7. kafli – Endurskoðun ársreikninga sparisjóða

7. Endurskoðun ársreikninga sparisjóða

Einn þáttur eftirlits með fyrirtækjum og félögum er ytri endurskoðun. Skilgreiningu á endurskoðun má finna í 2. tölul. 1. gr. laga nr. 79/2008 um endurskoðendur:

Endurskoðun: Óháð og kerfisbundin öflun gagna og mat á þeim í þeim tilgangi að láta í ljós rökstutt og faglegt álit endurskoðanda um áreiðanleika þeirra og framsetningu í samræmi við lög, settar reikningsskilareglur eða önnur skilyrði sem fram koma íálitsgerðinni.

Efnahagslífið á mikið undir því að þetta eftirlit sé framkvæmt með trúverðugum hætti og að þátttakendur á markaði geti reitt sig á álit endurskoðenda. Ytri endurskoðun er því bundin í lög. Endurskoðun hjá fjármálafyrirtækjum er álitin sérlega mikilvæg og um hana hafa því verið settar sérstakar reglur. Hér er gerð grein fyrir lagaumgjörðinni um þennan eftirlitsþátt og hvernig hún hefur þróast. Þá er fjallað um ábyrgð endurskoðenda og greint frá athugun rannsóknarnefndarinnar á ytri endurskoðun hjá sparisjóðunum á tímabilinu 2001–2011, með sérstakri áherslu á árin 2005–2009.

7.1 Fyrirmæli laga um endurskoðun

Hér verða rakin ákvæði um fyrirkomulag ytri endurskoðunar hjá sparisjóðum samkvæmt lögum sem gilt hafa um þá á hverjum tíma; fyrst samkvæmt lögum um sparisjóði, síðan lögum um viðskiptabanka og sparisjóði og loks lögum um fjármálafyrirtæki. Því næst verður horft til þess hvernig lög um endurskoðendur hafa markað endurskoðuninni farveg og að síðustu fjallað um fyrirmæla laga um ársreikninga í þessu sambandi.

7. 1. 1 Endurskoðun í fjármálafyrirtækjum

Það var fyrst með lögum nr. 87/1985 um sparisjóði sem gerð var krafa um að löggiltur endurskoðandi kæmi að endurskoðun hjá sparisjóðum.1 Samkvæmt eldri sparisjóðalögum nr. 69/1941 skyldi bæjarstjórn eða sýslunefnd kjósa tvo endurskoðunarmenn fyrir hvern sparisjóð til eins árs í senn. Engin skilyrði voru um menntun þessara manna á sviði endurskoðunar eða um reynslu þeirra af endurskoðunarstörfum. Á þessu var gerð sú breyting með 45. gr. laga nr. 87/1985 að annar skoðunarmanna skyldi vera löggiltur endurskoðandi eða endurskoðunarstofa og að kosning skoðunarmanna færi fram á aðalfundi. Í samþykktum sparisjóðs mætti þó ákveða að löggiltur endurskoðandi eða endurskoðunarstofa skyldi tilnefnd á annan hátt. Enn fremur var stjórn Tryggingarsjóðs sparisjóða heimilt að veita sparisjóði undanþágu frá ákvæðinu um kosningu löggilts endurskoðanda. Undanþáguákvæðið var sett inn í ljósi þess að sumum minni sparisjóðanna gæti reynst erfitt og of kostnaðarsamt að fá löggiltan endurskoðanda til starfa.

Þessi endurskoðun á löggjöf um sparisjóði hélst í hendur við setningu fyrstu heildstæðu laganna um viðskiptabanka, nr. 86/1985, en fram að því höfðu gilt sérlög um hvern einstakan banka. Hvað ríkisviðskiptabankana snerti hafði gilt sú skipan að Alþingi kaus hverjum þeirra tvo skoðunarmenn til tveggja ára í senn til þess að annast endurskoðun þeirra. Nú var kjörtímabil þeirra lengt í fjögur ár og því nýmæli bætt við að auk hinna þingkjörnu skoðunarmanna skyldi starfa að endurskoðun hjá ríkisviðskiptabanka skoðunarmaður sem væri löggiltur endurskoðandi og ráðherra skipaði til sama tíma.2 Í sömu grein var kveðið á um að á aðalfundi hlutafélagsbanka skyldu kjörnir að minnsta kosti tveir skoðunarmenn til eins árs í senn og skyldi einn þeirra vera löggiltur endurskoðandi eða endurskoðunarstofa. Öllum starfandi hlutafélagsbönkum hafði í rauninni verið skylt að kjósa löggiltan endurskoðanda til að annast endurskoðunina frá því að sett voru ný lög um hlutafélög nr. 32/1978.

Með lögum nr. 43/1993 um viðskiptabanka og sparisjóði, sem var fyrsta heildarlöggjöfin um lánastofnanir og sett vegna aðlögunar að samningnum um evrópskt efnahagssvæði, voru ákvæðin um endurskoðun hjá sparisjóðum samræmd því sem gilti um viðskiptabanka. Í 60.–63. gr. laganna var fjallað sérstaklega um endurskoðun þessara stofnana. Ársreikningar viðskiptabanka og sparisjóða skyldu nú fortakslaust endurskoðaðir af löggiltum endurskoðanda eða endurskoðunarstofu, sem skyldi kjósa á aðalfundi til eins árs í senn, og heimildin til að veita sparisjóði undanþágu frá kosningu löggilts endurskoðanda var felld brott. Jafnframt var nú hætt að nota orðið „skoðunarmaður“ í lögunum og þess í stað ávallt talað um endurskoðanda. Sett var inn nýtt ákvæði í 3. mgr. 60. gr. um að endurskoðandi viðskiptabanka eða sparisjóðs skyldi einnig kosinn sem endurskoðandi í móður-, systur- og dótturfélagi ef þess væri nokkur kostur. Nýtt ákvæði birtist í 8. mgr. 62. gr. þar sem bankaeftirlitið var skyldað til að sjá til þess í samráði við Félag löggiltra endurskoðenda og aðra hlutaðeigandi aðila að á hverjum tíma lægi fyrir skilgreining á góðri endurskoðunarvenju við endurskoðun hjá viðskiptabönkum og sparisjóðum. Með breytingarlögum nr. 39/1996 var hnykkt á þessu með því að bæta við greinina ákvæði um að bankaeftirlitið setti reglur um endurskoðun viðskiptabanka og sparisjóða. Bankaeftirlitið birti slíkar leiðbeinandi reglur 30. desember 1994, reglur nr. 704/1994 um endurskoðun viðskiptabanka, sparisjóða og annarra lánastofnana. Samkvæmt lögum um viðskiptabanka var þeim skylt að starfrækja innri endurskoðunardeildir en ekki var sambærilegt ákvæði í lögum um sparisjóði. Með nýju lögunum var sparisjóðum einnig gert skylt að starfrækja innri endurskoðunardeild en bankaeftirlitinu var þó heimilt að veita sparisjóði undanþágu frá því.

Lög nr. 43/1993 voru endurútgefin með breytingum sem lög nr. 113/1996 um viðskiptabanka og sparisjóði, enn til aðlögunar að nýjum Evróputilskipunum sem samþykktar höfðu verið sem hluti af EES-samningnum, og einnig til að bregðast við athugasemdum Eftirlitsstofnunar EFTA (ESA) við lögin frá 1993.3 Með þessari breytingu voru lagðar ríkari skyldur á herðar endurskoðendum banka og sparisjóða en áður. Helsta breytingin var að skerpt var á tilkynningarskyldu endurskoðanda um ámælisverð atriði sem hann kæmist á snoðir um við endurskoðunina. Eftir breytinguna hljóðaði 5. mgr. 62. gr. svo:

[…]. Ákvæði þessarar málsgreinar brjóta ekki í bága við þagnarskyldu endurskoðenda skv. 43. gr. laga þessara eða ákvæði annarralaga.

Með breytingarlögunum nr. 39/1996 var bankaeftirlinu jafnframt gert með skýrari hætti en áður að setja reglur um endurskoðun viðskiptabanka og sparisjóða. Þær reglur litu þó ekki dagsins ljós fyrr en 10. september 2001 með reglum nr. 694/2001 um endurskoðun lánastofnana.

Árið 2002 var steypt saman í eina heildstæða löggjöf lögum um viðskiptabanka og sparisjóði og lögum um aðrar lánastofnanir, auk laga um rafeyrisfyrirtæki og stofnun og starfsemi verðbréfafyrirtækja. Megintilgangurinn með með þessari sameiningu löggjafar og samræmingu heimilda einstakra tegunda fjármálafyrirtækja var að gera löggjöf á fjármálamarkaði einfaldari og skilvirkari. Hin nýju lög, nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki, tóku gildi 1. janúar 2003. XI. kafli þeirra fjallar um ársreikning, endurskoðun og samstæðureikningsskil. Í honum voru það 90.–94. gr. sem fjölluðu um ytri endurskoðun og nú bar hver þeirra fyrirsögn sem lýsti innihaldinu, en þær voru: endurskoðun, hæfi endurskoðanda, upplýsingaskylda endurskoðanda, góð endurskoðunarvenja og sérstök endurskoðun. Þrjár breytingar voru gerðar frá áður gildandi lögum; í fyrsta lagi skyldi endurskoðandi gera stjórn fyrirtækis og Fjármálaeftirlitinu aðvart um atriði er leiða myndu til þess að hann myndi synja um endurskoðun eða gera fyrirvara, sbr. 92. gr.;4 í öðru lagi var nú í 93. gr. kveðið á um að VII. kafli laga nr. 144/1994 um ársreikninga ætti við um endurskoðun fjármálafyrirtækja, þar sem lögum nr. 161/2002 sleppti; í þriðja lagi ættu settar reglur um endurskoðun fjármálafyrirtækja einnig við um dótturfyrirtæki fjármálafyrirtækis, svo og eignarhaldsfélag á fjármálasviði eða blandað eignarhaldsfélag og dótturfyrirtæki slíkra félaga, sbr. 3. mgr. 93. gr.5 Í 16. gr. nýju laganna var einnig ákvæði um endurskoðunardeildir í fjármálafyrirtækjum, en fjallað er um innri endurskoðun í 6. kafla. Í 86. gr. laganna var og ákvæði þess efnis að endurskoðanda bæri þegar í stað að tilkynna Fjármálaeftirlitinu hefði hann ástæðu til að ætla að eigið fé fjármálafyrirtækis væri undir lögbundnu lágmarki og hefði hann ástæðu til að ætla að stjórnendur þess hefðu ekki rækt skyldu sína hvað þetta varðar.

Á lögunum frá 2002 var ekki gerð nein breyting sem snerti endurskoðun fjármálafyrirtækja fyrr en árið 2007.6 Þá voru eingöngu gerðar tvær breytingar á ákvæði 92. gr. um upplýsingaskyldu endurskoðanda. Sú fyrri laut að skyldu endurskoðanda til að gera stjórn fjármálafyrirtækis og Fjármálaeftirlitinu viðvart um ámælisverð atriði eða brot á lögum eða reglum. Ákvæðið hafði einnig tekið til sambærilegra atriða sem endurskoðandi fengi vitneskju um og vörðuðu fyrirtæki í nánum tengslum við hlutaðeigandi fjármálafyrirtæki. Nú var þetta þrengt með orðalaginu: „sem endurskoðandi fær vitneskju um við framkvæmd endurskoðunarstarfa [leturbr. hér] hjá fyrirtæki sem er í nánum tengslum við hlutaðeigandi fjármálafyrirtæki.“ Hin breytingin var viðbót við 2. mgr. 92. gr. sem kvað á um að slík tilkynning bryti ekki í bága við þagnarskyldu endurskoðanda „hvort sem hún er reist á lögum eða samningi. Skal tilkynnandi ekki sæta neins konar ábyrgð vegna tilkynningarinnar“. Skilja verður ákvæðið á þann veg að tilkynnandi skyldi ekki sæta ábyrgð vegna tilkynningarinnar sjálfrar. Öðru máli gegndi ef tilkynnandi hefði á einhvern hátt tekið þátt í þeim brotum sem um ræðir en þá mundi hann sæta ábyrgð samkvæmt almennum reglum.

Síðast var þeim ákvæðum laga nr. 161/2002 sem fjalla um endurskoðun hjá fjármálafyrirtækjum breytt með lögum nr. 75/2010 sem var ætlað að herða á fjölmörgu í þeim lögum um fjármálafyrirtæki eftir fall bankanna haustið 2008. Þar voru gerðar nokkrar breytingar á 90. gr. laganna. Í fyrsta lagi að endurskoðandi eða endurskoðunarfyrirtæki mætti ekki gegna öðrum störfum fyrir fjármálafyrirtækið. Í öðru lagi voru sett tímamörk á það hve lengi endurskoðandi mætti endurskoða ársreikning sama fjármálafyrirtækis. Nú skyldi kjósa endurskoðanda eða endurskoðunarfyrirtæki til fimm ára og er óheimilt að kjósa sama endurskoðanda eða endurskoðunarfyrirtæki aftur fyrr en fimm ár eru liðin frá því að starfstíma lauk. Fjármálafyrirtækið getur þó vikið endurskoðanda eða endurskoðunarfyrirtæki frá áður en fimm ára kjörtímabili lýkur, að fengnu áliti endurskoðendaráðs. Í þriðja lagi var bætt við ákvæði um að endurskoðendur félags ættu rétt á að sitja stjórnar- og félagsfundi í fjármálafyrirtæki og væri skylt að mæta á aðalfundi.

Fyrsta breytingin kallaði á nokkur viðbrögð. Félag löggiltra endurskoðenda brást skjótt við eftir samþykkt laganna og lýsti furðu sinni á þessu ákvæði í bréfi til Fjármálaeftirlitsins 30. júní 2010. Þar benti félagið á að af lagatextanum yrði ekki annað ráðið

en að sá sem kjörinn er til að endurskoða ársreikning megi ekki sinna annarri vinnu fyrir viðkomandi fyrirtæki, þar með talið könnun á árshlutareikningum eða endurskoðun þeirra. Hafi það verið vilji löggjafans væri um veigamikla stefnubreytingu að ræða sem hefði kostnaðarauka í för með sér fyrir fjármálafyrirtækin og útilokað að hrinda í framkvæmd nema með talsverðum fyrirvara.7

Taldi félagið að hér hefðu fremur orðið mistök við lagasetninguna og vísaði í því sambandi til framhaldsnefndarálits meiri hluta viðskiptanefndar þar sem segir um þessa breytingu:

Meiri hlutinn áréttar að ákvæðinu er fyrst og fremst ætlað að koma í veg fyrir að endurskoðandi sinni öðrum störfum fyrir fjármálafyrirtæki, t.d. með því að veita ráðgjöf um rekstrarleg og fjárhagsleg atriði og skattaleg málefni eða hafi hönd í bagga í öðrum ákvörðunum fyrirtækisins sem geta haft áhrif á afkomu þess. Með slíkri ráðgjöf væri endurskoðandi í raun að endurskoða atriði sem byggðust á ráðgjöf hans sjálfs. Ekki er ætlunin að koma í veg fyrir að endurskoðandi geti sinnt t.d. áritun árshlutareikninga eða einhvers konar staðfestingu á gögnum sem byggjast á ársreikningi fyrirtækis.8

Í bréfinu til Fjármálaeftirlitsins óskaði félagið eftir staðfestingu á því að kjörnum endurskoðendum fjármálafyrirtækja væri heimilt að sinna annarri staðfestingarvinnu en að árita ársreikninga og að veita þessum félögum aðra þjónustu sem fellur undir hugtakið endurskoðun eins og það er skilgreint í 2. tölulið 1. gr. laga nr. 79/2008 um endurskoðendur. Fjármálaeftirlitið svaraði bréfi félagsins skjótt og kvaðst ekki sjá sér fært vegna mikilla anna að veita heildstætt svar við erindinu. Hins vegar kvað það umrætt ákvæði í breytingarlögunum ekki standa í vegi fyrir því að endurskoðendur fjármálafyrirtækja staðfestu svör við fyrirspurn Fjármálaeftirlitsins um gengistryggð lán og áhrif dóma Hæstaréttar í tveimur tilteknum málum sem þá voru í umræðunni.9 Nánara svar við erindinu barst ekki frá Fjármálaeftirlitinu.

Ákvæðið um tímamörk á þjónustusambandi endurskoðanda og fjármálafyrirtækis hefur lengi verið umþrætt atriði víða um heim. Mörgum hefur sýnst sem það gæti styrkt óhæði endurskoðenda að félög yrðu skylduð til að skipta um endurskoðendur á einhverju tilteknu árabili (e. mandatory audit rotation). Þannig hefur því verið hreyft að ótímabundnir samningar um endurskoðun viðhaldi fákeppni í greininni, auk þess sem endurskoðandi kunni að hætta að viðhafa faglega árvekni (e. professional scepticism) og fari að þóknast viðskiptavininum, enda fjárhagslega háður honum, sem geti leitt til kunningjatengsla. Þá gæti viðskiptavinurinn einnig vænst lægri reiknings fyrir endurskoðunina. Á móti kemur að það kann að taka mörg ár að kynnast rekstri nýs félags eða viðskiptavinar, enda er iðulega talið að endurskoðanaráhætta sé mest fyrstu árin, en síðar dragi úr henni. Þá kann sérþekking að glatast. Öllu skiptir þó að gagnkvæmt traust ríki milli endurskoðandans og viðskiptavinarins.

Eftir Enron-málið sem upp kom í Bandaríkjunum síðla árs 2001 beindust sjónir manna mjög að sambandinu milli fyrirtækja og endurskoðenda þeirra og umræða um róteringu varð mjög hávær. Í svonefndum Sarbanes-Oxley lögum frá 30. júlí 2002, sem sett voru í kjölfar málsins og höfðu að meginmarkmiði að tryggja betur eftirlit með reikningsskilum fyrirtækja á hlutabréfamarkaði í Bandaríkjunum og óhæði endurskoðenda, var ákvæði um að sami endurskoðandi mætti ekki stjórna eða bera ábyrgð á endurskoðun fyrir útgefanda ársreiknings (fyrirtæki) lengur en í 5 ár samfellt.10

Þarna er átt við að skipt skuli um endurskoðanda (e. audit partner rotation) en ekki endurskoðunarfyrirtæki (e. audit firm rotation). Á því er sá munur að nýr endurskoðandi innan sama fyrirtækis tekur að sér ábyrgðina. Bandaríska endurskoðendaráðið (PCAOB)11 beitti sér fyrir því að herða þessar reglur og að stíga skrefið til fulls, yfir í það að lögfesta útskiptingu á endurskoðunarfyrirtæki. Þetta mætti mikilli andstöðu stóru endurskoðunarfyrirtækjanna, bandaríska verslunarráðsins og þingmanna repúblíkana. Bandaríska endurskoðendaráðið stóð fyrir hringborðsumræðum um málið í mars 2012 og fékk hörð viðbrögð frá framangreindum aðilum. Fulltrúi eins þeirra kallaði þessar fyrirætlanir endurskoðendaráðsins „regulatory overreach“ og ráðið sjálft hóp aðgerðasinna, „activists“.12 Það leið ekki nema rúmt ár þangað til fulltrúadeild Bandaríkjaþings samþykkti 8. júlí 2013 lagafrumvarp sem bannar setningu reglna um hvers kyns útskiptingu á endurskoðendum þar í landi.13 Í Evrópu hefur einnig verið mikil umræða um þessi efni eftir bankakreppuna 2008. Þar hafa þessi mál hins vegar skipast á þann veg að framkvæmdastjórn Evrópusambandsins gerði bráðabirgðasamkomulag 17. desember 2013 um að stefnt skyldi að setningu löggjafar sem kvæði á um að sama endurskoðunarfyrirtæki mætti ekki annast endurskoðun fyrir fjármálafyrirtæki og tryggingafyrirtæki lengur en í 10 ár samfleytt. Einnig yrði lagt bann við því að endurskoðunarfyrirtæki sem hefur með höndum endurskoðun slíkra fyrirtækja sinnti öðrum verkefnum fyrir þau en endurskoðun.14 Í sumum löndum er skylda að skipta um endurskoðunarfyrirtæki eftir ákveðinn tíma, svo sem á Ítalíu og í Ísrael og Brasilíu.15

Hér á landi var þessi regla um endurskoðendur lögfest með gildandi lögum um endurskoðendur, nr. 79/2008, sem tóku gildi 1. janúar 2009. Þar segir í 3. málsl. 20. gr.:

Endurskoðandi sem ber ábyrgð á endurskoðun einingar tengdrar almannahagsmunum skal taka sér hlé frá endurskoðun þeirrar einingar í a.m.k. tvö ár samfellt eigi síðar en sjö árum eftir að honum var falið verkið. Sama gildir um endurskoðendur þeirra dótturfélaga sem hafa verulega þýðingu innan samstæðunnar.16

Með þessum lögum um endurskoðendur kemur hugtakið „eining tengd almannahagsmunum“ (e. public entity) fyrst inn í íslensk lög. Það er skilgreint svo í 7. tölul. 1. mgr. 1. gr.:

Eining tengdalmannahagsmunum:

a. Lögaðili sem er með skráð lögheimili á Íslandi og hefur verðbréf sín skráð á skipulegum verðbréfamarkaði í ríki innan Evrópska efnahagssvæðisins, í aðildarríki stofnsamnings Fríverslunarsamtaka Evrópu eða í Færeyjum.

b. Lífeyrissjóður sem hefur fullgilt starfsleyfi.

c. Lánastofnun eins og hún er skilgreind í lögum nr. 161/2002, um fjármálafyrirtæki.

d. Félag sem hefur starfsleyfi til að reka vátryggingastarfsemi hér á landi samkvæmt lögum nr. 60/1994, um vátryggingastarfsemi.

Sparisjóðir eru lánastofnanir, sbr. 2. mgr. 4. gr. laga nr. 161/2002, og teljast þar með vera einingar tengdar almannahagsmunum. Þessu hugtaki var bætt í lög um ársreikninga nr. 3/2006 með breytingarlögum nr. 80/2008 sem einnig tóku gildi 1. janúar 2009. Þar kom inn nýr kafli, IX. kafli A, þar sem 1. málsl. 108. gr. a. hljóðar svo: „Við einingu tengda almannahagsmunum skal starfa endurskoðunarnefnd.“ Fjallað er um endurskoðunarnefndir hér aftar í kafla 7.1.3.1.

Breytingin á lögum um fjármálafyrirtæki gekk því mun lengra en lögin um endurskoðendur að því er laut að skerðingu á hámarksráðningartíma endurskoðenda og jafnframt lengra en mælst var til í 8. félagatilskipun Evrópuþingsins og -ráðsins. Hann var nú styttur úr sjö árum í fimm ár og endurráðning ekki möguleg fyrr en að fimm árum liðnum í stað tveggja. Þar að auki tekur ákvæðið ekki einungis til endurskoðanda heldur einnig til endurskoðunarfyrirtækis.

Í breytingarlögunum var þó bráðabirgðaákvæði sem gaf kost á aðlögunartíma að þessari takmörkun, þannig að endurskoðanda eða endurskoðunarfyrirtæki sem veitt hefði fjármálafyrirtæki þjónustu sína í þrjú ár eða skemur fyrir gildistöku laganna væri heimilt að veita því félagi þjónustu í fimm ár frá gildistöku þeirra, en hefði þjónustan verið veitt lengur en þrjú ár fyrir gildistöku laganna væri endurskoðanda eða endurskoðunarfyrirtæki heimilt að veita fjármálafyrirtæki þjónustu í þrjú ár eftir gildistöku þeirra. Í athugasemdum með frumvarpi til laganna sagði um þessa breytingu:

Tilgangur ákvæðisins er tvíþættur. Í fyrsta lagi er verið að reyna að sporna við því að endurskoðendur verði um of fjárhagslega háðir einu fyrirtæki og í öðru lagi að sú vissa sem þeir standa frammi fyrir að samkeppnisaðilar geta skoðað verk þeirra að ráðningartíma liðnum muni leiða til vandaðri vinnubragða.17

7.1.2 Endurskoðendur

Lög um endurskoðendur nr. 79/2008 tóku gildi 1. janúar 2009 og leystu af hólmi samnefnd lög nr. 18/1997. Um er að ræða almenn lög um endurskoðendur en ekki um endurskoðun sem slíka, sem fjallað er um í ýmsum sérlögum, svo sem lögum um fjármálafyrirtæki og lögum um ársreikninga.

Með setningu laganna frá 1997 var leitast við að laga íslenska löggjöf í þessum efnum að ákvæðum 8. félagatilskipunar Evrópusambandsins, sem fjallaði um endurskoðendur, en einnig var höfð hliðsjón af sambærilegri löggjöf annars staðar á Norðurlöndum. Í 1. gr. laganna var skilgreining á starfsheitinu endurskoðandi en með því heiti er átt við þann sem hefur þekkingu til að gefa hlutlaust og áreiðanlegt álit á reikningsskilum og öðrum fjárhagsupplýsingum til notkunar í viðskiptum og ráðherra hefur löggilt til endurskoðunarstarfa og fullnægir að öðru leyti skilyrðum laga. Í II. kafla laganna voru m.a. ákvæði um hæfisskilyrði, próf, löggildingu og endurskoðunarfyrirtæki. Þar sagði í 1. mgr. 6. gr. að endurskoðendum væri heimilt að stofna félag um rekstur sinn í því formi sem þeir sjálfir kysu, þar á meðal með takmarkaðri ábyrgð. Í athugasemdum við ákvæði 6. gr., sem fylgdu frumvarpi til laganna, var tekið fram að ákvæði greinarinnar breyttu engu um það að endurskoðandi bæri þó alltaf óskerta ábyrgð á tjóni sem hann eða starfsmaður hans bakaði öðrum með störfum sínum.18 Þá sagði um störf endurskoðenda í 1.–3. mgr. 7. gr.:

Störf endurskoðenda felast í endurskoðun reikningsskila og annarra fjárhagsupplýsinga ásamt ráðgjöf og þjónustu innan nærliggjandi sviða svo framarlega sem það hefur ekki áhrif á hlutlægni þeirra.
Endurskoðendur skulu rækja störf sín af kostgæfni og samviskusemi í hvívetna og halda lög og reglur sem lúta að starfi þeirra.
Endurskoðendur eru bundnir þagnarskyldu um það sem þeir fá vitneskju um í starfa sínum og leynt á að fara […].

Í 8. gr. var fjallað um áritun endurskoðanda á reikningsskil þar sem sagði að hún mundi þýða, nema annað kæmi fram af árituninni, að reikningsskilin væru endurskoðuð af honum í samræmi við góða endurskoðunarvenju og að reikningsskilin gæfu að hans mati glögga mynd af hag og afkomu aðila í samræmi við góða reikningsskilavenju.

Meðal vanhæfisástæðna sagði í 3. mgr. 9. gr. að endurskoðandi eða endurskoðunarfyrirtæki mætti ekki í þrjú ár samfellt eiga stærri hluta en 20% af veltu sinni undir einum viðskiptavini sem hann eða það endurskoðaði fyrir. Samkvæmt 10 gr. varð endurskoðendum nú skylt að hafa starfsábyrgðartryggingu hjá vátryggingarfélagi vegna fjárhagstjóns sem leitt gæti af gáleysi í störfum þeirra eða starfsmanna þeirra. Þá var kveðið á um það í 11. gr. að eftirlit með framkvæmd laganna væri á könnu ráðherra. Samkvæmt 12. gr. skyldi komið á laggirnar sérstöku þriggja manna ráði, endurskoðendaráði, sem hefði hlutverk úrskurðarnefndar, þ.e. eins konar kærunefndar, en gæti einnig tekið til meðferðar mál að eigin frumkvæði, sbr. 13. gr. laganna. Félag löggiltra endurskoðenda (FLE) skyldi skipa einn mann í ráðið, viðskiptadeild Háskóla Íslands annan og ráðherra sjálfur þann þriðja án tilnefningar. Félagi löggiltra endurskoðenda var markað það hlutverk að koma fram fyrir hönd endurskoðenda gagnvart stjórnvöldum og jafnframt falið að setja siðareglur fyrir endurskoðendur sem ráðherra skyldi svo staðfesta.

Þótt þessi lög væru mun ítarlegri en eldri lög um endurskoðendur, einkum að því er varðaði starfsréttindin sjálf, þá var sumt óskýrt í þeim, svo sem hvernig eftirliti með störfum endurskoðenda skyldi háttað og einnig hvernig þeir skyldu haga störfum sínum. Í lögunum var vísað til góðrar endurskoðunarvenju og góðrar reikningsskilavenju, en þau hugtök voru nánar skýrð í sérlögum á þeim tíma, þ.e. lögum um viðskiptabanka og sparisjóði og lögum um ársreikninga. Starfsemi endurskoðendaráðs var lítt sýnileg og fá mál afgreidd. Ráðið setti sér starfsreglur á árinu 2001. Það fékk eitt mál til meðferðar árið 2001, tvö árið 2002 en ekkert árið 2003.19 Nýtt endurskoðendaráð var síðan skipað 2009 á grundvelli nýrra laga, svo sem greint er frá hér aftar. Siðareglurnar sem ráðherra skyldi fela Félagi löggiltra endurskoðenda að setja litu ekki dagsins ljós á þeim rúma áratug sem þessi lög voru í gildi.

