissneskum frönkum. Gerðir voru veðsamningar milli lántakenda annars vegar og Sparisjóðs Reykjavíkur og nágrennis, Byrs sparisjóðs, Sparisjóðsins í Keflavík og Sparisjóðs Mýrasýslu hins vegar, þar sem tekið var handveð í 75% keyptra hluta í Icebank hf. og í innstæðu á bankareikningi sem ætlaður var fyrir allar greiðslur í tengslum við hina veðsettu hluti, til dæmis arð. Samkvæmt veðsamningnum áttu Sparisjóður Reykjavíkur og nágrennis og Byr sparisjóður samhliða 1. veðrétt og Sparisjóður Mýrasýslu og Sparisjóðurinn í Keflavík áttu samhliða 2. veðrétt. Samskonar veðsamningur var gerður milli lántakenda og Icebank hf. þar sem bankanum var tryggður 1. veðréttur í 25% keyptra hluta í Icebank hf. og handveð í innstæðu á bankareikningi vegna þeirra. Hefði bankinn staðið að sameiginlegri veðtöku annarra lánveitenda hefði hann farið umfram leyfileg mörk um eign og veðtöku í eigin bréfum.

Frá undirritun kauptilboðs í október 2007 og fram að undirritun lánasamninga í byrjun desember lækkaði verðmæti Icebank hf. talsvert, ekki síst vegna lækkunar á hlutabréfaverði Exista hf., en í árslok 2007 átti bankinn 2,5% hlut í Exista, eða 281,4 milljónir að nafnverði. Í tölvupósti 22. nóvember 2007 upplýsti Sigurður Smári Gylfason110 aðra kaupendur um það að hann hefði verið í viðræðum við SPRON-Verðbréf um breytingar á kauptilboði þeirra „vegna þeirra hræringa sem hafa verið á hlutabréfamörkuðum undanfarið og lækkunar á hlutabréfaverði Exista“.111 Gengi hlutabréfa Exista hf. var 35,8 við undirritun kauptilboðanna en hafði lækkað í 24,5 22. nóvember 2007 og nam lækkunin 31,6%. Kaupendahópurinn skyldi kallaður til fundar um frágang á málinu „þar sem kauptilboðið [væri] í raun runnið út á tíma en [tölvupóstsamskiptin gerð] í þeim tilgangi að kalla fram staðfestingu seljenda á því að tilboðið [væri] í gildi og að málið [væri] komið í frágangsferli“.112 Fjórum dögum síðar tilkynnti Sigurður Smári kaupendahópnum að niðurstaða hefði náðst á fundi með SPRON-Verðbréfum og myndu báðir aðilar reyna að ná niðurstöðunni í gegn hjá sínu liði.113 Hinn 2. desember 2007 var síðan undirritaður viðauki við kaupsamning þar sem vaxtalaus greiðslufrestur var veittur á 31,61% af umsömdu kaupverði, þ.e. andvirði eiginfjárframlagsins, til 31. mars 2008. Þá var samþykkt að lán til kaupenda yrði eingreiðslulán með gjalddaga 15. apríl 2010 með rétti til framlengingar um 12 mánuði. Vextir skyldu reiknaðir og höfuðstólsfærðir 15. apríl ár hvert og koma til greiðslu ásamt höfuðstól 15. apríl 2010. Með viðaukanum skuldbundu seljendurnir, Byr sparisjóður og Sparisjóður Reykjavíkur og nágrennis, sig til að verðtryggja hluta af hlutabréfaeign Icebank hf. í Exista hf., samtals 168.603.047 hluti sem skiptust jafnt á milli seljenda, þannig að ef gengi hlutabréfanna yrði lægra en 31,0 1. desember 2008 myndu þeir greiða Icebank hf. mismun markaðsgengis og gengis í samningnum.114

Lánin voru greidd út í byrjun desember og skiptust þannig að sparisjóðirnir lánuðu 8,4 milljarða króna og eiginfjárframlag kaupenda átti að vera 3,8 milljarðar króna. Sparisjóður Reykjavíkur og nágrennis, Byr sparisjóður og Icebank hf. lánuðu 25% lánanna, eða tæpan 2,1 milljarð króna hver, og Sparisjóður Mýrasýslu og Sparisjóðurinn í Keflavík lánuðu 12,5% lánsfjárhæðarinnar, eða rúman milljarð hvor. Að auki lánuðu sparisjóðirnir og Icebank hf. fyrir eiginfjárframlögum sumra einkahlutafélaganna. Til að mynda lánaði Icebank hf. öllum stjórnendum í bankanum sem keyptu fyrir eiginfjárframlögum en þau námu samtals tæpum 860 milljónum króna. Vikið er að lánum annarra sparisjóða fyrir eiginfjárframlögum hér aftar í kaflanum. Af kaupverðinu, 16,9 milljörðum króna, var hlutur þeirra fimm sparisjóða sem juku hlut sinn í kaupunum 3,2 milljarðar króna og að minnsta kosti 11,2 milljarðar króna voru ýmist lánsfé úr sparisjóðakerfinu, frá sparisjóðum eða Sparisjóðabankanum, eða eignir kaupenda sem seldar voru bankanum fyrir hlutafé.115 Þá var eiginfjárframlag eins félags, um 961 milljón króna, aldrei greitt. Því liggur nærri að að minnsta kosti 91% af kaupverðinu hafi komið úr sparisjóðakerfinu.

Í byrjun desember 2007, þegar Sparisjóður Mýrasýslu átti að greiða fyrir nýkeypt hlutabréf sín í Icebank hf. og greiða út lán til annarra úr kaupendahópnum, átti sparisjóðurinn ekki nægt laust fé. Til að standa við skuldbindingar sínar fékk sparisjóðurinn lán, annars vegar 320 milljónir króna frá Sparisjóði Reykjavíkur og nágrennis og hins vegar 480 milljónir króna frá Byr sparisjóði. Bæði lánin voru eingreiðslulán með gjalddaga 15. apríl 2010 og án trygginga. Í lánasamningi Sparisjóðs Reykjavíkur og nágrennis kom fram að lánið ætti að fjármagna kaup á hlutum í Icebank hf. en ekkert tilefni var tilgreint í lánasamningi Byrs sparisjóðs.

9.6.2 Viðskipti stjórnenda Icebank hf.

Meðal kaupenda eignarhlutarins í Icebank hf. voru sex einkahlutafélög í eigu stjórnenda bankans. Það voru félögin Breiðutangi ehf., í eigu Finns Sveinbjörnssonar, bankastjóra, HDH Invest ehf., í eigu Agnars Hanssonar, framkvæmdastjóra fjárstýringar og síðar bankastjóra, G-tveir ehf., í eigu Hafdísar Karlsdóttur, framkvæmdastjóra rekstrarsviðs, Lagos ehf., í eigu Gunnars Svavarssonar, framkvæmdastjóra fyrirtækjasviðs, Saltsalan ehf., í eigu Önnu Þ. Reynis, aðstoðarframkvæmdastjóra viðskiptaþjónustu, og Óseki ehf., í eigu Ólafs S. Ottóssonar, framkvæmdastjóra erlendra viðskipta og staðgengils bankastjóra en síðar aðstoðarbankastjóra.

Frá því að byrjað var að ræða um að opna eignarhald Icebank hf. hafði Finnur Sveinbjörnsson bankastjóri talað fyrir því að stjórnendur bankans ættu kost á að fjárfesta í bankanum þegar opnað yrði fyrir eignarhaldið. Í tölvupósti 7. ágúst 2007 til Geirmundar Kristinssonar, Ragnars Z. Guðjónssonar og Guðmundar Haukssonar, stjórnarmanna í Icebank hf., sagði Finnur: „Eins vil ég árétta að ég hef til þess fulla löngun sem og aðrir í stjórnendateyminu að fá að koma að borði sem meðfjárfestar þegar línur fara að skýrast.“116 Finnur ráðfærði sig við endurskoðanda bankans, Sigurð Jónsson hjá KPMG hf., um hvernig bankinn gæti átt aðkomu að kaupum stjórnenda, til að mynda með fjármögnun. Endurskoðandinn sendi Finni minnisblað 10. september 2007 um hugsanleg kaup nokkurra lykilstarfsmanna Icebank hf. á hlutabréfum í bankanum. Þar kom meðal annars fram að eiginfjárframlag stjórnendanna yrði í raun ekkert, en þeir myndu leggja fram tryggingar að einhverju marki. Jafnframt voru ræddir möguleikar á að stjórnendurnir fjármögnuðu kaup sín með lánum frá öðrum lánastofnunum en sparisóðunum eða Icebank hf. Finnur sendi Sigurði Jónssyni og Ólafi M. Ólafssyni hjá KPMG hf. tölvupóst 11. september 2007 þar sem hann gerði grein fyrir þremur leiðum sem væru til skoðunar varðandi fjármögnun á kaupum stjórnendanna. Í leið 1 yrði fjármögnunin flutt til Kaupþings banka hf. eða Landsbanka Íslands hf. Viðkomandi banki tæki þá veð í öllum keyptum hlutum og fengi viðbótartryggingu frá Icebank hf. fyrir 25% af lánsfjárhæðinni en kaupandinn myndi greiða Icebank hf. ábyrgðarþóknun. Gert var ráð fyrir að viðkomandi stjórnandi legði þá fram tryggingu í Icebank hf. sem næmi 20% af ábyrgðarfjárhæðinni og gæti hún falist í sjálfskuldarábyrgð stjórnandans, handveðsettum verðbréfum eða einhverju öðru sem Icebank hf. mæti gilt. Í leið 2 var gert ráð fyrir að Icebank hf. lánaði stjórnendateyminu fyrir öllu kaupverðinu og tæki veð í öllum keyptum hlutum. Leið 3 gerði ráð fyrir því að stjórnendurnir tækju þátt í sama lánapakka og aðrir kaupendur en semdu auk þess við Kaupþing eða Landsbankann um lán fyrir eiginfjárhlutanum án þess að setja hina keyptu hluti að veði. Icebank hf. myndi hins vegar veita Kaupþingi eða Landsbankanum ábyrgð, eins og í leið 1. Úr varð að leið 2 var valin.

Í minnisblaði Finns Sveinbjörnssonar til bankaráðs 9. október 2007 sagði meðal annars að hann sjálfur og fimm aðrir úr hópi stjórnenda bankans ættu ekki nægt laust fé til að standa undir eiginfjárþættinum í kaupverði hlutabréfanna í Icebank hf. og þyrftu á fjármögnun að halda til að geta keypt hlutina. Finnur taldi mikilvægt að hann og aðrir stjórnendur gætu fjárfest í bankanum því hann taldi

ljóst að frá mínum sjónarhóli og framkvæmdastjóranna myndi skapast óviðunandi staða, ef Behrens-mennirnir kæmu að bankanum sem veigamiklir hluthafar (4,5% hvor) og tækju samhliða til starfa inni á einu af sviðum bankans. „Valda- og áhrifastaða“ þeirra yrði þannig mun meiri en mín og framkvæmdastjóranna og við það yrði ekki búið.117

Í fundargerð bankaráðs sama dag var fjallað um þátttöku bankans í fjármögnun kaupa á hlutum í bankanum:

Í minnisblaði bankastjóra [dags. 9. október 2007] er lagt til að formanni bankaráðsins og varaformanni verði veitt fullt umboð til þess að ganga til samninga við lántaka úr hópi kaupenda um lánsfjárhæðir og lánskjör með fulltingi sérfræðinga bankans auk ytri endurskoðanda verði það talið heppilegt. Var það samþykkt samhljóða.118

Þá samþykkti bankaráð á fundi sínum 16. október 2007 breytingar á reglum um eigin verðbréfaviðskipti starfsmanna bankans. Við grein 5.5. í reglunum var bætt tveimur nýjum liðum þar sem starfsfólki voru heimiluð viðskipti með hluti í Icebank hf. og bankaráði veitt heimild til að gera undanþágu um viðskipti með óskráð hlutabréf ef sérstakar ástæður ættu við, og að höfðu samráði við Fjármálaeftirlitið. Í skýrslu Fjármálaeftirlitsins frá 29. desember 2008 kom þó fram að ekki hefði verið haft samráð við Fjármálaeftirlitið vegna umræddra viðskipta stjórnenda Icebank hf. með hlutabréf í bankanum.119 Hinn 29. nóvember 2007 undirrituðu Geirmundur Kristinsson, formaður bankaráðs Icebank hf., og Friðrik Friðriksson, varaformaður bankaráðs, bréf til SPRON-Verðbréfa hf. þar sem þeir staðfestu að bankinn myndi

sjá til þess að eiginfjárframlag kaupenda [yrði] til reiðu þegar [kæmi] að greiðslu þess þann 31. mars 2008 eins og kveðið [myndi] verða á um í sérstökum samningum kaupenda við Sparisjóð Reykjavíkur og nágrennis og BYR sparisjóð í tengslum við kaup á hlut þeirra í Icebank.120

Eins og fram er komið sömdu kaupendur um frestun eiginfjárframlags fram til mars 2008. Í árslok 2007 og upphafi árs 2008 urðu breytingar á stjórnendateymi Icebank hf. þegar Finnur Sveinbjörnsson, Hafdís Karlsdóttir og Gunnar Svavarsson létu af störfum. Félög þeirra, Breiðutangi ehf., G-tveir ehf. og Lagos ehf., áttu þá samtals 5,58% eignarhlut í Icebank hf. Ekki var talið viðeigandi að fyrrverandi starfsmenn héldu hlutum sínum í bankanum eftir starfslok og var ákveðið að bankinn myndi finna kaupendur að félögunum. Á fundi bankaráðs 27. mars 2008 var greint frá munnlegu samkomulagi milli bankans og Salt Investments ehf. um að dótturfélag Salt Investments ehf. myndi kaupa einkahlutafélög fyrrverandi stjórnenda bankans og var bankastjóra falið að klára málið.121 Í minnisblaði Agnars Hanssonar bankastjóra til bankaráðs 3. júní 2008 kom fram að daginn áður hefði Græn gróska ehf., dótturfélag Salt Investments ehf., keypt alla eignarhluti í Breiðutanga ehf., G-tveimur ehf. og Lagos ehf., en Icebank hf. lánaði félaginu rúmar 26 milljónir króna til að fjármagna kaupin að fullu. Engar tryggingar voru fyrir þessu láni en samið var um kauprétt Icebank hf. á þeim eignarhlut í bankanum sem félögin þrjú höfðu átt. Í sama minnisblaði fór bankastjóri einnig fram á að bankaráð samþykkti lánveitingar til félaganna þriggja til fjármögnunar á eiginfjárframlagi vegna kaupa á eignarhlutum í Icebank hf. Samþykki bankaráðs þurfti fyrir þessum fyrirgreiðslum þar sem þær voru umfram útlánaheimild bankastjóra, auk þess sem einkahlutafélögin þrjú og nýr eigandi þeirra töldust venslaðir aðilar samkvæmt starfsreglum bankaráðs.122 Bankaráð staðfesti 19. júní 2008 samþykki sitt á lánum til Grænnar grósku ehf., Breiðutanga ehf., Lagos ehf. og G-tveggja ehf.123 Andvirði þessara lána hafði hins vegar þegar verið greitt til SPRON-Verðbréfa hf. strax 15. maí 2008, alllöngu áður en bankaráð samþykkti lánveitingarnar, en beiðni um útborgun var undirrituð af Sigurði Smára Gylfasyni, sem þá var framkvæmdastjóri fyrirtækjasviðs bankans.124

Lánasamningarnir við Breiðutanga ehf., G-tvo ehf. og Lagos ehf. voru undirritaðir 20. júní 2008. Jafnframt voru undirritaðir veðsamningar en tryggingaþekja vegna fyrri lána til félaganna hafði lækkað vegna veikingar krónunnar og lækkunar á verðmæti hlutabréfa í Icebank hf. Ekki var þó samið um auknar tryggingar fyrir nýju lánunum, heldur tekinn 2. veðréttur í sömu eignum og fyrr, það er hinum keyptu hlutabréfum og bankareikningum tengdum þeim. Veðsamningar Breiðutanga ehf. og Lagos ehf. voru dagsettir 20. júní 2008, eins og lánin, en veðsamningur G-tveggja ehf. var dagsettur 31. mars 2008. Árni Harðarson, sem kom inn í stjórnir félaganna þriggja við kaup Grænnar grósku ehf. á þeim í júní 2008, skrifaði undir alla veðsamningana fyrir hönd félaganna.

Á fundi 27. mars 2008 samþykkti bankaráð Icebank hf. að lána þremur einkahlutafélögum í eigu stjórnenda sem enn störfuðu hjá bankanum fyrir eiginfjárframlagi vegna kaupa á hlutum í bankanum. Um var að ræða félögin HDH Invest ehf., Saltsöluna ehf. og Óseka ehf. Staðfest var á fundi bankaráðs að gengið yrði frá lánunum á sömu kjörum og með sömu skilmálum og félögin fengu haustið 2007 og að hlutabréf lántakenda í bankanum ættu einnig að vera til tryggingar þessum lánum. Lánasamningarnir voru undirritaðir 1. apríl 2008. Þrátt fyrir samþykkt bankaráðs um sömu kjör og skilmála og fyrr, voru lánin veitt í íslenskum krónum, en fyrri lán til félaganna voru í erlendum gjaldmiðlum. Til tryggingar var 2. veðréttur í sömu eignum og áður, hlutabréfunum í Icebank og bankareikningum.

9.6.3 Viðskipti annarra aðila

Kaupendahópurinn í viðskiptunum með hlutabréf í Icebank hf. samanstóð af félögum í eigu stjórnenda bankans, sparisjóðum og öðrum aðilum. Í hópi annarra aðila voru einkahlutafélögin Obduro ehf., Infestus Holding ehf., Sparta Holding ehf., Fjárfestingafélagið Sproti ehf., Gnúpverjar ehf., SM 1 ehf. og Bergið ehf.

Á fundi lánanefndar Icebank hf. 6. desember 2007 var fjallað um lánveitingu til sex af þessum sjö félögum vegna viðskipta með hlutabréf í Icebank hf. Eina félagið sem Icebank hf. fjármagnaði ekki voru Gnúpverjar ehf. Alls nam fjárhæð lánanna rúmum 2,1 milljarði króna. Um var að ræða eingreiðslulán sem greiða skyldi ásamt áföllnum vöxtum í apríl 2010 og var heimilt að framlengja samninginn um eitt ár. Tekið var fram að lánin væru hluti af þeim viðskiptum sem samið hafði verið um 12. október 2007, þar á meðal um lánsfjármögnun og kjör.125 Sé tekið tillit til samþykktar á fyrrnefndum bankaráðsfundi 9. október 2007, þá veitti bankaráð formanni og varaformanni bankaráðs ótakmarkað umboð til að semja við lántaka um lánveitingu vegna kaupa á hlutafé í Icebank hf.

Obduro ehf.

Þegar Obduro ehf. keypti hlutabréf í Icebank hf. var eignarhald þess nokkuð óljóst en félagið var stofnað sem Gullberagil ehf. af PricewaterhouseCoopers ehf. í maí 2007. Í byrjun nóvember 2007 eignaðist Runólfur Ágústsson allt hlutafé félagsins, tók sæti í stjórn þess og félagið tók upp nafnið Obduro ehf.126 Við gerð kauptilboðs 9. október 2007 undirritaði Eiríkur Tómasson, stjórnarmaður í SM 1 ehf. og Suðurnesjamönnum ehf., fyrir hönd Obduro ehf., og við gerð framsalssamninga 31. október 2007 undirrituðu Eiríkur Tómasson og Steinþór Jónsson, stjórnarmaður í Berginu ehf., fyrir hönd Obduro ehf. Samkvæmt upplýsingum úr hlutafélagaskrá sátu þessir menn aldrei í stjórn Obduro ehf. Félagið keypti 1% eignarhlut í bankanum, kaupverðið var tæpar 320 milljónir króna og fékk félagið lán fyrir 68,39% kaupverðsins. Í upphaflegu kauptilboði Obduro ehf. var gert ráð fyrir að félagið keypti 9% af heildarhlutafé bankans en 31. október 2007 framseldi félagið meginhluta þess, 8% af heildarhlutafé bankans, til Bergsins ehf., Consensus ehf., Fjárfestingarfélagsins Sprota ehf., áður Garðamoldar ehf., Gnúpverja ehf. og SM 1 ehf.

Eiginfjárframlag Obduro vegna viðskiptanna átti að nema 101 milljón króna og koma til greiðslu 31. mars 2008 og ákveðið var að auka hlutafé félagsins til að fjármagna eiginfjárframlagið.127 Til að fjármagna hlutafjáraukningu í Obduro ehf. samdi Runólfur Ágústsson við Icebank hf. í apríl 2008 um að bankinn keypti allt hlutafé í öðru félagi í eigu Runólfs, Fjárfestingafélaginu Teigi ehf., ásamt kröfu sem Runólfur átti á félagið. Fyrir hönd Icebank hf. undirrituðu Agnar Hansson bankastjóri og Sigurður Smári Gylfason, framkvæmdastjóri fyrirtækjasviðs, kaupsamninginn, en samkvæmt honum var kaupverð hinna seldu hluta 301 milljón króna og kaupverð kröfunnar 56,2 milljónir króna, eða samtals 357,2 milljónir króna. Í samningnum var áskilið að 101 milljón króna af kaupverðinu skyldi varið til að auka hlutafé í Obduro.128

Fjárfestingafélagið Teigur ehf. var stofnað í janúar 2007 og var að fullu í eigu Runólfs Ágústssonar. Eina eign félagsins var 10% eignarhlutur í Háskólavöllum ehf. en það félag átti íbúðir og lóðir á gamla varnarsvæðinu við Keflavíkurflugvöll. Í byrjun október 2007 föluðust þeir Sigurður Smári Gylfason og Aðalsteinn G. Jóhannsson, forsvarsmenn Behrens Fyrirtækjaráðgjafar ehf., eftir því að Runólfur seldi Fjárfestingafélagið Teig ehf. til Fasteignafélags Suðurnesja ehf. og buðu honum jafnframt að taka þátt í hlutabréfakaupum í Icebank hf. og tilheyrandi lánapakka sem verið var að setja saman.129 Unnin var samantekt um fyrirhuguð kaup á Teigi ehf. sem leggja átti fyrir lánanefnd Icebank hf. með lánsbeiðni Fasteignafélags Suðurnesja ehf. Samkvæmt samantektinni átti kaupverðið að vera 300 milljónir króna og skyldi það greitt með 10% hlut í Fasteignafélagi Suðurnesja ehf., að verðmæti 50 milljónir króna, og 250 milljónum króna í reiðufé.130 Daginn áður en beiðnin átti að fara fyrir lánanefnd Icebank hf. var málinu frestað og ákveðið að leggja það ekki fyrir lánanefndina.131 Áður en Fasteignafélag Suðurnesja ehf. ákvað að óska eftir láni hjá Icebank hf. hafði félagið leitað fjármögnunar hjá Sparisjóðnum í Keflavík en fengið synjun.132

Þegar líða tók að greiðslu eiginfjárframlags Obduro ehf. vegna Icebank-kaupanna, kom aftur til umræðu að Runólfur Ágústsson seldi Fjárfestingafélagið Teig ehf., en nú á þeirri forsendu að Icebank hf. keypti félagið og var það samþykkt og framkvæmt með þeim hætti sem lýst var hér framar. Í greinargerð PricewaterhouseCoopers ehf., sem unnin var fyrir slitastjórn Sparisjóðabanka Íslands hf., kom fram að ekkert benti til þess að verðmat hefði verið framkvæmt á Fjárfestingafélaginu Teigi ehf. áður en viðskiptin áttu sér stað, enda hefði starfsmaður fyrirtækjaráðgjafar bankans ekki kannast við að það svið innan bankans hefði lagt mat á verðmæti félagsins.133 Obduro ehf. var úrskurðað gjaldþrota 9. júní 2011.

Infestus Holding ehf. og Sparta Holding ehf.

Þegar Infestus Holding ehf. og Sparta Holding ehf. keyptu hlutabréf í Icebank hf. í október 2007 var eigandi fyrrnefnda félagsins 2S, fjárfesting og ráðgjöf ehf. sem aftur var í eigu Sigurðar Smára Gylfasonar. Eigandi Sparta Holding ehf. var hins vegar AGJ Ráðgjöf ehf. í eigu Aðalsteins G. Jóhannssonar. Þeir Sigurður Smári og Aðalsteinn voru þá báðir eigendur og starfsmenn Behrens Fyrirtækjaráðgjafar ehf. sem síðar sameinaðist Icebank hf. Í janúar 2008 varð Sigurður Smári framkvæmdastjóri fyrirtækjasviðs Icebank hf. og Aðalsteinn framkvæmdastjóri fyrirtækjaráðgjafar bankans.

Infestus Holding ehf. og Sparta Holding ehf. keyptu hvort um sig 4,50% af heildarhlutafé Icebank hf. fyrir 1,4 milljarða króna fyrir hvort félag og fengu þau lán fyrir 68,39% kaupverðsins í almenna lánapakkanum í kringum viðskiptin.