Staðfesting 8. félagatilskipunarinnar20 varð til þess að fjármálaráðherra skipaði nefnd 1. september 2006 til að setja fram fullmótaðar tillögur um innleiðingu tilskipunarinnar í íslensk lög. Tilskipunin átti að tryggja betur en áður að fjárfestar og aðrir hagsmunaaðilar gætu reitt sig á störf endurskoðenda. Hún var samin í kjölfar umfangsmikilla fjármálamisferla í löndum Evrópusambandsins og var ætlað að skýra skyldur endurskoðenda, reyna eftir fremsta megni að tryggja óhæði þeirra og auka samstarf eftirlitsaðila innan Evrópusambandsins. Jafnframt var með tilskipuninni ráðgert að öll endurskoðun innan Evrópusambandsins, og þar af leiðandi innan Evrópska efnahagssvæðisins, færi fram í samræmi við alþjóðlega endurskoðunarstaðla. Þetta kallaði á gagngera endurskoðun laga um endurskoðendur og nokkrar breytingar á lögum um ársreikninga.

Ný lög um endurskoðendur, nr. 79/2008, voru síðan samþykkt á Alþingi 28. maí 2008, fimm mánuðum fyrir fall íslensku bankanna, en tóku gildi 1. janúar 2009. Í 1. gr. laganna voru skilgreind sjö meginhugtök í lögunum, hugtakið endurskoðandi var skilgreint með sama hætti og í fyrri lögum en hugtakið endurskoðun var nú fyrst skilgreint með hliðsjón af markmiðum laganna:

Óháð og kerfisbundin öflun gagna og mat á þeim í þeim tilgangi að láta í ljós rökstutt og faglegt álit endurskoðanda um áreiðanleika þeirra og framsetningu í samræmi við lög, settar reikningsskilareglur eða önnur skilyrði sem fram koma í álitsgerðinni.

Þá voru hugtökin endurskoðunarfyrirtæki og samstarfsfyrirtæki endurskoðenda skýrð og loks voru skilgreind nokkur hugtök sem töldust nýmæli. Í fyrsta lagi endurskoðunarnefnd, sem kom hér fyrst fram í íslenskum lögum,21 og í öðru lagi alþjóðlegirendurskoðunarstaðlar:

Alþjóðlegir staðlar um endurskoðun (ISA) og tengdar yfirlýsingar og staðlar, að því marki sem þeir tengjast endurskoðun, sem framkvæmdastjórn ESB hefur samþykkt í samræmi við 26. gr. tilskipunar 2006/43/EB og teknir hafa verið upp í íslenskan rétt.

Í 9. gr. laganna sagði að endurskoðandi skyldi rækja störf sín í samræmi við alþjóðlega endurskoðunarstaðla og alþjóðlega staðla um gæðaeftirlit sem teknir hafa verið upp í íslenskan rétt og var vísað um það til 31. gr., þar sem ráðherra var veitt heimild til að setja reglugerð um nánari framkvæmd laganna, þar á meðal um innleiðingu alþjóðlegra endurskoðunarstaðla sem samþykktir hefðu verið af sameiginlegu EES-nefndinni. Þar sem alþjóðlegu endurskoðunarstaðlarnir hafa ekki verið teknir upp með þeim hætti sem gert var ráð fyrir í tilskipun 2006/43/EB og birtir í Stjórnartíðindum Evrópusambandsins, eins og kveðið er á um í 26. gr. tilskipunarinnar, er í gildi bráðabirgðaákvæði II í lögum nr. 79/2008, þar sem segir að þar til alþjóðlegir endurskoðunarstaðlar hafi verið teknir upp í íslenskan rétt skuli endurskoðun samkvæmt 9. gr. fara eftir góðri endurskoðunarvenju. Þá segir að með góðri endurskoðunarvenju sé átt við að endurskoðað sé með viðurkenndum aðferðum í samræmi við leiðbeinandi reglur um endurskoðun (ISA) út gefnar af alþjóðasamtökum endurskoðenda (IFAC) sem Félag löggiltra endurskoðenda er aðili að.

Þrátt fyrir þetta bráðabirgðaákvæði í lögunum hefur verið bent á að óvissa ríki um lagalegt gildi alþjóðlegra endurskoðunarstaðla þar sem þeir hafi ekki verið innleiddir með fullnægjandi hætti. Ástæða þessarar óvissu snýr einkum að þýðingu staðlanna á íslensku, skuldbindingargildi og formlegri birtingu þeirra. Spurningar hafa vaknað um hvort ekki sé nauðsynlegt, til þess að tryggja beitingu íþyngjandi viðurlaga vegna brota á stöðlum, að gefa þá út í formi stjórnvaldsfyrirmæla sem birt væru lögum samkvæmt.22 Á það má benda að mikill meiri hluti starfandi endurskoðenda hér á landi hefur numið fræði sín á ensku. Stóru endurskoðunarfyrirtækin og mörg önnur hafa endurskoðað ársreikninga sem gefnir eru út á ensku. Þá er algengt er að sjá í áritun endurskoðenda allt frá 2006 (á ársreikning fyrir 2005) að endurskoðað hafi verið í samræmi við alþjóðlega endurskoðunarstaðla og tekið fram að samkvæmt þeim beri endurskoðandanum að fara eftir settum siðareglum. Endurskoðandi sem skrifar undir slíka yfirlýsingu getur trauðla dregið lögmæti staðlanna í efa. Þá hefur því verið hreyft hvort það teljist ekki góð endurskoðunarvenja að endurskoða samkvæmt stöðlunum.

Þá var hugtakið eining tengd almannahagsmunum skilgreint í 1. gr. laga nr. 79/2008 og birtist það fyrst þar í íslenskum lögum, en sparisjóðir falla undir hugtakið, eins og framar greinir. Í lögunum er jafnframt að finna ákvæði um skilyrðin fyrir því að öðlast löggildingu, ýmis ákvæði um endurskoðunarfyrirtæki, opinbera skráningu endurskoðenda, próf og prófnefnd, starfsábyrgðartryggingu og loks um auknar kröfur um endurmenntun. Í 3. mgr. 8. gr. er endurlífgað ákvæði um að endurskoðandi sé opinber sýslunarmaður við framkvæmd endurskoðunarstarfa. Hliðstætt ákvæði var að finna í lögum um endurskoðendur nr. 67/1976, en lögin frá 1997 innihéldu það ekki. Þá segir í lögunum að endurskoðandi skuli fylgja siðareglum sem settar hafa verið af Félagi löggiltra endurskoðenda, sbr. 2. mgr. 8. gr. laganna, en á aðalfundi Félags löggiltra endurskoðenda 14. nóvember 2009 voru samþykktar siðareglur fyrir endurskoðendur sem gilda fyrir alla endurskoðendur á Íslandi. Ákvæði um áritun í 11. gr. var breytt og í stað þess að vísa til góðrar endurskoðunarvenju og glöggrar myndar í samræmi við góða reikningsskilavenju segir nú að hún skuli innihalda upplýsingar um endurskoðunina og álit endurskoðandans. Hún skal vera í samræmi við alþjóðlega endurskoðunarstaðla. Að öðru leyti er ekkert sagt um form hennar og innihald.

Félagi löggiltra endurskoðenda er falið víðtækt hlutverk með lögum og eru allir endurskoðendur skyldaðir til að vera þar félagsmenn. Félaginu er ætlað að stuðla að faglegri framþróun í endurskoðun og skyldum greinum og að koma fram fyrir hönd endurskoðenda gagnvart dómstólum og stjórnvöldum um málefni er varða stéttina. Þá eru því falin tilgreind verkefni í samráði við endurskoðendaráð, meðal annars að setja endurskoðendum siðareglur, standa fyrir endurmenntunarnámskeiðum og annast gæðaeftirlit með störfum endurskoðenda. Ráðsmönnum í endurskoðendaráð var fjölgað úr þremur í fimm og hlutverk ráðsins breyttist úr því að vera fyrst og fremst kæru- eða úrskurðarnefnd í það að gegna að auki margháttuðu eftirlitshlutverki sem snerist um skráningu endurskoðenda og endurskoðunarfyrirtækja, endurmenntun og reglulegt gæðaeftirlit, að endurskoðandi uppfylli skilyrði til löggildingar og að til væru siðareglur og endurskoðunarstaðlar. Ákvarðanir endurskoðendaráðs sæta ekki stjórnsýslukæru. Þá skal endurskoðendaráð gera árlega skýrslu um störf sín sem skal vera opin almenningi og birta og rekja alla úrskurði ráðsins opinberlega samkvæmt 7. mgr. 18. gr. Nýtt endurskoðendaráð samkvæmt lögunum var skipað í ársbyrjun 2009 og hefur opnað heimasíðu sem ætlað er að fullnægja upplýsingaskyldunni. Endurskoðendaráð hefur birt fjórar ársskýrslur um starfsemina, á árunum 2009, 2010 og 2011, skýrslu um niðurstöðu gæðaeftirlits 2010 og 2012 og hefur þrívegis sett reglur um framkvæmd gæðaeftirlits með störfum endurskoðenda, nr. 912/2009, nr. 860/2010 og loks nr. 944/2011, sem hafa gilt frá 29. september 2011.

Hugtakið óhæði (e. independence) var nýmæli í lögunum enda þótt það hafði lengi tengst umræðu um endurskoðendur, jafnvel verið kallað „fjöregg endurskoðendastéttarinnar“. Í eldri lögum voru á hinn bóginn taldar upp helstu vanhæfisástæður, þ.e. aðstæður til þess fallnar að draga úr óhæði endurskoðandans. Í 1. mgr. 19. gr. laganna segir:

Í endurskoðunarverkefnum skal endurskoðandi og endurskoðunarfyrirtæki vera óháð viðskiptavini sínum, bæði í reynd og ásýnd. Endurskoðandi skal eigi framkvæma endurskoðun ef einhver þau tengsl eru á milli endurskoðandans og viðskiptavinar hans sem eru til þess fallin að vekja efa um óhæði hans hjá vel upplýstum þriðja aðila, svo sem atvinnutengsl, bein eða óbein fjárhagsleg tengsl eða viðskiptatengsl önnur en leiðir af endurskoðuninni.

Í 2. mgr. 19. gr. segir að endurskoðanda sé óheimilt að taka þátt í ákvörðunum stjórnar eða stjórnenda þess aðila sem hann endurskoðar. Síðan er vísað til siðareglna sem félagið hefur sett og enn fremur gerð sú krafa til endurskoðanda einingar tengdrar almannahagsmunum að hann sannfæri endurskoðunarnefnd viðkomandi einingar um óhæði sitt gagnvart einingunni. Þá er að finna ákvæði um starfstíma endurskoðenda í 3. mgr. 20. gr. þar sem í fyrsta sinn voru sett einhver takmörk:

Endurskoðandi sem ber ábyrgð á endurskoðun einingar tengdri almannahagsmunum skal taka sér hlé frá endurskoðun þeirrar einingar í a.m.k. tvö ár samfellt eigi síðar en sjö árum eftir að honum var falið verkið. Sama gildir um endurskoðendur þeirra dótturfélaga sem hafa verulega þýðingu innan samstæðunnar.

Svo sem framar greinir var enn frekari takmörkun á starfstíma endurskoðanda lögfest á árinu 2010.

Samkvæmt 22. gr. laga nr. 79/2008 eru allir endurskoðendur skyldugir til að sæta gæðaeftirliti eigi sjaldnar en á sex ára fresti, en eigi sjaldnar en á þriggja ára fresti þegar um er að ræða einingar tengdar almannahagsmunum. Endurskoðendaráð setur svo reglur um gæðaeftirlitið sem framar segir. Í 1. mgr. 30. gr. laganna segir síðan:

Endurskoðendur, starfsmenn endurskoðenda, eftirlitsaðilar og hverjir þeir sem taka að sér verk í þágu endurskoðenda eða eftirlitsaðila eru bundnir þagnarskyldu um allt það er þeir kunna að komast að vegna starfa sinna og leynt skal fara samkvæmt lögum eða eðli máls, nema dómari úrskurði að skylt sé að veita upplýsingar fyrir dómi eða lögreglu eða skylda sé til að veita upplýsingar lögum samkvæmt. Þagnarskylda helst þótt látið sé af starfi.

7.1.2.1 Óhæði endurskoðanda

Eins og framar greinir komst hugtakið óhæði fyrst inn í íslenskan rétt með lögum árið 2008. Mikið hafði þó verið rætt og ritað um það, því snemma varð ljóst að mikið er undir því komið að endurskoðendur séu óháðir. Það er þó ekki vandalaust fyrir þá. Yfirstjórn fyrirtækis, þ.e. stjórn og framkvæmdastjóri, ber ábyrgð á gerð og innihaldi ársreiknings, en endurskoðandi er ráðinn til þess að gefa álit sitt á reikningsskilunum og staðfesta hvort þau gefi „glögga mynd“ af afkomu og efnahag fyrirtækisins, bæði hvað efni og form varðar. Endurskoðandinn er ráðinn af og þiggur þóknun sína frá fyrirtækinu sem hann endurskoðar fyrir en vinnur fyrst og fremst í þágu þriðja aðila. Oftast er þá litið til aðila utan fyrirtækisins, einkum lánardrottna, birgja og viðskiptavina, og samkvæmt svokallaðri umboðskenningu (e. principal-agent theory) er eðlilegt að setja hluthafana með í þennan hóp. Kenningin gerir ráð fyrir að við stjórnun skipulagsheilda sé til staðar togstreita milli hagsmuna eigendanna og ráðinna stjórnenda, þ.e. umbjóðenda og umboðsmanna, en báðir hóparnir vilji hámarka sinn hag. Þessi umboðsvandi nærist meðal annars á misvægi í aðgengi að rekstrarupplýsingum. Samkvæmt kenningunni er unnt að draga úr þessum vanda með eftirliti, oft aðkeyptu. Í fyrirtækjum sem eru í dreifðri eign, svo sem almenningshlutafélögum og sparisjóðum, er alltaf hætta á að yfirstjórnin setji einkahagsmuni í forgang og hneigist til þess að beita blekkingum við reikningsskilin. Fyrir almenna hluthafa felst því ákveðið öryggi í því að þeir geta samkvæmt lögum tekið þátt í því að kjósa endurskoðanda á aðalfundi félags. Önnur kenning sem hefur komið mikið við sögu síðustu tvo áratugi í umræðu um stjórnarhætti í fyrirtækjum er haghafakenningin (e. stakeholder theory). Samkvæmt henni eru fyrirtæki og stjórnir þeirra ábyrg gagnvart öllum hagsmunaaðilum, nær og fjær. Fyrirtæki er ekki eyland heldur þátttakandi í samfélagi þar sem áhrifakeðjan er nokkurn veginn á þann veg sem mynd 1 sýnir. Hugtakið þriðji aðili fær með þessu enn víðari merkingu.

Óhæði endurskoðandans verður óhjákvæmilega að skoða í þessu ljósi. Ef hann nálgast verkefni sitt í forgangsröð frá vinstri til hægri á mynd 1 leikur vægast sagt verulegur vafi á óhæði hans. Samfélagið á mikið undir því að viðskipti séu heiðarleg og að traust ríki milli aðila. Endurskoðun er í eðli sínu staðfestingarathöfn sem ætlað er að efla traust og á það hafa endurskoðendur sjálfir hvarvetna lagt mikla áherslu.23 Þess vegna þarf endurskoðandinn að hafa almannahagsmuni í fyrirrúmi en verður þó að gæta trúnaðar gagnvart umbjóðanda sínum og viðhafa þagmælsku um það sem leynt á að og má fara. Það að vera opinber sýslunarmaður felst meðal annars í þessu. Sparisjóðir voru ásamt fleiri stofnunum skilgreindir í lögum sem einingar tengdar almannahagsmunum frá 1. janúar 2009. Það undirstrikar forgangsröðina í vinnu endurskoðandans, en breytir þó engu um það að sparisjóðir hafa ævinlega verið slíkar einingar. Þótt sjónarmiðið hafi ratað þarna inn í íslenskan rétt í fyrsta sinn, átti það ekki að valda neinum straumhvörfum í nálgun endurskoðenda í endurskoðunarvinnu þeirra fyrir sparisjóðina.

Á óhæðinu eru jafnan tveir fletir, svo sem tekið er á í 1. mgr. 19. gr. laga nr. 79/2008 um endurskoðendur, en þar segir að endurskoðandi og endurskoðunarfyrirtæki skuli vera óháð viðskiptavini sínum, bæði í reynd og ásýnd. Hvernig fyrra atriðið er tryggt á endurskoðandinn við sjálfan sig og samvisku sína og liggja viðurlög við því ef endurskoðandi verður uppvís að brotum í starfi. Erfitt er að tryggja óhæði í ásýnd, en lögunum er þó ætlað að stuðla að því. Grundvallaratriði í því sambandi kemur fram í 2. mgr. 19. gr. laganna en þar segir að endurskoðanda sé óheimilt að taka þátt í ákvörðunum stjórnar eða stjórnenda þess aðila sem hann endurskoðar. Óhjákvæmilegt er að líta til þessa ákvæðis þegar endurskoðandi vinnur ráðgjafarstörf fyrir fyrirtæki sem hann sinnir endurskoðun hjá. Sökum fagþekkingar og reynslu endurskoðandans er ekkert undarlegt að stjórnendur fyrirtækja leiti ráða hjá honum, en þar reynir á dómgreind endurskoðandans. Endurskoðun og ráðgjöf fyrir sama umbjóðanda fer ekki saman. Ef þessa er ekki gætt er óhæði ekki lengur til að dreifa, hvorki í reynd né ásýnd.

Ráðgjöf er verkefni með afar óljós mörk. Ráð um tilhögun bókhalds geta hæglega farið að snerta reikningsskilin og þar með orðið að aðstoð við gerð ársreikningsins. Aðstoðin má þó ekki verða svo mikil að endurskoðandinn semji ársreikninginn fyrir viðskiptavininn. Í reglum nr. 532/2003 um endurskoðun fjármálafyrirtækja er kveðið á um að endurskoðanda fjármálafyrirtækis sé óheimilt að starfa í eigin þágu að verkefnum sem skert geti hæfi hans gagnvart fyrirtækinu. Jafnframt skuli endurskoðandi forðast að vera beinn þátttakandi í mikilvægum útlána- og rekstrarákvörðum fjármálafyrirtækisins, einkum ef í slíku mati felst annað en aðstoð við tæknilega útreikninga út frá gefnum forsendum.24

Hér framar var nefnt ákvæðið í 20. gr. laga nr. 79/2008 um takmörkun á starfstíma endurskoðanda og endurskoðunarfyrirtækis fyrir sama viðskiptavin. Gildandi lög um endurskoðendur taka því með skýrari hætti á óhæðisvandanum en eldri lög.

7.1.2.2 Siðareglur endurskoðenda

Fram hefur komið að samkvæmt 8. gr. laga nr. 79/2008 um endurskoðendur eiga þeir að fylgja siðareglum Félags löggiltra endurskoðenda. Við samningu þeirra hafði félagið að leiðarljósi siðareglur alþjóðasamtaka endurskoðenda (IFAC),25 Code of Ethics for Professional Accountants, frá júní 2005 ásamt þeim breytingum sem fram koma í endurskoðuðum reglum IFAC sem voru gefnar út í júlí 2009. Siðareglurnar voru samþykktar á aðalfundi félagsins 14. nóvember 2009 og með staðfestingu efnahags- og viðskiptaráðherra 29. september 2010 öðluðust þær formlegt gildi. Endurskoðuð útgáfa siðareglnanna var samþykkt á aðalfundi Félags löggiltra endurskoðenda 5. nóvember 2010 og staðfest af efnahags- og viðskiptaráðherra 24. febrúar 2011 og tók þegar gildi. Þessar siðareglur gilda um störf endurkoðenda en í þeim eru settar fram lágmarkskröfur sem gera má til þeirra, en lög og stjórnvaldsfyrirmæli sem kveða á um strangari reglur en fram koma í siðareglunum ganga þeim vitanlega framar, eins og greinir í formála þeirra.

Siðareglur Félags löggiltra endurskoðenda26 hefjast á þeim orðum að aðalsmerki endurskoðendastéttarinnar sé að starfa með hagsmuni samfélagsins að leiðarljósi. Þar af leiðandi felist ábyrgð endurskoðanda ekki eingöngu í því að uppfylla þarfir einstaks viðskiptavinar eða vinnuveitanda. Með þessu eru tekin af öll tvímæli um það hver forgangsröðin skuli vera í endurskoðunarverkefnum. Þá má benda á að í formála að siðareglunum er örstutt umfjöllun um alþjóðasamtök endurskoðenda sem voru stofnuð árið 1977, þar sem segir að markmið IFAC sé að viðhalda sífelldri þróun á sviði endurskoðunar og reikningshalds með því að stuðla að samræmingu staðla sem endurskoðendur starfa eftir. Með því megi tryggja að störf endurskoðenda í þágu samfélagsins verði alltaf í hæsta gæðaflokki.

Enda þótt siðareglurnar hafi ekki öðlast formlegt gildi fyrr en undir lok ársins 2010 þá var bráðabirgðaákvæði í lögum nr. 79/2008 sem skyldaði endurskoðendur til að endurskoða með viðurkenndum aðferðum í samræmi við leiðbeinandi reglur um endurskoðun (ISA) út gefnar af alþjóðasamtökum endurskoðenda (IFAC) sem Félag löggiltra endurskoðenda er aðili að. Þá er hið samfélagslega sjónarhorn sem vinna endurskoðenda skoðast út frá ekki nýtt af nálinni. Þó hefur nokkurrar óvissu gætt um stöðu réttarheimildar alþjóðlegra endurskoðunarstaðla hérlendis, þar sem þeir hafa ekki verið innleiddir með fullnægjandi hætti. Þessi óvissa snýst þó ekki um inntak reglnanna, heldur um gildi þeirra þegar kemur að mati á störfum endurskoðenda með tilliti til óhæðis þeirra eða brota í starfi.

Siðareglur Félags löggiltra endurskoðenda eru í þremur hlutum. Í A-hluta er lýst grundvallaratriðum siðareglna endurskoðenda og úrlausnaraðferðum við beitingu þeirra. Endurskoðendum er skylt að beita þessum úrlausnaraðferðum til að greina ógnanir sem geta leitt til þess að þeir nái ekki að fylgja grundvallarreglunum, meta vægi slíkra ógnana og beita varúðarráðstöfunum, ef nauðsynlegt er, til að eyða ógnunum eða draga svo úr þeim að þær verði ásættanlegar. Beita skal varúðarráðstöfunum þegar endurskoðandi metur ógnirnar það miklar að óvilhallur og vel upplýstur þriðji aðili sé líklegur til að álykta, að teknu tilliti til sérstakra staðreynda og aðstæðna endurskoðandans á þeim tíma, að fylgni við grundvallarreglur sé stefnt í hættu. Þá skal endurskoðandi beita faglegri dómgreind við þessar úrlausnaraðferðir.27 Þá er í B- og C-hluta reglnanna lýst hvernig beita eigi úrlausnaraðferðum við tilteknar aðstæður. Dæmi eru tekin um viðeigandi varúðarráðstafanir til að bregðast við ógnunum við fylgni við grundvallarreglurnar og aðstæðum þar sem varúðarráðstafanir eru ekki tiltækar. B-hlutinn á við starfandi endurskoðendur en C-hlutinn gildir um endurskoðendur sem starfa við annað en endurskoðun. Við tilteknar aðstæður getur verið viðeigandi fyrir starfandi endurskoðendur að nýta sér leiðbeiningar í C-hluta.28

Í kafla 100.5 í siðareglunum eru tilfærðar þær grundvallarreglur sem endurskoðandi skal hlíta, en þær eru:

(a) Heilindi – vera hreinskiptinn og heiðarlegur í öllum samskiptum.
(b) Hlutlægni – ekki láta hlutdrægni, hagsmunaárekstra eða óviðeigandi áhrif annarra ráða dómgreind sinni.
(c) Fagleg hæfni og varkárni – viðhalda faglegri þekkingu og hæfni sinni til að tryggja að viðskiptavinur eða vinnuveitandi fái faglega þjónustu í samræmi við ríkjandi framþróun í starfsgreininni, lagasetningu og starfsaðferðir. Endurskoðandi skal starfa af kostgæfni og í samræmi við viðurkennda tæknilega og faglega staðla.
(d) Trúnaður – gæta trúnaðar í faglegum og viðskiptalegum samskiptum sínum og ekki veita þriðja aðila upplýsingar án sérstakrar heimildar nema það sé réttmætt eða skylt samkvæmt lögum eða faglegum kröfum. Slíkar upplýsingar skulu hvorki notaðar í eigin þágu né þriðja aðila.
(e) Fagleg hegðun – fara eftir lögum og reglugerðum og forðast allt sem kastað gæti rýrð á endurskoðendastéttina.

Bent er á að í starfsumhverfi endurskoðenda geti skapast sérstakar aðstæður sem ógna fylgni við grundvallarreglurnar. Ógerlegt sé að skilgreina sérhverjar þær aðstæður sem skapa slíkar ógnanir og tilgreina viðeigandi varúðarráðstafanir, auk þes sem eðli verkefna geti verið mismunandi og ógnanir geti því verið margvíslegar og krafist ólíkra varúðarráðstafana. Siðareglurnar móti þess vegna úrlausnaraðferðir sem krefjast þess að endurskoðandi greini, meti og bregðist við ógnunum við fylgni við grundvallarreglurnar. Þessar úrlausnaraðferðir eiga að hjálpa endurskoðendum að uppfylla kröfur siðareglnanna og að standa undir þeirri ábyrgð sem fylgir því að starfa í þágu almannaheilla. Þær ná yfir margar breytilegar aðstæður sem skapa ógnanir við grundvallarreglurnar og geta aftrað endurskoðanda frá því að álíta aðstæður heimilar ef þær eru ekki sérstaklega bannaðar.29 Endurskoðandi skal meta allar ógnanir með hliðsjón af grundvallarreglunum þegar hann veit eða ætti með réttu að vita um aðstæður eða sambönd sem geta stefnt fylgni við grundvallarreglurnar í hættu.30 Við beitingu úrlausnaraðferða getur endurskoðandi lent í aðstæðum þar sem ekki er hægt að eyða ógnunum eða draga úr þeim svo þær verði ásættanlegar, annaðhvort vegna þess að ógnunin er svo mikil eða varúðarráðstafanir eru ekki fyrir hendi eða hægt að beita þeim. Við slíkar aðstæður skal hann hafna eða hætta viðkomandi þjónustu eða slíta sambandi við viðskiptavin beri nauðsyn til.31

Óhæðishugtakið er tvímælalaust af siðferðilegum toga, enda fær óhæði mikið rúm í siðareglunum. Í handbók Félags löggiltra endurskoðenda með siðareglunum fjallar stærsti hlutinn um óhæði, bæði í endurskoðunar- og könnunarverkefnum, og í öðrum staðfestingarverkefnum. Í siðareglunum er hugtakið skilgreint svo:

Óhæði er:
a) Óhæði í reynd – hugarástand sem gerir kleift að láta í ljós álit án þess að hafa orðið fyrir áhrifum sem stofna faglegu mati í hættu og gerir einstaklingi fært að starfa af heilindum og beita hlutlægri og faglegri dómgreind.
b) Óhæði í ásýnd – að forðast tengsl og aðstæður sem eru svo þýðingarmiklar að óvilhallur og upplýstur þriðji aðili væri líklegur til að álykta á grundvelli staðreynda og aðstæðna að heilindum, hlutlægni eða faglegri dómgreind (tortryggni) fyrirtækis eða meðlims endurskoðunar- eða staðfestingarteymis hafi verið stefnt í hættu.

Í kafla um úrlausnaraðferðir við óhæði segir að þegar um endurskoðunarverkefni er að ræða, sé það í þágu almannaheilla og því sé það krafa siðareglnanna að meðlimir endurskoðunarteyma, fyrirtæki og samstarfsfyrirtæki endurskoðenda séu óháð viðskiptavinum í endurskoðun.32 Enn fremur segir í reglunum að endurskoðendur skuli beita úrlausnaraðferðum við að bera kennsl á ógnanir við óhæði, meta vægi þeirra og beita varúðarráðstöfunum eftir þörfum til að eyða þeim eða draga úr svo að þær verði ásættanlegar. Þá skuli endurskoðandi þegar hann metur aðstæður þannig að viðeigandi varúðarráðstafanir séu ekki fyrir hendi eða ekki hægt að beita þeim til að eyða ógnunum eða draga úr þeim svo þær verði ásættanlegar, forðast aðstæður eða tengsl sem skapa ógnanir, ella hafna eða hætta við viðkomandi endurskoðunarverkefni. Endurskoðanda ber að nýta sér faglega dómgreind sína við beitingu þessara úrlausnaraðferða.33

7.1.  Lög um ársreikninga

Ekki voru sett sérstök almenn lög um ársreikninga hérlendis fyrr en með lögum nr. 144/1994. Þau voru endurútgefin með fjölmörgum áorðnum breytingum sem lög nr. 3/2006 sem tóku gildi 26. janúar 2006. Strangt til tekið giltu þau þó ekki um ársreikninga sparisjóða fyrr en frá og með reikningsárinu sem hófst 1. janúar 2007, en með breytingarlögum nr. 171/2007 var sparisjóðum bætt inn í upptalningu á gildissviði laganna í 3. tölul. 1. mgr. 1. gr. laga nr. 3/2006 um ársreikninga. Eins og greint er frá í 8. kafla giltu reglur Fjármálaeftirlitsins um reikningsskil lánastofnana fyrir þann tíma.