Þess var áður getið að forsvarsmenn Behrens Fyrirtækjaráðgjafar ehf., Aðalsteinn og Sigurður Smári, settu það skilyrði fyrir sölu félagsins til Icebank hf. að þeir yrðu hluthafar í bankanum, en jafnframt setti Icebank hf. það skilyrði fyrir kaupunum að Aðalsteinn og Sigurður Smári kæmu til starfa hjá bankanum. Hinn 17. september 2007 var gerður kaupsamningur milli hluthafa Behrens Fyrirtækjaráðgjafar ehf. og Icebank hf. um kaup bankans á öllum útistandandi hlutum í Behrens Fyrirtækjaráðgjöf ehf., eða um 47,91%, fyrir 1 milljarð króna, en þar af áttu félög í eigu Aðalsteins og Sigurðar Smára samtals 43,4%, eða 21,7% hvort. Á fundi bankaráðs Icebank hf. 9. október 2007 var samþykkt að kaupverðið skyldi hækkað upp í 1.250 milljónir króna.134 Ástæða hækkunarinnar var tilgreind í fundargerðinni:

Kaupsamningurinn kveður á um að kaupverð að fjárhæð einn milljarður króna m.v. 47,91% hlut í félaginu en endanlegt kaupverð verður um 1.250 m.kr. vegna þess að félagið á sjálft rúmlega helming af eigin hlutum sem keypt voru á um 250 m.kr. með láni frá bankanum. Taldi bankastjóri engu að síður um ásættanlegt verð að ræða þótt ekki sé unnt að halda því fram að verðið sé lágt.135

Áður hafði staðið til að Icebank hf. keypti hlut í Behrens Fyrirtækjaráðgjöf ehf. en í maí 2007 gerði bankinn kaupsamning við FSP hf. um kaup á 50,1% hlut þess í Behrens Fyrirtækjaráðgjöf ehf. fyrir 240 milljónir króna, en fyrirvari var í kaupsamningnum vegna forkaupsréttarákvæða í samþykktum Behrens Fyrirtækjaráðgjafar ehf. Behrens nýtti sér forkaupsréttinn 4. júlí 2007 og gekk inn í undirritaðan kaupsamning milli Icebank og FSP hf. Icebank lánaði Behrens fyrir allri kaupsamningsfjárhæðinni, 240 milljónir króna, án nokkurra veða eða trygginga fyrir skilvísri og skaðlausri greiðslu lánsins.136 Í ágúst 2007 keypti Behrens Fyrirtækjaráðgjöf ehf. síðan 1,99% eignarhlut í sjálfu sér á genginu 6,12 af Martin Dukats og átti félagið því 52,09% hlutafjár þegar Icebank hf. keypti það í september 2007.

Í fundargerð bankaráðs Icebank hf. 19. júní 2007 var sérstakur liður undir heitinu „Kaup á afgangi hluta í Behrens Fyrirtækjaráðgjöf“. Þar kom fram að bankastjóri Icebank hefði lagt fram minnisblað um málið og samantekt frá KPMG hf. um yfirtöku bankans á Behrens Fyrirtækjaráðgjöf ehf. Í fundargerðinni sagði:

Í verðmati KPMG á Behrens kemur m.a. fram að erfitt sé að verðmeta slíkt félag en með sjóðstreymis- og kennitölugreiningu og samanburði við erlend félög megi réttlæta að heildarverðmæti félagsins sé á bilinu 500–950 m.kr. Í munnlegu samkomulagi sem gert var milli aðila í síðustu viku með eðlilegum fyrirvara um aðkomu bankaráðsins er gert ráð fyrir að meta félagið á 650 m.kr.137

Frá því í júní 2007 og fram að gerð kaupsamnings í september 2007 hækkaði verðið á Behrens Fyrirtækjaráðgjöf ehf. því úr 650 milljónum króna í 1.000 milljónir króna, og aftur upp í 1.250 milljónir króna með ákvörðun bankaráðs Icebank hf. um hækkun endanlegs kaupverðs sem samþykkt var 9. október 2007. Icebank hf. greiddi kaupverðið fyrir Behrens Fyrirtækjaráðgjöf ehf. 4. desember 2007 til Infestus Holding ehf. og Spörtu Holding ehf. Greiðslan til hvors félags nam 453 milljónum króna.

Hinn 5. desember 2007 var gengið frá greiðslum Infestus Holding ehf. og Spörtu Holding ehf. á 68,39% af kaupverði hlutabréfanna í Icebank hf. með fjármögnun í gegnum almenna lánapakkann. Eins og hjá öðrum kaupendum hafði greiðslu eiginfjárframlags vegna kaupanna, að fjárhæð rúmar 455 milljónir króna fyrir hvort félag, verið frestað til 31. mars 2008. Infestus Holding og Sparta Holding greiddu eiginfjárframlag sitt vegna kaupanna 1. apríl 2008. Félögin voru úrskurðuð gjaldþrota 3. maí 2011.

Fjárfestingafélagið Sproti ehf.

Þegar Fjárfestingarfélagið Sproti ehf. (áður Garðamold ehf.) keypti hlutabréf í Icebank hf., voru eigendur þess tíu talsins og átti hver um sig 10% eignarhlut í félaginu. Fram til haustsins 2007 hafði félagið verið í eigu Gámaþjónustunnar hf. og tengdust eigendurnir því fyrirtæki. Aðkoma Fjárfestingarfélagsins Sprota að kaupum á hlutabréfum í Icebank hf. hófst í lok október 2007 þegar Obduro ehf. féll frá hluta af þeim kaupum sem félagið var skráð fyrir í kauptilboði en Fjárfestingarfélagið Sproti og fleiri félög gengu inn í þau kaup. Sproti keypti 5.638.085 hluti í Icebank hf., sem voru 0,49% af heildarhlutafé bankans og 0,94% þeirra hluta sem voru til sölu. Kaupverð hlutanna var rúmar 158 milljónir króna og fékk félagið lán fyrir 68,39% kaupverðsins í almenna lánapakkanum í kringum viðskiptin. Eftir viðskiptin varð einn af eigendum félagsins, Sveinn Hannesson, varamaður í bankaráði Icebank hf. Eiginfjárframlag vegna viðskiptanna, að fjárhæð 50 milljónir króna., var greitt 1. apríl 2008 í samræmi við viðauka við kaupsamning frá 2. desember 2007. Fjárfestingarfélagið Sproti ehf. var úrskurðað gjaldþrota 29. mars 2010.

Gnúpverjar ehf.

Þegar Gnúpverjar ehf. keyptu hlutabréf í Icebank hf. var eigandi félagsins Þorbjörn hf. Stjórnarmenn á þeim tíma voru Eiríkur Tómasson og aðilar honum tengdir. Gnúpverjar ehf. komu inn í viðskiptin með hlutabréf í Icebank hf. í lok október 2007 þegar Obduro ehf. féll frá hluta af þeim kaupum sem gert var ráð fyrir í kauptilboði og Gnúpverjar ehf. og fleiri félög gengu inn í þau kaup. Gnúpverjar ehf. keyptu 6,64% þeirra hluta sem voru til sölu. Kaupverð hlutanna var 1,1 milljarður króna.

Ólíkt flestum öðrum kaupendum í Icebank-viðskiptunum voru Gnúpverjar ehf. ekki hluti af almenna lánapakkanum, en kauptilboð þeirra var samhljóða kauptilboðum annarra kaupenda og var þar meðal annars gert ráð fyrir frestun á greiðslu 31,61% kaupverðs til 31. mars 2008. Til að fjármagna greiðslu á 68,39% kaupverðsins tók félagið lán í erlendum gjaldmiðlum hjá Glitni banka hf.

Hinn 26. mars 2008 óskuðu Gnúpverjar ehf. eftir greiðslufresti á eiginfjárframlagi sínu sem var á gjalddaga í lok mars 2008.138 Félagið greiddi þriðjung af eiginfjárframlaginu 29. júlí 2008 og skrifaði um leið undir fjóra víxla fyrir því sem út af stóð, með gjalddaga 1. desember 2008 og 1. júlí 2009.139 Útgefandi víxlanna var Þorbjörn hf., móðurfélag Gnúpverja ehf., en tveir þeirra voru í eigu Sparisjóðs Reykjavíkur og nágrennis og tveir í eigu Byrs sparisjóðs. Þegar ekki var staðið við greiðslur samkvæmt víxlunum höfðaði Byr sparisjóður mál á hendur Þorbirni hf. í lok nóvember 2009 til greiðslu annars þeirra tveggja víxla sem voru í eigu sparisjóðsins. Í desember 2009 gerðu Þorbjörn hf. og Byr sparisjóður samkomulag um greiðslu víxlanna og lagði félagið andvirði höfuðstóls þeirra inn á bankareikning Byrs sparisjóðs 6. janúar 2010.140 Gnúpverjar ehf. var úrskurðað gjaldþrota 9. júlí 2010.

SM 1 ehf.

SM 1 ehf. var í eigu Suðurnesjamanna ehf. Í hluthafahópi Suðurnesjamanna ehf. voru í árslok 2007 Nesfiskur ehf., Saltver ehf., Gnúpverjar ehf., Útnesjamenn ehf., Kaupfélag Suðurnesja, Vísir hf., Sparisjóðurinn í Keflavík, Ásar-capital ehf. og Grindavíkurkaupstaður. Þegar hlutabréfakaupin í Icebank hf. áttu sér stað sátu Eiríkur Tómasson, Eðvard Júlíusson og Grímur Karl Sæmundsen í stjórn SM 1 ehf. Eiríkur og Eðvard sátu jafnframt í stjórn Suðurnesjamanna ehf.

Í upphaflegu kauptilboði SM 1 ehf. var gert tilboð í 8,5% af heildarhlutafé Icebank hf. en í lok október 2007 hækkaði hluturinn í 9,5% þegar Obduro ehf. féll frá hluta af fyrirhuguðum kaupum sínum. SM 1 ehf. keypti því 108.356.622 hluti, eða 18,03% þeirra hluta sem voru til sölu. Kaupverðið var rúmir 3 milljarðar króna og fékk félagið lán fyrir 68,39% kaupverðsins í almenna lánapakkanum í kringum viðskiptin. Eftir viðskiptin varð einn af stjórnarmönnum SM 1 ehf., Grímur Karl Sæmundsen, bankaráðsmaður í Icebank hf.

Eiginfjárframlag SM 1 ehf. vegna Icebank-viðskiptanna átti að nema tæpri 961 milljón króna og koma til greiðslu 31. mars 2008 samkvæmt viðauka við kaupsamning um viðskiptin. Í viðaukanum var einnig áskilið að kaupandi skyldi leggja fram fullnægjandi tryggingu fyrir þessari greiðslu að mati seljanda. SM 1 ehf. lagði fram yfirlýsingu 5. desember 2007, undirritaða af Geirmundi Kristinssyni, sparisjóðsstjóra Sparisjóðsins í Keflavík, um fjármögnun og ráðstöfun vegna eiginfjárframlagsins. Í yfirlýsingunni sagði meðal annars:

Það staðfestist hér með að Sparisjóðurinn í Keflavík og SM1 ehf. hafa gert með sér samkomulag um að staðið verði skil á framangreindri greiðslu 1. apríl 2008 með eigin framlagi félagsins og fyrirgreiðslu hjá Sparisjóðnum í Keflavík. Andvirði þessa fer til að greiðslu kr. 960.934.655 til seljenda á eignarhlut í Icebank hf. samkv. framangreindu.141

Í apríl 2008 óskuðu seljendur hlutabréfanna, Byr sparisjóður og Sparisjóður Reykjavíkur og nágrennis, eftir því að Sparisjóðurinn í Keflavík stæði við ábyrgð sína samkvæmt yfirlýsingunni. Sparisjóðurinn hafnaði því hins vegar að líta bæri á yfirlýsinguna sem ábyrgð fyrir greiðslu SM 1 ehf. gagnvart þriðja aðila.142 Ekkert varð heldur úr fjármögnun sparisjóðsins á hluta eiginfjárframlags SM 1 ehf. þar sem félagið lagði ekki fram umsamið eiginfjárframlag og gat ekki veitt tilskildar tryggingar. Eiginfjárframlag SM 1 ehf. vegna hlutabréfakaupanna í Icebank hf. var aldrei greitt til seljendanna. SM 1 ehf. var úrskurðað gjaldþrota 5. maí 2011.

Bergið ehf.

Þegar Bergið ehf. keypti hlutabréf í Icebank hf. var eigandi þess Steinþór Jónsson og sat hann jafnframt í stjórn félagsins. Bergið ehf. keypti 9,5% af heildarhlutafé bankans fyrir rúma 3 milljarða króna og fékk lán fyrir 68,39% kaupverðsins í almenna lánapakkanum í kringum viðskiptin. Í upphaflegu kauptilboði Bergsins ehf. var gert tilboð í 7,68% af heildarhlutafé Icebank hf. en í lok október 2007 hækkaði hluturinn í 9,5% þegar Obduro ehf. féll frá hluta af fyrirhuguðum kaupum sínum og Bergið ehf. og fleiri félög gengu inn í þau kaup. Eftir viðskiptin varð stjórnarmaður og einn eigandi félagsins, Steinþór Jónsson, bankaráðsmaður í Icebank hf.

Gögn í tengslum við frágang lánasamninga almenna lánapakkans sýna að stefnt var að hlutafjáraukningu í Berginu ehf. til að standa straum af eiginfjárframlagi vegna
Icebank-viðskiptanna 31. mars 2008. Í fylgiskjali undir heitinu „yfirlýsing um kvöð“ með lánasamningum milli Bergsins ehf. annars vegar og SPRON-Verðbréfa, Byrs sparisjóðs, Sparisjóðsins í Keflavík og Sparisjóðs Mýrasýslu hins vegar, samþykktu hluthafar Bergsins að ekki mætti veðsetja, selja eða framselja eignarhlut þeirra í félaginu án samþykkis lánveitenda. Þá voru liðnir um fjórir mánuðir frá frágangi kaupanna á hlutunum og hluthöfum hafði fjölgað samkvæmt þessu skjali. Fylgiskjalið var dagsett 4. desember 2007 og undir það skrifuðu tólf aðilar og samkvæmt skjalinu var samtala nafnverðs hlutafjár í eigu þeirra tæpar 790 milljónir króna. Samkvæmt ársreikningi Bergsins ehf. fyrir árið 2007 var hlutafé félagsins í árslok 500 þúsund krónur, allt í eigu Steinþórs Jónssonar. Í ársreikningnum er tilgreint víkjandi lán að fjárhæð 960.934.666 krónur, sem var sama fjárhæð og eiginfjárframlagið vegna Icebank-viðskiptanna, en í skýringu um víkjandi lánið sagði í ársreikningnum: „Fjárfestingar félagsins eru fjármagnaðar að hluta með skammtímalánum, samtals kr. 960.934.666, og munu þau í heild sinni færast sem greiðsla hlutafjár við fyrirhugaða hlutafjáraukningu á árinu 2008.“143 Samkvæmt lista í tölvupósti Sigurðar Smára Gylfasonar var stefnt að því að skipting eignarhluta í Berginu ehf. yrði sem hér segir:

Samkvæmt Fyrirtækjaskrá varð breyting á stjórn Bergsins ehf. 13. mars 2008 og var ný stjórn skipuð Steinþóri Jónssyni, stjórnarformanni, Jónmundi Guðmarssyni og Sverri Sverrissyni.

Þegar kom að greiðslu á eiginfjárframlagi Bergsins ehf., gátu ekki allir staðið við sinn hlut í hlutafjárhækkuninni sem átti að fjármagna greiðsluna. Helstu vandræðin sneru að DSK ehf. og var ljóst í byrjun júní að ekki yrði staðið við þá samninga sem búið var að stilla upp. Starfsmenn Sparisjóðs Reykjavíkur og nágrennis lögðu til að bjóða Heiðarbúum ehf., í eigu Steinþórs Jónssonar og Sverris Sverrissonar, að taka yfir DSK ehf. og að Byr sparisjóður og Sparisjóður Reykjavíkur og nágrennis myndu í sameiningu lána DSK ehf. 250 milljónir króna fyrir hlutafjárhækkuninni í Berginu ehf.144 Þetta varð úr og 19. júní 2008 keyptu Heiðarbúar ehf. DSK ehf. fyrir eina krónu og fengu lánið frá sparisjóðunum tveimur til að leggja fram sem eigið fé í Bergið ehf.

Heiðarbúar ehf. fengu lán frá Sparisjóði Reykjavíkur og nágrennis og Byr sparisjóði vegna hlutafjárhækkunar í Berginu ehf., að fjárhæð 351 milljón króna, auk lántökugjalds, en lánasamningarnir voru dagsettir 20. maí 2008. Til tryggingar lánunum tóku sparisjóðirnir tveir samhliða 1. veðrétt í hlutum Heiðarbúa ehf. í Berginu ehf., 240.000 hlutum Heiðarbúa ehf. í Fasteignafélagi Suðurnesja ehf. (40% eignarhlut), öllum hlutum Steinþórs Jónssonar og Sverris Sverrissonar í Heiðarbúum ehf. (100% eignarhlut) og handveð í innistæðu bankareiknings, en inn á hann skyldi greiða allan arð af hinum veðsettu hlutum. Sama dag og lánin voru veitt var skrifað undir sjálfskuldarábyrgð eða greiðsluloforð þar sem Heiðarbúar ehf. tókust á hendur óskipta sjálfskuldarábyrgð gagnvart Sparisjóði Reykjavíkur og nágrennis og Byr sparisjóði á greiðslu á 351 milljón króna af eiginfjárframlagi Bergsins ehf. vegna kaupa á hlutum í Icebank hf., auk áfallinna vaxta og kostnaðar. Auk lána til DSK ehf. og Heiðarbúa ehf. lánuðu Sparisjóður Reykjavíkur og nágrennis og Byr sparisjóður IB Holding ehf. 27,5 milljónir króna, auk lántökugjalds, vegna þátttöku félagsins í hlutafjáraukningu í Berginu ehf. IB Holding ehf. var ekki á listanum um hluthafa í Berginu ehf. frá í mars 2008, sbr. töflu 12.

Þessi þrjú félög, DSK ehf., Heiðarbúar ehf. og IB Holding ehf., fengu tæpar 629 milljónir að láni frá Sparisjóði Reykjavíkur og nágrennis og Byr sparisjóði vegna hlutfjáraukningar í Berginu ehf.145 Þessir fjármunir runnu inn á bankareikninga Bergsins og aftur út af þeim samkvæmt gögnum rannsóknarnefndarinnar. Engar aðrar færslur voru á bankareikningum félagsins frá 15. mars til 15. ágúst 2008. Rannsóknarnefndinni er ekki kunnugt um að aðrir þeir sem tilgreindir voru sem hluthafar í Berginu ehf. í lok árs 2008 í tölvupósti Sigurðar Gíslasonar til rannsóknarnefndarinnar 29. október 2012 hafi lagt fram frekara hlutafé í félagið eins og til stóð. Samkvæmt afritum rannsóknarnefndarinnar af lánagagnagrunnum sparisjóðanna fékk Steinþór Jónsson nýjan yfirdrátt sem nam tæpum 102 milljónum króna hjá Sparisjóðnum í Keflavík í mars 2008. Það samsvarar um það bil því sem stóð til að hann legði inn sem nýtt hlutafé í Bergið ehf. Þar sem um er að ræða yfirdrátt eru engir lánasamningar fyrir hendi og ekki var fjallað um lánið á fundum lánanefndar eða stjórnar. Tilgangur lánsins er því óljós. Í tölvupóstsamskiptum milli starfsmanna Sparisjóðsins í Keflavík vegna athugunar Fjármálaeftirlitsins á útlánum sparisjóðsins kom fram að allir eigendur Bergsins ehf. hefðu staðið við skuldbindingar um eigið fé.146 Hverjir eigendur félagsins voru þegar viðskiptin áttu sér stað er á reiki, því skráð hlutafé félagsins var aldrei meira en 500 þúsund krónur þrátt fyrir hlutafjáraukninguna, en félagið varð gjaldþrota 10. júní 2011.147

9.6.4 Viðskipti sparisjóða

Meðal kaupenda í viðskiptunum með hlutabréf í Icebank ehf. voru fimm sparisjóðir en umfjöllun um viðskipti þeirra má finna í köflunum um fjárfestingar hvers sparisjóðs fyrir sig.

Í töflunni er Sparisjóður Mýrasýslu skráður fyrir kaupum á 3% hlut. Fyrir kaupin átti hann rúmlega 8,7% eignarhlut í Icebank hf. Ljóst var að með kaupunum færi eignarhlutur sparisjóðsins yfir 10% og þurfti hann því heimild frá Fjármálaeftirlitinu til að fara með virkan eignarhlut í Icebank hf. Sparisjóðurinn sendi umsókn til Fjármálaeftirlitsins 19. október 2007 um að fara með virkan eignarhlut í Icebank hf., eða allt að 20%. Að lokinni ítarlegri athugun komst Fjármálaeftirlitið að þeirri niðurstöðu, í lok maí 2008, að Sparisjóður Mýrasýslu væri ekki hæfur til að eiga og fara með eignarhlut og atkvæðisrétt í Icebank hf. umfram 9,99%. Í kjölfar þessarar niðurstöðu gengu kaup Sparisjóðs Mýrasýslu til baka en sparisjóðurinn hafði ætlað að kaupa hlutina af Byr sparisjóði. Því gefur tafla 13 ekki til kynna endanleg kaup á hlutum í Sparisjóðabankanum.148

9.6.5 Verðtrygging Byrs sparisjóðs og Sparisjóðs Reykjavíkur og nágrennis á hlutabréfum í Exista hf.

Eins og framar er getið var gerður viðauki við kaupsamningana vegna viðskiptanna með Icebank-hlutabréfin þar sem Sparisjóður Reykjavíkur og nágrennis og Byr sparisjóður skuldbundu sig til að verðtryggja hlutabréfaeign Icebank hf. í Exista hf. Sparisjóðirnir tveir sömdu við Icebank hf. um að hvor þeirra tryggði 84.301.523 hluti, samtals 168.603.046 hluti, í Exista hf. og ábyrgðust þeir þannig að gengi hlutabréfanna yrði að minnsta kosti 31,0 þegar upp rynni 30. nóvember 2008. Ef gengi Exista hf. yrði lægra en 31,0 samkvæmt útreikningi á lokaverði, ætti Icebank hf. kröfu á hendur sparisjóðunum fyrir mismuninum. Samkvæmt samningnum átti krafan að koma til greiðslu 8. desember 2008. Í samningnum sagði jafnframt að forsendur verðtryggingarinnar væru þær að samningar um viðskiptin með hlutabréf í Icebank hf. hefðu verið réttilega frágengnir, ásamt lánasamningum og veðsamningum, og að kaupendur hefðu ekki vanefnt samninga sína.149

Undir lok nóvember 2008 kallaði Icebank hf. eftir því að sparisjóðirnir tveir efndu verðtryggingarsamninginn og að hvor þeirra greiddi Icebank hf. rúmar 434 milljónir króna, þar sem gengi hlutabréfa Exista hf. náði ekki genginu 31,0.150 Sparisjóður Reykjavíkur og nágrennis greiddi sinn hluta samkvæmt samningnum en Byr sparisjóður neitaði greiðslu. Fyrir hönd Byrs sparisjóðs ritaði lögmaður bréf til Icebank hf. 16. desember 2008 þar sem fram kom að sparisjóðurinn féllist ekki á að greiðsluskylda hefði fallið á sparisjóðinn og að sparisjóðurinn hygðist ekki greiða umkrafða fjárhæð, enda væru forsendur verðtryggingarinnar brostnar þar sem „kaupin [væru] nú þegar stórlega vanefnd af nokkrum kaupendum auk þess sem vanefndir [væru] fyrirsjáanlegar hjá öðrum“.151

9.6.6 Samningur um kaup- og sölurétt í Icebank hf.

Á þeim tíma sem gengið var frá kauptilboði hópsins sem Behrens Fyrirtækjaráðgjöf ehf. hafði myndað til kaupa á hlutafé í Icebank hf. var skrifað undir „Samning um kaup- og sölurétt í Icebank hf.“ Aðilar að samningnum voru Sparisjóðurinn í Keflavík, Sparisjóður Mýrasýslu, Sparisjóður Svarfdæla, Sparisjóður Bolungarvíkur og Sparisjóður Vestmannaeyja og ellefu einkahlutafélög, þ.e.a.s. öll félögin í eigu stjórnenda bankans sem keyptu hlut, auk Obduro ehf., Infestus Holding ehf., SM 1 ehf. og Bergið ehf.

Samkvæmt kaupsamningum Sparisjóðsins í Keflavík og Sparisjóðs Mýrasýslu á hlutafé í Sparisjóðabankanum áttu þessir tveir sparisjóðir kauprétt á því hlutafé sem seljendurnir áttu áfram eftir söluna. Um var að ræða um það bil 45,6 milljón hluti í Icebank hf. í eigu Byrs sparisjóðs og 45,7 milljón hluti í eigu Sparisjóðs Reykjavíkur og nágrennis. Kauprétturinn var virkur í 12 mánuði frá undirritun kauptilboðsins. Byr sparisjóður og Sparisjóður Reykjavíkur og nágrennis áttu jafnframt sölurétt á hendur Sparisjóði Mýrasýslu og Sparisjóðnum í Keflavík á sömu hlutum í jafn langan tíma.