Í IX. kafla laga nr. 3/2006 er fjallað um endurskoðun og yfirferð ársreikninga. Helst eru ákvæðin um kosningu endurskoðanda, ráðningu og starfslok, hvaða félög eru endurskoðunarskyld og um gagnkvæma upplýsingaskyldu endurskoðandans og stjórnar félags og framkvæmdastjóra. Í 1. mgr. 102. gr. er kveðið á um að endurskoðendur skuli endurskoða ársreikning í samræmi við lög um endurskoðendur og í 2. mgr. 102. gr. segir að skoðunarmenn skuli yfirfara ársreikning og í því sambandi kanna bókhaldsgögn félagsins og aðra þætti er varða rekstur þess og stöðu. Engin ákvæði eru í endurskoðunarkafla ársreikningalaganna um að endurskoðandi skuli tilkynna yfirvöldum eða eftirlitsaðilum utan félagsins um lögbrot við stjórn þess, heldur einungis að hann sé tilkynningarskyldur gagnvart eigendum félagsins líkt og fram kemur í 3. mgr. 102. gr. laganna. Þar segir:

Ef endurskoðendur eða skoðunarmenn verða þess varir að stjórnendur félags hafi í störfum sínum fyrir það ekki farið að lögum, þannig að það geti haft í för með sér ábyrgð fyrir þá eða félagið, eða brotið gegn félagssamþykktum skulu þeir gera aðalfundi grein fyrir því.

Lög um ársreikninga hafa að geyma ítarlegri fyrirmæli um áritun endurskoðanda á ársreikning en lög um endurskoðendur. Í 104. gr. ársreikningalaga, sem var efnislega sambærilegt 65. gr. eldri laga, stóð eftirfarandi fram til þess að ákvæðinu var breytt með lögum nr. 14/2013:

Endurskoðendur eða skoðunarmenn skulu að lokinni endurskoðun árita ársreikninginn og enn fremur samstæðureikning ef hann er saminn og skal áritunin fylgja ársreikningnum.
Í árituninni skal koma fram að ársreikningurinn eða samstæðureikningurinn hafi verið endurskoðaður. Þá skal koma fram álit endurskoðenda eða skoðunarmanna á því hvort ársreikningurinn eða samstæðureikningurinn sé saminn í samræmi við ákvæði laga og settar reikningsskilareglur, svo og greinargerð um niðurstöðu endurskoðunarinnar að öðru leyti. Ef endurskoðendur eða skoðunarmenn telja að ekki beri að samþykkja ársreikninginn skulu þeir taka það fram sérstaklega.
Endurskoðendur eða skoðunarmenn skulu sannreyna að skýrsla stjórnar hafi að geyma þær upplýsingar sem þar ber að veita í samræmi við ársreikninginn og vekja athygli á því í áritun sinni ef svo er ekki.34

Með breytingarlögum nr. 45/2005 var bætt inn í lögin ákvæði sem kveður á um að endurskoðendur eða skoðunarmenn skuli gefa skýrslu um endurskoðunarvinnu sína og var talið upp í fimm liðum hvaða efni hún skyldi geyma. Með lögum nr. 171/2007 var sambærilegu ákvæði í nýjum lögum, 106. gr. laga nr. 3/2006, breytt þannig að það kvæði aðeins á um þau lágmarksatriði sem koma þyrftu fram í endurskoðunarskýrslu. Ákvæðið var fellt brott með lögum nr. 14/2013, en þar sagði fram til þess að áritun endurskoðenda og skoðunarmanna skyldi innihalda að minnsta kosti inngang þar sem fram kæmi hvaða ársreikning væri verið að endurskoða og hvaða reikningsskilareglum hefði verið beitt við samningu ársreiknings; lýsingu á umfangi endurskoðunar þar sem fram kæmu að minnsta kosti þær endurskoðunarreglur sem notaðar hefðu verið, og áritun þar sem skýrt kæmi fram álit endurskoðenda eða skoðunarmanna um hvort ársreikningurinn gæfi glögga mynd samkvæmt viðeigandi reikningsskilareglum og, eftir því sem við ætti, hvort ársreikningurinn uppfyllti lögboðnar kröfur. Áritunin skyldi vera án fyrirvara, með fyrirvara, neikvæð eða gerð grein fyrir því ef ekki væri mögulegt að gefa álit. Þá skyldi vísað til þeirra mála sem endurskoðendur eða skoðunarmenn vildu vekja sérstaka athygli á án þess að gefa áritun með fyrirvara. Jafnframt skyldi áritunin innihalda álit um það hvort skýrsla stjórnar hefði að geyma þær upplýsingar sem þar bæri að veita í samræmi við ársreikninginn og skyldu endurskoðendur og skoðunarmenn vekja athygli á því í áritun sinni ef svo væri ekki. Eins og fram er komið var ákvæðið fellt brott með lögum nr. 14/2013 og gildir því ákvæði 2. mgr. 104. gr. sem breytt var með sömu lögum, þar sem segir að áritun endurskoðanda skuli vera í samræmi við það sem fram kemur í lögum um endurskoðendur nr. 79/2008, auk þess sem í árituninni skuli kom fram álit á því hvort skýrsla stjórnar geymi þær upplýsingar sem þar beri að veita. Endurskoðendum ber að taka það fram sérstaklega ef þeir telja að ekki beri að samþykkja ársreikninginn.

7.1.3.1 Endurskoðunarnefndir

Með lögum nr. 80/2008 var gerð breyting á lögum nr. 3/2006 um ársreikninga. Meðal þeirra breytinga var nýr kafli um endurskoðunarnefndir þar sem kveðið var á um skipun, hlutverk og störf endurskoðunarnefndar, sbr. 2. gr. laganna. Breytingin var gerð samhliða setningu laga nr. 79/2008 um endurskoðendur í þeim tilgangi að koma í framkvæmd hér á landi ákveðnum þáttum tilskipunar Evrópuþingsins og -ráðsins 2006/43/EB frá 17. maí 2006 um lögboðna endurskoðun ársreikninga og samstæðureikninga, svonefndrar 8. félagatilskipunar. Með þeirri tilskipun voru kröfur til endurskoðenda og endurskoðunarfyrirtækja auknar töluvert. Eitt helsta markmið hennar er að tryggja betur en áður að fjárfestar og aðrir hagsmunaaðilar geti reitt sig á gæði fjármálaupplýsinga og störf endurskoðenda. Brýnt er að tryggja slíkt hjá aðilum tengdum almannahagsmunum, enda eru þeir sýnilegri og mikilvægari efnahagslega og því er eðlilegt að strangari kröfur gildi um endurskoðun þeirra.

Í 108. gr. a. laga nr. 3/2006, sbr. lög nr. 80/2008, er kveðið á um skipun endurskoðunarnefndar. Þar segir að við einingu tengda almannahagsmunum skuli starfa endurskoðunarnefnd sem stjórn einingar beri ábyrgð á að skipa. Að minnsta kosti þrír skulu skipaðir í hana eigi síðar en mánuði eftir aðalfund. Nefndarmenn skulu vera óháðir endurskoðanda eða endurskoðendum einingarinnar og þá skal meiri hluti nefndarmanna jafnframt vera óháður einingunni. Framkvæmdastjóra er meinað að eiga sæti í nefndinni. Nefndarmenn skulu hafa þekkingu og reynslu í samræmi við störf nefndarinnar og að minnsta kosti einn þeirra skal hafa staðgóða þekkingu og reynslu á sviði reikningsskila eða endurskoðunar.

Hlutverk endurskoðunarnefnda kemur fram í 108. gr. b. Samkvæmt ákvæðinu er nefndinni falið ákveðið hlutverk án tillits til ábyrgðar stjórnar, stjórnenda eða annarra á þessu sviði. Þessir aðilar geta því ekki framselt ábyrgð sína á þeim verkefnum sem undir þá heyra til endurskoðunarnefndar, þrátt fyrir að endurskoðunarnefnd séu falin verkefnin samkvæmt ákvæðinu. Í ákvæðinu eru talin upp þau lágmarksverkefni sem endurskoðunarnefnd ber að sinna, sem eru: eftirlit með vinnuferli við gerð reikningsskila; eftirlit með fyrirkomulagi og virkni innra eftirlits einingarinnar, innri endurskoðun, ef við á, og áhættustýringu; eftirlit með endurskoðun ársreiknings og samstæðureiknings einingarinnar; mat á óhæði endurskoðanda eða endurskoðunarfyrirtækis og eftirlit með öðrum störfum endurskoðanda eða endurskoðunarfyrirtækis; að setja fram tillögu til stjórnar um val á endurskoðanda eða endurskoðunarfyrirtæki.

Í 108. gr. c. segir að í einingum tengdum almannahagsmunum skuli tillaga stjórnar um tilnefningu endurskoðanda eða endurskoðunarfyrirtækis byggjast á tilmælum frá endurskoðunarnefndinni, og í 108. gr. d. segir að endurskoðandi eða endurskoðunarfyrirtæki skuli árlega gera endurskoðunarnefnd grein fyrir störfum sínum og óhæði og skila skriflegri skýrslu um mikilvæg atriði sem fram hafi komið við endurskoðunina. Í skýrslunni skuli sérstaklega geta um veikleika í innra eftirliti í vinnuferli við gerð reikningsskila. Þetta síðastnefnda ákvæði vísar til svonefndrar endurskoðunarskýrslu, en gerð hennar hefur verið tilskilin í reglum Fjármálaeftirlitsins um endurskoðun fjármálafyrirtækja, og þar áður hliðstæðum reglum bankaeftirlitsins, allar götur frá 1994. Endurskoðunarskýrsla var nefnd í lögum nr. 32/1978 um hlutafélög, án þess að þar væru skýr ákvæði um innihald hennar.

Þótt ákvæðin um endurskoðunarnefnd væru nýmæli í lögum árið 2008 höfðu slíkar nefndir þó þekkst fyrir þann tíma. Í Bandaríkjunum hafði tíðkast frá því á 8. áratugnum að félög sem höfðu hlutabréf sín skráð á markaði hefðu starfandi endurskoðunarnefnd (e. audit committee). Þar var um að ræða undirnefnd eða starfsnefnd stjórnar sem skyldi hafa yfirumsjón og eftirlit með gerð reikningsskila og annaðist samskipti við innri og ytri endurskoðendur. Með Sarbanes-Oxley lögunum frá 2002 var skerpt á hlutverki og skipan endurskoðunarnefnda í þeim tilgangi að auka óhæði þeirra og tryggja að nefndarmenn hefðu þekkingu á viðfangsefninu. Þær reglur höfðu víðtæk áhrif í öðrum löndum. Á árunum 2003–2008 settu stærstu fjármálafyrirtækin hér á landi sér sjálf starfsreglur um skipan sérstakra endurskoðunarnefnda sem höfðu það verkefni að undirbúa og fjalla um reikningsskil og innra eftirlit fyrirtækisins til að undirbúa umfjöllun stjórnar um þau viðfangsefni.35 Sparisjóður Reykjavíkur og nágrennis var eini sparisjóðurinn sem setti á fót endurskoðunarnefnd áður en það varð skylt samkvæmt lögum frá og með 1. janúar 2009. Hún var skipuð þremur stjórnarmönnum og starfaði með svipuðum hætti og endurskoðunarnefndir stóru bankanna. Hún hélt sjö fundi á tímabilinu frá 13. desember 2007 til 6. janúar 2009. Forstöðumaður innri endurskoðunar og ytri endurskoðandi sátu alla fundi nefndarinnar og stundum að auki forstöðumaður reikningshalds og sparisjóðsstjóri. Nefndin var fyrst og fremst starfsnefnd og verður ekki fullyrt um eftirlitshlutverk hennar.

Fjármálaeftirlitið sendi öllum lánastofnunum, vátryggingarfélögum og lífeyrissjóðum bréf 16. janúar 2009 þar sem athygli var vakin á breytingum á lögum um endurskoðendur og lögum um ársreikninga. Í bréfinu var einnig útskýrt hvað átt væri við með hugtakinu eining tengd almannahagsmunum. Í bréfinu var ekki sett fram krafa um að þessir aðilar tilkynntu Fjármálaeftirlitinu um skipan endurskoðunarnefndar, enda engin fyrirmæli um slíka upplýsingaskyldu í lögunum. Dráttur og jafnvel misbrestur varð á því hjá sumum sparisjóðum að endurskoðunarnefnd yrði skipuð. Ekki var nánar skýrt hvað átt var við með því að meiri hluti nefndarmanna skyldi vera „óháður einingunni“ í lögunum og verður ekki ráðið af athugasemdum með lagafrumvarpinu hvað átt er við, en nokkrar umræður spunnust um hugtakið.36 Fjármálaeftirlitið sendi 20. júní 2011 frá sér drög að leiðbeinandi tilmælum um skipan og störf endurskoðunarnefnda eftirlitsskyldra aðila, umræðuskjal nr. 6/2011, þar sem leitast var við að skýra og taka af öll tvímæli um tilganginn með skipan endurskoðunarnefndar, hvað það merkti að vera óháður einingunni, verkefni endurskoðunarnefndar og loks hverjar skyldur stjórnar einingarinnar væru í þessu sambandi. Í drögunum segir:

Fjármálaeftirlitið lítur svo á að hugtakið „óháður einingunni“ feli m.a. í sér að viðkomandi sé ekki stjórnarmaður, starfsmaður eða ráðandi hluthafi einingarinnar. Jafnframt að ekki séu slík tengsl milli viðkomandi aðila og stjórnarmanna að ástæða sé til að draga óhæði hans í efa.

Samkvæmt þessari túlkun má einungis einn nefndarmaður af þremur vera úr hópi stjórnarmanna viðkomandi sparisjóðs. Í leiðbeiningum Viðskiptaráðs frá 2009 um stjórnarhætti í fyrirtækjum er endurskoðunarnefnd sögð vera undirnefnd stjórnar og þar er ekki lagt bann við því að allir nefndarmenn eigi sæti í stjórn viðkomandi fyrirtækis. Í leiðbeiningum segir:

Nefndarmenn skulu vera óháðir endurskoðanda eða endurskoðendum félagsins. Meirihluti nefndarinnar skal jafnframt vera óháður félaginu og daglegum stjórnendum þess. Auk þess skal einn nefndarmanna, sem bæði er óháður daglegum stjórnendum og félaginu,
vera óháður stórum hluthöfum félagsins. Framkvæmdastjóri félagsins og aðrir daglegir stjórnendur þess skulu ekki eiga sæti í nefndinni.37

Það mun vera algengt að túlka þessar leiðbeiningar á þann veg að tveir stjórnarmenn megi sitja í endurskoðunarnefndinni. Á hinn bóginn er vandséð hverjir af fimm stjórnarmönnum í sparisjóði eru eða eiga að vera óháðari einingunni en aðrir stjórnarmenn. Það er hins vegar bæði eðlilegt og æskilegt að einn nefndarmanna komi úr stjórninni.

Í töflu 1 er yfirlit yfir það hverjir sparisjóðanna skipuðu endurskoðunarnefnd og hvenær. Jafnframt sýnir taflan hvernig nefndirnar voru mannaðar í upphafi, þ.e. hve margir nefndarmenn voru jafnframt stjórnarmenn í viðkomandi sparisjóði. Í öllum þessum nefndum hafði meiri hluti nefndarmanna, og í sumum tilfellum allir nefndarmenn, staðgóða þekkingu og reynslu á sviði reikningsskila eða endurskoðunar.

Eins og hér hefur komið fram er endurskoðunarnefndin eftirlitsnefnd. Þar sem skammur tími er liðinn frá því að endurskoðunarnefndir voru lögfestar er framkvæmdin enn í mótun en svo virðist sem almennur skilningur sé á því að óhæði nefndarmanna skuli tryggt, svo og þekking þeirra á reikningsskilum og endurskoðun.

7.2 Reglur Fjármálaeftirlitsins um endurskoðun

Eins og fyrr segir þótti nauðsynlegt með hliðsjón af mikilvægi starfsemi viðskiptabanka og sparisjóða að opinber eftirlitsaðili hefði heimild til að setja nánari reglur um framkvæmd endurskoðunar hjá þessum stofnunum. Bankaeftirlitið birti slíkar leiðbeinandi reglur 30. desember 1994, reglur nr. 704/1994 um endurskoðun viðskiptabanka, sparisjóða og annarra lánastofnana. Hinn 10. september 2001 gaf Fjármálaeftirlitið út nánast sömu reglur undir nýju heiti með tilvísun til breyttrar löggjafar, þ.e. reglur nr. 694/2001 um endurskoðun lánastofnana. Þær voru leystar af hólmi af lítt breyttum reglum nr. 532/2003 um endurskoðun fjármálafyrirtækja, sem hafa gilt síðan. Reglurnar eru leiðbeinandi um skipulagningu, framkvæmd og áritun um könnun á árshlutareikningum fjármálafyrirtækja og er ætlað að vera skilgreining á meginatriðum í góðri endurskoðunarvenju hjá fjármálafyrirtækjum.

7.2.1 Góð endurskoðunarvenja

Víða í lögum hefur verið vísað til hugtaksins góð endurskoðunarvenja án þess að útskýrt sé hvað átt er við með því. Í athugasemdum við 83. gr. í frumvarpi til laga hlutafélög nr. 32/1978 sagði:

Með vísun til góðrar endurskoðunarvenju er einmitt átt við, að endurskoðunin sé framkvæmd í samræmi við það, sem almennt gerist hjá sérhæfðu og samviskusömu fólki, sem að endurskoðun vinnur á hverjum tíma.38

Hugtakið kom síðan fyrir í lögum um ársreikninga, lögum um fjármálafyrirtæki og lögum um endurskoðendur, allt þar til í síðustu gerð laga um endurskoðendur, nr. 79/2008, en þar hljóðar 9. gr. svo:

Endurskoðandi skal rækja störf sín í samræmi við alþjóðlega endurskoðunarstaðla og alþjóðlega staðla um gæðaeftirlit sem teknir hafa verið upp í íslenskan rétt, sbr. 31. gr.

Í athugasemdum sem fylgdu frumvarpi til laganna sagði um 9. gr. að í 8. félagatilskipun Evrópuþingsins og -ráðsins kæmi fram að með alþjóðlegum endurskoðunarstöðlum væri átt við ISA (International Standards on Auditing) og tengdar yfirlýsingar og staðla sem vörðuðu endurskoðunina. Í endurskoðunarstöðlunum væri víða vísað í alþjóðlega gæðastaðla, ISQC,39 en einnig gert ráð fyrir því að vísað yrði til þessara staðla við gæðaeftirlit. Því var í frumvarpinu gert ráð fyrir að endurskoðandi rækti störf sín í samræmi við alþjóðlega gæðastaðla.40 Hugtakið góð endurskoðunarvenja hefur þannig í íslenskri löggjöf fengið sambærilega meðferð og hugtakið góð reikningsskilavenja, sem var leyst af hólmi með klausunni „settar reikningsskilareglur“, sbr. umfjöllun í 8. kafla.

7.2.2 Markmið með endurskoðun ársreiknings

Í 2. gr. reglna Fjármálaeftirlitsins nr. 532/2003 um endurskoðun fjármálafyrirtækja er kveðið á um að markmið endurskoðunar sé

að komast að raun um hvort ársreikningur gefi glögga mynd af afkomu og efnahag fjármálafyrirtækis og að ársreikningur sé saminn í samræmi við ákvæði þeirra laga og reglna sem um fyrirtækið gilda, félagssamþykktir og góða reikningsskilavenju og að fylgt hafi verið ákvæðum laga og reglna varðandi upplýsingaskyldu viðkomandi fyrirtækis.

Í þessu felst meðal annars rannsókn á því hvort upplýsingar í rekstrarreikningi og skýringum gefi glögga mynd af rekstrinum, hvort útlán, kröfur og aðrar eignir í efnahagsreikningi séu fyrir hendi, í eigu fyrirtækis og séu færðar og metnar í samræmi við gildandi lög og góða reikningsskilavenju. Einnig að veðsetning og aðrar kvaðir á eignum komi fram í ársreikningi og hvort skuldir og aðrar skuldbindingar, þar með talið tryggingar- og ábyrgðarskuldbindingar, séu tilgreindar og metnar í efnahagsreikningi eða utan efnahagsreiknings. Jafnframt að rekstrar- og efnahagsreikningur séu í samræmi við bókhald viðkomandi fyrirtækis, einstakir liðir séu flokkaðir og sundurliðaðir í samræmi við lög og að nauðsynlegar upplýsingar komi fram í ársreikningi.

7.2.3 Hlutverk og staða endurskoðanda

Í reglum Fjármálaeftirlitsins nr. 532/2003 eru ákvæði sem lúta að óhæði endurskoðandans. Þau kveða á um nokkur atriði sem eru til þess fallin að styrkja óhæði hans, svo sem að endurskoðanda fjármálafyrirtækis sé óheimilt að starfa í þágu þess að verkefnum sem skert geta óhæði hans gagnvart fyrirtækinu. Jafnframt skal endurskoðandi forðast að vera beinn þátttakandi í mikilvægum útlána- og rekstrarákvörðunum eða koma með fyrstu tillögur að verðmætamati eigna eða skuldbindinga fyrirtækisins, einkum ef í slíku mati felst annað en aðstoð við tæknilega útreikninga út frá gefnum forsendum. Þegar reglurnar voru settar var ekki að finna sambærilegt ákvæði í lögum um endurskoðendur. Með lögum nr. 79/2008 um endurskoðendur var lögfest ákvæði 2. mgr. 19. gr. þar sem segir að endurskoðanda sé óheimilt að taka þátt í ákvörðunum stjórnar eða stjórnenda þess aðila sem hann endurskoðar. Þá segir í 4. gr. reglna nr. 532/2003 að endurskoðandi geti ekki samþykkt leiðsögn eða íhlutun stjórnar eða framkvæmdastjóra fjármálafyrirtækis eða þriðja aðila um framkvæmd endurskoðunar. Hann geti því ekki gert samkomulag sem kveður á um takmörkun hennar. Hliðstætt ákvæði er ekki að finna í lögum um endurskoðun. Í lögum um ársreikninga hafa þó síðan 1994 verið ákvæði um skyldu stjórnar og framkvæmdastjóra félags til að veita endurskoðendum og skoðunarmönnum félagsins upplýsingar og afhenda þeim gögn, bæði að eigin frumkvæði og að beiðni endurskoðenda.

Í 5. gr. reglna Fjármálaeftirlitsins nr. 532/2003 er kveðið á um að endurskoðandi skuli samkvæmt nánara samkomulagi við stjórn fyrirtækisins, og í þeim mæli sem hann telur eðlilegt, byggja vinnu sína á athugunum og könnunum sem innri endurskoðunardeild fjármálafyrirtækisins framkvæmir, enda hafi hann gengið úr skugga um að sjálfstæði, óhæði og fagleg þekking starfsmanna deildarinnar sé nægjanleg til þess að á vinnu þeirra sé byggjandi. Endurskoðandi skal ávallt yfirfara og framkvæma nauðsynlegar athuganir á gæðum og umfangi þeirrar vinnu innri endurskoðunardeildar sem hann hyggst byggja niðurstöður sínar á. Eins og framar greinir varð viðskiptabönkum og sparisjóðum skylt samkvæmt lögum að starfrækja endurskoðunardeild sem annaðist innri endurskoðun viðkomandi fyrirtækis,41 en veita mátti undanþágu frá því að ákveðnum skilyrðum uppfylltum. Flestir sparisjóðanna nýttu sér þetta undanþáguákvæði og sömdu í staðinn við sjálfstætt starfandi eftirlitsaðila um framkvæmd innri endurskoðunar, í flestum tilfellum sama endurskoðunarfyrirtæki og annaðist ytri endurskoðun viðkomandi sparisjóðs. Endurskoðunarfyrirtækin sem í hlut áttu hafa þurft að gæta þess að aðrir starfsmenn fyrirtækisins sinntu innri endurskoðun en þeir sem höfðu með ytri endurskoðunina að gera. Samkvæmt reglum nr. 532/2003 um endurskoðun fjármálafyrirtækja er endurskoðanda heimilt að nota aðstoðarmenn og sérfræðinga við einstaka þætti endurskoðunarvinnunnar. Ákvæðið tekur einnig til sjálfstætt starfandi eftirlitsaðila sem sparisjóður hefur gert samning við um árlega úttekt á innra eftirliti, sbr. heimild til undanþágu frá starfsrækslu innri endurskoðunardeildar.

Það kann að orka tvímælis að innri og ytri endurskoðun sé á sömu hendi, enda byggist það á ólíku eðli verkefnanna. Innri endurskoðandi leggur mat á og bætir virkni áhættustýringar, eftirlitsaðferða og stjórnarhátta með kerfisbundnum og öguðum vinnubrögðum og styður þannig viðkomandi fyrirtæki í því að ná markmiðum sínum. Hann heyrir stjórnskipulega undir stjórn fjármálafyrirtækisins en afléttir þó ekki ábyrgðinni af henni á innra eftirliti. Honum er þó heimilt að vera ráðgefandi gagnvart yfirstjórn um ákvarðanir um aðferðir við innra eftirlit í starfseminni.42 Á árinu 2010 voru lög um fjármálafyrirtæki bætt og tekið upp ákvæði um að endurskoðandi eða endurskoðunarfyrirtæki skyldi ekki gegna öðrum störfum fyrir fjármálafyrirtækið. Í leiðbeinandi tilmælum Fjármálaeftirlitsins nr. 2/2011 um undanþágu frá starfrækslu innri endurskoðunardeildar hjá fjármálafyrirtækjum segir að ekki sé heimilt að fela endurskoðanda eða endurskoðunarfyrirtæki sem sinnir ytri endurskoðun hjá hlutaðeigandi fjármálafyrirtæki að sjá um innri endurskoðun samkvæmt 1. mgr. 90. gr. laga um fjármálafyrirtæki. Því ákvæði var breytt með lögum nr. 75/2010. Breytingin skerpir á kröfu um að endurskoðendur séu óháðir í störfum sínum og að krafan um óhæði lúti ekki eingöngu að einstaklingum heldur einnig að endurskoðunarfyrirtækjum í heild sinni. Samkvæmt 1. mgr. 90. gr. laga nr. 161/2002, sbr. 48. gr. laga nr. 75/2010, er bæði endurskoðanda og endurskoðunarfyrirtæki óheimilt að gegna öðrum störfum fyrir fjármálafyrirtæki, ef hann eða fyrirtækið hefur með höndum endurskoðun ársreiknings. Með hliðsjón af þessu getur sami endurskoðandi eða endurskoðunarfyrirtæki ekki sinnt bæði innri og ytri endurskoðun hjá sama fjármálafyrirtæki.43

7.2.4 Framkvæmd og umfang endurskoðunar

Í 6. gr. reglna Fjármálaeftirlitsins nr. 532/2003 um endurskoðun fjármálafyrirtækja segir að endurskoðun skuli framkvæma í samræmi við góða endurskoðunarvenju. Með því sé átt við að endurskoðað sé með viðurkenndum aðferðum sem hæfir og samviskusamir endurskoðendur noti. Meginþættir í framkvæmd endurskoðunarinnar eru síðan tilgreindir í 6. gr. sem könnun á bókhaldskerfum og -skipulagi með tilliti til áreiðanleika og innra eftirlits, athuganir og söfnun gagna til að staðfesta réttmæti einstakra liða í ársreikningi og könnun á starfsemi fyrirtækisins, þróun þess og horfum, til þess að meta hættuna á því að eigið fé þess fari á næsta ári undir lögbundið lágmark. Hvað varðar athuganir og söfnun gagna eru tilgreindir nánar eftirfarandi verkþættir í 6. gr. reglnanna:

Jafnframt felst í þessu að endurskoðandi skal, við endurskoðun ársreiknings, framkvæma sérstakar kannanir á stöðu stærstu lánþega með tilliti til greiðslutrygginga og afskriftaþarfar. Endurskoðandi skal einnig afla yfirlýsingar stjórnar og framkvæmdastjóra um að allar eignir, skuldir, ábyrgðir, kvaðir og skuldbindingar komi fram í ársreikningi og að sömu aðilum sé ekki kunnugt um áhættu eða atvik, fyrr en eftir lok reikningsárs, sem tengjast fjárhagsstöðu fyrirtækisins og kynnu síðar að leiða til umtalsverðrar skerðingar á þeirri fjárhagsstöðu sem fram kemur í ársreikningnum.

Ef könnun endurskoðandans á bókhaldskerfi og innra eftirliti leiðir í ljós að þetta tryggir með viðunandi hætti að bókhald sé í góðu horfi getur það leitt í ljós að ekki sé nauðsyn á umfangsmikilli könnun einstakra bókhaldsliða.

Í reglunum eru ákvæði um skipulagningu og skráningu endurskoðunarvinnunnar og er lögð áhersla á að umfang og niðurstöðu einstakra endurskoðunaraðgerða og heildarniðurstöður um einstaka liði ársreiknings skuli skrá á vinnuskjöl sem geymd skuli með kerfisbundnum hætti.

7.2.5 Mikilvægi og áhætta

Eitt af því mikilvægasta sem endurskoðanda ber að hafa í huga þegar hann skipuleggur endurskoðunina eru svokölluð mikilvægismörk. Þau stýra meðal annars umfangi og eðli athugana sem framkvæmdar eru og þeirra gagna sem endurskoðandinn aflar. Endurskoðandinn setur sér mikilvægismörk við skipulagninguna og dreifir þeim síðan á liði ársreikningsins og skýringarnar. Mikilvægismörk einstakra liða í reikningsskilunum geta verið mismunandi, en þar skiptir meðal annars máli áhætta hvers liðar, bæði svokölluð eðlislæg áhætta og svokölluð eftirlitsáhætta.