Með samningi um kaup- og sölurétt 9. október 2007 samþykktu áðurnefnd ellefu einkahlutafélög og sparisjóðirnir fimm að ef til þess kæmi að Sparisjóðurinn í Keflavík eða Sparisjóður Mýrasýslu eignuðust allt að 91,4 milljón hluti í Icebank hf. skyldu þeir sparisjóðir eiga sölurétt á hlutafénu til annarra samningsaðila í ákveðnum hlutföllum í samræmi við upphaflegt kauptilboð. Þá áttu allir aðilar að samningnum kauprétt á hendur Sparisjóðnum í Keflavík eða Sparisjóði Mýrasýslu kæmi til þess að þeir tveir sparisjóðir yrðu eigendur hlutafjár Byrs sparisjóðs eða Sparisjóðs Reykjavíkur og nágrennis í Icebank hf. á grundvelli áðurnefnds kaupsamnings.152

Athuganir rannsóknarnefndarinnar benda ekki til þess að neinn þeirra aðila sem átti aðild að samningnum hafi nýtt sér rétt samkvæmt honum. Í tölvupóstum starfsmanna Sparisjóðs Reykjavíkur og nágrennis mátti þó finna drög að bréfi til Sparisjóðsins í Keflavík frá 24. september 2008 þar sem tilkynnt var um nýtingu söluréttarins og skyldi greiðsla fyrir bréfin nema 1,4 milljörðum króna, samkvæmt ákvæðum samningsins.153

9.6.7 Viðskipti með 0,96% hlutafjár í Icebank hf.

Consensus ehf. átti upphaflega að vera meðal kaupenda í Icebank hf., með 1,19% eignarhlut, en féll frá kaupunum áður en þau voru frágengin. Sparisjóðabankinn keypti þessi bréf en við það fór hann yfir leyfileg mörk eigin hluta samkvæmt 29. gr. laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki. Icebank hf. seldi því hlutabréf fyrir 11 milljónir króna að nafnverði, eða 0,96% hlutafjár í bankanum, til Byrs sparisjóðs 3. mars 2008. Söluverðið var 308 milljónir króna. Í 3. gr. kaupsamningsins var kveðið á um gagnkvæman kaup- og sölurétt en með því átti Byr sparisjóður rétt á að selja Icebank hf. hina keyptu hluti aftur og var bankanum skylt að kaupa þá til baka á verði sem tilgreint var í kaupsamningnum, eða á rúmlega 319,4 milljónir króna. Með tölvupósti 22. apríl 2008 tilkynnti Ragnar Z. Guðjónsson, sparisjóðsstjóri Byrs sparisjóðs, að sparisjóðurinn hefði ákveðið að nýta sölurétt sinn og selja bréfin aftur til Icebank hf. 3. júní 2008.154

Daði Bjarnason, lögfræðingur hjá Icebank hf., lagði til í tölvupósti til Agnars Hanssonar bankastjóra 2. júní 2008, að Salt Investments ehf.155 yrði boðið að kaupa hluti í bankanum með sölurétti eftir 3–6 mánuði. Í póstinum sagði: „Það má þá græja það í lok þessarar viku og upplýsa fme stuttlega um að við höfum aftur gert ráðstafanir til að halda okkur fyrir neðan 10% mörkin.“156 Í svarpósti frá Agnari kom fram að stefnt yrði að því að hafa sömu skilmála í þessum samningi og hafði verið við Byr sparisjóð í þeim samningi sem getið var hér á undan.157 Í kjölfar þessa, 9. júní 2008, sendi bankastjóri minnisblað til bankaráðs þar sem ráðið var upplýst um að bankinn myndi á ný eignast hlutina sem Byr sparisjóður hafði nýtt sér sölurétt á. Í minnisblaðinu sagði meðal annars:

Viðskiptin voru ekki síst framkvæmd til að bankinn myndi gera viðeigandi ráðstafanir til að komast, innan þess frests sem kveðið er á um í 29. gr. laga um fjármálafyrirtæki, niður fyrir þau 10% mörk sem bankanum er heimilt að eiga eða hafa að veði í eigin hlutabréfum. Salt Investment hefur samþykkt að kaupa framangreinda eignarhluti í bankanum muni bankinn fjármagna kaupin og félagið hafa sölurétt líkt og BYR sparisjóður hafði.158

Á fundi bankaráðs 19. júní 2008 staðfesti bankaráð fyrri samþykkt sem gerð var milli funda á grundvelli minnisblaðs bankastjóra, um sölu á eigin bréfum til Salt Investments ehf. Jafnframt samþykkti bankaráðið að bankinn myndi lána Salt Investments ehf. vegna kaupanna.159 Kaupverð hlutanna var 253 milljónir króna og var lánið veitt í formi tímabundinnar hækkunar á lánalínu til Salt Investments ehf. til 23. september 2008. Engar tryggingar voru veittar fyrir hækkun lánalínunnar. Salt Investments ehf. nýtti síðan sölurétt sinn samkvæmt kaupsamningnum 23. september 2008 og keypti Icebank hf. hlutina til baka á 267,7 milljónir króna í samræmi við ákvæði kaupsamningsins.

Fáum dögum síðar, 29. september 2008, keypti Salt Aviation ehf., dótturfélag Salt Investments ehf., jafn stóran nafnverðshlut aftur af Icebank hf. og var kaupverðið það sama og Salt Investments ehf. hafði greitt fyrir bréfin í júní 2008, eða 253 milljónir króna. Aftur voru kaupin að fullu fjármögnuð með láni frá Icebank hf. og engin veð tekin í hlutabréfunum, en til tryggingar skilvísri og skaðlausri greiðslu lánsins afhenti Salt Aviation ehf. Icebank hf. óútfyllta handveðsyfirlýsingu með veði í hlutum að nafnverði 11 milljónir króna í Icebank hf. ásamt útfylltu umboði frá Salt Aviation ehf. til Icebank hf. til að fullgilda handveðssamninginn meðan skuld samkvæmt lánasamningnum væri ógreidd. Auk kaupsamnings og lánasamnings var gerður valréttarsamningur á milli Icebank hf. og Salt Aviation ehf. þar sem undirliggjandi bréf voru hlutabréf í Icebank hf. að nafnvirði 11 milljónir króna að nafnverði og var samningsgengið 23, það sama og var í viðskiptunum. Var kaupanda (Icebank hf.) heimilt að nýta valréttinn hvenær sem var á tímabilinu frá 30. september 2008 til 16. júlí 2010 en athugun rannsóknarnefndarinnar bendir til þess að það hafi ekki verið gert.

9.7 Ályktanir rannsóknarnefndar

Upp úr aldamótum varð aðgengi sparisjóðanna að fjármagni sífellt betra vegna aðstæðna á fjármálamarkaði. Vextir lækkuðu og framboð lánsfjármagns var gott. Lánsfjármagn í erlendum myntum var á lægri vöxtum en í íslenskum krónum og því sóttust sparisjóðir, þó einkum þeir stærri, eftir að fjármagna sig erlendis. Með meira fjármagni gátu sparisjóðir vaxið hraðar og var útlánavöxtur þeirra á árunum 2001–2007 mikill. Meginþorri útlána sparisjóðanna var til einstaklinga og mest til íbúðakaupa, en þó töpuðu sparisjóðirnir einkum á öðrum lánum þegar lán voru færð niður, frá og með árinu 2008. Húsnæðislán og önnur lán til einstaklinga og smærri fyrirtækja eru yfirleitt afskrifuð með almennum afskriftum sem voru um 15% af afskriftareikningi útlána í lok árs 2008. Rannsóknarnefndin valdi úrtak útlána til sérstakrar skoðunar sem byggði á fjárhæð útlána og sérgreindra afskrifta, en sérgreindar afskriftir voru um 85% af afskriftareikningi útlána í lok árs 2008. Úrtak rannsóknarnefndarinnar náði til rúmlega tveggja þriðju hluta sérgreindra afskrifta. Í úrtakinu voru lán til einstaklinga fátíð og því má segja að þau lán sem höfðu hvað mest áhrif á lánasafn sparisjóðanna hafi verið þau sem óalgengust voru í lánasafninu.

Lánin sem höfðu hvað mest áhrif á rekstur og erfiðleika sparisjóðanna voru lán til fasteigna- og byggingarverkefna og lán til kaupa á óskráðum hlutabréfum og stofnfjárbréfum. Þeir sparisjóðir sem lánuðu ekki til slíkra verkefna töpuðu minna á útlánum en aðrir. Enginn sparisjóður fór þó varhluta af efnahagsástandinu og áhrifum þess á útlánasafnið frá haustinu 2008 og þurftu þeir allir að afskrifa talsverðan hluta útlána sinna. Ekki er hægt að draga þá ályktun að sparisjóðir sem einbeittu sér að því að lána til aðila í nærumhverfi sínu hafi tapað minna á útlánum en þeir sem lánuðu utan síns svæðis. Staðbundin efnahagsáhrif endurspegluðust í lánasöfnum sparisjóða sem héldu sig við afmarkað landsvæði og virði útlána hafði því minna að gera með ákvarðanir um og eftirlit með lánum en utanaðkomandi þróun. Þessi áhrif endurspeglast meðal annars í samþjöppun innan ákveðinna atvinnugreina sem mikilvægust voru fyrir starfssvæði hvers sparisjóðs, svo sem landbúnaðar eða sjávarútvegs. Gengi atvinnugreinar getur haft áhrif á hvernig sparisjóðnum reiðir af.

Aðrir þættir, svo sem tilgangur útlána, tegund veða, gjaldmiðill láns og fjárhagsstaða lántaka, höfðu, þegar á heildina er litið, mun meira að segja um gæði útlána sparisjóðanna og afskriftir en það hvort lán voru veitt innan eða utan starfssvæðis. Hjá minni sparisjóðum sem lánuðu út fyrir starfssvæði sitt varð til dæmis mest tap á lánum sem veitt voru fyrir milligöngu Sp-ráðgjafar ehf. Lánin voru veitt í erlendri mynt til kaupa á fyrirtækjum með veði í óskráðum bréfum. Minni sparisjóðir sem ekki veittu slík lán töpuðu minna á útlánum, hvort sem þau voru innan eða utan starfssvæðis þeirra. Stærri sparisjóðirnir töpuðu mikið á sams konar lánum, þ.e. lánum í erlendum myntum til einkahlutafélaga til kaupa á hlutabréfum eða stofnfjárbréfum með veði í bréfunum sjálfum. Þeirra stærst voru lán til kaupa á hlutum í Icebank hf.

Hópur fjárfesta sem Behrens Fyrirtækjaráðgjöf ehf. hafði forgöngu um að setja saman í tengslum við tilboð í eignarhlut í Icebank hf. gerði mun hærra tilboð í eignarhlutinn en aðrir tilboðsgjafar. Tilboðið var lagt fram haustið 2007 en fram að þeim tíma höfðu einu eigendur bankans verið sparisjóðir. Með því að taka hæsta tilboði gátu sparisjóðirnir sem seldu eignarhlut sinn í viðskiptunum bókað mikinn söluhagnað. Sparisjóðirnir sem héldu eignarhlutum sínum í bankanum færðu að sama skapi mikinn gengishagnað af bréfunum, en allir nema einn þeirra hófu að færa eignarhlutinn á gangvirði á árinu.

Í tilboði hópsins sem Behrens Fyrirtækjaráðgjöf ehf. fór fyrir kom fram að hópurinn hygðist falast eftir fjármögnun sparisjóðanna á verkefninu. Með því að taka hæsta tilboði í hlutina og fjármagna kaupin, veittu sparisjóðirnir að sama skapi há lán til kaupanna. Tryggingarnar sem teknar voru að veði fyrir lánunum voru nær eingöngu í bréfunum í bankanum sjálfum og lánin sem veitt voru til kaupanna í desember 2007 voru í erlendum myntum. Kaupin fóru fram á genginu rúmar 28 krónur á hlut en ársuppgjör sparisjóðanna, sem miðuðu við stöðu þeirra um þremur vikum eftir að kaupin gengu í gegn, gerðu ráð fyrir að hlutirnir væru töluvert minna virði. Virði trygginganna hafði því minnkað verulega á þremur vikum. Þá fór gengi íslensku krónunnar að síga árla ársins 2008 og höfuðstóll lánanna hækkaði. Því breikkaði bilið milli virðis lánanna og trygginganna að baki þeim sífellt. Sé virði þessara lána og afskrifta af þeim tekið saman sem heild, voru þau meðal þeirra allra stærstu í úrtaki rannsóknarnefndarinnar á útlánum. Vegna stærðar sinnar höfðu þessi lán áhrif á einkenni heildarútlánasafns sparisjóðanna, svo sem hlutfall útlána í erlendri mynt og hlutfall veða í óskráðum hlutabréfum.

Þeir sparisjóðir sem seldu stærstan hluta eignar sinnar í Sparisjóðabanka Íslands hf. síðla árs 2007 og lánuðu eignalitlum einkahlutafélögum fyrir kaupunum með veði í bréfunum, fluttu áhættuna úr verðbréfaáhættu í útlánaáhættu. Áhættan minnkaði ekki sjáanlega við þetta eða breyttist í eðli sínu. Ef eignalítil einkahlutafélög hætta að borga af lánum sínum eiga lánastofnanir sjaldnast annan kost en að ganga að veðum. Þegar um er að ræða verðbréf sem hafa misst nær allt verðgildi sitt fæst lítið upp í lánin. Veðstaða Sparisjóðsins í Keflavík og Sparisjóðs Mýrasýslu var verri þar sem þeir áttu annan veðrétt í hlutabréfum Icebank hf. á eftir Sparisjóði Reykjavíkur og nágrennis og Byr sparisjóðs.

Stærri sparisjóðirnir lánuðu allir til fasteigna- og byggingaverkefna og þegar þeir teygðu sig út fyrir það sem kalla mætti starfssvæði þeirra, var fyrst og fremst um lán til slíkra verkefna að ræða. Sparisjóður Mýrasýslu tapaði til að mynda þó nokkru á fasteignaverkefnum utan síns starfssvæðis, til að mynda í Hafnarfirði og Vogum á Vatnsleysuströnd. Þá tóku Sparisjóður Reykjavíkur og nágrennis og Byr sparisjóður þátt í fasteignaverkefnum erlendis. Voru sum verkefnin arðbærari en önnur en þegar á heildina er litið varð mikið tap af þeim. Fyrrverandi sparisjóðsstjóri Byrs sparisjóðs sagði vanþekkingu á erlendum mörkuðum og takmarkaða getu til að hafa eftirlit með verkefnum meðal annars hafa leitt til taps á verkefnum erlendis.

Tap af fasteigna- og byggingaverkefnum á starfssvæði stærri sparisjóðanna var engu minna. Sparisjóður Reykjavíkur og nágrennis og Byr sparisjóður afskrifuðu mikið af þeim lánum sínum og voru þau algeng í úrtaki rannsóknarnefndarinnar. Þeir sparisjóðir sem lánuðu til fasteigna- og byggingaverkefna lögðu í einhverjum tilvikum einnig fram eiginfjárframlag í sömu verkefni til þess að njóta betur ábatans af þeim ef einhver yrði. Samhliða því jókst áhætta sparisjóðsins af verkefninu.

Haustið 2008 breyttist margt í íslensku efnahagslífi. Fjármagn varð af skornum skammti, gengi gjaldmiðilsins féll, verðbólga jókst, atvinnuleysi sömuleiðis og mikil óvissa ríkti um framtíðina. Nær allar eignir sem lánað hafði verið til kaupa á, féllu í virði á sama tíma og greiðslugeta lántakenda minnkaði. Höfuðstóll bæði verðtryggðra og gengistryggðra lána hækkaði og afborganir yfirleitt að sama skapi. Því dalaði vilji lántakenda til að greiða af lánum sem tekin voru til að kaupa eignir sem höfðu misst mikið af verðgildi sínu meðan höfuðstóllinn hafði allt að tvöfaldast. Einkahlutafélög með lítið eða lágmarks eigið fé sem fengið höfðu lán til kaupa á hlutabréfum, tóku oft þann kost að hætta að greiða af lánunum, enda er það hægara um vik þegar takmörkuð ábyrgð fylgir félagsforminu. Slík lán ollu miklu tapi í sparisjóðakerfinu.

Aðstæður í efnahagslífinu höfðu mikið að segja um endurheimtur sparisjóðanna af lánum en mismunandi árangur og ávöxtun af útlánasafni þeirra má að nokkru leyti skýra með ákveðnum þáttum í uppbyggingu þeirra sem gerðu þá betur eða verr í stakk búna til að takast á við þær aðstæður. Fjármálaeftirlitið tók yfir vald hlutahafa- og stofnfjárhafafundar fjögurra stærstu sparisjóðanna en ekki annarra. Stærri sparisjóðirnir höfðu aðgengi að erlendu fjármagni sem þeir nýttu til að stækka og efla starfsemi sína. Sparisjóður Reykjavíkur og nágrennis og Byr sparisjóður og forverar hans vildu keppa við viðskiptabankana og var mikil áhersla lögð á að stækka útlánasafnið. Hraður og mikill vöxtur getur verið byggður á hrakvali frá öðrum lánastofnunum og líkur á tapi verða þá að sama skapi meiri ef utanaðkomandi aðstæður breytast. Útlánageta minni sparisjóða var ekki sú sama þar sem aðgengi þeirra að lánsfjármagni var minna og sömuleiðis lítil eftirspurn eftir stofnfé. Fyrir rannsóknarnefndinni kom það margsinnis fram að minni sparisjóðir hefðu ekki ráðið við að lána til stærri aðila á starfssvæðinu. Þannig var eiginfjárgrunnur þeirra oft takmarkandi þáttur í vexti útlána og laust fé var frekar nýtt til kaupa á fjáreignum sem síðan varð einnig tap á haustið 2008.

Þegar aðstæður á fjármálamarkaði voru orðnar slíkar að ljóst var að endurheimt lána yrði minni en vænst var þegar lánin voru veitt, hefðu sparisjóðirnir átt að geta gengið að veðum til að tryggja endurheimtur sínar. Fjármálaeftirlitið fylgdist með veðhlutföllum sparisjóðanna á reglulegum skýrslum og í vettvangsathugunum sínum og gerði fjöldamargar athugasemdir. Þegar tryggingaþekja lána er til að mynda um 100% þegar lán er veitt, þarf lítið út af að bera til að tryggingar dugi ekki fyrir láninu. Þá skorti nokkuð upp á að mat á greiðslugetu lántakenda, einkum einkahlutafélaga, væri fullnægjandi og oft lágu ársreikningar og aðrar fjárhagslegar upplýsingar um lántakendur ekki fyrir þegar lán var veitt. Hafi lántaki haft takmarkaða greiðslugetu en fengið lán á grundvelli of lítilla upplýsinga, þarf ekki stórt skakkafall til að hann hætti að standa í skilum. Sparisjóðum sem eru „hornsteinar“ í sínu héraði og halda atvinnu- og menningarlífi gangandi í nærsamfélaginu getur verðið óhægt um vik að ganga að veðum og selja eignir. Það kann að þýða missi starfa á starfssvæðinu, sem getur leitt til þess að endurheimtur verði enn minni en ella, og vinna þar með gegn tilgangi sparisjóðanna. Hér er því um vandrataðan veg að fara.

 


 

1 . Rannsóknarnefndin skoðaði útlán Sparisjóðabanka Íslands hf. með sömu aðferðafræði og útlán sparisjóðanna. Hann kemur þó ekki til umfjöllunar í þessum kafla en ákveðnum þáttum í starfsemi hans eru gerð skil í 31. kafla.

2 . Þar undir geta fallið lán sem greidd voru út í íslenskum krónum en voru bundin gengi erlendrar myntar.

3 . Oft er einfaldlega vísað til þeirra sem íbúðalána.

4 . Sjá nánari umfjöllun hér aftar í kaflanum og í 13. kafla.

5 . Stórir sparisjóðir eru Sparisjóður Mýrasýslu frá 2001 til 2008, Sparisjóðurinn í Keflavík frá 2001 til 2009, Sparisjóður Reykjavíkur og nágrennis frá 2001 til 2008 og Byr sparisjóður til ársins 2009 en samtala efnahags Sparisjóðs vélstjóra og Sparisjóðs Hafnarfjarðar er notuð fyrir tímabilið frá 2001 til 2006 þegar Sparisjóður Hafnarfjarðar sameinaðist Sparisjóði vélstjóra og úr varð sameinaður sjóður, Byr sparisjóður, í ársbyrjun 2007. Fjármögnunarþættir eru innlán, lántaka, skuldir við lánastofnanir, aðrar skuldir og víkjandi skuldir.

6 . Um vaxtakjör mynta og íslensku krónunnar er fjallað í 10. kafla, um fjármögnun sparisjóðanna.

7 . Þetta á sérstaklega við um lán sem veitt voru fyrir milligöngu Sp-ráðgjafar ehf. og fjallað er um hér aftar.

8 . Minnisblað Fjármálaeftirlitsins vegna dóms Hæstaréttar 15. febrúar 2012 í máli nr. 600/2011, 13. apríl 2012.

9 . Lánþegar geta talist í sérstakri tapshættu vegna verulegra eða langvarandi vanskila, greiðslustöðvunar, gjaldþrots eða annarra aðstæðna, svo sem vegna þess að gjaldþol eða greiðslugeta hafi rýrnað umtalsvert.

10 . Þessa sjást til að mynda dæmi í endurskoðunarskýrslu um ársreikning Sparisjóðsins í Ólafsvík 2005, Sparisjóðs Hafnarfjarðar 2005, Sparisjóðs Norðfjarðar 2005, Sparisjóðs Svarfdæla 2005 og 2006, Sparisjóðs Norðlendinga 2005 og 2006, Sparisjóðs Suður-Þingeyinga 2005 og 2006, Sparisjóðs Höfðhverfinga 2005, 2006 og 2007 og Sparisjóðs Þórshafnar og nágrennis 2007. Sjá nánari umfjöllun í 7. kafla skýrslunnar, um endurskoðun ársreikninga sparisjóðanna. Þá má geta þess að í áhættustýringarreglum Sparisjóðs Mýrasýslu sagði að stefnt skyldi að því að árlegt framlag í afskriftareikning útlána væri að jafnaði innan við 1% af útlánum og ábyrgðum. Sjá nánar í 20. kafla.

11 . Sjá skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis um aðdraganda og orsakir falls íslensku bankanna 2008 og tengda atburði, 2010, 2. bindi, bls. 87–88.

12 . Hér er miðað við uppsafnaðan hagnað eða tap af fjáreignum og útlánum á árunum 2008–2011 á verðlagi ársins 2011 og stöðu eigna í árslok 2007 á sama verðlagi.

13 . Rannsóknarnefndin skoðaði útlán Sparisjóðabanka Íslands hf. með sömu aðferðafræði og útlán sparisjóðanna. Hann kemur þó ekki til umfjöllunar í þessum kafla en ákveðnum þáttum í starfsemi hans eru gerð skil í 31. kafla.

14 . Um vettvangsathuganir og framkvæmd þeirra er fjallað í 6. kafla, um eftirlit með starfsemi sparisjóða.

15 . Í umfjöllun um einstök félög eru eigendur þeirra þó iðulega tilgreindir, þar sem slíkt varðar að jafnaði ekki fjárhag viðkomandi með beinum hætti.

16 . Nánar er fjallað um skýrslur um stórar áhættuskuldbindingar í 6. kafla.

17 . Í athugasemd Geirmundar Kristinssonar, fyrrverandi sparisjóðsstjóra Sparisjóðsins í Keflavík, til rannsóknarnefndarinnar 7. mars 2014 benti hann á að í reglum sparisjóðsins hafi verið kveðið á um að koma skyldi á fót lánanefnd. Stjórn sjóðsins hefði hins vegar aldrei tekið þá ákvörðun að koma slíkri nefnd á laggirnar. Sparisjóðsstjóri hefði hins vegar komið á fót samráðsvettvangi forstöðumanna sparisjóðsins sem skyldu vera honum til aðstoðar við ákvarðanir um lánveitingar og var oft vísað til hans sem „lánanefndar“. Sá samráðsvettvangur hafi ekki getað haft ríkari heimildir en sparisjóðsstjóri, sem hann sótti umboð sitt til, og því einungis verið ráðgefandi.

18 . Eiginfjárþáttur A samanstendur af innborguðu hlutafé, varasjóði, yfirverðsreikningi hlutafjár, endurmatsreikningi samkvæmt verðbólgureikningsskilum og óráðstöfuðu eigin fé að frádregnu bókfærðu virði eigin hlutabréfa eða stofnfjárbréfa, viðskiptavild og öðrum óefnislegum eignum, svo og tapi og samþykktri arðsúthlutun. Enn fremur skal taka tillit til hlutdeildar minnihluta í eign dótturfélaga samkvæmt samstæðureikningsskilum. Viðskiptavild, aðrar óefnislegar eignir og samþykkt arðsúthlutun eru ekki dregnar frá bókfærðu eigin fé.

19 . Samkvæmt ákvæðum útlánareglna Sparisjóðs Vestmannaeyja frá 2004.

20 . Nánari umfjöllun um vettvangsathuganir Fjármálaeftirlitsins má finna í 6. kafla.

21 . Um þetta er nánar fjallað í 6. kafla.

22 . Þetta kom t.a.m. fram í skýrslum Guðmundar Haukssonar, Magnúsar Ægis Magnússonar, Ólafs Jónssonar og Ingva Þórs Björnssonar fyrir rannsóknarnefndinni.

23 . Þetta kom t.a.m. fram í skýrslum Ragnars. Z. Guðjónssonar, Ásgeirs Sólbergssonar og Jóns Kristins Ólafssonar fyrir rannsóknarnefndinni.

24 . Sjá 9. kafla í skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis um Íbúðalánasjóð o.fl., 2013.

25 . Skýrsla Guðjóns Guðmundssonar fyrir rannsóknarnefnd Alþingis um sparisjóðina 18. desember 2012.

26 . Skýrsla Angantýs V. Jónassonar fyrir rannsóknarnefnd Alþingis um sparisjóðina 28. júní 2013.

27 . Samkvæmt ársreikningum Sparisjóðs Reykjavíkur og nágrennis voru lán til byggingarstarfsemi og mannvirkjagerðar hjá samstæðu Sparisjóðs Reykjavíkur og nágrennis rúm 10% af heildarútlánum sjóðsins á árunum 2002–2008.

28 . Skýrsla Fjármálaeftirlitsins um útlánaáhættu Sparisjóðs Reykjavíkur og nágrennis, 22. október 2007.

29 . Skýrsla Fjármálaeftirlitsins um útlánaáhættu, markaðsáhættu og eftirlit með peningaþvætti hjá Sparisjóðnum í Keflavík, september 2008.

30 . Skýrsla Fjármálaeftirlitsins um útlánaáhættu Byrs sparisjóðs, október 2007.