Eðlilegt er að megináhersla sé lögð á þá liði ársreiknings sem mestu máli skipta; hlutfallslega eða mælt í fjárhæðum, svo og huglæga áhættu. Styrkur innra eftirlits hefur áhrif á áhættuna og þar með ákvarðanir um framkvæmd og umfang endurskoðunar. Mikilvægi og áhætta skipa mikilvægan sess í endurskoðunarstöðlum og vinnuleiðbeiningum endurskoðenda hvarvetna en eru þó hvergi nefnd sérstaklega í lögum. Í 8. og 9. gr. reglna nr. 532/2003 um endurskoðun fjármálafyrirtækja er fjallað um þessi atriði. Þar er lögð áhersla á að gott innra eftirlit fyrirtækis geti aldrei leyst endurskoðanda undan því að framkvæma sjálfur sérstakar athuganir og gagnasöfnun til staðfestingar á réttmæti einstakra mikilvægra liða ársreikningsins. Í 3. mgr. 8. gr. reglnanna segir m.a.:

Þannig skal endurskoðandi ávallt framkvæma sérstakar athuganir á raunvirði eigna fyrirtækis og kanna sérstaklega þá áhættu sem kann að vera tengd skuldbindingum eða samningum sem stofnunin hefur átt aðild að. Dreifing útlána og útlán til stærstu lánþega, greiðslutryggingar og afskriftaframlög skulu einnig könnuð sérstaklega.

Þá segir í 9. gr. reglnanna að endurskoðandi skuli gera stjórn viðkomandi fyrirtækis og Fjármálaeftirlitinu viðvart ef hann verður var við verulega ágalla á rekstri eða atriði er varða innra eftirlit, greiðslutryggingar útlána, önnur atriði sem veikt geta fjárhagsstöðu fyrirtækisins eða atriði sem leiða til þess að hann mundi synja um áritun eða gera fyrirvara í áritun sinni, svo og ef endurskoðandi hefur ástæðu til að ætla að lög eða reglur hafi verið brotnar. Sama á við um sambærileg atriði sem endurskoðandi fær vitneskju um og varða fyrirtæki í nánum tengslum við viðkomandi fjármálafyrirtæki. Þetta ákvæði reglnanna er efnislega samhljóða 92. gr. laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki.

7.2.6 Áritun ársreiknings og endurskoðunarskýrsla til stjórnar

Áritun endurskoðanda á ársreikning er hin opinbera birtingarmynd endurskoðunarinnar. Lög um ársreikninga hafa frá 1. janúar 1995 haft að geyma ákvæði um efni hennar. Reglur bankaeftirlitsins frá sama tíma, reglur nr. 704/1994 um endurskoðun viðskiptabanka, sparisjóða og annarra lánastofnana, innihéldu þó ítarlegri fyrirmæli um áritunina. Þau voru tekin upp óbreytt í síðari gerðum og er að finna í 12. og 13. gr. reglna nr. 532/2003 um endurskoðun fjármálafyrirtækja. Ákvæðum ársreikningalaganna um áritun endurskoðanda hefur þrívegis verið breytt í átt til samræmis við reglurnar og eru nú næstum eins efnislega, en reglurnar hafa að geyma ákvæði um það hvenær áritun skuli undirrituð og dagsett. Samkvæmt 12. gr. reglnanna skal endurskoðandi gera það á þeim degi sem hann lýkur endurskoðunarvinnu sinni, þar með talið sérstökum endurskoðunaraðgerðum vegna atvika eftir uppgjörsdag og atvika eftir að venjulegri endurskoðunarvinnu lýkur, fram til dagsetningar áritunar. Þá skal endurskoðandi ekki árita ársreikning fyrr en stjórn og framkvæmdastjóri hafa staðfest hann með undirritun sinni.

Samkvæmt 13. gr. reglnanna skal endurskoðandi að lokinni hefðbundinni endurskoðunarvinnu senda stjórn fjármálafyrirtækisins sérstaka endurskoðunarskýrslu vegna ársuppgjörsins. Þar skal hann, eftir því sem við á, gera grein fyrir eftirfarandi:

1. Helstu þáttum endurskoðunarvinnunnar, þar með talið hvernig staðið hefur verið að könnun á útlánum.

2. Framlögum í afskriftareikning útlána, þar á meðal gefa umsögn um sérstök framlög vegna stærstu lántakenda.

3. Helstu niðurstöðum kannana á innra eftirliti viðkomandi fjármálafyrirtækis og áliti endurskoðanda á gæðum innra eftirlits og starfsemi innri endurskoðunardeildar.

4. Aðrar athugasemdir og ábendingar til stjórnar fyrirtækisins, svo sem varðandi rekstur, varðveislu eigna og vegna áhættustýringar.

Þessi ákvæði um endurskoðunarskýrsluna, sem er að finna í 13. gr. reglna nr. 532/2003 um endurskoðun fjármálafyrirtækja, hafa staðið óbreytt síðan í reglum bankaeftirlitsins frá 1994.

Í 14. gr. reglna Fjármálaeftirlitsins nr. 532/2003 er fjallað um könnun á árshlutareikningum fjármálafyrirtækja. Þar segir að endurskoðandi skuli því aðeins árita árshlutareikning sem kannaðan, að hann þekki vel til starfsemi fyrirtækisins og rekstrarumhverfis þess. Könnun á árshlutareikningum byggist á mati á mikilvægi og áhættu með sama hætti og þegar um endurskoðun ársreiknings er að ræða, en vinna endurskoðanda er hins vegar ekki eins umfangsmikil. Hann skal með greiningaraðgerðum meta innra samræmi reikningsskila og hvort afkoma og breytingar á eignum og skuldum séu eðlilegar, þar með talið meta þróun í stærstu útlánum, greiðslutryggingum og afskriftaframlögum. Að könnun lokinni skal endurskoðandi gefa yfirlýsingu um reikningsskilin með áritun á þau. Yfirlýsingin skal vera ótvíræð, skýr og skiljanleg. Hafi endurskoðandi komist að raun um umtalsverða skekkju, verulega óvissu, að mikilvægar upplýsingar vanti í árshlutareikning eða að líkur séu á að eigið fé viðkomandi fyrirtækis sé undir lögbundnu lágmarki, skal endurskoðandi gera fyrirvara við áritun sína.

Samandregið þá var það fyrst frá 1. júlí 1993 sem ársreikningar sparisjóða skyldu fortakslaust endurskoðaðir af löggiltum endurskoðanda og frá 1. janúar 1994 hafa reglur bankaeftirlitsins og síðar Fjármálaeftirlitsins gilt um það hvað felst í hugtakinu góð endurskoðunarvenja og um skipulagningu og framkvæmd endurskoðunarinnar. Nýjasta gerð þeirra eru reglur nr. 532/2003 um endurskoðun fjármálafyrirtækja. Síðan hafa verið gerðar nokkrar lagabreytingar sem snerta endurskoðun í sparisjóðum, eins og sjá má í töflu 2.

7.3 Ábyrgð endurskoðenda og upplýsingaskylda

Endurskoðandi ber ábyrgð á fjárhagstjóni sem hann eða starfsmaður hans bakar öðrum með störfum sínum, sbr. 1. mgr. 27. gr. gildandi laga um endurskoðendur, nr. 79/2008. Sambærilegt ákvæði var ekki að finna í eldri lögum nr. 18/1997. Endurskoðandinn er sérfræðingur í störfum sínum og ber ábyrgð samkvæmt því, en um bótagrundvöll vegna tjóns sem hann veldur í starfi gilda annars reglur skaðabótaréttar. Áskilnaður um starfsábyrgðartryggingu endurskoðanda var fyrst leiddur í lög nr. 18/1997 en er nú í 6. gr. laga nr. 79/2008. Að öðru leyti er ábyrgð endurskoðanda hvergi nefnd í lögum með beinum hætti. Endurskoðandi er opinber sýslunarmaður við framkvæmd endurskoðunarstarfa, sbr. 3. mgr. 8. gr. laga nr. 79/2008, og því felst ábyrgð endurskoðandans meðal annars í því að hann starfi í samræmi við lög og stjórnvaldsfyrirmæli. Þessa ábyrgð ber hann gagnvart umbjóðanda sínum en þó fyrst og fremst gagnvart þriðja aðila. Sé þetta skoðað með sparisjóði í huga þá hafa lögin og reglurnar þann tilgang að stofnfjáraðilar og aðrir haghafar utan sparisjóðs geti reitt sig á störf endurskoðandans, sem birtast þeim í áliti hans á reikningsskilum sparisjóðsins.

Svonefnd fyrirvaralaus áritun endurskoðanda á ársreikning félags felur í sér að endurskoðandinn lítur svo á að ársreikningurinn gefi glögga mynd af afkomu félagsins á ákveðnu rekstrarári, efnahag hans í lok þess árs og breytingu á handbæru fé á árinu í samræmi við viðkomandi reikningsskilareglur. Fyrirvaralaus áritun kemur ekki til álita þegar endurskoðunargögn benda til þess að veruleg villa sé til staðar í ársreikningnum eða að ekki hafi verið unnt að afla nægjanlegra og viðeigandi gagna til að styðja við álitið.

Alþjóðlegir endurskoðunarstaðlar kveða á um að áritanir óháðra endurskoðenda skuli vera staðlaðar til að ná fram samræmi í framsetningu og efni áritana.44 Þær eru þó með nokkrum tilbrigðum, svo sem áritun án fyrirvara, fyrirvaralaus áritun með ábendingu, áritun með fyrirvara, áritun án álits og neikvætt álit. Félag löggiltra endurskoðenda hefur gefið út upplýsingarit um störf endurskoðenda. Þar er að finna greinargott yfirlit um eðli mismunandi áritana.

Í árituninni kemur fram yfirlýsing um það í hverju ábyrgð endurskoðandans felst. Frá því á tíunda áratugnum tíðkaðist að í áritun stæði að ársreikningur væri lagður fram af stjórnendum félags og á ábyrgð þeirra í samræmi við lög og reglur, en ábyrgð endurskoðenda fælist í því áliti sem látið væri í ljós á ársreikningnum á grundvelli endurskoðunarinnar. Þá fylgdi henni iðulega stutt lýsing á því hvernig endurskoðunarvinnunni var hagað og í því sambandi vísað til góðrar endurskoðunarvenju. Þarna kom skýrt fram það grundvallaratriði að það eru stjórn sparisjóðs og sparisjóðsstjóri sem bera ábyrgð á ársreikningnum, bæði gerð hans og innihaldi. Endurskoðandinn ber hins vegar ábyrgð á áliti sínu á reikningnum sem hann hann lætur í ljós eftir að hafa aflað sér nægilega traustra upplýsinga með viðurkenndum aðferðum til að byggja þetta álit sitt á.

Form áritunarinnar breyttist talsvert árið 2007 við endurskoðun ársreikninga ársins 2006. Síðan þá skiptist hún í aðskildar efnisgreinar með lýsandi fyrirsögnum. Í árituninni er gerð grein fyrir ábyrgð stjórnenda á ársreikningnum, gerð hans, framsetningu og innihaldi. Þá er fjallað um ábyrgð endurskoðenda sem felst einkum í því áliti sem þeir láta í ljós um hvort endurskoðað hafi verið í samræmi við alþjóðlega endurskoðunarstaðla og hvort nægileg vissa hafi fengist um að ársreikningurinn sé án verulegra annmarka. Tilhögun og innihaldi endurskoðunarinnar er lýst í árituninni. Í árituninni getur komið fram ábending endurskoðandans en hún breytir ekki áliti hans eða dregur úr ábyrgð.

Um önnur störf endurskoðenda en beina endurskoðun ársreiknings fjalla sérstakir alþjóðlegir staðlar. Könnun endurskoðanda á árshlutareikningi skal framkvæmd samkvæmt staðlinum ISRE 2410 (International Standards on Review Engagements) sem setur fram þær kröfur sem gerðar eru til kjörins endurskoðanda viðkomandi félags.

Endurskoðun er takmörkunum háð og gefur þar af leiðandi ekki fullvissu um að ársreikningurinn sé að öllu leyti réttur. Endurskoðun byggist á úrtaksaðferðum en er ekki athugun á öllum gögnum. Þannig er alls ekki víst að óverulegar skekkjur komi fram við endurskoðunina. Markmið með endurskoðuninni er þó að endurskoðandinn fái nægjanlega vissu um að reikningsskilin séu laus við verulegar skekkjur. Við skipulagningu endurskoðunar setja endurskoðendur sér mikilvægismörk sem þeir beita við mat á áhrifum af óleiðréttum skekkjum sem kunna að koma fram við endurskoðunina. Samkvæmt svonefndri mikilvægisreglu eru upplýsingar í ársreikningi taldar mikilvægar ef þær hafa áhrif á fjárhagslegar ákvarðanir sem teknar eru á grundvelli upplýsinga í ársreikningi af hæfum notanda reikningsskilanna. Hæfur notandi telst sá sem er læs á ársreikning, skilur þann veruleika sem reikningnum er ætlað að varpa ljósi á en gerir sér jafnframt grein fyrir takmörkunum reikningsskilanna.

Athugun rannsóknarnefndarinnar á áritun endurskoðenda á ársreikninga sparisjóða fyrir rekstrarárin 2001–2011 leiddi í ljós að fram að bankahrunsárinu 2008 kom það aðeins tvisvar fyrir að ársreikningur sparisjóðs væri áritaður með fyrirvara. Þar áttu í hlut ársreikningar Sparisjóðs Siglufjarðar fyrir árin 2001 og 2002. Fyrirvarinn var gerður vegna þess að sparisjóðurinn uppfyllti ekki ákvæði laga um 8% eiginfjárhlutfall (CAD). Í árslok 2001 var hlutfallið 1,15% en 4,67% í árslok 2002. Í könnunaráritun endurskoðanda á hálfs­ársuppgjör Sparisjóðs Hornafjarðar 30. júní 2006 var greint frá að eiginfjárhlutfall væri undir lögboðnu lágmarki. Þetta var síðasta uppgjör sparisjóðsins því hann var í kjölfarið yfirtekinn af Sparisjóði Vestmannaeyja. Fram til ársins 2008 var algengast að áritanir væru fyrirvaralausar.

Fall viðskiptabankanna þriggja í október 2008 leiddi til umskipta í þessum efnum. Sparisjóður Reykjavíkur og nágrennis hf. lagði einn sparisjóða fram níu mánaða uppgjör 28. nóvember 2008, þar sem hann var þá skráður í Kauphöll Íslands. Endurskoðandi sparisjóðsins setti þar í könnunaráritun sína fyrirvara um rekstrarhæfi með vísan til yfirlýsingar í skýrslu stjórnar og til umfjöllunar í skýringunum um atburði eftir reikningsskiladag. Ársreikningar sparisjóðanna vegna ársins 2008 vitna flestir um hið breytta ástand á fjármálamarkaði.

Ársreikningar fyrir rekstrarárin 2009, 2010 og 2011 voru sama marki brenndir. Ábending eða fyrirvari var í árituninni hjá þeim flestum. Byr sparisjóður og Sparisjóðurinn í Keflavík skiluðu ekki ársreikningi fyrir árið 2009 til ársreikningaskrár og Spkef sparisjóður ekki fyrir árið 2010, enda var sá reikningur aðeins til í drögum. Þessir tveir ársreikningar fyrir 2009 voru reyndar samdir seint og voru ekki áritaðir af endurskoðanda. Endurskoðunarvinna var þó innt af hendi í tengslum við þá, sbr. sundurliðun reikninga frá endurskoðunarfyrirtækjunum. Því má segja að endurskoðun þeirra hafi verið ólokið fremur en að segja að um sé að ræða óendurskoðuð reikningsskil. Í töflu 4 má sjá hvers eðlis áritanirnar voru árin 2009, 2010 og 2011.

Í áritun endurskoðanda á ársreikning birtist niðurstaða hans um það sem vinna hans hefur leitt í ljós. Ef um verulegar skekkjur er að ræða í reikningnum getur endurskoðandinn ekki gefið fyrirvaralausa áritun. Áritun án fyrirvara þýðir samt ekki að fullkomin vissa sé til staðar um að ársreikningurinn sé án skekkju eða annmarka.

Endurskoðanda ber hins vegar ekki að gefa fyrirvaralausa áritun ef vinna hans hefur leitt í ljós verulegar skekkjur í reikningsskilunum. Ekki má gleyma því að áritun endurskoðanda á ársreikning er hluti af upplýsingaskyldu hans gagnvart þriðja aðila.

Við gjaldþrot stórfyrirtækja og ekki síður fjármálafyrirtækja er jafnan litið í baksýnisspegilinn og leitað vísbendinga um yfirvofandi vandræði í síðustu reikningsskilum. Þá er ekki síst horft til þess hvernig áritun endurskoðenda hljóðaði og því er ekki skrýtið að fyrirvaralaus áritun nokkrum mánuðum fyrir gjaldþrot eða uppgjöf fjármálafyrirtækis veki upp spurningar. Hér verður þó að hafa í huga að áritun endurskoðanda er ekki ætlað að vera varnaðarorð um það sem getur gerst í náinni framtíð. Endurskoðandinn setur fyrirvara í áritun sína þegar hann sér að misræmi er á milli þess sem reikningsskilin sýna og þess sem hann kemst á snoðir um við endurskoðunarvinnuna.

Upplýsingaskylda endurskoðandans er ekki bundin við áritunina eina. Honum ber að skila endurskoðunarskýrslu til stjórnar og sparisjóðsstjóra að endurskoðun lokinni og þar er honum meðal annars skylt að gera grein fyrir framlögum í afskriftareikning útlána vegna stærstu skuldara sparisjóðsins og koma með athugasemdir og ábendingar, svo sem varðandi rekstur, varðveislu eigna og vegna áhættustýringar.

Þessu til viðbótar hefur endurskoðandinn upplýsingaskyldu gagnvart stjórnvöldum. Samkvæmt 1. mgr. 92. gr. laga um fjármálafyrirtækli ber endurskoðanda að tilkynna um tilteknar misfellur í rekstri sparisjóðs til Fjármálaeftirlitsins. Þessi skylda hefur hvílt á endurskoðendum fjármálafyrirtækja allt frá árinu 1993 í lítt breyttri mynd. Meðal þess sem endurskoðandi skal tilkynna til Fjármálaeftirlits eru atriði sem hann fær vitneskju um og varða fyrirtæki í nánum tengslum við hlutaðeigandi fjármálafyrirtæki. Frá 1. nóvember 2007 hefur þetta verið takmarkað við þá vitneskju sem endurskoðandinn öðlast við framkvæmd endurskoðunarstarfa hjá viðkomandi fyrirtæki, sbr. 11. gr. laga nr. 111/2007 um breytingar á lagaákvæðum um fjármálafyrirtæki o.fl. Tilkynning af þessu tagi felur ekki í sér brot á þagnarskyldu endurskoðandans og með þessari sömu breytingu var því hnýtt við að tilkynnandi skyldi ekki sæta neins konar ábyrgð vegna tilkynningarinnar. Rannsóknarnefnin óskaði eftir upplýsingum um það hvort einhverjar slíkar tilkynningar hefðu borist Fjármálaeftirlitinu á árunum 2003–2009, en svo var ekki.45

Endurskoðun sparisjóðanna hefur að mestu verið í höndum eins og sama endurskoðunarfyrirtækis, en það er KPMG, áður Endurskoðun hf. Þar hefur safnast upp reynsla og þekking á starfsemi sparisjóða. Í töflu 6 er yfirlit um hvaða endurskoðendur hafa áritað ársreikninga sparisjóðanna fyrir árin 2001−2011; Sparisjóðabankinn er þar meðtalinn. Af töflunni má sjá að einn endurskoðandi, Sigurður Jónsson, fyrrverandi framkvæmdastjóri KPMG hf., kom oftast við sögu. Hann áritaði ársreikninga tólf sparisjóða, auk Sparisjóðabankans hf., þegar flest var árið 2001, tíu sparisjóða árið 2005, og sex sparisjóða árið 2008. Á sama tíma endurskoðaði hann jafnframt öll dótturfélög þessara sparisjóða, til dæmis Frjálsa fjárfestingarbankann hf., Steinsnes hf. og nb.is sem voru dótturfélög Sparisjóðs Reykjavíkur og nágrennis. Til viðbótar endurskoðaði hann reikninga Sambands íslenskra sparisjóða og Tryggingasjóðs sparisjóða, og enn fremur flestra þeirra félaga sem voru að meira eða minna leyti í sameiginlegri eigu sparisjóða, svo sem Kaupþings 2001−2005, Kistu – fjárfestingarfélags 2006−2010, VBS Fjárfestingarbanka 2007−2009, Verðbréfaþjónustu sparisjóðanna 2004−2007 og FSP Holding 2006−2009.

Sigurður Jónsson var án efa helsti sérfræðingur landsins í endurskoðun sparisjóða. Hann var og enda kallaður til aðstoðar við samningu frumvarpa til laga, meðal annars þess er varð að lögum nr. 71/2001 sem heimiluðu að breyta sparisjóðum í hlutafélag og gerðu talsverðar breytingar á ákvæðum um stofnfjárbréf,46 auk þess sem hann starfaði á vegum bankalaganefndar sem vann að frumvarpi sem varð að lögum nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki. Sigurður var því í lykilaðstöðu til að hafa meiri og betri yfirsýn en flestir yfir starfsemi sparisjóðanna. Í skýrslu fyrir rannsóknarnefndinni var hann spurður um störf hans fyrir Tryggingasjóð sparisjóða, hvort reynsla hans af endurskoðun fyrir einstaka sparisjóði hefði ekki nýst vel þar og hvort hann hefði verið stjórn Tryggingasjóðs til ráðuneytis með það hvort og þegar sparisjóðir væru komnir í vandræði:

Ég minnist þess nú ekki að það hafi verið með formlegum hætti safnað upplýsingum fyrir þann tíma, en það var ekki þannig að ef maður varð var við erfiðleika eða eitthvað sérstakt í einhverjum sjóði að þá stykkir þú til og tilkynntir mönnum um það. Það er alveg rétt að ég vann fyrir marga sjóði og fyrir mörg af þessum félögum, en það breytir því ekki að það er algjör trúnaður sem þarf að ríkja á milli aðila. Ég er með lagaskyldu á mér að bera ekki á milli upplýsingar. Þannig ef sparisjóður X er í einhverju sem mér finnst ekki vera í lagi, þá labba ég ekki til Tryggingasjóðs og segi honum að kíkja á X.47

Fyrirmæli laga um útskiptingu sem getið var hér framar tóku ekki gildi fyrr en eftir þann tíma sem athugun rannsóknarnefndarinnar nær til og var skipanin óbreytt hvað endurskoðendur sparisjóðanna varðar árið 2012.

7.4 Endurskoðun hjá sparisjóðum árin 2005–2010

Rannsóknarnefndin tók fyrir ákveðna þætti í endurskoðun ársreikninga sparisjóðanna, svo sem endurskoðun á mati einstakra sparisjóða á útlánasafni og virði óskráðra verðbréfa. Þá voru ábendingar í endurskoðunarskýrslum skoðaðar og hugað að hvort ósamræmi væri milli þeirra og áritunar endurskoðenda á ársreikningana. Jafnframt var athugað hvort endurskoðendur hefðu annast önnur verkefni en endurskoðun fyrir sparisjóðina og þá í hve miklum mæli.

Við þessa könnun voru eftirfarandi gögn fyrir árin 2005–2010 yfirfarin: ársreikningar allra sparisjóða og Sparisjóðabankans, endurskoðunarskýrslur vegna sömu ársreikninga, skýrslur um innri endurskoðun og reikningar frá endurskoðendum til sömu fjármálafyrirtækja. Í tengslum við þetta var höfð hliðsjón af þróun efnahagsreiknings og rekstrarreikninga fyrirtækjanna, einkum eftirtalinna liða: útlána, afskriftareiknings útlána, fjáreigna og gengishagnaðar (-taps) af fjáreignum. Auk þessa var litið til eftirlitsskýrslna Fjármálaeftirlitsins um ýmsa þætti í starfsemi einstakra sparisjóða á árunum 2005–2008 og úttektarskýrslna PricewaterhouseCoopers, sem unnar voru fyrir Fjármálaeftirlitið um ákveðna þætti innra eftirlits hjá Sparisjóði Reykjavíkur og nágrennis 2009, Byr sparisjóði 2010 og Sparisjóðnum í Keflavík 2011.

7.4.1 Almennt um endurskoðun á útlánum sparisjóðanna

Rannsóknarnefndin kannaði hvernig endurskoðendur sparisjóðanna gerðu grein fyrir athugun sinni á útlánum og afskriftaþörf vegna þeirra í endurskoðunarskýrslum um ársreikningana. Könnunin leiddi í ljós að litla sem enga umfjöllun var að finna í endurskoðunarskýrslunum um það hvaða endurskoðunaraðgerðir voru framkvæmdar við skoðun á stöðu stærstu lántakenda sparisjóðanna. Þetta gildir svo til almennt fyrir minni sparisjóðina framan af tímabilinu. Hjá stærri sparisjóðunum voru heldur fyllri upplýsingar gefnar.

Í skýrslum um ársreikninga margra sparisjóðanna einskorðaðist umfjöllun um framlag í afskriftareikning við sundurliðun á framlögum í sérgreindar afskriftir og hreyfingar á afskriftareikningi. Þetta gilti um endurskoðunarskýrslur Deloitte um Sparisjóðinn í Keflavík og Sparisjóð Vestmannaeyja, og einnig um endurskoðunarskýrslur KPMG um marga minni sparisjóði. Stundum er þar greint frá því að farið hafi verið yfir mat sparisjóðsins á útlánum og afskriftaþörf:

Við höfum farið yfir mat sparisjóðsins á útlánum og teljum að nægilegt tillit hafi verið tekið til afskriftaþarfar vegna einstakra aðila. Alltaf er erfitt að meta þörfina á niðurfærslu vegna einstakra aðila og vel má vera að afskriftaþörfin reynist í einhverjum tilvikum önnur þegar frá líður.48

Þegar komið var fram á 2007 og 2008 var komið nýtt útlit á endurskoðunarskýrslur KPMG og í þeim var heldur lengri útskýring á hvernig farið var yfir afskriftamatið.

Í endurskoðunarskýrslum frá KPMG um ársreikninga áranna 2005 og 2006 og jafnvel 2007 var algeng sú athugasemd að stefna bæri að því að framlagið í afskriftareikninginn færi ekki yfir 1%. Stjórnendur voru hvattir til þess að reyna að lækka framlagið ef það var hærra, en til þess að gæta þess að það færi ekki yfir 1% ef það var lægra. Þarna var átt við gjaldfærsluna en ekki stöðuna á afskriftareikningnum. Rökin fyrir þessu keppimarki komu fram í athugasemdinni:

Framlagið sem hlutfall af útlánum er nú 2,3% en til lengri tíma litið teljum við að stefna ætti að því að framlagið sé ekki hærra en 1% af útlánunum. […]
Mikilvægt er að sparisjóðnum takist að draga úr framlögum í afskriftareikning útlána til þess að sjóðurinn geti skilað viðunandi arðsemi […] Forsenda fyrir því að sparisjóðurinn geti skilað arðsemi sem stofnfjáreigendur telja ásættanlega er að framlag í afskriftareikning lækki verulega frá því sem nú er. Slíkt er nauðsynlegt svo sparisjóðurinn geti sinnt hlutverki sínu sem lánastofnun.49

Vitanlega er það keppikefli allra lánastofnana að tapa sem minnstu af útlánum sínum, það verður naumast umflúið. Fleiri þættir geta þó haft áhrif á arðsemina en framlagið í afskriftareikninginn sem er eins og hver annar kostnaðarliður sem stjórnendur reyna af mætti að halda í skefjum. Þeir hafa þó takmarkað vald yfir kostnaði sem hlýst af erfiðleikum í endurheimt útlána. Þar spila ytri þættir stærra hlutverk og hlýtur framlag í afskriftareikning að fara eftir ástandi útlánasafnsins. Afskriftaframlagið hlýtur að vera afleidd stærð en á ekki að stýra öðrum ákvörðunum.

Í töflu 7 er yfirlit yfir framlag í afskriftareikning sem hlutfall af heildarútlánum í árslok hjá nokkrum sparisjóðum. Efri hluti töflunnar sýnir hlutfallið hjá þeim sparisjóðum þar sem nefnda málsgrein um 1% framlagið var að finna í viðkomandi endurskoðunarskýrslu, en í neðri hlutanum sést hvernig staðan var hjá öðrum sparisjóðum. Stóru sparisjóðirnir neðst í töflunni eiga þó tæpast heima í þessum samanburði.

Einn endurskoðendanna gaf rannsóknarnefndinni eftirfarandi skýringar um málið:

Ég kannast ekki við að það hafi verið nein slík [regla]. […] Það getur farið mjög mikið eftir því hvernig samsetningin er vegna þess að það ræðst af vaxtamuninum hversu mikið þú þolir í afskriftareikning. Því lægri vexti sem þú keyrir á útlánin því minna þolirðu að afskrifa og þar með kemur náttúrulega fjármagnskostnaðurinn á móti. […] Það er alveg klárt að í útlánasafnið er fært það sem þarf að færa. Þetta kemur út frá því að ef niðurstaðan af útlánamatinu væri varanlega hærri en þetta þá væru menn komnir í afkomu sem væri ekki ásættanleg, annaðhvort að hagnaðurinn væri undir því sem einhverjir telja ásættanlegan eða þá þangað til menn væru bara komnir í tap. Þetta eru ekki fyrirmæli eða eitthvert „benchmark“, því ef út úr þeirra skoðun kemur 2% þá horfum við ekki bara á 2% og segjum flott. Það er ekki svoleiðis. Það fer fram alveg nákvæmlega sama endurskoðun þó þeir komi með 2%, þó það sé tvöfalt hærra en við teljum æskilegt.50

7.4.2 Vinna endurskoðenda fyrir sparisjóðina

Hér framar var greint frá reglum um hvaða þjónustu endurskoðendum er heimilt að inna af hendi fyrir félög sem þeir hafa tekið að sér ytri endurskoðun hjá. Lagaákvæði vísuðu lengi vel fyrst og fremst til dómgreindar endurskoðandans um það hvað gæti varpað rýrð á hlutlægni hans. Í 1. mgr. 7. gr. laga nr. 18/1997 um endurskoðendur sagði að störf endurskoðenda fælust í endurskoðun reikningsskila og annarra fjárhagsupplýsinga ásamt ráðgjöf og þjónustu innan nærliggjandi sviða svo framarlega sem það hefði ekki áhrif á hlutlægni þeirra. Í 6. tölul. 9. gr. sömu laga sagði að endurskoðanda væri óheimilt að endurskoða hjá stofnunum og fyrirtækjum ef fyrir hendi væru þær aðstæður sem væru fallnar til þess að draga óhlutdrægni hans í efa með réttu. Í athugasemdum við 7. gr. frumvarps til laganna sagði:

Á grundvelli 1. mgr. er gert ráð fyrir að endurskoðandi geti veitt viðskiptavinum sínum aðra þjónustu en endurskoðun, svo framarlega sem hún bagar ekki hlutlægni hans og að slík þjónusta sé ekki bönnuð með landslögum eða siðareglum stéttarinnar. Það hefur ýmsa kosti að veita viðskiptavinum aðra þjónustu en endurskoðun þar sem það eykur innsýn endurskoðandans í fyrirtækið og getur leitt til meiri gæða í endurskoðun hans. Engu að síður getur slíkt fyrirkomulag stofnað hlutlægni endurskoðandans og sjálfstæði hans í ásýnd í hættu. Því er sú krafa gerð að störf endurskoðenda við ráðgjöf og þjónustu innan nærliggjandi sviða séu ekki til þess fallin að baga hlutlægni hans.51

Og í athugasemd við 9. gr. frumvarpsins kom fram að með ákvæðinu væri kveðið skýrar á um hvaða tengsl mættu ekki vera fyrir hendi. Ákvæðin væru til þess að treysta ásýnd endurskoðandans og styrkja sjálfstæði hans við störf sín.52

Árið 2008 var sérstaklega vikið að óhæði endurskoðenda í 19. gr. laga nr. 79/2008 og árið 2010 var því bætt við 90. gr. laga um fjármálafyrirtæki að endurskoðandi eða endurskoðunarfélag skyldi ekki gegna öðrum störfum fyrir fjármálafyrirtækið, sbr. a-lið 48. gr. laga nr. 75/2010 um breyting á lögum um fjármálafyrirtæki, nr. 161/2002.

Um þessi ákvæði var fjallað framar í kaflanum og greint frá því að Félagi löggiltra endurskoðenda hefði fundist þessi síðasta viðbót skapa mikla óvissu um störf endurskoðenda fyrir fjármálafyrirtæki. Ástæðan fyrir því að hún rataði inn í lögin var rakin í athugasemdum við 43. gr. frumvarpsins, sem síðar var samþykkt sem 48. gr. laganna. Þar sagði:

Endurskoðendur hafa ekki farið varhluta af gagnrýni vegna þeirra hremminga sem dunið hafa yfir fjármálakerfi heimsins. Þykir mörgum sem trúverðugleiki þeirra sem sérfræðinga er votta fjárhagslega stöðu, og heilbrigði, fjármálafyrirtækja hafi beðið hnekki.53

Viðbótin við lög um fjármálafyrirtæki árið 2010 um að endurskoðanda eða endurskoðunarfélagi sé óheimilt að gegna öðrum störfum fyrir fjármálafyrirtækið er um margt eðlileg. Ráðgjöf til viðskiptavinarins sem endurskoðað er fyrir getur hæglega farið út fyrir eðlileg mörk. Það þarf út af fyrir sig ekkert að vera athugavert við að endurskoðandi veiti ráð um fjármál, skattamál og verklag við reikningshald. Sama má segja um aðstoð við innleiðingu alþjóðlegra reikningsskilastaðla. Endurskoðandinn má þó ekki undir neinum kringumstæðum koma sér í þá aðstöðu að hann endurskoði eigin verk eða ákvarðanir, þ.e. að hann sitji beggja vegna borðsins. Þá er óhæði hans fyrir bí, jafnt í reynd sem ásýnd.

Út af fyrir sig er vel skiljanlegt að viðskiptavinurinn leiti til endurskoðandans eftir aðstoð um flest sem viðkemur fjárhagslegum málefnum. Endurskoðandinn er í lykilaðstöðu hvað viðkemur yfirsýn yfir slíka þætti. Hann verður samt að halda vöku sinni hvað varðar hlutlægnina. Þá kann þetta að vera spurning um kostnað fyrir viðskiptavininn og tekjur fyrir endurskoðandann, það að leita til annars endurskoðanda eftir annarri þjónustu en beinni endurskoðun yrði að líkindum dýrara en ella, þar sem sá endurskoðandi þyrfti væntanlega að verja nokkrum tíma í að setja sig inn í aðstæður viðskiptavinarins. Á sama hátt er endurskoðanda fullkomlega heimilt að veita aðstoð öðrum viðskiptavinum en þeim sem hann endurskoðar fyrir.

Þóknun til endurskoðanda er jafnan hluti af almennum rekstrarkostnaði í ársreikningi sparisjóða. Samkvæmt reglum Fjármálaeftirlitsins nr. 834/2003 um reikningsskil lánastofnana er skylt að sérgreina hana en í 7. mgr. 42. gr. reglnanna segir að gefa skuli upp þóknun til endurskoðanda fyrir endurskoðun annars vegar og aðra þjónustu hins vegar. Rannsóknarnefndin tók saman útgjöld allra sparisjóða af þessum toga frá þeim tíma er slíkar upplýsingar lágu fyrir í ársreikningum þeirra. Þau getur að líta í töflu 8 þar sem þau eru tilgreind á verðlagi hvers árs.

Taflan sýnir heildarþóknun til endurskoðenda en ekki skiptinguna milli endurskoðunar og annarrar þjónustu. Frá og með 2005 eða stundum 2006 var farið að tilgreina þriðja verkefnið undir heildarþóknuninni, en það var könnun árshlutareiknings. Hafa þarf í huga að þóknunin sem greidd er á hverju ári er að verulegu leyti vegna ársreiknings undangengins árs.

Hin mikla hækkun endurskoðunarkostnaðar árin 2006–2008 skýrist einkum af aðstoð endurskoðenda vegna stofnfjáraukningar í mörgum sparisjóðum en jafnframt af innleiðingu IFRS sem stóð yfir á árunum 2005–2007.

Í töflu 9 sést glöggt að endurskoðunarkostnaður miðað við eignir er mjög breytilegur og fer kostnaðurinn almennt lækkandi eftir því sem eignir eru meiri. Þetta liggur í hlutarins eðli því í stórum dráttum þarf að endurskoða sömu atriði í smáum sem stórum sparisjóðum. Þarna er því eðlilegt að stærðarhagkvæmni gæti. Reglan er þó ekki einhlít. Til að mynda greiddi Sparisjóður Höfðhverfinga, sem mestallt tímabilið var næstminnstur sparisjóða, hlutfallslega mikið til endurskoðenda.

Þess skal gætt að þóknun fyrir innri endurskoðun var í flestum tilfellum hluti af heildarþóknun til endurskoðanda en stóru sparisjóðirnir höfðu sjálfir eigin innri endurskoðanda. Það gilti um Sparisjóð Reykjavíkur og nágrennis, Sparisjóð vélstjóra, Sparisjóð Hafnarfjarðar, Byr sparisjóð og Sparisjóðinn í Keflavík (nema árið 2008). Sparisjóður Mýrasýslu var með sinn eigin innri endurskoðanda árin 2006–2008, þar til sjóðurinn féll. Á sama tíma var innri endurskoðun Afls sparisjóðs og Sparisjóðs Ólafsfjarðar á hans könnu. Sparisjóður Strandamanna sparaði sér innri endurskoðun allt þar til á árinu 2011 og skiluðu sérstakri skýrslu stjórnar um innri endurskoðun til Fjármálaeftirlitsins. Frá og með árinu 2007 er ekki annað að sjá en að Sparisjóður Bolungarvíkur hafi gert það líka.

7.4.2.1 Fyrir hvaða þjónustu var greitt?

Rannsóknarnefndin kallaði eftir reikningum endurskoðenda til sparisjóðanna á árunum 2005−2010, þar sem tilgreint var hvaða verk voru unnin fyrir viðkomandi sparisjóð, í því skyni að sjá í hve miklum mæli endurskoðendur veittu sparisjóðunum aðra þjónustu en þá sem tengdist endurskoðun. Samkvæmt reikningunum sinntu endurskoðendur ýmissi annarri þjónustu en endurskoðun ársreiknings og könnun á árshlutareikningum fyrir sparisjóðina. Framar var nefnt að hjá öllum þeim sparisjóðum sem ekki höfðu sinn eigin innri endurskoðanda, var innri endurskoðun í höndum sama endurskoðunarfyrirtækis og annaðist ytri endurskoðunina. Það fyrirkomulag hélst að mestu til ársins 2010 en þá var það leitt í lög um fjármálafyrirtæki að endurskoðandi eða endurskoðunarfyrirtæki skyldi ekki gegna öðrum störfum fyrir fjármálafyrirtæki jafnframt endurskoðun. Þrír sparisjóðir höfðu þó sama háttinn á það ár. Árið 2011 keypti einungis einn sparisjóður bæði innri og ytri endurskoðun frá sama endurskoðunarfyrirtæki.

Meðal verkþátta sem mjög oft og víða var innheimt fyrir eru ýmiss konar skýrsluskil til Fjármálaeftirlitsins, aðstoð vegna skattamála og skattframtalsgerð og aðstoð við innleiðingu á alþjóðlegum reikningsskilastöðlum (IFRS). Á reikningunum mátti einnig sjá þjónustuliði eins og verðmat, áreiðanleikakönnun, vinnu tengda hlutafélagsvæðingu, vinnu tengda samruna og fleira.

Reikningarnir sýna enn fremur að hjá nær öllum sparisjóðunum hafa endurskoðunarfyrirtækin komið að gerð ársreikningsins. Í sundurliðun á reikningunum var algengt að sjá sem aðskilda liði: „endurskoðun ársreiknings 200X“ og „gerð ársreiknings“. Stundum var þetta í einu lagi: „vinna við endurskoðun og gerð ársreiknings 200X“. Hjá einum sparisjóði stóð í skýringum með ársreikningnum sjálfum: „endurskoðun og gerð ársreiknings“.54

Framar voru rakin ákvæði um verksvið endurskoðenda í lögum um ársreikninga, lögum um endurskoðendur og reglum Fjármálaeftirlitsins um endurskoðun fjármálafyrirtækja. Í lögum um ársreikninga nr. 3/2006 er skýrt kveðið á um að stjórn og framkvæmdastjóri skuli bera ábyrgð á samningu ársreiknings, sbr. 1. mgr. 3. gr. laganna.55 Í 1. mgr. 19. laga nr. 79/2008 um endurskoðendur og 3. gr. reglna Fjármálaeftirlitsins nr. 532/2003 er kveðið á um að endurskoðanda sé óheimilt að sinna verkefnum sem skert geta óhæði hans gagnvart þeim aðila sem hann endurskoðar hjá. Þar sem endurskoðun felur í sér staðfestingu á að ársreikningur uppfylli reikningsskilastaðla og gefi glögga mynd af rekstri og efnahag má leiða að því líkur að endurskoðandi eigi erfiðara með að finna ágalla á reikningi sem hann hefur sjálfur komið að samningu á, enda kann hann þá að vera vanhæfur til verksins. Endurskoðunin er í eðli sínu staðfestingarvinna, unnin í þágu þriðja aðila, meðal annars stofnfjárhafa, en ekki í þágu stjórnar eða stjórnenda. Semji endurskoðandi ársreikninginn þá er hann að vinna störf sem eru á forræði og ábyrgð stjórnar og sparisjóðsstjóra sparisjóðsins. Þá getur endurskoðandi ekki áritað ársreikninginn áður en stjórn samþykkir hann og staðfestir með undirritun sinni. Ef hann gerir það er hann að árita óstaðfestan ársreikning sem stjórn hefur ekki samþykkt að taka ábyrgð á.

Vísbendingar um þátttöku endurskoðenda í samningu ársreiknings komu ekki eingöngu fram á reikningum þeirra til sparisjóðanna heldur sáust þess dæmi í stjórnarfundargerðum sparisjóðanna að endurskoðendur höfðu veitt umtalsverða hjálp við uppgjör eða gerð ársreikninga fyrir einstaka sparisjóði. Á þeim stjórnarfundum þar sem ársreikningur eða árshlutareikningur var lagður fram er iðulega bókað að endurskoðandi eða hann ásamt sparisjóðsstjóra hafi kynnt reikninginn. Ársreikningur er útgangspunktur í vinnu endurskoðandans og því ekki óeðlilegt að hann yfirfari hann með stjórninni. Þó kom fram í stjórnarfundargerðum að endurskoðandi hefði „farið yfir yfirlit um endanlegar útlánaafskriftir og afskriftir nauðungareigna“,56 „lagt fram rekstraráætlun fyrir sparisjóðinn“,57 „farið yfir skýrslu stjórnar“,58 „farið yfir minnisblað um fyrirgreiðslu til venslaðra aðila og varúðarniðurfærslutillagna vegna þeirra“.59 Þessar bókanir í fundargerðum stjórna sparisjóðanna vekja upp spurningar um það hvort endurskoðendur kunni að hafa tekið að sér frekari störf fyrir sparisjóðina en endurskoðunina eina saman. Þá vekur eftirfarandi bókun í fundargerð stjórnar Sparisjóðs Suður-Þingeyinga 21. mars 2007 nokkra athygli:

4. dagskrárliður: Ársreikningur 2006:
Lagður var fram ársreikningur sparisjóðsins fyrir árið 2006. Reikningurinn hefur verið áritaður af KPMG á Akureyri sem hefur tekið við endurskoðun sjóðsins. […]
Stjórnin fór yfir lista um afskriftir sem settar eru í ársreikning og gerir hún ekki athugasemdir við hann.
Stjórnin áritaði síðan reikninginn ásamt sparisjóðsstjóra.

Í skýrslum fyrir rannsóknarnefndinni kváðust þeir endurskoðendur sem kallaðir voru til ekki hafa samið uppgjör eða ársreikninga fyrir neina sparisjóði. Þeir hefðu hins vegar í einhverjum tilfellum veitt þeim tæknilega aðstoð við frágang ársreiknings.

Ég get ekki sagt að hann hafi samið reikninginn, það er alveg ljóst að sparisjóðsstjórarnir og stjórnendur sparisjóðanna sömdu reikninginn, en það var auðvitað ákveðin aðstoð við ársreikningsgerðina, en hún fór minnkandi með hverju árinu sem leið. Vinnubrögðin eru náttúrulega þau að við förum, hvort sem það er norður eða austur, að við förum yfir þau gögn sem liggja fyrir og nánast án undantekninga eru þeir búnir að vinna ákveðna grunnvinnu, safna saman gögnum o.s.frv. og í öllum þessum sparisjóðum er alveg ljóst að sparisjóðirnir voru búnir, og ég bað um það að þeir myndu senda sína tillögu að afskriftareikningi, sem við að sjálfsögðu fórum yfir. En það að ég hafi samið afskriftareikninginn er alveg af og frá, en ég hafði skoðun á honum.60

Annar endurskoðandi gaf lýsingu á því hvað fælist í tæknilegri aðstoð við uppsetningu á ársreikningnum:

[Ársreikningi] var stillt upp í gegnum okkar uppgjörskerfi sem er vinnsla með aðalbók þar sem afurðin eru reikningsskilin. [...] Það má segja að í gegnum tíðina hafi þetta verið hluti af endurskoðunarvinnunni að stilla upp reikningnum með þeim. Ég myndi ekki segja að við höfum samið reikninginn, færslu bókhaldsins er lokið þegar við komum að og einungis lokafærslur eftir. Lokaeintak reikningsskilanna fór í gegnum þetta ferli hjá okkur og í Hornafirði og Vestmannaeyjum var meira treyst á okkar aðkomu en í Keflavík, þar stilltu þeir sjálfir upp ársreikningi. En útgefinn ársreikningur þar var samt það eintak sem fór í gegnum ferlið hjá okkur.61

Rannsóknarnefndin spurði sparisjóðsstjóra og stjórnarformenn í skýrslutökum um samskipti við endurskoðendur og um störf þeirra fyrir sparisjóðina. Svörin voru á ýmsa vegu, allt frá því að endurskoðandinn hefði samið ársreikninginn að fullu til þess að hann hefði veitt lítils háttar aðstoð við uppsetningu og útlit ársreikningsins:

Við færðum allar færslur og svo biðu svona afstemmingar og uppsetningar á reikningnum endurskoðenda. […] Uppsetningin á reikningnum sjálfum og skýringar og reikningskilastaðlar og það allt saman það er auðvitað allt í höndum endurskoðanda. […] Við færum bara allt sem er áfallið, förum bara yfir alla eigna- og skuldaliði, reiknum upp réttar stöður og færum. Erum svo með tékklista frá endurskoðandanum hvaða gögn eiga að liggja fyrir. Svo koma endurskoðendur á staðinn og þeir fara yfir okkar vinnu og stemma alla liði af, aðalbókina við undirkerfin og síðan fara þeir með þetta suður og vinna síðan að uppsetningu á reikningnum þar. En við vorum mjög sjálfbjarga með að færa bókhaldið og hafa allt útreiknað fyrir þá. Þeir bara fóru yfir. […] Mat á hlutabréfaeignum og gengi á þeim, það kom yfirleitt bara í gegnum endurskoðendaskrifstofurnar. Þær kannski höfðu upplýsingar um einhver viðskipti með bréf í viðkomandi félögum.62

7.4.3 Byr sparisjóður

PricewaterhouseCoopers hf. annaðist endurskoðun ársreiknings Byrs sparisjóðs fyrir árið 2006, sem strangt til tekið var ársreikningur Sparisjóðs vélstjóra þar sem Sparisjóður Hafnarfjarðar sameinaðist honum á árinu en hinn sameinaði sjóður hafði fengið nýja nafnið þegar ársreikningurinn var undirritaður. Fyrirtækið hafði séð um endurskoðun Sparisjóðs vélstjóra um árabil. Þórir Ólafsson og Jón H. Sigurðsson, löggiltir endurskoðendur, árituðu samstæðureikninginn 2006. KPMG hf. hafði með endurskoðun ársreikninganna fyrir 2007 og 2008 að gera. Fyrirtækið hafði áður endurskoðað ársreikninga Sparisjóðs Hafnarfjarðar um árabil, síðast fyrir árið 2005. Sigurður Jónsson og Ólafur M. Ólafsson löggiltir endurskoðendur árituðu samstæðureikning Byrs sparisjóðs 2007 og 2008. Ársreikningurinn fyrir 2009 var undirritaður af slitastjórn Byrs sparisjóðs 29. nóvember 2010 en hann var ekki endurskoðaður.

KPMG hafði einnig annast um árabil endurskoðun annarra sparisjóða sem sameinuðust Byr sparisjóði. Síðasti endurskoðaði ársreikningur Sparisjóðs Kópavogs, fyrir árið 2006, var áritaður af Sigurði Jónssyni og Ólafi M. Ólafssyni. Síðasti endurskoðaði ársreikningur Sparisjóðs Norðlendinga var fyrir árið 2007 og var hann áritaður af Arnari Árnasyni og Reyni Stefáni Gylfasyni.

Framangreindir ársreikningar til og með 2005 voru endurskoðaðir í samræmi við góða endurskoðunarvenju. Frá og með 2006 voru þeir endurskoðaðir í samræmi við alþjóðlega endurskoðunarstaðla (ISA). Samkvæmt þeim bar endurskoðanda að fara eftir settum siðareglum og skipuleggja og haga endurskoðuninni þannig að nægjanleg vissa fengist um að ársreikningarnir væru án verulegra annmarka. Allir þessir ársreikningar voru áritaðir án fyrirvara og án ábendingar.

7.4.3.1 Ársreikningurinn 2007

Í endurskoðunarskýrslu um endurskoðun ársreiknings Byrs sparisjóðs 2007 sem var níu síður var á einni síðu fjallað um endurskoðun ársins og verður ekki séð að nein álitamál hafi komið upp. Reglur um endurskoðun fjármálafyrirtækja nr. 532/2003 kveða á um að endurskoðandinn skuli við endurskoðun ársreiknings framkvæma sérstakar kannanir á stöðu stærstu lánþega með tilliti til greiðslutrygginga og afskriftaþarfar, sbr. 6. gr. reglnanna. Í 13. gr. reglnanna kemur fram að endurskoðandanum beri að greina frá því hvernig staðið var að könnun á útlánum. Það eina sem sagt var um útlán var eftirfarandi málsgrein:

Í árslok 2007 nam afskriftarreikningur útlána 1.757 millj. kr. eða sem nemur 1,1% af hlutfall [svo] af heildarútlánum.

Ekkert var fjallað um hvernig staðið var að mati á niðurfærslu útlánanna eða um stærstu sérgreindar afskriftir.

Lítillega var greint frá sölunni á eignarhlut sparisjóðsins í Icebank hf. og þess getið að hún hefði haft „töluverð áhrif á afkomu á árinu 2007“. Þá var greint frá því að í rekstrarreikningi hefðu verið tekjufærðir tæpir 6,7 milljarðar króna vegna Icebank, sem skiptust í 4,2 milljarða króna í söluhagnað og 2,5 milljarða króna í gangvirðisbreytingu. Ekki var getið um lánveitingar sparisjóðsins í tengslum við þessa sölu, en þær námu rúmum 2,5 milljörðum króna í árslok og voru tryggðar með veði í bréfunum sjálfum. Virði bréfanna lækkaði63 fyrst og fremst vegna mikillar lækkunar á gengi Exista hf.64 Í ársreikningnum sjálfum var ekkert að finna um þetta. Staðan hélt áfram að versna og í febrúar 2008 var orðið ljóst að verulega skorti upp á tryggingar lánanna. Þrátt fyrir það var orðalag á skýringarliðnum í ársreikningnum um atburði eftir lok reikningsskiladags:65

Engin atriði hafa komið fram eftir dagsetningu efnahagsreiknings, sem krefjast myndu lagfæringar eða breytingar á ársreikningi 2008. Ársreikningurinn verður lagður fram á aðalfundi til samþykktar.

Hagnaður Byrs sparisjóðs árið 2007 nam rúmum 7,9 milljörðum króna og í endurskoðunarskýrslunni var þess getið að hann hefði þrefaldast milli ára. Hreinar tekjur af fjáreignum og fjárskuldum á gangvirði námu 5,5 milljörðum króna. Inni í þeirri fjárhæð var áðurnefnd gangvirðisbreyting á eignarhlutnum í Icebank hf., þannig að 3 milljarða króna tekjufærsla tengdist öðrum fjáreignum. Vaxtamunur sparisjóðsins árið 2007 var enda mjög lítill, eða ekki nema 0,8%. Þá var greint frá því í skýrslu stjórnar í ársreikningnum að hún legði til að greiddur yrði 44% arður til stofnfjáreigenda á árinu 2008 vegna ársins 2007. Sú ákvörðun leiddi til þess að greiddir voru 13,5 milljarðar króna í arð til stofnfjáreigenda, eða sem nam meira en einum og hálfum hagnaði ársins 2007.66

Í árslok 2007 voru 12,5% af eignum Byrs sparisjóðs bundin í fjáreignum og þar af voru 51% í óskráðum félögum. Í reikningsskilastaðli IFRS 7 er gert ráð fyrir að í skýringum komi fram viðamiklar upplýsingar um fjárhagslega áhætturstjórnun banka- og lánastofnana, en þar eiga meðal annars að koma fram tölulegar upplýsingar sem lýsa áhættuþáttum og næmnigreining á markaðsáhættu sjóðsins.

Takmarkaðar skýringar voru í ársreikningnum um áhættuna sem fylgdi verðbréfaeign sparisjóðsins. Gleggri mynd hefði fengist af markaðsáhættu af verðbréfaeigninni með skiptingu á milli skráðra og óskráðra bréfa, eins og gert var í ársreikningnum 2006.

7.4.3.2 Ársreikningurinn 2008

Í skýrslu stjórnenda með ársreikningi 2008 mátti lesa eftirfarandi yfirlýsingu:

Byr sparisjóður er í dag með erlend lán að fjárhæð 35.349 millj. kr. þar sem lánaskilmálar kveða á um lágmarks eiginfjárhlutfall og uppfyllir sparisjóðurinn ekki þau skilyrði. Sparisjóðurinn hefur hafið viðræður við lánardrottna vegna þessa.

Samkvæmt ársreikningnum var eiginfjárhlutfallið í árslok 8,3%. Þau erlendu lán sem vísað var til í skýrslu stjórnar voru fimm sambankalán, öll eingreiðslulán; þrjú með gjalddaga 2009 og tvö með gjalddaga 2010. Þrjú þeirra voru með áskilnað um 10% lágmarks eiginfjárhlutfall, eitt um 10,5% og það síðasta um 12%. Endurskoðendur viku að þessu í endurskoðunarskýrslunni með eftirfarandi hætti:

Mikilvægasta málefni okkar tengt áritun ársreiknings sparisjóðsins var vegna þess að Byr uppfyllti ekki ákvæði í lánasamningum um eiginfjárhlutfall. […] Í endurskoðunarvinnunni var lausafjárstaða sjóðsins metin sérstaklega og ársreikningurinn var skoðaður með það í huga að til gjaldfellingar gæti komið af hálfu lánveitenda. Niðurstaða okkar varð sú að miðað við þær upplýsingar sem lágu fyrir getur sjóðurinn mætt gjaldfellingu lánanna með því að greiða þau upp með skömmum fyrirvara. Ekki þótti því þörf á að setja fram ábendingu í áritun okkar á ársreikninginn.
Við endurskoðun okkar á árinu hefur ekkert komið fram sem bendir til annars en að ársreikningurinn gefi glögga mynd af rekstri og efnahag sjóðsins á árinu 2008.67

Útlán til viðskiptavina námu í árslok 2008 68% af heildareignum, að teknu tilliti til niðurfærslu, þ.e. stöðunnar á afskriftareikningi útlána. Afskriftareikningurinn stóð í 25,3 milljörðum króna, sem þýddi að niðurfærsluhlutfall útlánanna var 12,8%. Ári fyrr var þetta hlutfall 1,5%. Fall viðskiptabankanna á árinu leiddi til mikillar virðisrýrnunar á útlánum almennt. Samsvarandi hlutfall sparisjóðanna í heild, án Byrs sparisjóðs, var 15,6% í árslok 2008 og 1,6% í lok 2007. Á fund stjórnar Byrs 4. mars 2009 mættu endurskoðendur sparisjóðsins, Sigurður Jónsson og Ólafur Már Ólafsson, og lögðu fram og kynntu skýrslu um niðurstöður skoðunar á útlánum Byrs sparisjóðs miðað við stöðuna í árslok 2008.68 Skoðunin tók til 26 stærstu viðskiptaaðila sparisjóðsins. Samanlagðar heildarskuldbindingar þeirra námu 53,5 milljörðum króna en að mati endurskoðendanna skorti samtals 32,3 milljarða króna upp á formlegar tryggingar vegna umræddra lána. Ársreikningurinn fyrir 2008 var staðfestur og undirritaður á næsta stjórnarfundi, 13. mars 2009. Samkvæmt honum nam framlagið í afskriftareikning útlána 25,4 milljörðum króna, þ.e. af öllu útlánasafninu. Það skal tekið fram að skortur á formlegum tryggingum fyrir útlánum er ekki endilega ákvarðandi um það hver sérgreind afskrift vegna þessara lána ætti að vera, þó gera megi ráð fyrir að samhengi sé þar á milli.

Í skýringarlið 86 í ársreikningnum sagði að heildareiginfjárkrafan í árslok hafi verið 14,8 milljarðar króna og skiptist þannig eftir áhættuþáttum: vegna útlánaáhættu 12,5 milljarðar króna, vegna markaðsáhættu 1,5 milljarðar króna og vegna rekstraráhættu 0,8 milljarðar króna. Þessi skipting sýndi að gæði útlánasafnsins skiptu langmestu máli gagnvart eiginfjárhlutfallinu. Eiginfjárgrunnur sparisjóðsins í árslok var ekki nema 546,3 milljónum króna umfram heildareiginfjárkröfu. Rúmum 7 milljörðum króna69 munaði á stöðu afskriftareiknings útlána og þeirri fjárhæð sem samkvæmt framangreindri útlánaskoðun KPMG vantaði upp á formlegar tryggingar fyrir skuldbindingum 26 stærstu viðskiptaaðila. Niðurfærsla Byrs vegna þessara 26 aðila nam hins vegar 17 milljörðum króna.