31 . Fastvaxtaáhætta getur myndast þegar vaxtamunur milli fastra vaxta útlánanna og þeirra lána sem sjóðurinn fjármagnar sig með á móti minnkar á líftíma útlánanna sem þá leiðir til tjóns fyrir sparisjóðinn ef honum tekst ekki að fjármagna sig á jafngóðum eða betri vaxtakjörum á lánstíma útlánanna.

32 . Þess skal getið að fasteignaveð voru tekin fyrir fleiri lánum en íbúðalánum.

33 . Reglurnar voru fyrst settar í Sparisjóði Mýrasýslu í október 2008. Fyrir þann tíma voru engar reglur um hámarksveðsetningarhlutfall hjá sparisjóðnum.

34 . Skýrsla Helga Jóhannssonar fyrir rannsóknarnefnd Alþingis um sparisjóðina 17. maí 2013.

35 . Um þessa samninga er nánar fjallað í 11. kafla, um fjármögnun sparisjóðanna.

36 . Skýrsla Ólafs Elíssonar fyrir rannsóknarnefnd Alþingis um sparisjóðina 13. ágúst 2012.

37 . Einkahlutafélög voru gjarnan stofnuð um ákveðnar eignir. Hér er átt við slík félög sem stofnuð voru til að halda utan um fasteignir.

38 . Þessi ákvæði voru bæði í reglum frá 2005 og 2008.

39 . Þetta háa hlutfall var einkum vegna lána sem veitt voru fyrir milligöngu Sp-ráðgjafar ehf.

40 . Skýrsla Fjármálaeftirlitsins um útlánaáhættu Sparisjóðs Reykjavíkur og nágrennis, 22. október 2007.

41 . Skýrsla Fjármálaeftirlitsins um útlánaáhættu, markaðsáhættu og eftirlit með peningaþvætti hjá Sparisjóði Mýrasýslu, 30. júlí 2008.

42 . Skýrsla Fjármálaeftirlitsins um útlánaáhættu, markaðsáhættu og eftirlit með peningaþvætti hjá Sparisjóðnum í Keflavík, september 2008.

43 . Samkvæmt skýrslunni voru 39% lána með veði í hlutabréfum með tryggingaþekju undir 125% 30. júní 2007. Ári síðar, eða 31. maí 2008, var hlutfallið komið í 70%. Að mati Fjármálaeftirlitsins var sú staða óviðunandi og beindi það því til Sparisjóðsins í Keflavík að fara að viðmiðum eftirlitsins, sérstaklega í ljósi þess að mestur hluti bréfanna var í óskráðum félögum. Viðmiðið um 125% tryggingaþekju að lágmarki vegna samninga með veði í hlutabréfum ætti við um skráð hlutabréf á skipulegum verðbréfamarkaði, en væri um önnur bréf að ræða, til að mynda óskráð bréf, ættu viðmiðin að vera enn hærri.

44 . Sjá nánari umfjöllun í 4. kafla.

45 . Alþingistíðindi, 2002–2003, A-deild, bls. 1112.

46 . Alþingistíðindi, 2002–2003, A-deild, bls. 1112.

47 . Sjá skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis um aðdraganda og orsakir falls íslensku bankanna 2008 og tengda atburði, 2010, 3. bindi, bls. 151–152.

48 . Tölvuskeyti Hafsteins Gunnarssonar til rannsóknarnefndarinnar 14. október 2013.

49 . Skýrsla Angantýs V. Jónassonar fyrir rannsóknarnefnd Alþingis um sparisjóðina 28. júní 2013.

50 . Byggt á upplýsingum úr útlánagrunni sparisjóðanna.

51 . Skýrsla Fjármálaeftirlitsins um útlánaáhættu Sparisjóðs Reykjavíkur og nágrennis, 22. október 2007.

52 . Skýrsla Fjármálaeftirlitsins um útlánaáhættu, markaðsáhættu og eftirlit með peningaþvætti hjá Sparisjóðnum í Keflavík, september 2008.

53 . Skýrsla Fjármálaeftirlitsins um útlánaáhættu Byrs sparisjóðs, október 2007.

54 . Samkvæmt skráningum í afgreiðslukerfið Spak 19. september 2007.

55 . Sjá nánari umfjöllun í 18. kafla um Byr sparisjóð, sbr. einnig dóm Hæstaréttar 7. júní 2012 í máli nr. 442/2011.

56 . Í svari til rannsóknarnefndarinnar 5. desember 2013 var lögð áhersla á að upplýsingarnar væru settar fram með fyrirvara.

57 . Skýrsla Fjármálaeftirlitsins um útlánaáhættu, markaðsáhættu og eftirlit með peningaþvætti hjá Sparisjóðnum í Keflavík, september 2008.

58 . Skýrsla Fjármálaeftirlitsins um útlánaáhættu, markaðsáhættu og eftirlit með peningaþvætti hjá Sparisjóðnum í Keflavík, september 2008.

59 . Skýrsla Fjármálaeftirlitsins um útlánaáhættu, markaðsáhættu og eftirlit með peningaþvætti hjá Sparisjóðnum í Keflavík, september 2008.

60 . Friðrik G. Olgeirsson, Sparisjóður í 80 ár: Saga Sparisjóðs Ólafsfjarðar 1914–1994, Ólafsfirði 1994, bls. 35.

61 . Smári Geirsson, Sparisjóður í 70 ár: Saga Sparisjóðs Norðfjarðar 1920–1990, Norðfirði 1992, bls. 43.

62 . Um þetta er nánar fjallað í 5. kafla.

63 . Skýrsla Ólafs Jónssonar fyrir rannsóknarnefnd Alþingis um sparisjóðina 17. maí 2013.

64 . Skýrsla Guðmundar E. Lárussonar fyrir rannsóknarnefnd Alþingis um sparisjóðina 8. apríl 2013.

65 . Skýrsla Guðmundar B. Magnússonar fyrir rannsóknarnefnd Alþingis um sparisjóðina 17. apríl 2013.

66 . Þetta kom t.a.m. fram í skýrslu Jóns Helga Péturssonar fyrir rannsóknarnefndinni 9. október 2013 og skýrslu Ara Teitssonar 10. apríl 2013.

67 . Einstaklingarnir töldust til eins lánahóps.

68 . Hér er átt við upphæð lánanna þegar þau voru veitt. Skuldbindingarnar voru orðnar mun hærri í lok árs 2008 þar sem þær voru nær allar bundnar gengi erlendra gjaldmiðla.

69 . Skýrsla Guðna Arnar Haukssonar fyrir rannsóknarnefnd Alþingis um sparisjóðina 8. apríl 2013.

70 . Við sameiningu Sparisjóðs Húnaþings og Stranda og Sparisjóðs Vestfirðinga við Sparisjóðinn í Keflavík í lok árs 2007 eignaðist Sparisjóðurinn í Keflavík 50% hlut í Sp-ráðgjöf ehf.

71 . Heimild sparisjóðanna til að starfrækja þjónustustarfsemi af þessu tagi byggðist á 1. mgr. 21. gr. laga nr. 161/2002, um fjármálafyrirtæki.

72 . Skýrsla Ásgeirs Sólbergssonar fyrir rannsóknarnefnd Alþingis um sparisjóðina 28. maí 2013.

73 . Hið síðarnefnda kom til að mynda fram í skýrslu Guðna Arnar Haukssonar, fyrrverandi sparisjóðsstjóra Sparisjóðs Þórshafnar og nágrennis, fyrir rannsóknarnefndinni 8. apríl 2013.

74 . Skýrsla Ingva Þórs Björnssonar fyrir rannsóknarnefnd Alþingis um sparisjóðina 18. apríl 2013.

75 . Skýrsla Kristjáns Hjelm fyrir rannsóknarnefnd Alþingis um sparisjóðina 21. nóvember 2012.

76 . Skýrsla Angantýs V. Jónassonar fyrir rannsóknarnefnd Alþingis um sparisjóðina 28. júní 2013.

77 . Skýrsla Kristjáns Hjelm fyrir rannsóknarnefnd Alþingis um sparisjóðina 21. nóvember 2012.

78 . Skýrsla Björns Torfasonar fyrir rannsóknarnefnd Alþingis um sparisjóðina 16. apríl 2013. Í athugasemd Björns Torfason til rannsóknarnefndarinnar 7. mars 2014 tók hann fram að starfsmenn Sp-ráðgjafar hefðu metið tryggingar og séð um gagnaöflun, tekið viðtöl við lántakendur og síðan mælt með lánveitingum. Þannig hefðu verkefnin komið fullmótuð til stjórnarinnar sem gaf síðan samþykki sitt. Til hennar hefðu aldrei komið lánveitingar sem þóttu vafasamar.

79 . Skýrsla Guðmundar B. Magnússonar fyrir rannsóknarnefnd Alþingis um sparisjóðina 17. apríl 2013.

80 . Skýrsla Guðmundar B. Magnússonar fyrir rannsóknarnefnd Alþingis um sparisjóðina 17. apríl 2013.

81 . Skýrsla Kristjáns Hjelm fyrir rannsóknarnefnd Alþingis um sparisjóðina 21. nóvember 2012.

82 . Skýrsla Ólafs Orrasonar fyrir rannsóknarnefnd Alþingis um sparisjóðina 10. júlí 2013.

83 . Skýrsla Ragnars Z. Guðjónssonar fyrir rannsóknarnefnd Alþingis um sparisjóðina 24. maí 2013.

84 . Skýrsla Finns Sveinbjörnssonar fyrir rannsóknarnefnd Alþingis um sparisjóðina 30. ágúst 2013.

85 . Skýrsla Guðmundar Arnar Haukssonar fyrir rannsóknarnefnd Alþingis um sparisjóðina 21. maí 2013.

86 . Skýrsla Guðmundar Arnar Haukssonar fyrir rannsóknarnefnd Alþingis um sparisjóðina 21. maí 2013.

87 . Skýrsla Guðmundar Arnar Haukssonar fyrir rannsóknarnefnd Alþingis um sparisjóðina 16. maí 2013.

88 . Skýrsla Ragnars Z. Guðjónssonar fyrir rannsóknarnefnd Alþingis um sparisjóðina 24. maí 2013.

89 . Skýrsla Jóns Þorsteins Jónssonar fyrir rannsóknarnefnd Alþingis um sparisjóðina 24. maí 2013.

90 . Skýrsla Ragnars Z. Guðjónssonar fyrir rannsóknarnefnd Alþingis um sparisjóðina 24. maí 2013.

91 . Skýrsla Geirmundar Kristinssonar fyrir rannsóknarnefnd Alþingis um sparisjóðina 12. ágúst 2013.

92 . Skýrsla Sigurðar Más Einarssonar fyrir rannsóknarnefnd Alþingis um sparisjóðina 21. maí 2013.

93 . Skýrsla Gísla Kjartanssonar fyrir rannsóknarnefnd Alþingis um sparisjóðina 21. maí 2013.

94 . Skýrsla Sigurðar Más Einarssonar fyrir rannsóknarnefnd Alþingis um sparisjóðina 21. maí 2013.

95 . Ný tilmæli nr. 1/2010, endurskoðun á tilmælum nr. 4/2006, voru gefin út 7. apríl 2010.

96 . Sbr. 2. mgr. 54. gr. laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki og leiðbeinandi tilmæli Fjármálaeftirlitsins nr. 4/2006.

97 . Sjá skýrslu Fjármálaeftirlitsins um útlánaáhættu hjá Byr sparisjóði, október 2007.

98 . Sbr. 55. gr. laga um fjármálafyrirtæki nr. 161/2002 og reglur um framkvæmd starfa sparisjóðsstjórnar og sparisjóðsstjóra í hverjum sparisjóði fyrir sig.

99 . Þetta kom til að mynda fram í skýrslum Ásgeirs Sólbergssonar og Jakobs H. Þórðarsonar fyrir rannsóknarnefndinni.

100 . Rannsóknarnefndin fékk fyrstu síðu af þremur í ódagsettu skjali með reglum um tryggingar fyrir útlánum og ábyrgðum. Þar gaf að líta stuttan kafla með almennum reglum um tryggingar og tvo kafla um veðtryggingar; fasteignaveð og veð í bifreiðum. Þar kom fram hámarksveðsetningarhlutfall sem tók tillit til ástands og tegundar eigna. Fyrrverandi starfsmenn sparisjóðsins gátu ekki upplýst rannsóknarnefndina um það á hvaða tíma þessar reglur giltu.

101 . Ekki var fjallað um lán í erlendri mynt í eldri reglum frá 2004.

102 . Í reglunum er kafli um „almenn myntlán“ en þar er gert ráð fyrir að veðsetning sé allt að 60% af markaðsvirði fasteignar. Ekki var því gert ráð fyrir öðrum slíkum lánum en fasteignaveðlánum.

103 . Tölurnar eru byggðar á upplýsingum frá Fjármálaeftirlitinu úr skýrslum um útlán með veði í hlutabréfum og öðrum verðbréfum. Framvirkir samningar um verðbréf eru inni í heildartölunum.

104 . Samkvæmt ársreikningum voru heildarútlán sparisjóðanna 414,8 milljarðar króna í árslok 2007, útlán hækkuðu um 101,7 milljarða króna á árinu 2008 og færðir voru 87,2 milljarðar króna í afskriftareikning á sama ári.

105 . Fjórtánda einkahlutafélagið er Salt Aviation ehf./Salt Investment ehf. sem keypti hlut sem bankinn hafði keypt í sjálfum sér eftir að eitt félag heltist úr lestinni en bankinn gat ekki átt bréfin vegna ákvæða um hámarkseignarhlut í eigin bréfum. Um þessi viðskipti er fjallað undir lok kaflans.

106 . Svo fór að Sparisjóðurinn í Keflavík seldi ekki hlut sinn í Sparisjóðabankanum. Hópurinn sem Behrens Fyrirtækjaráðgjöf ehf. setti saman bauð í hlut Sparisjóðs Reykjavíkur og nágrennis, Byr sparisjóðs og sparisjóða tengdra þeim, þ.e. nb.issparisjóðs hf., Sparisjóðs Norðlendinga og Sparisjóðs Kópavogs. Í fjárfestahópnum sem Behrens setti saman voru fimm sparisjóðir sem keyptu 10% hlut en það voru: Sparisjóður Svarfdæla, Sparisjóður Vestmannaeyja, Sparisjóður Bolungarvíkur, Sparisjóður Mýrasýslu og Sparisjóðurinn í Keflavík.

107 . Tölvuskeyti Jóns Gunnars Vilhelmssonar, forstöðumanns í fyrirtækjaráðgjöf Sparisjóðs Reykjavíkur og nágrennis, til Valgeirs M. Baldurssonar, framkvæmdastjóra hagdeildar Sparisjóðs Reykjavíkur og nágrennis, 4. september 2007.

108 . Tölvupóstur frá Jóni Gunnari Vilhelmssyni til Finns Sveinbjörnssonar, Guðmundar Haukssonar, Ragnars Z. Guðjónssonar, Jóhannesar Björnssonar og Valgeirs M. Baldurssonar 12. október 2007.

109 . Tölvuskeyti Sigurðar S. Gylfasonar til Valgeirs M. Baldurssonar, Jóns G. Vilhelmssonar og Aðalsteins Jóhannssonar 5. nóvember 2007.

110 . Sigurður Smári var eigandi Infestus Holding ehf. sem var einn kaupenda.

111 . Tölvuskeyti Sigurðar S. Gylfasonar til Steinþórs Jónssonar, Gríms Sæmundssonar, Eiríks Tómassonar, Aðalsteins Jóhannssonar, Stefáns Sveinbjörnssonar, Geirmundar Kristinssonar, Gísla Kjartanssonar, Þrastar Leóssonar, Finns Sveinbjörnssonar, Péturs Valdimarssonar, Kjartans Brodda Bragasonar, Kristins Vilbergssonar, Friðriks Friðrikssonar, Ólafs Elíssonar og Ásgeirs Sólbergssonar 22. nóvember 2007.

112 . Tölvuskeyti Sigurðar S. Gylfasonar til Steinþórs Jónssonar o.fl. 22. nóvember 2007.

113 . Tölvuskeyti Sigurðar S. Gylfasonar til Steinþórs Jónssonar, Stefáns Sveinbjörnssonar, Aðalsteins Jóhannssonar, Eiríks Tómassonar, Gríms Sæmundssonar, Finns Sveinbjörnssonar, Þrastar Leóssonar, Gísla Kjartanssonar, Geirmundar Kristinssonar, Péturs Valdimarssonar, Kristins Vilbergssonar, Friðriks Friðrikssonar, Kjartans Brodda Bragasonar, Ólafs Elíssonar, Runólfs Ágústssonar og Ásgeirs Sólbergssonar 26. nóvember 2007.

114 . Viðauki við kaupsamning HDH Invest ehf., dagsettur 2. desember 2007. Viðaukar annarra kaupsamninga voru samhljóða.

115 . Bein lánaþátttaka sparisjóðanna og Icebank hf. nam 8,4 milljörðum. Lán Icebank hf. til stjórnendateymisins fyrir eiginfjárframlaginu var 860 milljónir króna. Þá lögðu tveir stærstu eigendur Behrens Fyrirtækjaráðgjafar ehf. félagið fram sem greiðslu fyrir sínum hlut í Icebank hf. en félagið var metið á um 910 milljónir króna. Þessu til viðbótar keypti Icebank hf. 0,97% hlut sem Consensus ehf. hætti við að kaupa, tæpar 362 milljónir króna (síðar lán til Salt Aviation ehf./Salt Investment ehf.). Eiginfjárframlag Obduro ehf., 101 milljón króna, var greitt með sölu Fjárfestingafélagsins Teigs ehf. til Icebank hf. og lán Sparisjóðs Reykjavíkur og nágrennis og Byrs sparisjóðs vegna eiginfjárframlags Bergsins ehf. var tæpar 629 milljónir króna.

116 . Tölvuskeyti Finns Sveinbjörnssonar til Geirmundar Kristinssonar, Ragnars Z. Guðjónssonar og Guðmundar Haukssonar 7. ágúst 2007.

117 . Minnisblað bankastjóra Icebank hf. til bankaráðs 9. október 2007.

118 . Fundargerð bankaráðsfundar Icebank hf. 9. október 2007.

119 . Skýrsla um útlánaáhættu, markaðsáhættu og aðgerðir gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka hjá Icebank, 29. desember 2008.

120 . Yfirlýsing frá Icebank um að ábyrgjast greiðslu á eiginfjárframlagi stjórnenda 31. mars 2008, dagsett 29. nóvember 2007. Undirritað af Geirmundi Kristinssyni, formanni bankaráðs, og Friðriki Friðrikssyni, varaformanni bankaráðs.

121 . Fundargerð bankaráðs Icebank hf., 27. mars 2008. Salt Investments ehf. var í 94% eigu Vilhelms Róberts Wessmann í lok árs 2007.

122 . Minnisblað frá bankastjóra til bankaráðs 3. júní 2008.

123 . Fundargerð bankaráðsfundar Icebank hf. 19. júní 2008.

124 . Drög að umfjöllun PwricewaterhouseCoopers fyrir slitastjórn Sparisjóðabanka Íslands hf. um HDH Invest ehf., Óseka ehf., Saltsöluna ehf., Lagos ehf., Breiðutanga ehf. og G-tvo ehf., dagsett 29. september 2010.

125 . Fundargerð lánanefndar Icebank hf., 6. desember 2007.

126 . Þó voru allir samningar í tengslum við viðskiptin með hlutabréf í Icebank hf. gerðir í nafni Obduro ehf. í október 2007.

127 . Í ársreikningi félagsins fyrir árið 2007 var hlutafé félagsins skráð 101.499.997 kr. en hlutafjáraukningin úr 500 þúsund krónum var ekki tilkynnt til fyrirtækjaskrár fyrr en sumarið 2009.

128 . Kaupsamningur milli Icebank og Runólfs Ágústssonar frá 15. apríl 2008.

129 . Aðalsteinn og Sigurður Smári voru meðal eigenda fasteignafélagsins og áttu 20% hlut hvor. Eftir að þeir urðu starfsmenn og eigendur Icebank hf. keypti bankinn hlut þeirra í Fasteignafélagi Suðurnesja ehf.

130 . Samantekt fyrir lánanefnd Icebank hf. um kaup Háskólavalla ehf. á 10% hlut.

131 . Tölvuskeyti Gunnars Svavarssonar til Lánanefndar Icebank 5. desember 2007.

132 . Tölvuskeyti Sigurðar Smára Gylfasonar til Steinþórs Jónssonar, Aðalsteins Jóhannssonar og Sverris Sverrissonar 19. nóvember 2007.

133 . Í dómi Hæstaréttar 31. október 2013 í máli nr. 314/2013 var tveimur greiðslum samkvæmt kaupsamningi um kaup Icebank hf. á Fjárfestingafélaginu Teigi ehf. af Runólfi rift og Runólfi gert að endurgreiða 79 milljónir króna ásamt dráttarvöxtum.

134 . Greinargerð PricewaterhouseCoopers um viðskipti Sparisjóðabanka Íslands hf. við Aðalstein Gunnar Jóhannsson, Sigurð Smára Gylfason og tengd félög, apríl 2011.

135 . Fundargerð bankaráðsfundar Icebank hf. 9. október 2007.

136 . Greinargerð PricewaterhouseCoopers um viðskipti Sparisjóðabanka Íslands hf. við Aðalstein Gunnar Jóhannsson, Sigurð Smára Gylfason og tengd félög, apríl 2011.

137 . Fundargerð bankaráðsfundar Icebank hf. 19. júní 2007.

138 . Tölvuskeyti Eiríks Tómassonar til Valgeirs M. Baldurssonar 26. mars 2008.

139 . Tölvuskeyti Valgeirs M. Baldurssonar til Jóns Gunnars Vilhelmssonar og starfsmanns Þorbjarnar ehf. 29. júlí 2008.

140 . Peningarnir voru lagðir inn á reikning Byrs sparisjóðs meðan beðið var umfjöllunar lánanefndar og stjórnar sparisjóðsins um tilboðið, en það fól í sér afskrift á víxilskuldunum og því þurfti að bera málið undir þá sem höfðu ákvörðunarvald. Fimm dögum eftir að peningarnir voru lagðir fram fór Þorbjörn hf. fram á endurgreiðslu þeirra vegna efasemda um að víxilkrafan væri fyrir hendi. Fjármunirnir voru ekki endurgreiddir og höfðaði félagið mál á hendur sparisjóðnum og krafðist endurgreiðslu. Hæstiréttur Íslands sýknaði Byr sparisjóð af kröfu Þorbjarnar hf. með dómi 1. mars 2012 í máli nr. 461/2011.

141 . Yfirlýsing um fjármögnun og ráðstöfun, undirrituð 5. desember 2007 af Geirmundi Kristinssyni.

142 . Tölvupóstur frá Jóhannesi Karli Sveinssyni hrl. f.h. Sparisjóðsins í Keflavík til Jóns Auðuns Jónssonar hrl. f.h. Byrs sparisjóðs 23. október 2008.

143 . Skýring nr. 4 í ársreikningi Bergsins ehf. vegna ársins 2007.

144 . Tölvuskeyti Jóns Gunnars Vilhelmssonar til Carls H. Erlingssonar og Ragnars Z. Guðjónssonar 10. júní 2008.

145 . Rannsóknarnefndinni er ekki kunnugt um að aðrir þeir sem tilgreindir voru sem hluthafar í Berginu ehf. í lok árs 2008 í tölvupósti Sigurðar Gíslasonar til rannsóknarnefndarinnar 29. október 2012 hafi lagt fram frekara hlutafé í félagið eins og til stóð.

146 . Tölvuskeyti Jóns Gunnars Vilhelmssonar til Carls H. Erlingssonar og Ragnars Z. Guðjónssonar 10. júní 2008.

147 . Eini ársreikningur félagsins er frá árinu 2007.

148 . Í 17. kafla, um Sparisjóð Mýrasýslu, er fjallað nánar um þessi viðskipti.

149 . Samningar um verðtryggingu hlutabréfa 2. desember 2007. Í báðum samningum er Icebank rétthafi en í öðrum samningnum er Byr sparisjóður ábyrgðarveitandi en Sparisjóður Reykjavíkur og nágrennis er ábyrgðarveitandi í hinum samningnum.

150 . Tölvuskeyti Elínar Þorsteinsdóttur til Ólafs Haraldssonar 26. nóvember 2008; tölvuskeyti Elínar Þorsteinsdóttur til Ragnars Z. Guðjónssonar 26. nóvember 2008.

151 . Bréf Byrs sparisjóðs til Sparisjóðabanka Íslands 16. desember 2008.

152 . Í skýrslu fyrir rannsóknarnefndinni könnuðust hvorki Finnur Sveinbjörnsson né Agnar Hansson við þennan samning, þrátt fyrir að hafa undirritað hann fyrir hönd sinna félaga, Breiðutanga ehf. og HDH Invest ehf.

153 . Tölvuskeyti Jóns G. Vilhelmssonar til Ingu E. Káradóttur 24. september 2008. Drög að bréfinu voru send sem viðhengi með tölvupóstinum.

154 . Tölvupóstur frá Ragnari Z. Guðjónssyni til Agnars Hanssonar og Daða Bjarnasonar 22. apríl 2008.

155 . Félagið var að fullu í eigu Vilhelms Róberts Wessmann samkvæmt ársreikningi ársins 2007 og í meirihlutaeigu hans árið eftir.

156 . Tölvuskeyti Daða Bjarnasonar til Agnars Hanssonar 2. júní 2008.

157 . Tölvuskeyti Daða Bjarnasonar til Agnars Hanssonar 2. júní 2008.

158 . Minnisblað bankastjóra til bankaráðs Icebank hf. 3. júní 2008.

159 . Fundargerð bankaráðsfundar Icebank hf. 19. júní 2008.