Í skýrslu sem PricewaterhouseCoopers (PwC) vann að beiðni Fjármálaeftirlitsins frá 10. desember 2010 um ákveðna þætti innra eftirlits hjá Byr sparisjóði frá var í kafla 3.9 greint frá mati á útlánum í lok árs 2008. Könnunin tók til skuldbindinga 100 stærstu viðskiptamanna sparisjóðsins, trygginga vegna þeirra og var niðurfærsluþörf vegna hvers þeirra metin. Á bls. 108 í skýrslu PwC var eftirfarandi athugasemd:

Það er mat PwC að það sé verulega ámælisvert að umrædd skýrsla KPMG um útlán hafi ekki verið lögð fram við skoðun PwC á útlánum í maí og síðan aftur í nóvember 2009.

Í útlánakönnuninni var gerð grein fyrir tíu tilvikum þar sem voru „sterkar vísbendingar um að stjórnendum Byrs hefði mátt vera ljóst á áritunardegi ársreiknings 2008, þann 13. mars 2009, að frekari niðurfærslu væri þörf“. Fyrir þessari fullyrðingu voru síðan færð rök og ályktað út frá þeim: „Því virðist ljóst að hlutlægir mælikvarðar liggi fyrir um að niðurfærsluþörf sé a.m.k. 3.178 m.kr. og sennilega allt að 9 ma.kr. miðað við tryggingavöntun.“70

Í fundargerð frá stjórnarfundi Byrs sparisjóðs 4. mars 2009 sagði undir 2. dagskrárlið:

Sigurður Jónsson og Ólafur Már Ólafsson, endurskoðendur KPMG, lögðu fram og fóru yfir drög að ársuppgjöri sparisjóðsins 2008. Drögin sýna verulega lakari niðurstöðu m.v. þær áætlanir sem lagðar voru fram í byrjun febrúar.

Undir 3. dagskrárlið sagði:

Sigurður Jónson og Ólafur Már Ólafsson, endurskoðendur KPMG, lögðu fram og fóru yfir útlánaskýrslu KPMG.

Á næsta stjórnarfundi, sem haldinn var þann 13. mars 2009, lögðu Sigurður og Ólafur fram ársuppgjör sparisjóðsins 2008 sem stjórn og sparisjóðsstjóri samþykktu með undirritun sinni. Rannsóknarnefndinni er ekki kunnugt um hvort og hvaða breyting á uppgjörinu hafði átt sér stað á milli þessara tveggja stjórnarfunda.

Í skýrslu og yfirlýsingu stjórnenda um ársreikninginn var eftirfarandi athugasemd:

Áhrif þróunar áfjármálamarkaði
Í byrjun október voru sett neyðarlög um fjármálamarkaði og voru skilanefndir sendar inn í viðskiptabankana í framhaldi af því. Bankahrunið og þróun á fjármálamarkaði almennt hefur haft verulega áhrif á rekstur sjóðsins og víðtæk áhrif í viðskiptalífinu. Möguleikar viðskiptavina Byrs sparisjóðs til endurgreiðslu skuldbindinga sinna við sjóðinn hafa rýrnað og varúðarniðurfærslur hækkað mikið vegna þess. Það mun taka tíma að meta endanlega áhrif hrunsins. Byr sparisjóður átti bæði eignir og skuldir við viðskiptabankana á þeim tíma sem þeir voru yfirteknir af Fjármálaeftirlitinu. Byr hefur metið þær stöður og fært áhrif þess í ársreikninginn.

Það kann að vera umdeilanlegt hver afskriftaþörfin var á reikningsskiladegi, 31. desember 2008 en á tímabilinu frá áramótum til áritunardags ársreikningsins, 13. mars 2009, komu áhrifin af falli viðskiptabankanna á greiðslugetu viðskiptaaðila sparisjóðsins enn frekar í ljós og flest var það til hins verra. Sem dæmi má nefna að Baugur Group hf. og FL Group hf. voru þá komin í greiðslustöðvun og litlar líkur á endurheimtum á ótryggðum kröfum á hendur þeim.71 Skýringarliður 92 í ársreikningnum sem fjallaði um atburði eftir lok reikningsskiladags hljóðaði svo:

Engin atriði hafa komið fram eftir dagsetningu efnahagsreiknings, sem krefjast myndu lagfæringar eða breytingar á ársreikningi 2008. Ársreikningurinn verður lagður fram á aðalfundi til samþykktar.

Í reikningsskilastaðli IAS 10 segir að ekki skuli leiðrétta fjárhæðir í reikningsskilum vegna atburða eftir lok reikningsskiladags, en skýra þarf frá eðli og áhrifum slíkra atburða. Áritun endurskoðendanna á ársreikninginn hafði ekki að geyma neina vísbendingu til lesenda um að hann gæfi ekki glögga mynd af afkomu samstæðunnar á árinu og fjárhagsstöðu hennar í árslok. Í endurskoðunarskýrslunni, sem var til stjórnarinnar og merkt sem trúnaðarmál, var gerð grein fyrir þeirri ákvörðun endurskoðendanna að setja ekki fram ábendingu í árituninni. Byggðist sú ákvörðun alfarið á því að sjóðurinn hefði laust fé til að mæta hugsanlegri gjaldfellingu erlendra lánasamninga. Fjallað var um afskriftareikning útlána á bls. 13 í endurskoðunarskýrslunni. Þar sagði meðal annars:

Ennþá ríkir mikil óvissa um raungildi margra trygginga og leiðir það til óvissu um mat á eignum, einkum útlánum. […]
Við höfum yfirfarið mat bankans [svo] á útlánunum. Í því sambandi höfum við meðal annars stuðst við þær athugasemdir sem fram koma í útlánaskýrslu sem unnin var í desember 2008 en dags. 5. [svo] mars 2009, upplýsingum frá starfsmönnum sparisjóðsins og sérstæðum könnunum af okkar hálfu. Alltaf er erfitt að meta þörfina á niðurfærslu vegna einstakra aðila og vel má vera að afskriftaþörfin reynist í einhverjum tilvikum önnur þegar frá líður.
Ef litið er á afskriftareikning sparisjóðsins í heild teljum við að við mat á afskriftaþörfinni hafi verið tekið tillit til þeirrar áhættu sem er í útlánum sparisjóðsins en eins og áður er getið getur afskriftaþörfin reynst önnur þegar frá líður.

Fáum dögum eftir birtingu ársreikningsins sendi Fjármálaeftirlitið bréf til sparisjóðsstjóra vegna hinnar tæpu eiginfjárstöðu, sem veitti „Byr lítið svigrúm til að mæta áföllum“.72 Í bréfinu var greint frá því að Fjármálaeftirlitið hefði tekið til skoðunar niðurfærslur og mat á virði stærstu áhættuskuldbindinga sparisjóðsins með tilliti til þess hvort þörf væri á frekari niðurfærslu vegna þeirra. Með bréfinu fylgdi samantekt á þessari athugun Fjármálaeftirlitsins.73 Niðurstöður matsins voru þær að þörf væri á frekari niðurfærslu upp á 2,6 milljarða króna. Slík niðurfærsla myndi leiða til þess að eiginfjárhlutfall sparisjóðsins færi niður í 7%. Fjármálaeftirlitið gaf sparisjóðnum fimm daga frest til að svara niðurstöðunum.

Á næsta stjórnarfundi eftir undirritun ársreikningsins, 25. mars 2009, greindi sparisjóðsstjóri frá bréfi Fjármálaeftirlitsins og upplýsti stjórnina um að starfsmenn sparisjóðsins og endurskoðendur væru að vinna að svari við athugasemdum Fjármálaeftirlitsins. Svarið var sent í bréfi sama dag, undirritað af sparisjóðsstjóra og yfirmanni áhættustýringar. Niðurstaðan þess var eftirfarandi:

Það er skoðun Byrs að full rök séu fyrir þeim niðurstöðum sem liggja til grundvallar á mati sparisjóðsins gagnvart þeim aðilum sem FME gerir athugasemd við og teljum við því ekki þörf á afskriftaframlögum umfram það sem er í ársreikningnum.74

Á árinu 2009 kom í ljós að þörf var á enn frekari niðurfærslu útlána og í ársreikningi 2009 nam varúðarfærsla á afskriftareikninginn 38,4 milljörðum króna. Staða afskriftareiknings í árslok 2009 var 55,6 milljarðar króna eða 27,8% af heildarútlánum. Niðurfærsluþörfin í árslok 2009 lá auðvitað ekki ljós fyrir þegar ársreikningurinn 2008 var staðfestur. Málið snerist samt um það hvort hlutlægar vísbendingar hafi þá verið komnar fram sem kölluðu á frekari niðurfærslur útlána en gerðar voru. Stjórnendur sparisjóðsins töldu þær ekki liggja fyrir og endurskoðendurnir féllust á þeirra sjónarmið, þrátt fyrir að útlánakönnun KPMG í desember 2008 hefði bent til annarar niðurstöðu.

Verðbréfaeign sparisjóðsins í árslok 2008 var 19,2 milljarðar króna eða 7,6% af heildareignum. Hún minnkaði verulega á árinu því tekjur af fjáreignum á gangvirði voru neikvæðar um 7,7 milljarða króna og hlutdeild í afkomu hlutdeildarfélaga var neikvæð um 2,4 milljarða króna. Lítil sem engin umfjöllun var í endurskoðunarskýrslu um verðbréfaeign sjóðsins. Í reikningsskilastaðli IFRS 7 er gert ráð fyrir að í skýringum komi fram viðamiklar upplýsingar um fjárhagslega áhættustjórnun banka og lánastofnana en þar eiga meðal annars að koma fram:

  • Tölulegar upplýsingar sem lýsa áhættuþáttum, þ.m.t. samþjöppunaráhættu
  • Næmisgreining á markaðsáhættu sjóðsins

Takmarkaðar upplýsingar voru í skýringum í ársreikningi um þá áhættu sem fylgdi verðbréfaeign sparisjóðsins og átti það sama við hér og í ársreikningi 2007. Ársreikningur Byrs sparisjóðs 2008 fékk engu að síður fyrirvaralausa áritun endurskoðenda og án ábendingar um óvissu í eignamati.

7.4.4 Sparisjóður Reykjavíkur og nágrennis

KPMG hf. hafði með höndum ytri endurskoðun Sparisjóðs Reykjavíkur og nágrennis um árabil. Sigurður Jónsson og Reynir Stefán Gylfason, löggiltir endurskoðendur, árituðu ársreikninga samstæðunnar 2005 og 2006 en Sigurður áritaði einn samstæðureikninginn 2007. Sama gilti um áritun á ársreikninga dótturfélaganna.

Sparisjóðurinn tók upp reikningsskil í samræmi við alþjóðlega reikningsskilastaðla (IFRS) árið 2005. Það ár var endurskoðað í samræmi við góða endurskoðunarvenju. Frá og með 2006 var endurskoðun fyrir sparisjóðinn framkvæmd í samræmi við alþjóðlega endurskoðunarstaðla (ISA). Samkvæmt þeim bar endurskoðendum að fara eftir settum siðareglum og skipuleggja og haga endurskoðuninni þannig að nægjanleg vissa fengist um að ársreikningarnir væru án verulegra annmarka. Ársreikningurinn 2008 var langt kominn í vinnslu þegar Fjármálaeftirlitið tók yfir vald hluthafafundar 21. mars 2009. Reikningurinn var því ekki staðfestur af stjórn og sparisjóðsstjóra og ekki áritaður af endurskoðendum, enda var endurskoðun hans þá ekki lokið.75 Allir ársreikningarnir 2005–2007 voru áritaðir án fyrirvara og án ábendingar.

7.4.4.1 Ársreikningurinn 2007

Útlán Sparisjóðs Reykjavíkur og nágrennis námu á bilinu 70−86% af heildareignum áranna 2005−2008. Afskriftareikningur útlána sem hlutfall af heildarútlánum hafði lækkað úr 3% í árslok 2002 niður í 1,2% í árslok 2005. Hlutfallið lækkaði enn frekar og var aðeins 0,9% í árslok 2006 og 2007, en hækkaði síðan í 16,6% í árslok 2008. Hjá öðrum sparisjóðum hækkaði þetta hlutfall úr 2% í árslok 2007 í 15% 2008 og í 25% á árinu 2009. Þessi hlutfallslega lækkun á afskriftareikningnum á árunum 2002–2007 átti sér stað á meðan útlánin jukust um 450%.

Í endurskoðunarskýrslunni var greint frá skoðun á stærstu vanskilaaðilum í nóvember og desember. Síðan fylgdi þessi athugasemd:

Skoðun okkar leiddi í ljós að tryggingar hjá flestum vanskilaaðilum á skoðunardegi var umfram skuldbindingu þeirra. Hins vegar hafa aðstæður breyst frá skoðunardegi og því afar mikilvægt að fylgst sé reglulega með verðmæti trygginga ekki síst þar sem talsverð aukning hefur verið í lánum með veði í hlutabréfum. Auk þess er til staðar áhætta vegna kross eignarhalds og kross trygginga.

Endurskoðunarskýrsla kemur ekki fyrir sjónir lesenda ársreikningsins, heldur aðeins stjórnar og lykilstjórnenda, auk þess sem hún er send Fjármálaeftirlitinu. Athugasemdir af þessu tagi geta verið mikilvægar fyrir lesendur ársreikninga og mæla reikningsskilastaðlar fyrir um að upplýsingar af þessu tagi séu veittar í skýringum með ársreikningi.

Á árinu 2007 dró verulega úr hagnaði af rekstri sparisjóðsins en hann varð ekki nema liðlega þriðjungur þess sem var árið á undan, eða 3,3 milljarðar króna. Hreinar tekjur af fjáreignum og fjárskuldum námu 4,6 milljörðum króna en þar af voru tekjur af Exista hf. 2,7 milljarðar króna. Skráð gengi bréfa í Exista í árslok 2007 var 19,75 en í 20. febrúar 2008 hafði gengið lækkað um tæp 40% og var komið í 12,15. Í endurskoðunarskýrslunni 2007 var umfjöllun um gengi Exista á árinu 2008 og áhrif þess á afkomu sparisjóðsins:

Miðað við gengisþróun á hlutabréfum í Exista það sem af er árinu 2008 nemur tap af eignarhlutanum 6.329 millj. kr. fyrir skatta.

Í skýringarlið 92 í ársreikningnum um atburði eftir lok reikningsárs sagði hins vegar: „Engin atriði hafa komið fram eftir dagsetningu efnahagsreiknings, sem krefjast myndu lagfæringar eða breytingar á ársreikningi 2007.“ Þess ber að geta að samkvæmt reikningsskilastaðli IAS 10 skulu félög ekki leiðrétta fjárhæðir í reikningsskilum vegna atburða eftir lok reikningsskiladags ef um er að ræða lækkun á markaðsvirði fjárfestinga en hins vegar skal skýra frá eðli og áhrifum slíkra atburða ef þau eru veruleg, en ekkert slíkt var gert í ofangreindum skýringarlið með ársreikningnum.

Sparisjóðurinn átti 48,41% eignarhlut í Kistu – fjárfestingarfélagi ehf. í árslok 2007 og hafði tekist á hendur ábyrgðir fyrir félagið. Kista hélt utan um eignarhluti nokkurra sparisjóða í Exista hf. og voru þeir eina eign félagsins, þannig að virði Kistu var beintengt genginu á Exista hf. Í endurskoðunarskýrslunni kom fram að í árslok 2007 hafi sjóðurinn veitt Kistu ábyrgð upp á 6,1 milljarð króna. Í ársreikningnum var í skýringarlið 83 greint frá því að ábyrgðir í árslok 2007 næmu alls 7,6 milljörðum króna en 687 milljónum króna í árslok 2006. Engin frekari skýring var gefin þar. Í skýringarlið 89 um tengda aðila stóð að veittar ábyrgðir til hlutdeildarfélaga næmu 6,4 milljörðum króna. Í sama skýringarlið sagði að engin óvenjuleg viðskipti hefðu verið við tengda aðila á árinu og að viðskipti við slíka aðila hefðu verið gerð á sambærilegum grundvelli og viðskipti við ótengda aðila. Samkvæmt reikningsskilastaðli IAS 24, Upplýsingar um tengda aðila, ber að tilgreina í skýringum um viðskipti við tengda aðila eðli slíkra viðskipta og veittra ábyrgða til tengdra aðila. Í skýringarlið nr. 89 var þess ekki getið hvert hlutdeildarfélagið var en staðallinn kveður ekki skýrt á um hvort þess sé þörf.

Í árslok 2007 voru um 19% af eignum sparisjóðsins bundin í verðbréfum en tap af fjáreignum á árinu 2008 nam 102% af eigin fé samkvæmt ársreikningi í árslok 2007. Í samstæðureikningi 2007 var verðmæti eignarhluta í Exista 6,7 milljarðar króna en hlutur sparisjóðsins í Exista í gegnum Kistu – fjárfestingarfélag ehf. var 9,7 milljarðar króna. Samtals nam eignarhlutur sparisjóðsins í Exista um 16,4 milljörðum króna eða tæpum 60% af eigin fé hans. Í reikningsskilastaðli IFRS 7 er sagt að í skýringum skuli veita upplýsingar um markaðsáhættu sem fylgir verðbréfaeign sjóðsins, en meðal þess sem þar á að koma fram eru:

  • Tölulegar upplýsingar sem lýsa áhættuþáttum, þar með talið samþjöppunaráhættu.
  • Næmisgreining á markaðsáhættu sjóðsins.

Takmarkaðar upplýsingar voru í skýringum í ársreikningnum um áhættuna sem fylgdi verðbréfaeign sparisjóðsins.

Skortur á framangreindum upplýsingum kann að hafa skert upplýsingagildi ársreiknings 2007 og dregið úr möguleikum hins upplýsta lesanda á því að átta sig á fjárhagsstöðu sparisjóðsins.

7.4.5 Sparisjóðurinn í Keflavík

Deloitte hf. annaðist endurskoðun fyrir Sparisjóðinn í Keflavík árin 2005–2008. Ábyrgðarmenn endurskoðunarinnar sem árituðu ársreikninga sjóðsins fyrir hönd Deloitte hf. voru Páll Grétar Steingrímsson, Þorvarður Gunnarsson og Pálína Árnadóttir. Páll og Þorvarður árituðu ársreikninga 2005–2007, en ársreikning fyrir árið 2008 árituðu Páll og Pálína.

Ársreikningar sparisjóðsins til og með 2006 voru gerðir í samræmi við ákvæði laga um ársreikninga og reglna nr. 834/2003 um reikningsskil lánastofnana, en sparisjóðurinn tók upp alþjóðlega reikningsskilastaðla (IFRS) árið 2007 og var ársreikningur ársins 2008 gerður í samræmi við þá. Ársreikningur 2009 var ekki áritaður.

Endurskoðun ársreikninga sparisjóðsins var framkvæmd í samræmi við góða endurskoðunarvenju til og með ársins 2006 en ársreikningarnir 2007 og 2008 voru endurskoðaðir í samræmi við alþjóðlega endurskoðunarstaðla (ISA). Álit endurskoðenda á ársreikningunum 2005–2008 var fyrirvaralaust. Ábendingarmálsgrein fylgdi árituninni á ársreikninginn 2008 sem vísaði í skýringu í ársreikningnum þar sem greint var frá því að sparisjóðurinn uppfyllti ekki lágmarkskröfur um eiginfjárhlutfall sem reiknað er samkvæmt lögum um fjármálafyrirtæki. Á þessum tíma var sparisjóðurinn með aðgerðaáætlun um að koma eiginfjárhlutfalli sínu yfir lögboðið lágmark, en þær aðgerðir miðuðust við að færa útlán milli gjaldmiðla, svo og að sækja um eiginfjárframlag úr ríkissjóði. Endurskoðendurnir voru sammála stjórnendum um að sparisjóðurinn væri rekstrarhæfur.

7.4.5.1 Endurskoðun á verðbréfum

Verðbréfaeign Sparisjóðsins í Keflavík jókst ár frá ári til og með 2008, en í skýrslum sínum bentu endurskoðendur meðal annars á að batnandi afkoma væri að miklu leyti til komin vegna hagnaðar af verðbréfum. Í endurskoðunarskýrslu um ársreikninginn 2005 kom meðal annars fram:

Hagnaður af rekstri sparisjóðsins árið 2005 er 1.150,2 millj. kr. Þennan mikla afkomubata má að mestu skýra með gengisbreytingum og þá aðallega á hækkun á virði hlutabréfa sjóðsins í Exista en sú eign er að hluta til í veltubók og hefur hækkað um 1.084,7 millj. kr.

Stór hlutur eigna sparisjóðsins var hlutabréfaeign í Exista hf. og síðar í Kistu – fjárfestingarfélagi ehf. Endurskoðendur sparisjóðsins komu þeim skilaboðum reglulega á framfæri við stjórnina að sparisjóðurinn stæði frammi fyrir mikilli áhættu vegna eignarhaldsins á Exista og Kistu. Í endurskoðunarskýrslu 2005 sagði:

Stærsta einstaka eign sparisjóðsins samkvæmt efnahagsreikningi er eignarhlutur sjóðsins í Exista hf. Þykir okkur rétt að benda á að töluverð markaðsáhætta fylgir eigninni sem getur haft mikil áhrif á niðurstöður rekstrarreiknings sparisjóðsins.

Þá kom fram í endurskoðunarskýrslunni með ársreikningi 2006:

Í bókum sparisjóðsins er eignarhluturinn í Exista hf. bókaður á 5.589 millj. kr. sem er um 60% af eigin fé sjóðsins Að auki er eignarhluti félagsins í Kistu –fjárfestingarfélagi ehf. bókaður á 931 millj. kr. og má því segja að um 70% af eigin fé sparisjóðsins sé bundið í einni eign og eru þá ótalin áhrif Exista hf. í Icebank hf.

Einnig kom eftirfarandi fram í sömu endurskoðunarskýrslu:

Frá áramótum til þessa dags hefur markaðsverðmæti hlutabréfanna hins vegar hækkað um 12,9%, þannig að ljóst er að áhætta sú sem lýst er hér er raunveruleg. Stjórn sjóðsins er því hvött til árverkni og þess að setja sér markmið í sambandi við áhættustýringu.

Í endurskoðunarskýrslu vegna ársreiknings 2007 var vikið að sama atriði en þar var bent á að markaðsáhættan sem sparisjóðurinn stæði frammi fyrir væri mikil. Þrátt fyrir varnaðarorð endurskoðenda fjárfesti sparisjóðurinn í Icebank hf., sem átti stóran hlut í Exista, fyrir 655 milljónir króna á árinu 2007.

Á árinu 2007 seldi sparisjóðurinn hluti í Exista til Kistu – fjárfestingarfélags. Það kom ekki fram í ársreikningi að þau viðskipti hefðu verið við tengdan aðila.76 Fram kom í endurskoðunarskýrslunni að fjárfest hefði verið í Kistu fyrir 2,3 milljarða króna. Samkvæmt alþjóðlegum reikningsskilastöðlum ber að upplýsa um eðli viðskipta á milli tengdra aðila. Meðal þeirra lágmarksupplýsinga sem eiga að koma fram eru fjárhæð, eðli og skilmálar viðskiptanna. Skortur á þessum upplýsingum kann að hafa skert upplýsingagildi ársreiknings 2007.

7.4.5.2 Endurskoðun á útlánum

Útlán voru stærsta eign sparisjóðsins og þar með sú mikilvægasta. Því er eðlilegt að augu endurskoðendanna hafi beinst fyrst og fremst að útlánum og þá sérstaklega þegar þrengja fór að efnahagslífinu hér á landi á árunum 2007 og 2008.

Í endurskoðunarskýrslu 2005 kom fram athugasemd um að það vantaði upp á eftirlit með tryggingum á bak við útlán, en þar sagði:

[T]il að mynda er að okkar mati nauðsynlegt að bæta eftirlit með tryggingum sem settar eru fyrir útlánum þannig að með lítilli fyrirhöfn megi leggja mat á verðmæti veða og gæði ábyrgðaraðila.

Í endurskoðunarskýrslunni 2006 var þessi athugasemd ítrekuð, vegna þess að endurskoðendum þótti sem lítið hefði verið aðhafst af hálfu sparisjóðsins í framhaldi af fyrrnefndri athugasemd. Í endurskoðunarskýrslu 2007 kom fram að útlán höfðu tvöfaldast, sem skýrðist af því að á árinu sameinuðust Sparisjóður Vestfirðinga og Sparisjóður Húnaþings og Stranda Sparisjóðnum í Keflavík.77

Innri endurskoðandi sparisjóðsins hætti á miðju árinu 2008 og leiddi það til þess að Deloitte hf. tók jafnframt að sér hlutverk innri endurskoðanda. Í sérstakri skýrslu Deloitte hf. um innri endurskoðun komu fram alvarlegar athugasemdir um lánatryggingakerfi sparisjóðsins og verklagsreglur því tengdar:

[V]ið endurskoðun kom í ljós að vinnureglur varðandi tryggingar eru orðnar úreltar og ekkert í kerfum sparisjóðsins sem tryggir að kallað sé eftir nægjanlegum tryggingum. […] [V]ið endurskoðun kom í ljós að sparisjóðsstjóri hafði auknar heimildir í upphafi árs 2008 til að lána stórar fjárhæðir. […] [M]ikilvægt er að stjórn fari reglulega yfir þessi hlutföll og hámarksfjárhæðir sem sparisjóðsstjóri getur lánað.

Það að vinnureglur um tryggingar væru úreltar og að ekkert í kerfum sparisjóðsins tryggði að kallað væri eftir nægjanlegum tryggingum fyrir útlánum, ásamt rúmum heimildum sem sparisjóðsstjóri hafði til að lána, kann að hafa aukið á þá áhættu sem þegar var til staðar í mati útlánasafnsins. Þegar fyrir liggur að innra eftirliti með útlánum er svo áfátt, má segja að endurskoðendum beri að öllu óbreyttu að leggja sérstaka áherslu á endurskoðun útlánanna.

Samkvæmt drögum að ársreikningi 2008 sem lögð voru fyrir stjórn sparisjóðsins í febrúar 2009 kom fram að eiginfjárhlutfallið var 8,5% og þar með yfir lögbundnu lágmarki. Sparisjóðurinn sótti um eiginfjárframlag úr ríkissjóði 10. mars 2009 vegna sérstakra aðstæðna á fjármálamarkaði. Fjármálaráðuneytið vísaði umsókninni til umsagnar Fjármálaeftirlitsins og Seðlabanka Íslands. Umsögn Fjármálaeftirlitsins lá fyrir 31. mars 2009 og var niðurstaða hennar sú að þörf væri á að færa útlán sparisjóðsins niður um að minnsta kosti 2,5 milljarða króna í viðbót miðað við fyrrnefnd uppgjörsdrög. Sparisjóðurinn tók tillit til þessa í ársreikningi sínum fyrir árið 2008 og jók niðurfærslu útlána um 2,9 milljarða króna frá uppgjörsdrögunum. Það þýddi að eiginfjárhlutfallið fór undir lögboðið lágmark og varð 7,1%.

Reglur um endurskoðun fjármálafyrirtækja nr. 532/2003 kveða á um að endurskoðandinn skuli við endurskoðun ársreiknings kanna sérstaklega stöðu stærstu lánþega með tilliti til greiðslutrygginga og afskriftaþarfar, sbr. 6. gr. reglnanna. Í 13. gr. reglnanna kemur fram að endurskoðandanum beri að greina frá því hvernig staðið var að könnun á útlánum. Í endurskoðunarskýrslu vegna endurskoðunar ársreiknings Sparisjóðsins í Keflavík árið 2008 kom lítið fram um hvaða aðgerðir endurskoðandans lágu að baki þeirri niðurstöðu að útlán sjóðsins væru hæfilega metin í samræmi við settar reikningsskilareglur. Umfjöllun í skýrslunni einskorðaðist aðallega við sundurliðun á framlögum í sérgreindan afskriftareikning og hreyfingar á afskriftareikningi.

Ársreikningur sparisjóðsins var gerður samkvæmt alþjóðlegum reikningsskilastöðlum frá og með 2007. Staðall IFRS 7, Fjármálagerningar: Skýringar, sem gilti fyrir reikningsskilatímabil frá 1. janúar 2007 og síðar, gerir kröfu um ákveðnar skýringar í ársreikningi. Um er að ræða lágmarkskröfur.78 Markmið með staðlinum er að tryggja að í ársreikningum séu upplýsingar sem gefa lesendum reikningsskila mynd af þeirri fjárhagslegu áhættu sem fylgir starfseminni. Ársreikningar eru taldir vera ófullnægjandi eða jafnvel villandi án upplýsinga um áhættu sem fylgir fjármálagerningum.

Rannsóknarnefndin getur ekki fullyrt hvort upplýsingar í skýringum sem snúa að útlánum og þeirri áhættu sem var bundin þeim hafi verið fullnægjandi í ársreikningnnum. Til að mynda skorti í ársreikninginn upplýsingar um þær tryggingar sem lágu til grundvallar útlánum, bæði útlánum í skilum og í vanskilum, og nánari greiningu á virðisrýrðum útlánum og stöðu útlána sem voru í vanskilum en ekki virðisrýrð. Þær upplýsingar gátu verið mikilvægar fyrir lesendur ársreikningsins í árslok 2007 og 2008.

7.4.5.3 Atburðir eftir lok reikningsskiladags

Í árslok 2007 voru um 11,7% af heildareignum Sparisjóðsins í Keflavík eignarhlutir í Exista hf., bæði bein eign og óbein í gegnum Kistu – fjárfestingarfélag ehf. og Icebank hf. Mikil verðlækkun varð á hlutabréfamarkaði á Íslandi í byrjun ársins 2008 sem varð til þess að hlutabréfaeign sparisjóðsins í Exista hf. lækkaði um 3,5 milljarða króna frá árslokum 2007 til útgáfudags ársreikningsins, 4. mars 2008. Endurskoðendur bentu á það í endurskoðunarskýrslu 2007 að þessi lækkun myndi að öllu óbreyttu rýra eigið fé sjóðsins um 11%. Ætla má að þessar upplýsingar hefðu haft þýðingu fyrir lesanda ársreikningsins.

Í reikningsskilastaðli IFRS 7 er sagt að í skýringum skuli veita upplýsingar um markaðsáhættu sem fylgir verðbréfaeign, en meðal þess sem þar skal koma fram eru tölulegar upplýsingar sem lýsa áhættuþáttum, þar með talið samþjöppunaráhættu og næmisgreining á markaðsáhættu sjóðsins.

Athyglisvert er að í fundargerð stjórnar sparisjóðsins 25. janúar 2008 kom fram að lánardrottnar Kistu hefðu farið fram á auknar tryggingar fyrir lánum til félagsins. Sparisjóðurinn lagði fram ábyrgð sína fyrir skuldum Kistu upp á 3,8 millljarða króna sem gilti frá 31. desember 2007 til 22. febrúar 2008 og bar því að greina frá henni í skýringum með ársreikningi 2007 í skýringarliðnum um tengda aðila.79

Skortur á framangreindum upplýsingum kann að hafa skert upplýsingagildi ársreikningsins 2007.

7.4.6 Sparisjóður Mýrasýslu

KPMG hf. annaðist endurskoðun fyrir Sparisjóð Mýrasýslu árin 2005–2008. Ábyrgðarmenn endurskoðunarinnar sem árituðu ársreikninga sjóðsins fyrir hönd KPMG hf. voru Jón S. Helgason og Hlynur Sigurðsson fyrir árin 2005 og 2006 en Hlynur áritaði einn ársreikningana 2007 og 2008.

Ársreikningar sparisjóðsins til og með 2006 voru gerðir í samræmi við ákvæði laga um ársreikninga og reglna nr. 834/2003 um reikningsskil lánastofnana, en sjóðurinn tók upp alþjóðlega reikningsskilastaðla (IFRS) árið 2007 og voru ársreikningar fyrir það ár og árið 2008 gerðir í samkvæmt þeim.

Endurskoðun ársreiknings Sparisjóðs Mýrasýslu fyrir árið 2005 var framkvæmd í samræmi við góða endurskoðunarvenju, en ársreikningarnir 2006–2008 voru endurskoðaðir í samræmi við alþjóðlega endurskoðunarstaðla (ISA). Álit endurskoðendans á ársreikningunum 2005–2007 var án fyrirvara, en ársreikningur fyrir 2008 var hins vegar áritaður með fyrirvara. Í fyrirvaranum var greint frá því að eigið fé sparisjóðsins í árslok væri neikvætt. Síðan sagði:

Þá var stofnfé Sparisjóðs Mýrasýslu ásamt öllum eignum sparisjóðsins selt til Nýja Kaupþings banka hf. í apríl 2009. Sparisjóðurinn er í greiðslustöðvun og unnið er að nauðasamningum við lánardrottna og er fyrirhugað að sjóðurinn sameinist Nýja Kaupþingi banka gangi samningar eftir sbr. umfjöllun í skýringum 54–55 með ársreikningi. Framsetning eigna og skulda miðast við áframhaldandi starfsemi. Ekki er víst að mat eigna og skulda samstæðunnar væri með sama hætti ef rekstur samstæðunnar legðist af. Óvissa um ofangreind atriði valda því að vafi leikur á rekstrarhæfi samstæðunnar.

Á árunum 2005 og 2006 voru útlán til viðskiptamanna færð til eignar með áföllnum vöxtum, verðbótum og gengismun í árslok. Verðtryggð útlán voru færð miðað við vísitölur sem tóku gildi í byrjun næsta árs eftir reikningsskiladagsetningu og gengistryggð lán miðuðust við gengi viðkomandi gjaldmiðla í lok reikningsskilatímabils.

Árið 2007 tók sparisjóðurinn upp alþjóðlega reikningsskilastaðla en við það breyttist aðferðin er laut að skráningu og mati útlána. Upphafleg skráning var á gangvirði en mat í árslok miðaðist við afskrifað kostnaðarverð miðað við virka vexti. Áfallnir vextir í árslok voru færðir sem hluti af bókfærðu verði útlána. Mat á útlánum breyttist við upptöku IFRS og við tók önnur nálgun á mati útlána. Svokallað virðisrýrnunarpróf var framkvæmt þegar fyrir lágu upplýsingar um að útlán fengjust ekki greidd að fullu. Vænt sjóðsflæði eignarinnar átti að núvirða til reikningsskiladags og mismuninn skyldi færa á afskriftareikning til lækkunar á útlánum.

Útlán sparisjóðsins voru að jafnaði um 73–80% af heildareignum í árslok 2005−2008. Afskriftareikningur útlána sem hlutfall af heildarútlánum var á bilinu 2–3% til ársloka 2007, en á árinu 2008 hækkaði hlutfallið í 28,8%. Athugasemdir voru gerðar um afskriftareikning útlána í endurskoðunarskýrslu ársins 2005 en þar kom meðal annars fram:

Við viljum ítreka þá skoðun okkar að sparisjóðurinn þurfi að setja vinnureglur um hvernig skuli staðið að almennum framlögum í afskriftareikning og flokka í því sambandi útlán sparisjóðsins með tilliti til áhættu.

Ábending kom fram um að stór hluti útlána var færður sem endalega tapaður á árinu en var ekki áður færður í sérgreindan afskriftareikning. Í endurskoðunarskýslu ársins 2006 benti endurskoðandi á mikilvægi þess að stjórnendur sparisjóðsins sýndu varkárni í veitingu lána, en þar kom fram eftirfarandi:

Vanskil útlána hafa heldur lækkað þrátt fyrir aukin heildarútlán en nauðsynlegt er að fylgjast grannt með þróuninni. Þá er brýnt að stjórnendur gæti að tryggingastöðu sinni gagnvart þessum viðskiptamönnum sem eru í vanskilum og reyni þannig að lágmarka tapshættu sjóðsins.

Meginniðurstaða endurskoðanda um útlán í endurskoðunarskýrslu ársins 2007 var eftirfarandi:

Framlag í afskriftareikning útlána nam 579 mill. kr. en það svarar til 75% af hreinum vaxtatekjum samstæðunnar. Við viljum ítreka athugasemdir okkar um að unnin verði skýrsla í tengslum við uppgjör samstæðunnar þar sem gerð er grein fyrir stöðu og þróun afskriftamála á hverjum tíma.

Tafla 10 sýnir þróun afskriftareiknings útlána sparisjóðsins á árunum 2005−2008, en útlánasafn sparisjóðsins var um 73% af heildareignum hans í árslok 2007. Niðurfærsluhlutfallið eða staða á afskriftareikningi sem hlutfall af útlánum var að jafnaði um 2% fram til ársloka 2007 en hækkaði verulega á árinu 2008. Í skýrslum til FME á árinu 2008 kom fram að í lok ársins 2007 voru um 8% af útlánum sjóðsins með veði í óskráðum hlutabréfum og 8 aðilar voru með áhættuskuldbindingar umfram 10% af lögbundnu eigin fé sjóðsins, eða samtals yfir 80%.

7.4.7 Endurskoðun hjá öðrum sparisjóðum

Hér er fjallað sameiginlega um endurskoðun ársreikninga smærri sparisjóðanna, þó með þeirri undantekningu að sérstök umfjöllun er um endurskoðun útlána hjá Sparisjóði Vestmannaeyja og Sparisjóði Bolungarvíkur.

KPMG hf. sá um ytri endurskoðun fyrir alla smærri sparisjóðina á árunum 2005–2009, nema Sparisjóð Vestmannaeyja, þar sem Deloitte hf. annaðist endurskoðunina, og Sparisjóð Bolungarvíkur, þar sem Endurskoðun Vestfjarða ehf. annaðist endurskoðunina. Ársreikningarnir voru flestir gerðir í samræmi við lög um ársreikninga og reglur um reikningsskil lánastofnanna en ársreikningar Sparisjóðs Vestmannaeyja og Sparisjóðs Bolungarvíkur voru gerðir samkvæmt alþjóðlegum reikningsskilastöðlum (IFRS) frá og með 2007. Árið 2005 var í öllum tilvikum endurskoðað samkvæmt góðri endurskoðunarvenju en frá og með 2006 var endurskoðað í samræmi við alþjóðlega endurskoðunarstaðla (ISA).

Áritanir endurskoðenda sparisjóðanna á ársreikninga árin 2005–2007 voru allar með hefðbundnum hætti þar sem enginn fyrirvari var gerður. Þegar syrta tók í álinn í íslensku efnahagslífi á árinu 2008 kvað hins vegar við annan tón í áritunum endurskoðenda þessara sparisjóða. Í árslok 2008 uppfylltu sex af smærri sparisjóðunum ekki lögboðið lágmarkshlutfall eiginfjár í samræmi við ákvæði laga um fjármálafyrirtæki. Endurskoðendur tveggja þeirra höfðu gert fyrirvara við áritun á ársreikning 2008 en báðir sjóðirnir voru með neikvætt eiginfjárhlutfall. Hinir fjórir voru undir lögboðnu eiginfjárhlutfalli en þó ekki með neikvætt eiginfjárhlutfall, og áritanir endurskoðenda voru fyrirvaralausar með ábendingarmálsgrein sem vísaði í umfjöllun í skýringum um að sparisjóðirnir uppfylltu ekki lögboðið eiginfjárhlutfall.

Ábendingarmálsgrein sem fylgdi með áritun endurskoðenda Sparisjóðs Vestmannaeyja, sem voru frá Deloitte hf., á ársreikning 2008 var svohljóðandi:

Viljum við vekja athygli á skýringu 35 með ársreikningnum þar sem fram kemur að í árslok 2008 var eiginfjárhlutfall Sparisjóðs Vestmannaeyja eins og það er skilgreint í 84 gr. laga nr. 161/2002 3,83% og því undir hinu lögboðna 8% hlutfalli. Stjórn hefur verið að vinna að úrbótum meðal annars sem snúa að aukningu stofnfjár og einnig hefur sjóðurinn sótt um stofjárframlag til ríkisvaldsins byggt á neyðarlögunum nr. 125/2008. Ef aðgerðir stjórnar ganga ekki eftir og ríkisvaldið ákveður að nýta ekki heimildina í neyðarlögunum til aukningar stofnfjár í Sparisjóði Vestmannaeyja verður að draga rekstrarhæfi Sparisjóðsins í efa.

Ábendingarmálsgrein sem fylgdi með áritun endurskoðanda Sparisjóðs Bolungarvíkur, sem var frá Endurskoðun Vestfjarða ehf., á ársreikning 2008 var svohljóðandi:

Við viljum vekja athygli á skýringu nr. 38 með ársreikningnum þar sem fram kemur að í árslok 2008 var eiginfjárhlutfall Sparisjóðs Bolungarvíkur, eins og það er skilgreint í 84 gr. laga nr. 161/2002, 2,41% eða undir hinu lögboðna 8% hlutfalli. Stjórn Sparisjóðsins hefur verið að vinna að úrbótum sem snúa meðal annars að umsókn um aðstoð frá ríkinu, byggt á neyðarlögunum nr. 125/2008. Einnig er stjórn Sparisjóðsins að vinna að frekari aukningu stofnfjár sem og sölu íbúðabréfa til Íbúðalánasjóðs. Ef aðgerðir stjórnar ganga ekki eftir og Ríkisvaldið ákveður að aðstoða ekki Sparisjóðinn í Bolungarvík, ríkir óvissa um framtíðarhorfur Sparisjóðsins.

Ábendingarmálsgrein í áritun endurskoðenda frá KPMG á ársreikninga Afls sparisjóðs og Sparisjóðs Ólafsfjarðar 2008 var þannig:

Án þess að gera fyrirvara við álit okkar viljum við vekja athygli á skýrslu stjórnar og skýringu nr. […] í ársreikningnum þar sem greint er frá því að sjóðurinn uppfyllir ekki lágmark um eiginfjárhlutfall sem reiknað er samkvæmt lögum um fjármálafyrirtæki og fjallað er um þær aðgerðir sem eigendur og stjórn sjóðsins hafa gripið til í því skyni að lagfæra eiginfjárhlutfallið.

Endurskoðandi Sparisjóðs Norðfjarðar setti svohljóðandi fyrirvara í áritun sína á ársreikning 2008:

Eins og fram kemur í skýrslu stjórnar nemur tap ársins 815,5 millj. kr. og eigið fé sparisjóðsins nam um 135,2 millj. kr. í árslok 2008. Eiginfjárhlutfall eins og það er reiknað skv. lögum um fjármálafyrirtæki er neikvætt um 0,9% en má ekki vera lægra en 8%.
Eins og fram kemur í skýringu 33 með ársreikningnum hafa atburðir í íslensku efnahagslífi orðið til þess að sparisjóðurinn tapaði verulegum fjárhæðum á fjárfestingum í verðbréfum og hefur það haft mikil áhrif á eigið fé hans. Því leikur vafi á rekstrarhæfi sjóðsins. Ekki er víst að mat eigna og skulda sparisjóðsins væri með sama hætti ef rekstur hans legðist af. Framsetning eigna og skulda í efnahagsreikningi miðast þó við áframhaldandi rekstur.

Endurskoðendur Sparisjóðs Þórshafnar og nágrennis settu sams konar fyrirvara í áritun sína, en þar var um að ræða sömu endurskoðendur og hjá Sparisjóði Norðfjarðar.

Þegar endurskoðandi setur ábendingarmálsgrein með áliti er það til að draga fram ákveðnar upplýsingar sem hann telur nauðsynlegt að koma á framfæri. Ábendingarmálsgrein á við þegar: a) ársreikningurinn gefur glögga mynd af fjárhagsstöðu en endurskoðandinn vill benda lesanda reikningsskilanna á ákveðin atriði sem hann telur mikilvæg fyrir lesendur til að þeir geti lesið úr ársreikningnum og skilið hann; b) endurskoðandinn vill benda lesanda reikningsskilanna á mikilvæg atriði er snúa að endurskoðuninni sjálfri, ábyrgð endurskoðandans og áritun.

Ein af grundvallarforsendum ársreiknings er að rekstrarhæfi einingarinnar sem leggur fram ársreikninginn sé til staðar. Stjórnendur eiga á hverjum tíma að leggja mat á rekstrarhæfi og áætlanir stjórnenda til að tryggja það. Endurskoðandanum ber hins vegar að fara yfir matið og áætlanirnar og leggja sjálfstætt mat á rekstrarhæfið.

Ef það er mat stjórnenda að fyrirtæki sé rekstrarhæft en að um það ríki óvissa, ber þeim að geta um það í skýringum með ársreikningnum. Ef endurskoðandinn er sammála mati stjórnenda á rekstrarhæfi og um framsetninguna, ber honum að setja ábendingarmálsgrein um það með í áritun sína. Ef endurskoðandinn telur að ekki sé nægjanlega skýrt frá óvissu af þessu tagi í ársreikningnum eða hann telur að fyrirhugaðar aðgerðir stjórnenda sparisjóðsins til að koma rekstrarhæfinu í lag muni ekki duga, ber honum að gera fyrirvara eða gefa neikvætt álit um slíkt í áritun sinni.

Ljóst er að óvíst var um áframhaldandi rekstrarhæfi þeirra sparisjóða sem voru með eiginfjárhlutfall undir lögboðnu lágmarki í árslok 2008. Endurskoðendur þeirra allra bentu á það í áritunum sínum, ýmist með ábendingu eða með fyrirvara.

Tvær af framangreindum áritunum voru með fyrirvara. Rannsóknarnefndin fær ekki séð út frá viðkomandi ársreikningum hvers vegna þessir fyrirvarar voru gerðir. Í báðum þessum ársreikningum greindu stjórnendur frá áætlunum sínum um hvernig eiginfjárhlutfallið skyldi bætt og rekstrarhæfi sjóðanna þar með tryggt, og er ekki að sjá að þær séu síður trúverðugar en hjá sparisjóðunum sem fengu fyrirvaralausa áritun með ábendingu.

7.4.7.1 Endurskoðun á verðbréfum 2005–2010

Eignarhlutur sparisjóðanna í verðbréfum jókst töluvert á árunum 2005 til og með 2010 eins og áður hefur verið rakið í þessari skýrslu. Endurskoðendur höfðu í mörgum tilvikum af þessu töluverðar áhyggjur vegna þess að afkoma af kjarnastarfsemi sjóðanna var ekki nægjanleg.

Í endurskoðunarskýrslu vegna endurskoðunar Sparisjóðs Bolungarvíkur árin 2005 og 2006 gaf að líta dæmi um slíkar áhyggjur:

Góð afkoma sparisjóðsins á árinu 2005 er mikið ánægjuefni. Eins og yður er kunnugt og áður hefur komið fram hér að framan má nánast eingöngu rekja þessa góðu afkomu til hagnaðar af hlutabréfaeign sparisjóðsins. Annar rekstur sparisjóðsins, þ.e. kjarnastarfsemi hans, skilar litlu sem engu. Óraunhæft er að ætla að hlutabréfaeign sparisjóðsins verði eins arðvænleg næstu árin og á síðustu árum

Á árunum fyrir fall bankanna 2008 skilaði kjarnastarfsemi sparisjóðanna ekki þeirri afkomu sem að var stefnt. Þótt endurskoðendur hefðu uppi varnarorð, héldu stjórnendur sparisjóðanna engu að síður áfram á sömu braut og fyrr. Í endurskoðunarskýrslu um ársreikning Sparisjóðs Svarfdæla fyrir árin 2005–2007 voru athugsemdir á svipuðum nótum:

Þriðjungur af heildareignum sjóðsins eru veltuhlutabréf og því er sparisjóðurinn viðkvæmur fyrir breytingum á verðbréfamörkuðum þar sem sveiflur í verði bréfana koma yfirleitt fyrr fram en breytingar á innláns- og útlánsvöxtum. Við ítrekum mikilvægi þess
að stjórn sjóðsins taki formlega ákvörðun um með hvaða hætti og í hvaða mæli hún vilji að sjóðurinn stundi viðskipti með hlutabréf.

Í endurskoðunarskýrslu 2007 vegna endurskoðunar ársreiknings Sparisjóðs Svarfdæla fyrir árið 2007 segir einnig:

Kostnaður í hlutfalli af hreinum rekstrartekjum er 58,5% en á árinu 2006 var sama hlutfall 15,1%. Ef áhrif gengishagnaðar og hlutdeildar í afkomu Icebank hf. á hreinar rekstrartekjur eru færðar út kemur í ljós að þetta hlutfall er 148,4% á árinu 2007 samanborið við 103,9% á fyrra ári og hækkar því umtalsvert milli ára. Grunnrekstur sparisjóðsins, þ.e. útlánastarfsemin og þjónustan henni tengd, stendur því ekki undir rekstrarkostnaði

Þrátt fyrir athugasemdirnar í endurskoðunarskýrslu Sparisjóðs Svarfdæla, jókst verðbréfaeign sparisjóðsins sem hlutfall af heildareignum úr 30,1% á árinu 2005 í 54,1% á árinu 2007. Þvert á þessar viðvaranir var eignarhlutur sparisjóðsins í Icebank hf. aukinn á árinu 2007 og færður úr flokknum eignarhlutir í hlutdeildarfélögum yfir í veltubréf. Um var að ræða óskráða hlutabréfaeign, en í lok ársins 2008 var hluturinn metinn verðlaus og því færður í gegnum rekstrarreikninginn sem tap upp á 671 milljón króna. Þrátt fyrir varnaðarorð endurskoðandans fjárfesti sjóðurinn fyrir 340 milljónir króna í VBS fjárfestingarbanka hf. á árinu 2007 og í Saga Capital hf. fyrir 345 milljónir króna.

7.4.7.2 Endurskoðun á útlánum 2005–2010

Útlán voru og eru stærsti einstaki liðurinn í ársreikningum sparisjóðanna. Af þeim sökum er eðlilegt að endurskoðunin beinist að miklu leyti að þeim lið. Umfjöllun í endurskoðunarskýrslum almennt endurspeglaði það og yfirleitt var fjallað um afskriftareikning útlána og þær hreyfingar sem áttu sér stað á honum. Tap á útlánum er svo til óumflýjanlegur fylgifiskur útlánastarfsemi en hversu mikið það verður veltur meðal annars á áhættu útlánanna. Hversu mikil áhættan er ræðst aftur á móti af greiðslugetu skuldara til að mynda og svo þeim tryggingum sem standa að baki útlánunum.

Á árinu 2008 varð efnahagshrun sem leiddi af sér að vanskil útlána jukust og raunvirði undirliggjandi veða lækkaði. Eignavirði lækkaði og útlán hækkuðu vegna verðtryggingar og gengislækkunar íslensku krónunnar. Vegna þessara ytri aðstæðna má teljast eðlilegt að sparisjóðirnir yrðu að jafnaði fyrir útlánatapi, eins og raun varð.

7. 4.7. 2.1 Endurskoðun á útlánum Sparisjóðs Vestmannaeyja

Gjarnan er afskriftareikningur útlána birtur sem hlutfall af heildarútlánum. Við aðstæður eins og þær voru á árinu 2008 þykir eðlilegt að þetta hlutfall verði hærra en í venjulegu árferði og sú varð raunin. Á árinu 2008 var það hins vegar jafnhátt og næstu ár á undan hjá Sparisjóði Vestmannaeyja. Hjá öllum sparisjóðunum var þetta hlutfall að meðaltali um 15%, en var 5,6% hjá Sparisjóði Vestmannaeyja.

Framlag í afskriftareikning útlána hjá Sparisjóði Vestmannaeyja á árinu 2008 var lágt í ljósi aðstæðna. Í reglum nr. 532/2003 um endurskoðun fjármálafyrirtækja er að finna kröfur sem gerðar eru til endurskoðenda fjármálafyrirtækja og um þær upplýsingar sem þeim ber að gefa upp í endurskoðunarskýrslum. Um framkvæmd og umfang endurskoðunar kemur fram að við endurskoðun ársreiknings skal endurskoðandi kanna sérstaklega stöðu stærstu lánþega með tilliti til greiðslutrygginga og afskriftaþarfar, sbr. 6. gr. reglnanna. Í 13. gr. kemur fram að í skýrslu endurskoðanda skuli m.a. gera grein fyrir hvernig staðið hefur verið að könnun á útlánum, en útlánin voru um 51−67% af heildareignum sjóðsins. Í endurskoðunarskýrslum Sparisjóðs Vestmannaeyja 2005−2009 var lítil sem engin umfjöllun um hvaða endurskoðunaraðgerðir voru framkvæmdar við skoðun á stöðu hjá stærstu lánþegum sjóðsins. Umfjöllunin einskorðaðist við framlög á afskriftareikning og við sundurliðun á framlögum í sérgreindan afskriftareikning og hreyfingar á afskriftareikningi.

Erfitt er að segja til um hvort mat stjórnenda á afskriftaþörfinni á hverjum tíma sé nægjanlegt en endurskoðendur þurfa að vera varkárir og gagnrýnir við yfirferð og endurskoðun útlána á tímum eins og uppi voru á árinu 2008. Umfjöllun um þessi atriði skorti í endurskoðunarskýrslu Sparisjóðs Vestmannaeyja árið 2008.

Sparisjóður Vestmannaeyja gerði ársreikning sinn í samræmi við alþjóðlega reikningsskilastaðla (IFRS) frá og með árinu 2007. Staðall IFRS 7, Fjármálagerningar: Skýringar, sem gilti fyrir reikningsskilatímabil frá 1. janúar 2007 og síðar, gerir kröfu um hvaða skýringar eigi að vera í ársreikningum, en um er að ræða lágmarkskröfur. Markmið með staðlinum er að tryggja að til staðar séu upplýsingar í ársreikningum sem gefa lesendum reikningsskila mynd af þeirri fjárhagslegu áhættu sem fylgir starfseminni. Ársreikningar eru taldir vera ófullnægjandi eða jafnvel villandi án upplýsinga um áhættu sem fylgir fjármálagerningum.

Rannsóknarnefndin getur ekki fullyrt hvort upplýsingar í skýringum sem snúa að útlánum og þeirri áhættu sem var bundin þeim hafi verið fullnægjandi í ársreikningnnum. Til að mynda skorti í ársreikninginn upplýsingar um þær tryggingar sem lágu til grundvallar útlánum, bæði útlánum í skilum og í vanskilum, og nánari greiningu á virðisrýrðum útlánum og stöðu útlána sem voru í vanskilum en ekki virðisrýrð. Þær upplýsingar gátu haft þýðingu fyrir lesendur ársreikningsins í árslok 2007 og 2008.

7. 4.7.2.2 Endurskoðun á útlánum Sparisjóðs Bolungarvíkur

Sparisjóður Bolungarvíkur gerði ársreikninga sína í samræmi við alþjóðlega reikningsskilastaðla (IFRS) frá 2007 en fram að því fylgdi hann lögum um ársreikninga og reglum um reikningsskil sparisjóða. Mat á útlánum breyttist eftir upptöku IFRS og við tók önnur nálgun á mati útlána sjóðsins og var svokallað virðisrýrnunarpróf framkvæmt þegar fyrir lágu upplýsingar um að útlán fengjust ekki greidd að fullu. Vænt sjóðsflæði eignarinnar átti að núvirða til reikningsskiladags og mismuninn átti að færa á afskriftareikning til lækkunar á útlánum. Afskriftareikningi var skipt upp í sérgreindan afskriftareikning þar sem sérhvert lán sem talið var tapað að fullu eða að hluta var tekið sérstaklega fyrir, og í almennan afskriftareikning miðað við sögulega tapsreynslu.

Útlán sparisjóðsins voru um 50−66% af heildareignum áranna 2005−2009. Afskriftareikningur útlána sem hlutfall af heildarútlánum var að jafnaði um 4% frá 2005 til 2007 en hækkaði í 11,1% á árinu 2008, 34,7% á árinu 2009 og 38,1% á árinu 2010. Þegar fyrir liggja ytri eða innri atburðir sem geta bent til þess að útlán hafi rýrnað í virði, ber samkvæmt IFRS að framkvæma virðisrýrnunarpróf til að athuga hvort útlán hafi rýrnað í virði. Þegar sýnt þykir eftir virðisrýrnunarpróf að útlánin hafi rýrnað í virði ber að færa vænta tapið á afskriftareikning. Efnahagshrunið sem varð á árinu 2008 er dæmi um ytri atburð sem gæti bent til virðisrýrnunar á útlánum. Endurskoðandinn hefði ef til vill átt að gera ráð fyrir því við endurskoðunina að afskriftareikningur sem hlutfall af heildarútlánum myndi hækka verulega á milli ára. Framlag á afskriftareikning sjóðsins hækkaði sem hlutfall af heildarútlánum úr 4,3% árið 2007 í 11,1% árið 2008 og síðan aftur í 34,7% árið 2009. Ef litið er á meðaltal þessa hlutfalls hjá öðrum sparisjóðum kemur í ljós að það hækkaði úr 2% á árinu 2007 í 15% á árinu 2008 og í 25% á árinu 2009.

Tafla 12 sýnir þróun afskriftareiknings útlána sparisjóðsins á árunum 2005–2009 en útlánasafnið var um 55% af heildareignum í árslok 2007. Niðurfærsluhlutfallið, eða staða afskriftareiknings sem verið hlutfall af útlánum, var að jafnaði um 3–4% fram til 2007 en hækkaði verulega á árinu 2008.

Reikningsskilastaðall IFRS 7, Fjármálagerningar: Skýringar, sem gilti fyrir reikningsskilatímabil frá 1. janúar 2007 og síðar, gerir kröfu um hvaða skýringar eigi að vera í ársreikningum, en um er að ræða lágmarkskröfur. Markmið með staðlinum er að tryggja að til staðar séu upplýsingar sem gefa lesendum reikningsskila mynd af þeirri fjárhagslegu áhættu sem fylgir starfseminni. Ársreikningar eru taldir vera ófullnægjandi eða jafnvel villandi án upplýsinga um áhættu sem fylgir fjármálagerningum.

Rannsóknarnefndin getur ekki fullyrt hvort upplýsingar í skýringum sem snúa að útlánum og þeirri áhættu sem var bundin þeim hafi verið fullnægjandi í ársreikningnnum. Til að mynda skorti í ársreikninginn upplýsingar um þær tryggingar sem lágu til grundvallar útlánum, bæði útlánum í skilum og í vanskilum, og nánari greiningu á virðisrýrðum útlánum og stöðu útlána sem voru í vanskilum en ekki virðisrýrð. Þær upplýsingar gátu haft þýðingu fyrir lesendur ársreikningsins í árslok 2007 og 2008.

Í endurskoðunarskýrslu um ársreikning Sparisjóðs Bolungarvíkur 2008 var fjallað um útlán sjóðsins:

Mikið af vinnu okkar hefur farið í að leggja mat á eignir sparisjóðsins. Slíkt mat er mjög erfitt eftir hið mikla hrun sem orðið hefur hér á Íslandi í kjölfar gjaldþrots þriggja stærstu bankannna á Íslandi. Þrátt fyrir mjög miklar niðurfærslur og afskriftir eigna teljum við hættu vera á frekari útlána- og eignatöpum

Síðan fylgdi samantekt um lán sem endurskoðandi taldi að þyrftu frekari afskrifta með. Þrátt fyrir að endurskoðandi sjóðsins hafi metið það svo að niðurfærsla á útlánum væri vanmetin í ársreikningi, gaf hann álit án fyrirvara og án ábendinga um óvissu um mat á útlánum. Ekki var sett ábendingarmálsgrein með fyrirvaralausu áliti um að veruleg óvissa ríkti um mat eigna. Nokkurs ósamræmis gætir milli skýrslu endurskoðanda og álitsins sem gefið var á ársreikninginn. Þegar endurskoðandinn telur að virðisrýrnun útlána sé umtalsvert meiri en stjórnendur telja, má telja að endurskoðandinn ætti að setja fyrirvara um virðisrýrnun útlána við áritun sína.

Þess ber að geta að í júní 2009 gerði endurskoðunarfyrirtækið PwC fjárhagslega áreiðanleikakönnun á ákveðnum þáttum í efnahagsreikningi Sparisjóðs Bolungarvíkur fyrir Fjármálaeftirlitið. Niðurstaða þeirrar könnunar, hvað varðar útlán, var hækkun á niðurfærslu útlána um 619 milljónir króna. Þess skal þó getið að sérstakur fyrirvari var settur um niðurstöðu mats á virðisrýrnun útlána, en þar kom eftirfarandi fram:

Mat á aukinni þörf á niðurfærslu má ekki túlka sem svo að niðurfærsla hafi verið röng heldur kann hún öll að stafa af breyttum aðstæðum á árinu 2009.80

7.5 Samantekt og ályktanir rannsóknarnefndar um endurskoðun hjá sparisjóðunum

Ytri endurskoðun hjá sparisjóðunum var að mestu leyti í höndum eins endurskoðunarfyrirtækis og lengst af bar einn og sami endurskoðandinn ábyrgð á endurskoðun ársreikninga flestra þeirra sparisjóða sem fyrirtækið veitti slíka þjónustu. Sami endurskoðandi sá einnig um endurskoðun hjá flestum þeirra félaga og fyrirtækja sem voru í sameign og undir stjórn sparisjóðanna. Þannig hafði með tímanum safnast upp reynsla og þekking á þessu verkefni.

Lög leggja ekki bann við því að endurskoðandi endurskoði ársreikninga margra fyrirtækja í sömu grein og á því tímabili sem rannsóknin tekur til voru lagareglur um tímatakmörk á samningssamband endurskoðanda við viðskiptavini sína ekki farnar að hafa áhrif. Mikil samþjöppun og langt samningssamband kann þó að vekja spurningar um óhæði endurskoðanda, ekki síst ef mikil fjárhagsleg og stjórnunarleg tengsl eru milli þeirra fyrirtækja sem hann endurskoðar. Óhæði hans í reynd kann að vera til staðar en þessi staða kann að hafa áhrif á óhæði í ásýnd. Það hvílir algjörlega á faglegri dómgreind endurskoðandans að meta hvort aðstæður eru til þess fallnar að draga úr trúverðugleika hans.

Reikningar frá endurskoðunarfyrirtækjum til sparisjóðanna báru það með sér að þau hefðu unnið margvísleg verk fyrir þá, önnur en að endurskoða. Flestir sparisjóðirnir keyptu til dæmis innri endurskoðun af sama endurskoðunarfyrirtæki og sá um ytri endurskoðunina. Það var heimilt til ársins 2010. Sum verk, eins og þau voru tilgreind á reikningum til sparisjóðanna, voru þess eðlis að spurningar vöknuðu um hvort óhæði endurskoðendanna hefði verið hafið yfir vafa. Þar var um að ræða verkþætti eins og vinnu við afstemmingar, gerð reikningsskila, gerð ársreiknings, gerð samstæðureikningsskila og gerð árshlutareiknings.

Margir greindu frá því í skýrslum sínum fyrir nefndinni að endurskoðendurnir hefðu samið ársreikninginn. Margar vísbendingar um það var jafnframt að finna í stjórnarfundargerðum sparisjóða. Þeir endurskoðendur sem rannsóknarnefndin tók skýrslur af vísuðu því algjörlega á bug. Þeir kváðust hins vegar aðeins hafa veitt sumum sparisjóðum tæknilega aðstoð við lokafrágang ársreikningsins. Þeir bentu á að margir minni sparisjóðirnir væru það fáliðaðir að þeir væru þess naumast umkomnir að ganga hjálparlaust frá ársreikningi sínum. Í þessu sambandi kom fram að sparisjóðirnir hefðu jafnan haft mikið samstarf sín í milli og aðstoðað hver annan á ýmsa lund og einnig hefðu þeir stundum getað sótt hjálp til sérfræðinga í Sparisjóðabankanum.

Nokkuð bar á því í skýrslum sparisjóðamanna fyrir nefndinni að endurskoðendur hefðu átt virkan þátt í ýmsu reikningshaldslegu mati, svo sem á framlagi í afskriftareikning útlána og á virði óskráðra hlutabréfa í eigu sparisjóðanna. Þessu mótmæltu endurskoðendurnir eindregið.

Endurskoðunarkostnaður sparisjóðanna í heild hækkaði mikið á árunum 2006–2008. Það skýrðist einkum af aðstoð endurskoðenda vegna stofnfjáraukningar í mörgum sparisjóðum og sameiningar nokkurra sparisjóða, og einnig af innleiðingu alþjóðlegra reikningsskilastaðla (IFRS) sem stóð yfir á árunum 2005–2007. Stóru sparisjóðunum var öllum skylt að gera upp í samræmi við staðlana, en fæstum hinna minni. Sumir þeirra tóku samt upp uppgjör í samræmi við IFRS og báru stjórnendur þeirra það fyrir rannsóknarnefndinni að endurskoðendurnir hefðu hvatt til þess. Þessu höfnuðu viðkomandi endurskoðendur alveg í skýrslum sínum fyrir nefndinni.

Í framangreindum vitnisburði í skýrslum fyrir nefndinni birtist vandi minni sparisjóðanna við að uppfylla allar þær kröfur um upplýsingagjöf sem lög og reglur leggja þeim á herðar. Þeir gátu átt erfitt með að verða við þeim nema með aðkeyptri aðstoð. Til þess að tryggja hlutlægni sem best hefðu sparisjóðirnir getað leitað til annarra en endurskoðenda sinna eftir aðstoð við reikningsskilin. Á sama hátt hefðu endurskoðendurnir getað vísað verkbeiðnum af þessu tagi frá sér. Vísbendingar um að aðstoð endurskoðendanna hafi ekki einskorðast við hrein endurskoðunarstörf eru sterkar, en sú tilhögun sem framar er lýst er um margt skiljanleg í tilviki sparisjóðanna á Ísland í ljósi starfsumhverfis þeirra og aðstæðna.

Rannsóknarnefndin kannaði hvernig staðið var að endurskoðun á mati einstakra sparisjóða á útlánasafni og virði óskráðra verðbréfa. Þá voru ábendingar í endurskoðunarskýrslum skoðaðar og hugað að hvort ósamræmi væri milli þeirra og áritunar endurskoðenda á ársreikninga. Kannað var hvernig endurskoðendur sparisjóðanna gerðu grein fyrir athugun sinni á útlánum og afskriftaþörf vegna þeirra í endurskoðunarskýrslum um ársreikningana. Niðurstaðan var að takmarkaða umfjöllun var að finna í endurskoðunarskýrslunum um það hvaða endurskoðunaraðgerðir voru framkvæmdar við skoðun á stöðu stærstu lántakenda sparisjóðanna. Þetta gilti svo til almennt fyrir minni sparisjóðina framan af. Hjá stærri sparisjóðunum voru heldur fyllri upplýsingar gefnar.

Í endurskoðunarskýrslum KPMG um ársreikninga 2005 og 2006 og jafnvel 2007 var algengt að sjá athugasemd um að stefna bæri að því að framlagið á afskriftareikninginn færi ekki yfir 1%. Stjórnendur voru hvattir til þess að reyna að lækka framlagið, ef það var hærra, en að gæta þess að það færi ekki yfir 1%, ef það var lægra. Í endurskoðunarskýrslum var lögð áhersla á mikilvægi þess að draga úr framlögum í afskriftareikning til að ná fram viðunandi arðsemi, en lágt framlag í afskriftareikning væri forsenda þess að sparisjóðirnir gætu skilað ásættanlegri arðsemi fyrir stofnfjáreigendur. Þá var það talið nauðsynlegt til að sparisjóður gæti sinnt hlutverki sínu sem lánastofnun. Rannsóknarnefndin bendir á að við stöðu lána er brugðist með framlagi í afskriftareikning. Afskriftaframlag er því afleidd stærð en stýrir ekki öðrum ákvörðunum. Þá getur rannsóknarnefndin með engu móti tekið undir að svo lágt afskriftaframlag í þeim tilgangi að skila viðunandi eða ásættanlegri arðsemi sé nauðsynleg svo sparisjóðurinn geti sinni hlutverki sínu. Í skýrslum fyrir rannsóknarnefndinni höfnuðu endurskoðendurnir því algerlega að hafa reynt að hafa áhrif á hve hátt afskriftaframlagið var sem hlutfall af útlánum.

Rannsóknarnefndin telur vafa geta leikið á því hvort skýrslur endurskoðenda vegna endurskoðunar ársreikninga Byrs sparisjóðs á árunum 2007 og 2008 hafi uppfyllt þær kröfur sem gerðar eru í reglum Fjármálaeftirlitsins. Nær ekkert var fjallað um hvernig staðið var að mati á niðurfærslu útlána eða um stærstu sérgreindar afskriftir. Hagnaður Byrs sparisjóðs árið 2007 var jafnhár gangvirðishækkun og söluhagnaði af eignarhlut sparisjóðsins í Icebank hf. og byggðist hin háa arðgreiðsla vegna ársins á hagnaðinum. Sparisjóðurinn lánaði kaupendum Icebank-hlutarins drjúgan hluta söluverðsins án annarra veða en í hlutabréfunum sjálfum. Þegar gerð ársreiknings lauk var ljóst orðið að tryggingar fyrir þessum lánum höfðu rýrnað verulega. Frá þessu var ekki greint nægjanlega skýrt í ársreikningi og hefðu endurskoðendur átt að gagnrýna það með einhverjum hætti að slíkar upplýsingar skorti. Þá var uppi slík óvissa um mat á útlánasafni Byrs sparisjóðs í árslok 2008 að rök hníga að því að endurskoðendur hefðu, að öllu óbreyttu, mátt setja fyrirvara í áritun sína um það atriði.

Í ársreikningi Sparisjóðs Reykjavíkur og nágrennis 2007 voru takmarkaðar upplýsingar í skýringunum um þá áhættu sem fylgdi verðbréfaeign sparisjóðsins og óvíst hvort þær uppfylltu þær lágmarkskröfur sem gerðar eru um skýringar í samræmi við alþjóðlega reikningsskilastaðla (IFRS). Skortur á slíkum upplýsingum dregur úr upplýsingagildi ársreikningsins. Tryggja hefði mátt að þessar upplýsingar fylgdu ársreikningnum og hefðu endurskoðendur sparisjóðsins mátt gagnrýna að þessar upplýsingar skorti, eftir atvikum með því að hafa fyrirvara í áritun sinni eða með öðrum hætti.

Í ársreikninga Sparisjóðsins í Keflavík 2007 og 2008 skorti upplýsingar um mikilsverð atriði, svo sem um útlánaháættu, þá áhættu sem fylgdi verðbréfaeign sparisjóðsins og viðskipti við Kistu – fjárfestingarfélag ehf. á árinu 2007. Þær upplýsingar gátu haft mikilvæga þýðingu fyrir lesendur ársreikninganna. Hefðu endurskoðendur sparisjóðsins mátt gagnrýna það með einhverjum hætti að þær skorti. Þeim var kunnugt um að innra eftirliti með útlánum var verulega áfátt. Það kallaði á meiri árvekni af hálfu endurskoðendanna.

Í endurskoðunarskýrslum um ársreikning Sparisjóðs Vestmannaeyja 2005−2009 var lítil umfjöllun um þær endurskoðunaraðgerðir sem voru framkvæmdar við skoðun á stöðu hjá stærstu lánþegum sjóðsins. Umfjöllunin einskorðaðist við framlög í afskriftareikning, sundurliðun á þeim og hreyfingar á afskriftareikningi. Vafi leikur á því hvort þessi framkvæmd uppfylli kröfur Fjármálaeftirlitsins um innihald endurskoðunarskýrslu. Þá verður ekki fullyrt hvort upplýsingar í skýringum með ársreikningingi 2008 um útlán og þá áhættu sem þeim fylgdi hafi verið fullnægjandi.

Það er mat rannsóknarnefndar að í skýringar með ársreikningum Sparisjóðs Bolungarvíkur 2007 og 2008 hafi skort upplýsingar um útlán og áhættu bundna þeim, sem höfðu þýðingu fyrir lesendur ársreikninganna. Endurskoðandi sjóðsins hefði, að öllu óbreyttu, mátt gagnrýna með einhverjum hætti að þessar upplýsingar skorti. Með bréfi endurskoðanda til stjórnar sparisjóðsins um endurskoðun ársreikning 2008 fylgdi samantekt um útlán sem endurskoðandinn taldi að þyrftu frekari afskrifta með. Þrátt fyrir að endurskoðandinn mæti það svo að niðurfærsla á útlánum væri vanmetin í ársreikningi, gaf hann álit án fyrirvara og án ábendinga um óvissu um mat á útlánum. Ósamræmis gætti því milli skýrslu endurskoðanda og álitsins sem hann gaf á ársreikningnum. Þegar endurskoðandi telur virðisrýrnun útlána vera umtalsvert meiri en stjórnendur telja, má leiða líkur að því að endurskoðandinn sé knúinn til að setja fyrirvara um virðisrýrnun útlána við áritun sína.

Áritun endurskoðenda á ársreikning Sparisjóðs Norðfjarðar og Sparisjóðs Þórshafnar og nágrennis 2008 var með fyrirvara. Út frá viðkomandi ársreikningum verður ekki ráðið hvers vegna þeir fyrirvarar voru gerðir. Í báðum ársreikningunum greindu stjórnendur frá áætlunum sínum um hvernig eiginfjárhlutfall sparisjóðanna skyldi bætt og rekstrarhæfi þar með tryggt. Verður ekki talið að þær séu síður trúverðugar en hjá öðrum sparisjóðum sem fengu fyrirvaralausa áritun með ábendingu, t.d. Afl sparisjóður og Sparisjóður Ólafsfjarðar, sem voru endurskoðaðir af sama endurskoðunarfyrirtæki.

 


 

1 . Sbr. 45. gr. laganna.

2 . Sjá 40. gr. laga nr. 86/1987 um viðskiptabanka.

3 . Í millitíðinni höfðu verið gerðar breytingar á ákvæðum um endurskoðun með breytingarlögum nr. 39/1996 til að uppfylla skilyrði tilskipunar nr. 95/26, svokallaðrar Post-BCCI-tilskipunar, sem breytti ýmsum tilskipunum á sviði fjármálaþjónustu, m.a. tilskipunum 77/780 og 89/646 um lánastofnanir.

4 . Þetta var í samræmi við a-lið 1. mgr. 31. gr. tilskipunar 2000/12/EB.

5 . Með þessu ákvæði var verið að innleiða hluta af efnisákvæðum fyrrnefndrar Evróputilskipunar sem fjölluðu um eftirlit á samstæðugrundvelli og höfðu ekki verið að fullu innleidd hér á landi.

6 . Þetta var þegar tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2004/39/EB frá 21. apríl 2004 um markaði fyrir fjármálagerninga, svokölluð MiFID-tilskipun, var innleidd í íslenskan rétt með lögum nr. 111/2007 um breytingar á lagaákvæðum um fjármálafyrirtæki o.fl. Lögin tóku gildi 1. nóvember 2007.

7 . Bréf Félags löggiltra endurskoðenda til Fjármálaeftirlitsins 30. júní 2010.

8 . Framhaldsnefndarálit frá meiri hluta viðskiptanefndar um frumvarp til laga um breytingar á lögum um fjármálafyrirtæki, nr. 161/2002, með síðari breytingum. Þskj. 1263, 138. löggjafarþing 2009–2010 (enn óbirt í A-deild Alþingistíðinda).

9 . Bréf Fjármálaeftirlitsins til Félags löggiltra endurskoðenda 2. júlí 2010.

10 . Í j-lið 203. gr. Sarbanes-Oxley laganna frá 2002 segir: „It shall be unlawful for a registered public accounting firm to provide audit services to an issuer if the lead (or coordinating) audit partner (having primary responsibility for the audit), or the audit partner responsible for reviewing the audit, has performed audit services for that issuer in each of the 5 previous fiscal years of that issuer.“

11 . Public Company Accounting Oversight Board. Sjá vefsíðu ráðsins, www.pcaobus.org.

12 . Sarah N. Lynch, „US lawmakers blast audit watchdog as „activist““, fréttavefur Reuters 28. mars 2012, http://www.reuters.com/article/2012/03/28/congress-audit-oversight-idUSL2E8ESOB920120328.

13 . Audit Integrity and Job Protection Act, (H.R.1564). Með þessum lögum var Sarbanes-Oxley lögunum frá 2002 breytt.

14 . Sjá „Reform of the audit market“, vefsíða framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins, http://ec.europa.eu/internal_market/auditing/reform/.

15 . Sbr. skýrslu um rannsókn á útbreiðslu skiptireglunnar vítt og breitt um heiminn og samantekt á niðurstöðum margra annarra rannsókna um þessi efni og kostum og göllum róteringar, sem gefin var út af samtökum skoskra endurskoðenda: Ewelt-Kauer, Gold og Pott, What do we know about mandatory audit firm rotation?, ICAS 2012, http://icas.org.uk/mafr/.

16 . Þetta ákvæði, sem kalla má væga útgáfu af Sarbanes-Oxley ákvæðinu, var sett í samræmi við tilskipun Evrópuþingsins og Evrópuráðsins 2006/43/EB frá 17. maí 2006 um lögboðna endurskoðun ársreikninga og samstæðureikninga, svonefnda 8. félagatilskipun, 2. tölul. 42. gr.

17 . Þskj. 614, 138. löggjafarþing 2009–2010 (enn óbirt í A-deild Alþingistíðinda).

18 . Alþingistíðindi, 1996–1997, A-deild, bls. 1879.

19 . Friðgeir Björnsson, Úrskurðarnefndir í stjórnsýslunni, ritgerð gefin út á vegum forsætisráðuneytis 2005, bls. 115–117.

20 . Tilskipun Evrópuþingsins og Evrópuráðsins 2006/43/EB.

21 . Með breytingarlögum nr. 80/2008 sem breyttu ákvæðum ársreikningalaga nr. 3/2006 og voru samþykkt samhliða lögunum um endurskoðendur var hugtakið leitt í lög með sambærilegum hætti.

22 . Skýrsla nefndar á vegum efnahags- og viðskiptanráðneytis um málefni endurskoðenda, janúar 2011, bls. 18, http://www.atvinnuvegaraduneyti.is/media/Acrobat/endurskodendur-skyrsla-januar-2011.pdf.

23 . Í þessu tilliti er stundum vitnað til einkunnarorða Michaels Power, „External audit is promoted as a trust engendering technology“, úr bók hans The Audit Society: Rituals of Verification. Sbr. einnig: „Accountants, as auditors, have cemented their status and privileges on the basis of claims that their expertise enables them to mediate uncertainty and construct independent, objective, true, and fair accounts of corporate affairs. This expertise, it is claimed, enables markets, investors, employees, citizens, and the state to limit and manage risks“ (Prem Sikka, „Financial crisis and the silence of the auditors“, Accounting, Organizations and Society, 6.–7. tbl. 34. árg (2009), bls. 868–873).

24 . Sjá nánari umfjöllun hér aftar og jafnframt í 8. kafla, um reikningsskil sparisjóðanna.

25 . International Federation of Accountants. Sjá vefsíðu samtakanna, www.ifac.org.

26 . Siðareglurnar eru aðgengilegar á vefsvæði félagsins, www.fle.is.

27 . Sjá kafla 100.2 í siðareglunum.

28 . Sjá kafla 100.3 í siðareglunum.

29 . Sjá kafla 100.6 í siðareglunum.

30 . Sjá kafla 100.8 í siðareglunum.

31 . Sjá kafla 100.9 í siðareglunum.

32 . Sjá kafla 290.4 í siðareglunum.

33 . Sjá kafla 290.7 í siðareglunum.

34 . Með lögum nr. 14/2013 var ákvæði 2. og 3. mgr. breytt, auk þess sem skoðunarmenn voru felldir úr ákvæði 1. mgr. Ákvæði 2. og 3. mgr. gildandi 104. gr. hljóða svo: „Áritun endurskoðanda skal vera í samræmi við það sem fram kemur í lögum um endurskoðendur, nr. 79/2008. Auk þess skal í áritun endurskoðanda koma fram álit á því hvort skýrsla stjórnar geymi þær upplýsingar sem þar ber að veita. Ef endurskoðendur telja að ekki beri að samþykkja ársreikninginn skulu þeir taka það fram sérstaklega. – Skoðunarmenn skulu að lokinni yfirferð ársreiknings undirrita hann sem og samstæðureikning ef hann er saminn og skal undirritun skoðunarmanns ásamt dagsetningu fylgja ársreikningnum. Ef skoðunarmaður telur að ekki beri að samþykkja ársreikninginn skal hann taka það fram sérstaklega. Eins skal hann sannreyna að skýrsla stjórnar hafi að geyma þær upplýsingar sem þar ber að veita í samræmi við lög og vekja athygli á því ef svo er ekki.“

35 . Í skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis um aðdraganda og orsakir falls íslensku bankanna 2008 er umfjöllun um starfsemi þessara nefnda hjá stóru bönkunum þremur í kafla 11.1.5 í 3. bindi skýrslunnar.

36 . Sjá til dæmis Einar Guðbjartsson, „Endurskoðunarnefnd. Um hugtakið „óháður einingunni““, Rannsóknir í félagsvísindum XII: Þjóðarspegillinn 2011 – Viðskiptafræðideild, ritstj. Ingjaldur Hannibalsson, Reykjavík 2011, http://hdl.handle.net/1946/10259.

37 . Stjórnarhættir fyrirtækja, leiðbeiningabæklingur frá Viðskiptaráði Íslands, 3. útgáfa, 2009, bls. 30. Ný útgáfa leiðbeininganna kom út í mars 2012, 4. útgáfa, en engin efnisleg breyting var gerð á tilvitnuðum texta milli 3. og 4. útgáfu.

38 . Alþingistíðindi, 1977–1978, A-deild, bls. 473.

39 . International Standards on Quality Control, einkum Quality Control for Audit, Assurance and Related Services Practices. Nánari upplýsingar má finna á vefsíðu Alþjóðasamta endurskoðenda, IFAC, www.ifac.org.

40 . Alþingistíðindi, 2007–2008, A-deild, bls. 4786.

41 . Sbr. b-lið 1. mgr. 15. gr. nr. 39/1996 um breytingu á lögum nr. 43/1993 um viðskiptabanka og sparisjóði.

42 . Sbr. 2. og 4. gr. leiðbeinandi tilmæla Fjármálaeftirlitsins nr. 3/2008 um störf endurskoðunardeildar fjármálafyrirtækja.

43 . Sbr. 2. gr. II. kafla leiðbeinandi tilmæla nr. 2/2011 um undanþágu frá starfrækslu innri endurskoðunardeildar hjá fjármálafyrirtækjum.

44 . Samkvæmt bráðabirgðaákvæði II með lögum nr. 79/2008 um endurskoðendur skal hér á landi fylgt leiðbeinandi reglum um endurskoðun (ISA) gefnum út af alþjóðasamtökum endurskoðenda (IFAC) sem Félag löggiltra endurskoðenda er aðili að. Staðall ISA 700 fjallar um áritun endurskoðanda á ársreikning. Síðasta útgáfa hans gildir frá og með 15. desember 2009.

45 . Svar Fjármálaeftirlitsins 13. júní 2012 við fyrirspurn rannsóknarnefndarinnar.

46 . Lög nr. 71/2001 um breytingu á lögum nr. 113/1996 um viðskiptabanka og sparisjóði, með síðari breytingum.

47 . Skýrsla Sigurðar Jónssonar endurskoðanda fyrir rannsóknarnefnd Alþingis 24. janúar 2014.

48 . Þessa athugasemd var að finna í nokkrum endurskoðunarskýrslum KPMG, t.d. um ársreikning Sparisjóðs Svarfdæla 2007, ársreikning Sparisjóðs Norðfjarðar 2008 og ársreikning Sparisjóðs Þórshafnar og nágrennis 2008.

49 . Endurskoðunarskýrsla KPMG um ársreikning Sparisjóðsins í Ólafsvík 2005. Svipaðar athugasemdir var að finna í skýrslum um reikninga Sparisjóðs Hafnarfjarðar 2005, Sparisjóðs Norðfjarðar 2005, Sparisjóðs Svarfdæla 2005 og 2006, Sparisjóðs Norðlendinga 2005 og 2006, Sparisjóðs Suður-Þingeyinga 2005 og 2006, Sparisjóðs Höfðhverfinga 2005, 2006 og 2007 og Sparisjóðs Þórshafnar og nágrennis 2007.

50 . Skýrsla Sigurðar Jónssonar endurskoðanda fyrir rannsóknarnefnd Alþingis 24. janúar 2014.

51 . Alþingistíðindi, 1996–1997, A-deild, bls. 1879-1880.

52 . Alþingistíðindi, 1996–1997, A-deild, bls. 1880.

53 . Þskj. 614, 138. löggjafarþing 2009–2010 (enn óbirt í A-deild Alþingistíðinda).

54 . Ársreikningar Sparisjóðs Strandamanna fyrir árin 2003–2009.

55 . Sama ákvæði var í eldri lögum nr. 144/1994.

56 . Fundargerð stjórnar Sparisjóðsins í Keflavík 20. janúar 2006.

57 . Fundargerð stjórnar Sparisjóðs Húnaþings og Stranda 15. mars 2005.

58 . Fundargerð stjórnar Sparisjóðs Bolungarvíkur 10. febrúar 2006.

59 . Fundargerð stjórnar Byrs sparisjóðs 13. mars 2009.

60 . Skýrsla Reynis Stefáns Gylfasonar endurskoðanda fyrir rannsóknarnefnd Alþingis 21. janúar 2014.

61 . Skýrsla Páls Grétars Steingrímssonar endurskoðanda fyrir rannsóknarnefnd Alþingis 23. janúar 2014.

62 . Skýrsla Vilhjálms G. Pálssonar fyrir rannsóknarnefnd Alþingis um sparisjóðina 19. apríl 2013.

63 . Það var þegar orðið ljóst í árslok 2007 því að sölugengi eignarhlutanna í Icebank hf. snemma í desember var 28,06 en sparisjóðurinn mat sjálfur þá eignarhluti sem hann átti óselda í árslok á genginu 19,26.

64 . Um söluna á eignarhlutum í Icebank hf. er fjallað á nokkrum stöðum í skýrslunni, einkum í köflunum um útlán Sparisjóðs Reykjavíkur og nágrennis í 17. kafla og Byrs sparisjóðs í 18. kafla. Þá er sérstök umfjöllun um Icebank hluthafalánin í 9. kafla.

65 . Sjá skýringu nr. 87 í ársreikning Byrs sparisjóðs 2007.

66 . Um þessa arðgreiðslu er fjallað í 18. kafla, um Byr sparisjóð.

67 . Skýrsla KPMG endurskoðunar hf. um endurskoðun ársreiknings Byr sparisjóðs 2008, 30. apríl 2009.

68 . Útlánaskoðun KPMG endurskoðunar hf. í Byr sparisjóði, 4. mars 2009.

69 . Þ.e. mismunurinn á 32,3 milljarða króna tryggingavöntun og 25,4 milljarðar króna afskriftaframlagi.

70 . Skýrsla PricewaterhouseCoopers um ákveðna þætti innra eftirlits Byrs sparisjóðs, 10. desember 2010.

71 . Baugur Group hf. fékk greiðslustöðvun 11. febrúar 2009. Félagið var úrskurðað gjaldþrota 13. mars 2009, sama dag og ársreikningur Byrs 2008 var birtur. FL Group hf. fékk greiðslustöðvun 29. september 2008. Félagið, sem þá hét Stoðir hf., náði nauðasamningum við kröfuhafa 26. maí 2009.

72 . Bréf Fjármálaeftirlitsins til Byrs sparisjóðs, 20. mars 2009.

73 . Mat á stærstu skuldbindingum og afskriftarframlagi Byrs sparisjóðs – drög Fjármálaeftirlitsins að minnisblaði, 20. mars 2009.

74 . Bréf Byrs sparisjóðs til Fjármalaeftirlitsins ásamt minnisblaði að lokinni útlánakönnun eftirlitsins, 25. mars 2009.

75 . Skýrsla Sigurðar Jónssonar endurskoðanda fyrir rannsóknarnefnd Alþingis 24. janúar 2014.

76 . Hér er átt við tengdan aðila í skilningi ársreikningalaga. Með tengdum aðila er meðal annars átt við móðurfélag, dótturfélag, hlutdeildarfélag og samrekstrarfélag, sbr. 2. málsl. 63. gr. laga nr. 3/2006 um ársreikninga.

77 . Sjá skýringarlið nr. 18 í ársreikningi Sparisjóðsins í Keflavík 2007.

78 . Sbr. IFRS 7: 36–37.

79 . Hér er átt við tengda aðila í skilningi ársreikningalaga.

80 . Skýrsla PricewaterhouseCoopers vegna könnunar á afmörkuðum þáttum í efnahag og rekstri Sparisjóðs Bolungarvíkur, 16. júní 2009.